Skip to main content

Tölvuorðasafn - 2. útgáfa - Formáli

Formáli 2. útgáfu

Þessi bók er aukin og endurbætt útgáfa Tölvuorðasafns er kom út 1983 og var fyrsta ritið í ritröð Íslenskrar málnefndar. Við gerð þeirrar bókar var lögð til grundvallar skrá um gagnavinnsluorð, Data Processing – Vocabulary (ISO 2382), frá Alþjóðasambandi staðlastofnana, ISO (International Standards Oganization). Sú skrá heitir nú Information processing vocabulary og hefur einnig verið notuð við endurskoðun orðasafnsins. Iðntæknistofnun Íslands, sem er aðili að ISO fyrir Íslands hönd og hefur jafnframt einkaumboð fyrir ISO á Íslandi, hefur góðfúslega leyft notkun þessa rits. Í fyrstu útgáfu Tölvuorðasafns voru rösklega 700 hugtök og þeim fylgdu tæplega 1000 íslensk heiti og rösklega 1000 ensk. Í nýju útgáfunni eru tæplega 2600 hugtök og fylgja þeim um 3100 íslensk heiti og nær 3400 ensk. Auk staðalsins hefur fanga verið leitað í ýmsum erlendum tölvuorðabókum.

Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman efni í fyrstu útgáfu Tölvuorðasafns og hefur einnig séð um endurskoðun þess. Í nefndinni eiga sæti: Baldur Jónsson prófessor, Sigrún Helgadóttir tölfræðingur, sem er formaður nefndarinnar, Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur og Örn Kaldalóns kerfisfræðingur. Eftir að fyrri útgáfu lauk hafa fundir verið haldnir reglulega síðan í maí 1984, einu sinni til tvisvar í viku. Á þeim fundum var farið yfir efni ISO-staðalsins og reynt að finna íslensk heiti á hugtökum sem þar eru. Leitað var til sérfræðinga í ýmsum greinum og sátu þeir fundi með nefndinni.

Í upphafi árs 1985 var Sigrún Helgadóttir ráðin ritstjóri verksins og henni til aðstoðar Kristín Bjarnadóttir. Ritstjórinn skyldi m.a. setja saman íslenskar skilgreiningar á flestum hugtökum í væntanlegri bók. Kristín Bjarnadóttir hefur séð um alla tölvuskráningu, lesið yfir handrit á ýmsum stigum og gert fjölmargar athugasemdir um málfar á skilgreiningum og fleira. Er aðstoð hennar við undirbúning orðasafnsins ómetanleg.

Val á hugtökum í orðasafn sem þetta er ætíð álitamál. Orðanefndarmenn hafa reynt að hafa að leiðarljósi að bókin kæmi sem flestum að notum, bæði sérfræðingum og öðrum sem fjalla um tölvutækni og rita eða tala um hana á íslensku. Tekin voru flest hugtök sem komin eru inn í einhverjar útgáfur ISO-staðalsins. Síðan var farið yfir fjölmargar erlendar tölvuorðabækur og fyllt í eyðurnar. Einnig var stuðst við fyrirspurnir sem orðanefndinni hafa borist.

Íslensk heiti á hugtökum í orðasafni þessu, þ.e. íðorðin sjálf, eru annaðhvort heiti sem almennt eru notuð eða heiti sem orðanefndin hefur smíðað fyrir þetta orðasafn. Hin síðarnefndu munu vera allnokkru fleiri. Í sumum tilvikum hafa nefndarmenn ekki getað fellt sig við orð sem í notkun hafa verið. Hefur þá verið reynt að finna betri orð og hin talin samheiti eða þeim verið sleppt.

Í fyrri hluta bókarinnar er íslensk-ensk orðaskrá og er þar að finna alla þá vitneskju, sem bókin veitir um hvert hugtak. Íslenskum heitum er þar raðað í virðingarröð orðanefndar. Í einstaka tilvikum hefur verið sett spurningarmerki við íslenskt heiti. Það er þá gert af því að íslenska orðið er notað, en þykir af einhverjum ástæðum ekki heppilegt.

Flestum hugtökum fylgir skilgreining. Við samningu skilgreininga var farið eftir ISO-staðlinum þar sem þess var kostur. Skilgreiningum fylgja stundum nánari útskýringar eða dæmi. Skáletruð orð í skilgreiningum, útskýringum eða dæmum er að finna sem flettiorð í bókinni. Hvert heiti er aðeins skáletrað einu sinni í hverri orðsgrein. Oftast eru aðalorð notuð en frá því eru nokkrar undantekningar. Samheiti eru einmitt stundum talin upp ef þau má nota jöfnum höndum með aðalorði, eru t.d. styttingar, svo sem ílag fyrir ílagsgögn. Með því að skrifa skilgreiningarnar á íslensku var unnt að prófa orðin sem verið var að smíða. Kom þá fljótt í ljós hvort þau voru nothæf.

Í seinni hluta bókarinnar er ensk-íslensk orðaskrá. Hverju ensku heiti þar fylgir aðeins ein íslensk þýðing. Hann ber að taka sem tilvísun til íslensk-enska hlutans.

Á vegum stjórnar Skýrslutæknifélagsins var safnað fé frá fyrirtækjum og stofnunum til þess að greiða kostnað af ritstjórn verksins. Skrá yfir styrkveitendur er birt á blaðsíðu 8. Aðstandendur orðasafnsins færa þeim öllum bestu þakkir.

Ritstjórnin var til húsa í Íslenskri málstöð sem er aðsetur Íslenskrar málnefndar. Notað var efnisflokkunar- og skráningarkerfi málnefndarinnar við tölvuskráningu orðasafnsins. Án þeirrar aðstoðar hefði tæplega tekist að ljúka verkinu á svo skömmum tíma.

Þessir sérfræðingar sátu fundi með nefndinni og lásu flestir handrit að því efni sem þeir voru til ráðgjafar um: Sigurður Einarsson eðlisfræðingur (tölvuteiknun), Gunnar Ingimundarson verkfræðingur (tölvunet), Jón Þóroddur Jónsson verkfræðingur (gagnanet og rafeindatækni), Reynir Axelsson stærðfræðingur, Óskar Elvar Guðjónsson stærðfræðingur, Jóhann P. Malmquist prófessor (gagnasafnsfræði), Snorri Agnarsson tölvunarfræðingur (forritun og forritunarmál), Jóhann Gunnarsson framkvæmdastjóri (staðarnet o.fl.) og Magnús Gíslason reiknifræðingur (ritvinnsla o.fl.).

Auk þess var leitað til fjölmargra annarra sem lásu yfir handrit að einstökum köflum. Sérstaklega ber að þakka þessum: Helga Jónssyni, Helga Þórssyni, Páli Jenssyni og Þórunni Pálsdóttur hjá Reiknistofnun Háskólans; Guðmundi Sigurjónssyni, Daða Jónssyni, Helgu Sigurjónsdóttur, Kjartani Jónssyni, Tómasi Jóhannessyni og Valgarði Guðjónssyni, starfsmönnum Verk- og kerfisfræðistofunnar hf.; Sigfúsi Björnssyni dósent og samstarfsmönnum hans hjá Upplýsinga- og merkjafræðistofu Háskólans. Enn fremur var leitað til Eiríks Rögnvaldssonar lektors, Vilhjálms Sigurjónssonar kerfisfræðings, Kolbrúnar Þórhallsdóttur, Marteins Sverrissonar verkfræðings, Þorvarðar Jónssonar verkfræðings, Ólafs Daðasonar kerfisfræðings, Þorkels Helgasonar stærðfræðings, Svens Þ. Sigurðssonar reiknifræðings og Odds Benediktssonar prófessors. Einnig átti ritstjóri orðasafnsins gott samstarf við Orðanefnd Rafmagnsverkfæðingadeildar Verkfræðingafélags Íslands. Reynir Axelsson þýddi einn kafla ISO- staðalsins, er fjallar um hugtök í stærðfræði og reikningi, og naut aðstoðar Þorsteins Gylfasonar heimspekings um hugtök í rökfræði. Magnús Gíslason, sem sat marga fundi Orðanefndar Skýrsluræknifélagsins og stjórnaði auk þess tölvuvinnslu orðasafnsins, las allt handrit bókarinnar og veitti ýmis góð ráð. Orðanefndarmennirnir sjálfir lásu einnig allt handrit bókarinnar og færðu margt til betri vegar. Starfsmenn Íslenskrar málstöðvar, þau Ágústa Þorbergsdóttir og Sigurður Konráðsson, lásu yfir handrit og prófarkir. Öllu þessu fólki eru færðar bestur þakkir fyrir vel unnin störf.

Reykjavík í nóvember 1986
Sigrún Helgadóttir