Skip to main content

Otto A. Michelsen

Ottó A. MichelsenOtto A. Michelsen, forstjóri
Fæddur 10. júní 1920
Dáinn 11. júní 2000

Otto var gerður að heiðusfélaga Skýrslutæknifélags Íslands á 20 ára afmæli félagsins 6. apríl 1988.

Otto flutti fyrstu tölvurnar til Íslands. Undir stjórn hans vann IBM á Íslandi mikið brautryðjendastarf við markaðssetningu á tölvubúnaði. IBM var fyrsta fyrirtækið sem skildi sérstöðu íslenska tölvumarkaðsins og lagaði starfsemi sína að þörfum hans. Önnur fyrirtæki sem komu á eftir tóku upp marga af starfsháttum IBM.

Hann lærði viðgerðir á skrifstofuvélum í Þýskalandi og Danmörku og útskrifaðist sem skrifvélavirki árið 1946. Við heimkomu frá námi það ár stofnaði hann fyrirtækið Skrifstofuvélar. Árið 1950 tók hann að sér umboð fyrir IBM hérlendis. Þegar IBM á Islandi var stofnað árið 1967 varð Ottó fyrsti forstjóri þess, og gegndi hann því starfi til ársins 1982. Brautryðjendastörf Ottós í þágu skrifstofutækni og tölvuvæðingar hér á landi munu flestum kunn. Hann átti m.a. frumkvæði að því að fá hingað til kynningar fyrstu tölvuna, IBM 1620, árið 1963, en ári síðar var slík vél keypt fyrir Háskólann. Hér verður ekki að fjölyrt frekar um störf Ottós, en látin fljóta með stutt saga, sem er dæmigerð um viðhorf Ottós til vinnu sinnar og þá áherslu sem hann hefur ávallt lagt á góða þjónustu: Þegar Skrifstofuvélar voru til húsa á Laugavegi 11 kom eitt sinn upp eldur. Ottó og starfsmenn hans breiddu þegar segl yfir vélar og tæki tii að hlífa þeim fyrir vatni og reyk. Þá hringir síminn. Ottó skreið strax undir seglið og svaraði. Þar var stúlka hjá Útvegsbankanum að biðja um viðgerðarmann. Ottó svarar: „Því miður stendur svolítið illa á hjá okkur í augnablikinu, það er að brenna, en við komum strax og við getum." Og viti menn: Viðgerðarmaður birtist í Útvegsbankanum síðar um daginn. Ottó hefur verið félagi í Skýrslutæknifélaginu frá upphafi og hefur alla tíð verið velunnari félagsins og sýnt því mikinn áhuga og tryggð. (https://timarit.is/page/2359864?iabr=on)

Minningarorð í Tölvumálum, 25. árgangur 2000, 4. Tölublað (01.10.2000): https://timarit.is/page/2365072?iabr=on