Skip to main content

Tölvuorðasafn - 1. útgáfa - Inngangur

Inngangur að 1. útgáfu

Fljótlega eftir stofnun Skýrslutæknifélags Íslands var hafist handa um að safna íslenskum orðum um tölvur og gagnavinnslu og þýða erlend orð. Hefur orðanefnd starfað á vegum félagsins frá 1968. Árið 1974 gaf nefndin út sem handrit tölvuprentaðan orðalista, Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu, en hafði áður sent frá sér stutta óformlega orðaskrá. Þessir hafa starfað í orðanefnd félagsins:

Bjarni P. Jónasson (1968–1978)
Einar Pálsson (1968–1971)
Gunnar Ragnars (1968–1971)
Oddur Benediktsson (1968–1971)
Jóhann Gunnarsson (1971–1978)
Jón A. Skúlason (1971–1979)
Þórir Sigurðsson (1971–1978)
Baldur Jónsson (1976–2009)
Grétar Snær Hjartarson (1978–1979)
Sigrún Helgadóttir (1978–2013)
Þorsteinn Sæmundsson (1978–2013)
Örn Kaldalóns (1978–2013)

Það rit, sem nú er fylgt úr hlaði, er árangur af samstarfi þeirra fjögurra nefndarmanna, er starfað hafa í nefndinni óslitið frá 1978, og allt, sem aflaga kann að hafa farið, verður að sjálfsögðu að skrifa á þeirra reikning. Ástæða er til að nota þetta tækifæri til að þakka vinnuveitendum nefndamanna fyrir beinan og óbeinan stuðning við orðanefndarstarfið: Háskóla Íslands, Reiknistofnun Háskólans, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Raunvísindastofnun Háskólans og IBM á Íslandi.

Ákveðið var að leggja til grundvallar við orðasöfnunina skrá um gagnavinnsluorð, Data processing – Vocabulary (ISO 2382), frá Alþjóðlegu stöðlunarstofnuninni, ISO (International Organization for Standardization). Iðntæknistofnun Íslands, sem er aðili að ISO fyrir Íslands hönd og hefur jafnframt einkaumboð fyrir ISO á Íslandi, hefur góðfúslega leyft notkun þessa rits. Nefndarmenn hafa einnig fengið margar fyrirspurnir um þýðingar á einstökum orðum, og hafa þau þá verið tekin í safnið. Reynt hefur verið að kanna viðbrögð manna við einstökum þýðingum, eftir því sem tækifæri hafa gefist til. Nefndarmenn í Íslenskri málnefnd hafa einnig lesið orðasafnið í handriti og gert gagnlegar athugasemdir.

Orðasafnið var skráð í tölvu Reiknistofnunar Háskólans og orðabókarkerfi Íslenskrar málefndar notað við að búa handritið til prentunar. Öll vinna við ritstjórn varð við þetta einfaldari en ella og unnt að flytja handritið beint úr tölvunni í tölvustýrða setningarvél. Einnig auðveldar þetta endurútgáfu bókarinnar. Sigurður Jónsson sá um tölvuskráningu orðasafnsins, og Magnús Gíslason skrifaði öll nauðsynleg forrit. Orðanefndarmenn kunna þeim bestu þakkir fyrir vel unnin störf.

Mörg íslensku orðanna í riti þessu eru án efa gamlir kunningjar lesenda, en önnur munu koma mönnum ókunnuglega fyrir sjónir. Með því að nota orðin kemur fljótt í ljós, hvort þau eru nothæf eða ekki. „Nýtt orð þarf að segja sextíu sinnum“, er haft eftir kunnum málfræðingi. Margt af því, sem hér er að finna, ber því að líta á sem tillögur nefndarinnar, en ekki endanlegan dóm.

Tölvuorðasafn þarf að endurskoða reglulega vegna þess, hve ört tölvutæknin breytist og þróast. Einnig er nauðsynlegt, að hugtökum fylgi skýringar, ef bókin á að koma að fullum notum. Stefnt mun að því að gefa út stærri og endurskoðaða útgáfu af orðasafninu, ásamt skýringum, eins fljótt og auðið er. Í því sambandi verður leitað til einstaklinga og stofnana, sem láta sig tölvumál varða, og óskað umsagnar um orðasafnið.

Með þessu riti er gerð tilraun í þá átt að fá tölvunotendur til þess að tala um tölvumálefni á íslensku. Nefndarmenn þykjast hafa orðið þess áskynja, að mikill áhugi sé á málrækt meðal tölvunotenda, og mikið hefur verið spurt um orðasafnið. Þær góðu undirtektir, er beiðni um fjárstyrk til útgáfunnar fékk, styrktu einnig þennan grun.

Í tölvuorðasafni þessu eru rösklega 700 hugtök. Í fyrri hlutanum er íslensk-ensk orðaskrá með tæplega 1000 uppflettiorðum og í þeim seinni ensk-íslensk orðaskrá með rösklega 1000 uppflettiorðum.

Yfir hvert hugtak geta verið fleiri en eitt orð, bæði á íslensku og ensku. Eitt íslenskt orð hefur verið valið sem aðalorð fyrir hvert hugtak. Því fylgja enskar þýðingar og íslensk samheiti, ef svo ber undir. Samheitin eru stundum styttingar, t.d. diskur fyrir seguldiskur. Þar sem samheitin koma fyrir sem uppflettiorð, er vísað til aðalorðsins (með orðinu „sjá“). Ensku orðin eru sett í sömu röð og ISO-staðallinn segir til um og fyrsta orðið valið sem aðalorð i ensk-íslensku skránni. Sett er spurningarmerki við þau orð, sem í ISO-staðlinum eru táknuð sem óæskileg eða úrelt. Í einstaka tilvikum hefur verið sett spurningarmerki við íslenskt orð. Það er þá gert, af því að íslenska orðið er mikið notað, en ekki hið besta, sem völ er á að mati nefndarmanna. Í ensk-íslenska hlutanum fylgja enska aðalorðinu íslenskar þýðingar í virðingarröð orðanefndar og ensk samheiti. Frá enskum samheitum er vísað til enska aðalorðsins.

Þeir, sem vilja gera athugasemdir við einstök atriði i tölvuorðasafninu, eru beðnir að hafa samband við Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands munnlega eða skriflega. Orðanefndin hefur aðsetur hjá Íslenskri málnefnd, Aragötu 9, 101 Reykjavík. Sími 2 85 30.

Reykjavík í ágúst 1983
Sigrún Helgadóttir