Skip to main content

Tölvuorðasafn - 4. útgáfa - Formáli

Formáli að 4. útgáfu

Tölvuorðasafn kemur nú út í fjórða sinn. Það kom fyrst út 1983, og birtust þar tæplega 1000 íslensk heiti og rösklega 1000 ensk á liðlega 700 hugtökum. Í annarri útgáfu 1986 var skilgreiningum hugtaka bætt við og safnið stækkað mjög. Hugtökin voru nær 2600 að tölu, íslensk heiti þeirra um 3100 og ensk heiti nær 3400. Þriðja útgáfa var gefin út aukin og endurbætt 1998 með rösklega 5000 hugtökum með um 5800 íslenskum heitum og tæplega 6500 enskum. Í fjórðu útgáfunni sem hér birtist, enn aukin og endurbætt frá þriðju útgáfu, eru rúmlega 6500 hugtök með um 7700 íslenskum heitum og um 8500 enskum heitum. Hugtökum hefur því fjölgað um 30% frá þriðju útgáfu.

Orðanefndin hélt áfram reglulegum fundum eftir að 3. útgáfa Tölvuorðasafns birtist á prenti. Fram til ársins 2002 hafði því safnast nokkurt efni. Þá var sótt um styrk frá Norrænu málráði til þess að vinna frekar úr því, bæta við það og koma efninu fyrir í orðabanka Íslenskrar málstöðvar. Norrænt málráð styrkti á þeim tíma sérstaklega orðabókarverkefni á þeim málsvæðum á Norðurlöndum sem kallast „lítil“, þ.e. þar sem töluð er íslenska, færeyska, grænlenska og samíska. Í október 2002 veitti málráðið nefndinni styrk að upphæð 125 þúsund danskar krónur. Ákveðið var að ráða Stefán Briem til þess að vinna með nefndinni en Stefán var ritstjóri þriðju útgáfu Tölvuorðasafns. Stefán og orðanefndin unnu að þessu verkefni allt árið 2003. Ekki varð þó af því að endurbæturnar yrðu settar í orðabankann þar sem unnið var við endurskoðun á tölvukerfi bankans árið 2004.

Seint á árinu 2003 veitti menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, nefndinni rausnarlegan styrk sem skipti sköpum fyrir framhald verkefnisins. Í byrjun árs 2004 fékk nefndin einnig styrki frá Skýrslutæknifélaginu og nokkrum einkafyrirtækjum. Því var ákveðið að halda endurskoðun orðasafnsins áfram. Vorið 2004 þótti viðbótin orðin svo mikil að rétt væri að gefa verkið út sem prentaða bók auk þess að koma því fyrir í orðabankanum. Íslensk málnefnd treysti sér ekki til þess að gefa bókina út og sneri orðanefndin sér þá til forsvarsmanna Hins íslenska bókmenntafélags sem hafði staðið að fyrstu útgáfu Tölvuorðasafns ásamt Íslenskri málnefnd. Forsvarsmenn bókmenntafélagsins tóku málaleitan orðanefndarinnar vel og kemur nú afrakstur samstarfsins fyrir sjónir lesenda. Orðanefndin vann við undirbúning handritsins ásamt ritstjóranum, Stefáni Briem, veturinn 2004–2005. Styrkja hefur verið aflað frá fyrirtækjum og stofnunum til þess að greiða kostnað við útgáfuna. Einnig styrkir Menningarsjóður útgáfuna. Lista yfir styrkveitendur er að finna á blaðsíðu 10. Orðanefndin þakkar styrkveitendum kærlega fyrir veittan stuðning.

Orðanefndin hélt fundi sína í Íslenskri málstöð frá því að málstöðin tók til starfa í byrjun árs 1985 þangað til haustið 2002 og Íslensk málnefnd gaf Tölvuorðasafn út í 2. og 3. útgáfu. Orðanefndin og Skýrslutæknifélagið færa Íslenskri málnefnd og málstöðinni þakkir fyrir aðstoð og góða samvinnu. Frá hausti 2002 hefur orðanefndin haldið fundi sína í húsnæði Nýherja að Borgartúni 37. Orðanefndin þakkar fyrir afnot af þeirri aðstöðu og gott viðmót starfsfólks Nýherja.

Í þremur fyrstu útgáfum Tölvuorðasafns var einkum stuðst við skrá frá Alþjóðlegu staðlasamtökunum og Alþjóðlega raftækniráðinu. Hún heitir nú Information Technology - Vocabulary ISO/IEC 2382. Staðlaráð Íslands, sem er aðili að þessum stofnunum fyrir Íslands hönd og hefur jafnframt einkaumboð fyrir þær á Íslandi, hefur góðfúslega leyft notkun þessa rits.

Orðanefnd hefur starfað á vegum Skýrslutæknifélagsins frá stofnun þess árið 1968. Árið 1974 gaf nefndin út sem handrit tölvuprentaðan orðalista, Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu, en hafði áður sent frá sér stutta óformlega orðaskrá um sama efni. Bjarni P. Jónasson var fyrsti formaður nefndarinnar og starfaði með henni í tíu ár frá 1968 til ársloka 1977. Með honum störfuðu Einar Pálsson (1968–1971), Gunnar Ragnars (1968–1971), Oddur Benediktsson (1968–1971), Jóhann Gunnarsson (1971–1978), Jón A. Skúlason (1971–1979), Þórir Sigurðsson (1971–1978) og Baldur Jónsson frá 1976. Jóhann Gunnarsson tók við formennsku í nefndinni af Bjarna og gegndi því starfi til haustsins 1978. Þá komu til liðs við nefndina Grétar Snær Hjartarson (1978–1979), Sigrún Helgadóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Örn Kaldalóns. Sigrún Helgadóttir varð formaður nefndarinnar haustið 1978. Frá 1979 hafa því fjórir starfað í nefndinni, þ.e. Baldur Jónsson prófessor, Sigrún Helgadóttir tölfræðingur, Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur og Örn Kaldalóns kerfisfræðingur. Nefndin hefur haldið fundi reglulega, að jafnaði um 25 sinnum á ári. Fundir hafa þó orðið tíðari síðustu mánuði fyrir hverja útgáfu.

Stefán Briem eðlisfræðingur hefur sem ritstjóri 3. og 4. útgáfu Tölvuorðasafns unnið að efnisöflun, þýtt og samið skilgreiningar, undirbúið fundi og setið fundi nefndarinnar. Hann hefur einnig séð um tölvuskráningu og alla tölvuvinnu, m.a. umbrot bókarinnar. Nefndin og stjórn Skýrslutæknifélagsins þakka Stefáni sérstaklega vel unnin störf og ánægjulegt samstarf. Án hans framlags hefði orðið erfitt að ljúka þessu verki.

Þegar undirbúningur hófst fyrir þessa útgáfu leitaði nefndin til félagsmanna í Skýrslutæknifélaginu og annarra áhugamanna um tölvutækni um samvinnu við endurskoðun orðasafnsins. Vinnugögn nefndarinnar voru gerð aðgengileg á vefsetri nefndarinnar og áhugamenn um orðaforða tölvutækninnar hvattir til þess að koma athugasemdum á framfæri við nefndina. Ekki bárust margar athugasemdir en ýmsir munu hafa notað vinnugögnin til þess að finna heiti á hugtökum sem ekki höfðu þegar fengið íslenskt heiti. Morgunblaðið veitti aðgang að orða- og hugtakalista á vef sínum mbl.is, SKÝRR veitti aðgang að orðalista sem varð til við þýðingu á Oracle-hugbúnaði og Gísli Hjálmtýsson prófessor við Háskólann í Reykjavík lagði til orðalista um netkerfi og netþjónustu. Allir þessi orðalistar voru notaðir við endurskoðun orðasafnsins og þakkar nefndin þeim sem veittu aðgang að þeim.

Orðanefndin hefur eins og áður leitað til ýmissa sérfræðinga sem hafa veitt góð ráð og lesið yfir einstaka kafla af orðasafninu. Sérstaklega ber að geta Jóhanns Gunnarssonar og Arnalds Axfjörð sem lásu yfir kafla um tölvu- og gagnaöryggi og veittu aðgang að vinnugögnum sínum. Maríus Ólafsson las yfir kafla um orðaforða sem tengist lýðneti og veraldarvef og veitti ráð bæði um orðanotkun og skilgreiningar. Magnús Gíslason svaraði spurningum um ýmis svið tölvutækninnar eins og hann hefur gert við allar fyrri útgáfur Tölvuorðasafns. Orðanefndin þakkar þessum mönnum fyrir góða aðstoð. Einnig vill nefndin þakka þeim fjölmörgu sem hafa hringt eða skrifað og lagt fram fyrirspurnir um orðanotkun en þær hafa oft orðið til þess að nefndin hefur endurskoðað heiti sem þegar voru til eða fundið heiti fyrir ný hugtök.

Tölvuorðasafn hefur verið aðgengilegt í orðabanka Íslenskrar málstöðvar frá því hann var opnaður hinn 15. nóvember 1997 á veraldarvef lýðnetsins. Í fyrstu var sett inn bráðabirgðaútgáfa þriðju útgáfu Tölvuorðasafns en í febrúar 1998 endanleg gerð þriðju útgáfunnar. Eins og þegar hefur komið fram er nú unnið við að endurnýja hugbúnað orðabankans. Ráðgert er að fjórða útgáfa Tölvuorðasafns verði sett í orðabankann þegar þeirri endurskoðun er lokið.

Reykjavík í júní 2005

Sigrún Helgadóttir
formaður orðanefndar
Skýrslutæknifélags Íslands