Skip to main content

Þorsteinn Hallgrímsson

Þorsteinn HallgrímssonÞorsteinn Hallgrímsson
Fæddur 25. júlí 1942

Þorsteinn var gerður að heiðursfélaga á aðalfundi Ský þann 28. febrúar 2018 fyrir framlag hans til upplýsingatækni á Íslandi.

Þorsteinn Hallgrímsson lauk masters prófi í byggingarverkfræði frá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn í janúar 1968 og hóf störf hjá IBM á Íslandi í mars það ár. Hjá IBM lærði hann forritun og kerfisfræði og vann við það þar til í maí 1971 er hann fluttist til IBM í Danmörku. Þar starfaði hann fyrstu árin við forritun og uppsetningu verkefna innan IBM en rúmt síðasta árið við hönnun og forritun á stöðluðu hugbúnaðarkerfi (Modulplan) fyrir nýja smátölvu, IBM System/32, sem kom á markað sumarið 1975. Þá fluttist hann tilbaka til IBM á Íslandi og vann næstu 10 árin við markaðsaðstoð, uppsetningu hugbúnaðarkerfa og þjónustu við viðskiptavini IBM á sviði beinlínuverkefna, fjarskipta, tölvuneta, gagnagrunna og bankaverkefna. Meðal helstu verkefna má  nefna fyrstu beinlínuverkefni og netstýrikerfi á Íslandi, skipulagningu og forritun afgreiðslukerfis Iðnaðarbankans, verkefnisstjórn við yfirfærslu þess til Reiknistofu bankanna og uppsetningu fyrstu hraðbankanna hjá Iðnaðarbankanum.

Í ágúst 1985 fluttist Þorsteinn til IBM Nordic Finance Center hjá IBM í Noregi og snéru verkefnin þar  að markaðsaðstoð og skipulagningu á sjálfsafgreiðslu og greiðslumiðlun (debetkort), einkum m.t.t. öryggis í sendingum og vinnslu. Í ársbyrjun 1987 fluttist Þorsteinn til European Consumer Center hjá IBM í Þýskalandi og vann við kynningu á stefnu IBM í sjálfsafgreiðslu og markaðssetningu á sjálfsafgreiðslu í bönkum í Evrópu.

Haustið 1988 fluttist hann tilbaka til IBM á Íslandi og starfaði við markaðsaðstoð á sviði bankaviðskipa og fjarskipta ásamt sölumennsku þar til IBM á Íslandi  var lagt niður 1992.

Þá varð Þorsteinn sjálfstæður ráðgjafi á sviði tölvu- og upplýsingatækni og var haustið 1993 ráðinn til Háskólabókasafns vegna Þjóðarbókhlöðu við greiningu á þörfum hins nýja sameinaða Landsbókasafns og Háskólabókasafns varðandi upplýsingatækni, tölvunet og ýmsan tæknibúnað, ásamt innkaupum og uppsetningu á þeim búnaði.     

Í janúar 1995 var hann ráðinn yfirmaður tækniþróunar hjá Landsbókasafni Íslands ― Háskólabókasafni og  ráðinn aðstoðarlandsbókavörður 1998, og var það uns hann lét af störfum 2010. Auk stjórnsýsluverkefna tengdust verkefni hans einkum því að hafa umsjón með stefnumörkun, skipulagningu og innleiðingu verkefna á sviði stafrænnar endurgerðar ýmiss safnkosts. Einnig aðgangi hvaðan sem er um netið að þeim endurgerðum og að stafrænum safnkosti sem gefinn er út á Íslandi þ.m.t. íslenska vefnum. Helst ber að nefna öll íslensk kort frá upphafi til 1950 (islandskort.is), mikið safn handrita (Sagnanet.is, síðar handrit.is), tímarit og blöð (timarit.is) og safn íslenskra vefsíðna frá 1996 (vefsafn.is) . Öll verkefnin voru, mismikið þó, unnin í samvinnu við erlenda aðila, svo sem þjóðbókasöfn Norðurlanda, Cornell háskóla og Alþjóðasamtök um varðveislu Veraldarvefsins (International Internet Preservation Consortium, skammstafað IIPC), en skipulögð, forrituð og sett upp innan safnsins.

Þorsteinn var 2003 fulltrúi þjóðbókasafna Norðurlanda við undirbúning að stofnun IIPC. Hlutverk samtakana felst í alþjóðlegu samstarfi um skilgreiningu á stöðlum um vefsöfnun, þróun vefsafnara, gerð efnisyfirlits yfir vefsöfn og gerð aðgangsforrita fyrir vefsöfn. Hann sat í stjórn  samtakanna frá stofnun til 2010, þar af formaður í eitt ár. Hann var kosinn í stjórn Öldungadeildar Ský árið 2008 og var formaður deildarinnar frá 2010 til 2016. Árin 2014 til 2018 var hann í ritnefnd um ritið: Tölvuvæðing í 50 ár - Upplýsingatækni á Íslandi 1964 - 2014.