Skip to main content

1. hluti: 1964-1974 - Upphafið

Sjöundi áratugurinn var áratugur mikilla samfélagsbreytinga og framfara á Íslandi. Ýmis höft frá fyrri áratugum voru afnumin, konum á vinnumarkaði fjölgaði verulega og velmegun jókst með mikilli síldveiði. Undir lok áratugarins hvarf síldin af Íslandsmiðum og við tóku erfiðir tímar með landflótta. Sumir lögðu í búferlaflutninga allt suður til Ástralíu og margir skiluðu sér ekki aftur til Íslands frekar en síldin. Um allan heim voru þetta tímar mikilla tækniframfara og trúar á að tæknin myndi gerbreyta lífskjörum fólks, enda varð sú að mörgu leyti raunin. Varla er það tilviljun að einmitt á þessum tíma hafi fyrstu tölvurnar komið til Íslands. Tíminn var runninn upp bæði í íslensku og alþjóðlegu samhengi.

IBM og dvergarnir sjö

Í tölvuheiminum gnæfði risinn IBM yfir aðra með stórtölvur og eigin stýrikerfi. Paul Allen, annar stofnenda Microsoft, notar orðalagið „IBM og dvergarnir sjö“ í æviminningum sínum, en dvergarnir voru Burroughs, Control Data, General Electric, Honeywell, NCR, RCA og UNIVAC. Auk þess voru DEC og fleiri nýrri aðilar að hasla sér völl. Annað einkenndi markaðinn á þessum tíma og það var að hverri tölvu fylgdi sérhæfður hugbúnaðarheimur og þessir heimar sköruðust ekki, ólíkt því sem síðar varð. [1] Í upphafi áttunda áratugarins blés ekki byrlega í íslensku samfélagi; ofan á hrun síldarstofnsins bættist að þjóðin átti í þorskastríði við Englendinga vegna útfærslu landhelginnar. Sjávarútvegurinn var mikilvægasta útflutningsgrein Íslendinga og varla tilviljun að vísindamenn á sviði sjávarútvegs tóku nýjungum í tölvutækni fagnandi. Ásókn í háskólanám jókst, en lítið var um tækifæri fyrir fólk sem vildi starfa í tölvugeiranum.

Íslenskt samfélag var einsleitt og það endurspeglaðist í hinu nýja umhverfi tölvuvæðingar. Tölvurnar voru fáar og stórar og sömuleiðis viðskiptavinirnir, sem voru nær eingöngu stærri fyrirtæki og stofnanir. Síbreytileiki og nýsköpun framtíðarinnar mátti bíða enn um sinn.

Vélbúnaður, forritunarmál, gagnagrunnar og stýrikerfi 1964–1974

Vélbúnaður og gagnavinnsla: Í upphafi IBM 1401 og IBM 1620, síðar IBM 360-tölvuhögunin (360/xx og 370/xxx) og IBM S/3X-tölvurnar. Tölvur voru fáar fyrstu árin en fjölgaði í u.þ.b. nítján í lok tímabilsins. Hins vegar voru margir viðskiptamenn.

Öll gagnavinnsla var runuvinnsla, í upphafi eingöngu á gataspjöldum en segulbönd og diskar komu fljótt til sögunnar og í lok tímabilsins disklingar til skráningar á færslum. Engar skjástöðvar.

Stýrikerfi: Fyrir IBM 1401 og 1620 – ekkert stýrikerfi. Fyrir IBM 360 og 370 – Disk Operating System (DOS/360) og VM/370, fyrir IBM S/3-tölvurnar – mjög einfalt Operating Control Language (OCL).

Forritunarmál þessa tíma voru Fortran, COBOL, PLI, SPS, Assembler, RPG.

Fyrstu tölvurnar koma til Íslands: Varúð, viðkvæmar vélar!

Háskóli Íslands og SKÝRR fengust á þessum tíma við ýmis verkefni sem hentuðu tölvuvinnslu vel, og það vissu margir starfsmenn HÍ og SKÝRR. Hún gæti stóraukið getu þess mannafla og skrifstofubúnaðar sem tiltækur var. Bæði verkfræði- og viðskiptadeild HÍ sinntu verkefnum þar sem tölvutækni nýttist vel. Almanak Háskólans krafðist einnig mikilla útreikninga sem hentuðu vel fyrir tölvuvinnslu. SKÝRR hélt utan um ýmiss konar tölfræðigögn, verslunar- og hagskýrslur og með því að taka tölvur í sína þjónustu var jókst bæði reiknigeta og úrvinnslugeta.

Keypt mbl Innsida
5. okt 1964 - Fyrsta tölvan/reiknivélin kemur til landsins með Goðafossi til SKÝRR. Ljósmyndasafn Ólafs K. Magnússonar / Morgunblaðsins. Ól.K.M.

Tölvuöld er sögð hafa hafist á Íslandi haustið 1964 þegar tveimur fyrstu tölvunum sem keyptar höfðu verið til landsins var skipað á land í Reykjavík: Fimmta október voru hífðir úr Goðafossi þrír trékassar sem á var letrað stórum stöfum: „Electronic System – Delicate Machine – Handle with care – Very fragile“. Í þeim var vélasamstæða sem Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar höfðu tekið á leigu hjá bandaríska stórfyrirtækinu IBM. [2] Níu dögum síðar, miðvikudaginn 14. október, var skipað upp annarri vélasamstæðu, sem einnig var frá IBM, og átti að fara til Háskóla Íslands. Hún vakti ekki mikla athygli fjölmiðla og var aðeins getið í eins dálks frétt í Morgunblaðinu: „Rafeindareiknivél Háskólans komin til landsins,“ og fátt annað tekið fram en að vélinni hefði verið komið fyrir í hinu nýja raunvísindahúsi Háskólans. [3]

Raunar er ofmælt að tala um tölvuöld að svo komnu máli því enn hafði engum dottið í hug að nefna þessar nýju vélar tölvur. Þær voru oftast nefndar rafeindaheili, rafeindareiknivél, rafeindareiknir, reikniheili, rafheili, rafreiknir eða eitthvað slíkt enda voru þetta fyrst og fremst afskaplega afkastamiklar reiknivélar. Orðið tölva var ekki smíðað fyrr en árið eftir að fyrsta tölvan kom til landsins.

rafheili.kemur.til.Islands
Rafheili kemur til Íslands. „Varúð, viðkvæmar vélar!“ Morgunblaðið, 06.10.1964

Það var engin tilviljun að Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar og Háskóli Íslands fengu fyrstu tölvurnar sem fluttar voru til landsins. Slík tæki hentuðu ákaflega vel fyrir stofnanir þar sem þörf var fyrir öflugar reikni- og skýrslugerðarvélar. Sú staðreynd að IBM-vélar urðu fyrir valinu var heldur engin tilviljun. Á þessum árum bar bandaríska fyrirtækið International Business Machines höfuð og herðar yfir aðra tölvuframleiðendur. Ottó A. Michelsen, aðaleigandi og forstjóri Skrifstofuvéla hf., sem flutti meðal annars inn IBM-gataspjaldavélar, fylgdist grannt með uppgangi þeirrar tækni sem var tekin að breiðast um hinn vestræna heim og átti eftir að gegna lykilhlutverki í upphafi tölvuvæðingar Íslands.  

Forveri kemur við á Íslandi - 1/2% áfengishækkun könnuð

Ísland var á hraðri leið inn í framtíðina og koma fyrstu tölvanna átti sér aðdraganda. Haustið 1963 fékk Ottó Michelsen leyfi hjá IBM til þess að sýna og kynna á Íslandi reiknivélasamstæðu sem verið var að senda frá Kanada til Finnlands. Sýning á vélinni hófst í húsakynnum fyrirtækisins Ottó A. Michelsen hf., að Klapparstíg 25, miðvikudaginn 23. október, og fjölda manns var boðið að skoða gripinn. Þeirra á meðal voru ráðherrar, framámenn í atvinnulífinu, hagstofustjóri, bankastjórar og fleiri og vakti vélbúnaðurinn hrifningu og þótti nýstárlegur. Meðal gesta var Gylfi Þ. Gíslason, menntamála- og viðskiptaráðherra í viðreisnarstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks. Í ævisögu Ottós Michelsen segir að Gylfi hafi umsvifalaust sest við vélina „og með tiltölulega lítilli tilsögn fór hann strax að keyra hana. Hann spurði vélina hversu mikil tekjuaukning fyrir ríkissjóð myndi fylgja því að hækka brennivínið um hálft prósent. Hann fékk svarið á tveimur sekúndum og varð stórhrifinn og hefur sennilega strax hækkað áfengið sem þessu nam. Um það veit ég ekki. Ég er bindindismaður“. [4]

Háskólinn

Heili sem skilur Fortran og getur spilað púsluspil með eldspýtum

Vélin vakti fleiri aðila og Háskólinn stóð fyrir námskeiðum þar sem „kennt hefur verið sérstakt táknmál, „Fortran“, sem heilinn skilur og getur unnið úr“, eins og Alþýðublaðið skýrði frá.[5] Í þeirri frétt er haft eftir Ottó að þetta tæki sé ekki hægt að kalla „rafeindaheila“ heldur sé það einungis reiknivél, sem geti auk þess spilað „pússluspil“ með eldspýtum. Ottó upplýsti blaðamanninn um að vélin hefði tiltölulega stórt minni og unnt væri að mata hana á fimmtíu þúsund atriðum, sem hún ynni síðan úr.

vinnur.arsverk.a.8.klst
Mikil afköst tölvunnar sem kom við á Íslandi voru lofuð í blaðaumfjöllun. Alþýðublaðið, 23.okt. 1963

Ýmsir vísindamenn fengu tækifæri til að láta vélina vinna úr gögnum fyrir sig meðan hún var höfð til sýnis hér. Doktor Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur kom til að mynda með útreikninga tengda athugunum á segulsviðinu. Vélin leysti þá á átta klukkustundum en doktorinn sagði að tekið hefði heilt ár að leysa verkefnið með venjulegum aðferðum. Fleiri vísindamenn lögðu verkefni fyrir nýju reiknivélina: Páll Theódórsson eðlisfræðingur, sem var að fást við rannsóknir á trítíummagni í regnvatni, Sigurjón Rist vatnamælingamaður og Aðalsteinn Sigurðsson fiskifræðingur. Veðurstofan lét einnig gera ýmsa útreikninga fyrir sig sem ella hefðu ekki verið gerðir og Stefán Aðalsteinsson erfðafræðingur lét vinna úr þúsundum skýrslna frá sauðfjárræktarfélögum. [6] Ottó Michelsen segir í ævisögu sinni að þegar hann hafi komið til vinnu klukkan sex að morgni hafi dr. Stefán komið út frá reiknivélinni líkt og ölvaður, faðmað hann að sér og sagt: „Ó, Ottó. Nú er ég úrvinda, en svo glaður, því að ég veit að ég er búinn að inna af hendi tíu ára verk í nótt.“ [7]

Leitað til ríkisstjórnar um fjármögnun

Reiknivélin nýja var fokdýr, kostaði 2,8 milljónir króna, sem var ámóta og verð 5–6 venjulegra íbúða, og samsvarar rúmlega 54 milljónum króna miðað við meðalverðlag ársins 2014. [8] Ottó var hins vegar mikið í mun að Háskólinn eignaðist slíkan grip og beitti sér fyrir því að móðurfyrirtæki IBM í Bandaríkjunum gæfi eftir 60% af kaupverði reiknivélarinnar, eins og áður hafði verið rætt um, og það var kallað háskólaafsláttur. [9] Þá átti enn eftir að fjármagna þau 40% sem eftir stóðu og Ármann Snævarr háskólarektor fól Magnúsi Magnússyni prófessor að afla fjár til kaupanna. Háskólinn hafði ekkert bolmagn til þess að standa straum af þeim sjálfur og var því ákveðið að leita beint til ríkisstjórnar og Alþingis, og hugsanlega fleiri aðila, um fjárframlög til að gera skólanum kleift að taka reiknivélina á leigu, eins og þá voru venjulegir viðskiptahættir IBM.

Fjörutíu kílóbæta tölva á stærð við þrjú píanó

Magnús Magnússon prófessor ræddi málið við Gylfa Þ. Gíslason, viðskipta- og menntamálaráðherra, og hann sýndi því mikinn áhuga en lagði áherslu á að tryggja yrði að tekjur af rekstri vélarinnar stæðu að minnsta kosti undir hluta rekstrarkostnaðarins. Magnúsi var falið að setja á stofn sérstaka reiknistofu sem skyldi annast reksturinn. Hann setti sig í samband við forstöðumenn ýmissa opinberra stofnana og stórfyrirtækja og tókst að sannfæra þá flesta um kosti þess að skipta við hina nýju reiknistofu þannig að þegar í upphafi tókst að tryggja henni fasta viðskiptavini, sem hver lofaði að nota reiknivélina í eina til þrjár klukkustundir í hverjum mánuði.

365 skólar Háskóli Íslands 5
Desember 1963 - Ármann Snævarr rektor Háskóla Íslands skrifar undir samning um kaup á. Til vinstri er Ottó A. Michelssen, í baksýn eru Trausti Einarsson, Magnús Magnússon og Jóhannes L.L. Helgason háskólaritari. Ljósmyndari Ingimundur Magnússon. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Næsta verkefni Magnúsar var að skrifa fjárlaganefnd Alþingis og biðja um fjárstyrk til kaupanna. Meðan hann sat við að skrifa bréfið hringdi Gylfi Þ. og spurði hvað myndi kosta að kaupa vélina í stað þess að leigja hana. Þótt Magnús hefði gert ráð fyrir því að taka vélina á leigu gat hann upplýst ráðherrann um nokkuð nákvæmt kaupverð í íslenskum krónum. Um tíu mínútum síðar hringdi Gylfi aftur og sagði að ákveðið hefði verið að í tilefni þess að tíu ár væru frá því að Framkvæmdabanki Íslands var stofnaður myndi bankinn gefa Háskóla Íslands þá fjárupphæð sem vantaði upp á heildarkaupverð reiknivélarinnar. Í ljós kom að Gylfi var á fundi bankaráðsins þegar hann hringdi, og var raunar formaður þess. Þar hafði einmitt komið til umræðu hvernig væri við hæfi að minnast þessara tímamóta í sögu bankans og Gylfi lagði þetta til. Það var samþykkt og með því tryggt að Háskóli Íslands fengi sinn fyrsta rafeindareikni af gerðinni IBM 1620 Model II, í þremur hlutum og hver hluti á stærð við píanó. [10]

Í byrjun vetrar 1964 var rafeindareikninum komið fyrir í nýju húsi Raunvísindadeildar Háskólans vestur á Melum og samtímis tók til starfa nýja stofnunin, Reiknistofnun Háskólans, undir stjórn prófessors Magnúsar Magnússonar. Vélin var reiknivél af nýjustu gerð, sem hafði verið kynnt í fyrsta sinn í desember ári fyrr, og var talsvert fullkomnari en næsta módel á undan. Nú er hægt brosa yfir tæknilegri lýsingu á þessari vél: Hún hafði 40 þúsund tákna minni, sem eru 40 kílóbæti eða 0,04 megabæti, inntaks-/úrtakstæki voru ritvél, gataspjaldalesari og gatari en henni fylgdu hvorki seguldiskar né prentari. Síðar voru keypt með fjárstyrk frá bandarísku kjarnorkuvísindastofnuninni (US Atomic Commission) tvö utanáliggjandi seguldiskadrif, sem hvort um sig hafði tveggja milljóna tákna minni, það er tvö megabæti, og línuprentari var fenginn að láni hjá IBM. [11] Síðar var minni reikniheilans aukið úr 40 kílóbætum í 60. Hjálmtýr Guðmundsson var einn þeirra sem prófuðu að vinna á þessari vél þegar hann vann hjá Ottó A. Michelsen/IBM. Hann reyndi að nota vélina til að finna samhengi milli ýmissa breytna og forritunartíma og kostnaðar. Verst þótti honum að hafa ekki getað hellt sér meira út í að forrita á þessari vél, því það var sérlega áhugavert að hans mati. [12]

Sólarhringur í að reikna út þriggja stunda veðurspá

Þegar reiknivélinni nýju hafði verið komið fyrir voru haldin kynningarnámskeið fyrir yfirmenn stofnana og forráðamenn verkfræðifyrirtækja um gagnsemi vélarinnar. Kynnt voru ýmis forrit sem notuð voru á þessum upphafsárum: COGO (Coordinate Geometry) og PERT (Program Evaluation and Review Technique) og fljótlega fjölgaði verkefnum Reiknistofnunar. Margar verkfræðistofur svo og verkfræðideild HÍ hófu að nýta sér háskólatölvuna, og þótti hún hafa gríðarlega mikil og góð áhrif á árangur starfs þeirra. Kennarar og stúdentar úr viðskiptadeild Háskólans sýndu tilkomu hennar hins vegar takmarkaðan áhuga. Á vormisseri 1965 var haldið Fortran-námskeið fyrir verkfræðinema á þriðja ári. Haustið 1965 komst fastara skipulag á þessi námskeið og þau gerð að skyldunámskeiðum fyrir verkfræðistúdenta. Háskóli Íslands mun hafa verið meðal fyrstu háskóla á Norðurlöndum til að gera forritun að föstum þætti í námi við skólann.

Undir árslok 1964 skrifaði doktor Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur, einn af þeim ungu mönnum sem höfðu kynnst þessu nýja undratæki nútímans, í Tímarit verkfræðingafélags Íslands:

Tæp átján ár eru liðin síðan fyrsta rafeindareiknivélin kom fram á sjónarsviðið. Á þessum stutta tíma hefur notkun slíkra véla rutt sér svo til rúms, að þær mega nú heita ómissandi í flestum greinum vísinda og tækni. Rafeindareiknirinn, sem Reiknistofnun Háskólans hefur nú tekið í notkun, boðar því tímamót í tæknimálum hér á landi. Að vissu leyti mætti líkja þessum atburði við þá breytingu, sem varð, þegar jarðýtur og skurðgröfur tóku við af skóflu og haka.[13]

Fjöldi verka var unninn með hjálp nýju tölvunnar. Verkfræðingar Vegagerðar ríkisins notuðu tölvuna til að reikna út og hanna seinni hluta Reykjanesbrautar, milli Hafnarfjarðar og Keflavíkurflugvallar, sem var fyrsta stórverkefni í vegagerð á Íslandi. Verkfræðingar hjá borgarverkfræðingi Reykjavíkur hófu hönnun á götum í Reykjavík með þessari nýju tækni. Unnin var langtímaáætlun um orkukerfi landsins og áætlun um notkun uppistöðulóna og nýtingu jarðhita í samvinnu við Raforkumálaskrifstofuna sem síðar varð Orkustofnun. Veðurstofan vann úr upplýsingum um veðurfar og meðal annars var reynt að spá fyrir um sjólag við Íslandsstrendur svo gefa mætti út viðvaranir til fiskiflotans. Þá var tölvan mötuð á veðurgögnum frá Veðurstofunni síðdegis og síðan var ætlunin að gefa út spá á miðnætti. Þetta gekk vel, að því undanskildu að það tók IBM 1620 heilan sólarhring að reikna út þriggja klukkustunda spá!

Hafrannsóknastofnunin og síldargöngurnar

Eðlilega var reynt að beita þessari nýju reiknitækni á undirstöðuatvinnuveg okkar, sjávarútveginn. Hafrannsóknastofnun sendi verkefni á gataspjöldum til úrvinnslu í tölvu til Noregs áður en fyrstu tölvurnar komu til Íslands. Sérfræðingar stofnunarinnar unnu úr gögnum um síldargöngur og greindu meðal annars upplýsingar um veiðisvæði, aflamagn, fjarlægð og siglingartíma til næstu löndunarhafnar. Tilgangurinn var að skipuleggja veiðar og löndun á sem hagkvæmastan hátt til að geta beint veiðiskipunum til þeirrar hafnar sem best hentaði hverju sinni. Eigendur síldarskipanna og síldarverksmiðjanna sýndu þessu þó lítinn áhuga, hugsanlega með það í huga að gæta hagsmuna verksmiðjueigenda.[14]

Hafrannsóknastofnun notaði eigið starfsfólk til að forrita og laga erlend forrit að þörfum stofnunarinnar[15] og innan hennar byggðist upp mikil þekking og því engin furða að stofnunin væri framarlega á sviði framfara í tölvutækni á Íslandi.

Manntalsgögn

Á árinu 1965 tók Reiknistofnun að sér merkilegt verkefni í erfðafræði, sem styrkt var af bandarísku kjarnorkuvísindastofnuninni (US Atomic Commission) og byggði á manntali 1910 og yngri gögnum. Þessar manntalsskrár voru með hjálp forritsins Symbolic Programming System (SPS) tengdar við þjóðskrá fyrir lifendur, eða andlátsskýrslur, með tilliti til dauðaorsakar. Einnig voru fæðingartölur frá 1910 og eftir það tengdar þjóðskrá eða andlátsskýrslum. Þannig var sett upp gagnasafn um 85 þúsund manns í manntalinu og 165 þúsund fæddra eftir það, að samanlögðu um 250 þúsund manns. Þá voru blóðflokkaskýrslur 27 þúsund manna tengdar gagnasafninu. Þessi einstaki gagnabanki var síðan notaður til ýmiss konar erfðarannsókna á fólki. Verkefnið vakti umtalsverða athygli á alþjóðavettvangi, var kynnt víða í Bretlandi og Bandaríkjunum og leiddi til þess að Reiknistofnun fékk lausa seguldiska, sem hvor rúmaði tvær milljónir bæta. 

365 skólar Háskóli Íslands 6
Maí 1965, rafreiknir Háskóla Íslands, Reiknistofnun Háskólans. F.v. Þórhallur Einarsson, dr. Ragnar Ingimarsson, Helgi Sigvaldason, Oddur Benediktsson og prófessor Magnús Magnússon forstöðumaður deildarinnar.
Ljósmyndari: Ingimundur Magnússon. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Þegar á fyrsta ári Reiknistofnunar Háskólans voru gerðar áætlanir um að setja upp módel fyrir íslenskt efnahagslíf, meðal annars í samráði við hollensk-bandaríska prófessorinn Tjalling Koopmans, sem hlaut síðar nóbelsverðlaun í hagfræði (1975). Þetta var talið fremur auðunnið, einkum vegna þess hve einhæft efnahagslífið var. Forrit sem var sérsniðið fyrir verkefni af þessu tagi fékkst frá háskólanum í Vínarborg en lítið varð úr þessum áformum, vegna áhugaleysis íslenskra hagfræðinga. Árið 1966 var fasteignamat á Íslandi tölvuvætt og grundvöllur lagður að því fasteignamati sem enn er stuðst við, einnig tölvuvæðingu borgarskipulags í Reykjavík og útreikningum á „byggingavísitölu“. Þetta var síðar tengt fasteignaskráningu, fasteignaverði og byggingarkostnaði.

Fyrstu tilraunir til útreikninga á hagkvæmni fiskveiða

Árið 1969 gerðu starfsmenn Reiknistofnunar Háskólans, í samvinnu við Fiskifélag Íslands, tilraun til að auka hagkvæmni fiskveiða. Byggt var á söfnun og greiningu mikils magns gagna frá íslenska togaraflotanum, meðal annars um stærð og fjölda togara, aflamagn, helstu veiðisvæði og ýmislegt fleira. Borin var saman hagkvæmni togara af mismunandi stærð og niðurstaðan varð sú að hagkvæmasta stærð togara væri milli 400 og 500 tonn. En hvorki stjórnvöld landsins né forystumenn í sjávarútvegi sýndu minnsta áhuga og eftir þetta voru smíðaðir stærri og óhagkvæmari togarar.[16]

Umsvif utan háskólasamfélagsins

Varla verður fjallað um fyrstu ár tölvuvæðingar á Íslandi án þess að fjalla um þátt IBM og SKÝRR í þeirri sögu en hún var oft nátengd, eins og sjá má.

SKÝRR – frá stórum og þungum reiknivélum til gataspjalda

Fyrirrennarar Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurbæjar, skammstafað SKÝRR, voru Hagstofa Íslands, sem tók til starfa árið 1914, og Rafmagnsveita Reykjavíkur, sem hóf starfsemi 1921. Stærstu verkefni þessara stofnana voru að halda utan um mannfjöldatölur, breytingar á búsetu og annað slíkt, verslunar- og hagskýrslur, rafmagnsnotkun, innheimtu og bókhald. Báðar stofnanirnar fengu fljótt stórar og þungar reiknivélar og vélar til að skrifa út reikninga. Sumarið 1949 fékk Hagstofan skýrslugerðarvélar frá IBM í Bandaríkjunum, fyrst og fremst í tengslum við úrvinnslu á tíu ára manntali, sem þá var unnið að.

skrytla.ur.morgunbladinu
Skrýtla úr Morgunblaðinu um nýja rafeindaheilann. Morgunblaðið, 15.10.1964

Árið 1952 tókst samstarf með stofnununum tveimur um að taka á leigu hjá IBM gataspjaldakerfi, sem var margfalt afkastameira en gömlu vélarnar. Þannig varð til sérstakt fyrirtæki, sem fékk nafnið Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar. Vélarnar voru settar upp í skrifstofu Rafmagnsveitunnar að Tjarnargötu 12, yfir gömlu slökkvistöðinni, en stofnanirnar áttu sinn helming hvor í þessu nýja fyrirtæki. Fljótlega gat SKÝRR tekið að sér verkefni fyrir ýmsar aðrar skrifstofur ríkis og bæjar og fleiri aðila, og 1957 flutti fyrirtækið í eigið leiguhúsnæði, að Skúlagötu 50. Upprunalega hugmyndin að stofnun Skýrsluvéla kom raunar frá dr. Sigurði Sigurðssyni berklayfirlækni, sem varð síðar landlæknir. Hann lagði til að Rafmagnsveitan, Hagstofan og Heilsuverndarstöð ríkisins hefðu samvinnu í þessum efnum af því að árið 1950 stóð til að Alþjóða heilbrigðisstofnunin (World Health Organization, WHO), tæki verulegan þátt í berklarannsóknum hér á landi. Ekkert varð þó af því og ekki heldur að Heilsuverndarstöðin yrði með í hinu nýja skýrslugerðarfyrirtæki en dr. Sigurður mun hafa setið í stjórn Skýrsluvéla um skeið vegna aðildar sinnar að málinu.

Þjóðskrá – fyrsta véltæka skrá í heimi

Með nýju skýrslugerðarvélunum sparaðist talsverður mannskapur á skrifstofum stofnananna tveggja, sem nýttist til annarra verka. Ákveðið var að nýta þetta svigrúm til að koma á vélaspjaldskrá yfir alla landsmenn, sem fékk heitið þjóðskrá, og var aðalverkefni Hagstofunnar á árunum 1952 til 1954. Klemens Tryggvason var hagstofustjóri á þessum tíma og bar ábyrgð á nýja verkefninu en Áki Pétursson stýrði þessu nákvæmnisverki á metnaðarfullan hátt. Talið er að hin íslenska véltæka þjóðskrá sé sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, líkt og manntalið 1703 er talið fyrsta manntal heillar þjóðar sem tekið hefur verið og enn er varðveitt.

Sérhannað hús fyrir vélasamstæðu

Gataspjöldin sköpuðu nýja og áður óþekkta möguleika. Snemma árs 1960 var hér á ferð sænskur maður frá IBM í Stokkhólmi og hann kynnti stjórn Skýrsluvéla nýjasta vélbúnaðinn frá fyrirtækinu, vélakerfin 1401 og 1620, af nýrri kynslóð sem þá voru nefndir rafreiknar eða rafeindareiknar á íslensku. Stjórn Skýrsluvéla tók að afla sér upplýsinga um þessar nýju vélar og um tíma stóð til að samstarf yrði haft við Háskóla Íslands um vélakerfi en skólinn hafði eigin hugmyndir og ekkert varð úr því samstarfi. Stjórn SKÝRR hélt ótrauð áfram að undirbúa kaup á þessu nýja vélakerfi og sendi starfsmenn til útlanda í nám og þjálfun í meðferð þessara töfratækja. Vorið 1963 var ákveðið að ráðast í að byggja hús við Háaleitisbraut 9, sérhannað fyrir það vélakerfi sem til stóð að taka á leigu hjá IBM. Húsið var 330 fermetrar að grunnfleti, tvær hæðir ásamt 80 fermetra kjallara og var tilbúið að taka við nýju vélasamstæðunni þetta merka haust, 1964.[17]

Minnisskortur

Fyrstu tölvurnar tvær sem komu til landsins þættu vísast hálfklénar og ekki til stórræðanna nú. Segulminni vinnslueiningar eða miðverks SKÝRR-tölvunnar, IBM 1401, var 4000 stafir, tæplega það sem kallast 4 kB í dag. Hvert bæti, eða stafur, var sex bitar, sem gaf 64 stafagildi, eða möguleika á að skrá 64 mismunandi stafi eða tákn. Til viðbótar voru tveir bitar, annar fyrir „wordmark“, en hinn fyrir „parity check“. Til samanburðar eru bæti nútímatölva átta bitar eða 256 stafagildi, auk parity-bita. Minnið var takmarkað og þessi eining vélarinnar var varla á stærð við skókassa að ummáli. Minniseiningarnar sjálfar voru smágerð völundarsmíð: Hver biti minnisins var agnarsmár málmhringur, þræddur á hring þar sem fjórir vírar fóru í gegnum hvern hring, tveir til að kveikja og tveir til að slökkva auk skynjaravírs. Hins vegar var boxið utan um minnið með öllum tengingum, mögnurum, kælingu og fleiru slíku á stærð við tvo ísskápa.[18]

Áður en tölvurnar komu til landsins notuðu nokkur fyrirtæki svokallaðar skýrsluvélar (Unit Record (UR) machines) til alls konar gagnavinnslu. Þær voru ekki forritanlegar en var eftir atvikum stýrt af töflum og öll gögn, það er skrár og færslur, voru á gataspjöldum.

Stökkið frá gömlu stýranlegu skýrsluvélunum yfir í 1401-vélina var stórt að því leyti til að nú var hægt að skrifa forrit sem mátti geyma og nota aftur og aftur, en UR-vélarnar voru með víruðum tengitöflum og þurfti oftast að tengja þær upp á nýtt við næstu vinnslu því ekki var hægt að geyma svo margar. Það var mikil vinna að tengja slíka töflu.[19] „Mig minnir að við ættum einar þrjátíu tengitöflur í IBM 407 á Klapparstíg 27 í Skýrsluvinnslu Ottó A. Michelsen. Töfluskápurinn náði frá gólfi og upp í loft.“[20]

Áfram var gamla spjaldagatatæknin notuð til að mata vélina á gögnum en undirbúningur vinnslu varð hins vegar talsvert einfaldari. Spjaldalesarinn/-gatarinn skiptist í tvo meginhluta annars vegar inntak eða lesara fyrir gataspjöld, sem annaði 800 spjöldum á mínútu, og hins vegar úttak, spjaldagatara sem gat skilað allt að 250 götuðum spjöldum á mínútu.

Prentarinn var sannkallaður hraðprentari á þess tíma mælikvarða, gat spýtt frá sér allt að 600 línum á mínútu og 48 mismunandi stöfum eða táknum. Hver lína var 132 stafir á breidd og allir stafir jafnbreiðir.[21] Það var mikil framför frá gömlu skrifurunum, sem nefndir voru „tabúlatorar“. Hann hafði það einnig fram yfir þann gamla, og raunar tölvur í mörg ár eftir það, að íslensku stafirnir voru ekki vandamál, hvorki Ð, Þ, Æ Ö og ekki heldur broddstafirnir Á eða É. Síðar komu stafirnir Í, Ó, Ú og Ý. En íslensku sérstafirnir áttu eftir að valda dálitlum vandræðum síðar eins og fram kemur í sérstökum kafla.

Ekki var sérstakt stýrikerfi í IBM 1401 fyrir vinnslu vélarinnar heldur var hvert forrit lesið úr gataspjöldum þegar átti að nota það. Því var til að mynda ekki unnt að vinna fleiri en eitt verkefni samhliða né heldur geyma verkefni í biðminni. Ef forrit klikkaði, sem gat komið fyrir í prófunum, stöðvaðist tölvan og skilaboðin „Process check“ birtust með rauðum stöfum. Þá varð að finna villuna, laga forritið, þýða upp á nýtt og prufukeyra aftur. Enda þótt minni vélarinnar væri ekki nema 4000 tölvustafir mun hún hafa dugað merkilega vel því notað var svonefnt SPS-forritunarmál (Symbolic Programming System), sem innihélt engar fjölskipanir en gerði mönnum kleift að nýta vel þetta takmarkaða minni, með því að beita ýmsum klókindum. Elías Davíðsson fann leið til að beita fjölskipunum í IBM 1401. Forrit hans var nokkurs konar „precompiler“ sem las gataspjald með fjölskipun og gataði ný spjöld með skipunum sem 1401 skildi. Spjaldadekkið sem úr því kom var svo þýtt í SPS eins og venjulega.[22]

Unnt var að vinna launakerfi, bókhald, reikninga, tölfræði og sitthvað fleira með því að nota SPS. Öll forritin voru, rétt eins og gögnin, geymd á gataspjöldum.[23]

Þessi tölva var, eins og allar fyrstu tölvurnar sem komu á vegum IBM, einungis fáanleg til leigu og allt var innifalið. Allur hugbúnaður var innifalinn í leigu vélbúnaðarins, en hann var langdýrastur. Síðar var tekinn upp sá háttur að verðleggja hugbúnað sérstaklega, eða um 1972.[24] Áskilið var að væri tölva tekin úr notkun skyldi flytja hana til baka úr landi eða farga henni, sem gat verið ærið mál og þurfti jarðýtu til að sjá um slík verk.[25]

Hjólin í rafeindareiknivél SKÝRR fóru að snúast þegar í stað því verkefnin voru næg: Fyrir lágu 27 verkefni sem áætlað var að kölluðu á 250 daga vinnu við forritun. Hjá SKÝRR störfuðu átján menn og af þeim voru aðeins þrír forritarar en þeim fjölgaði fljótlega og stjórn félagsins hafði úti öll spjót til að finna hæfa menn til þeirra starfa. Smám saman fjölgaði þeim sem kunnu til þessara verka og átta árum síðar, árið 1972, voru starfsmenn orðnir fimmtíu talsins og rauntekjur Skýrsluvéla höfðu ríflega þrefaldast. [26]

Nýyrðið tölva

Orðið tölva var ekki til haustið 1964 þótt tölvuöld hafi þá hafist á Íslandi. Framan af voru tækin yfirleitt nefnd rafreiknar eða rafmagnsheilar; einnig rafeindaheili, rafeindareiknivél, rafeindareiknir, reikniheili, rafheili og rafreiknir. Allt voru þetta tilraunir til að þýða orðið „computer“, því Íslendingar voru ekki á því að taka upp erlent tökuorð fyrir þetta nýja tæki.

vjelraenn.heili
Orðalagið vjelrænn heili var notað í blaðafregn árið 1949. Morgunblaðið, 17. nóvember 1949.

Orðið „rafheili“ sást fyrst í Morgunblaðinu síðla árs 1949 í grein sem bar nafnið „Verður búinn til vjelrænn heili með 10,000 frumum?“[27]

Orðið „vélheili“ sást fyrst í Vísi sumarið 1946, en eins og sjá má af textanum er þar verið að tala um ákveðna vél:

„Vélheili“, eða öðru nafni algerlega sjálfvirk reiknivél, var fundin upp af Howard H. Aiken, sjóliðsforingja. Hafði hann unnið að vélinni í sex ár. Leysir hún verkefni, sem áður tók margar vikur að vinna að, á fáum klukkustundum.[28]

Orðið „rafeindaheili“ sást líklega fyrst í tímaritinu Úrvali árið 1953 í greininni „Geta Rafeindaheilarnir hugsað?“

Einn þeirra sem veltu fyrir sér íslenskun orðsins „computer“ var Páll Bergþórsson veðurfræðingur. Hann ræddi þessi nýju verkfæri í útvarpsþætti sem hann nefndi „Veðrið í vikunni“ og var fluttur 19. desember 1964, einmitt þegar nýbúið var að koma nýju vélinni fyrir í kjallara Raunvísindastofnunar vestur á Melum. Vafalaust hefur hann vitað að árið áður höfðu veðurstofumenn rennt ýmsum tölum sem vörðuðu veður í tilraunaskyni gegnum tölvuna sem Ottó Michelsen fékk lánaða til landsins og fyrr er frá sagt. Fyrst hugleiddi hann hvert væri hlutverk þessa verkfæris: 

Í stuttu máli er það að leysa verkefni og svara spurningum, sem fyrir hann eru lagðar. Næst er svo að athuga, hvort til er á íslensku nafn á hlut eins og þessum, og sé það til, á það að sjálfsögðu að ganga fyrir tilbúnum nöfnum. Það ætti að vera ein meginreglan við nafngiftir nýrra tækja.

Páll vék síðan að gamalli þulu þar sem í er þetta:

Segðu mér nú, vala mín,
það sem ég spyr þig um:
ég skal með gullinu gleðja þig
og silfrinu seðja þig,
ef þú segir mér satt,
en í eldinum brenna þig
og koppinum kæfa þig
ef þú lýgur að mér.

Þetta skýrði Páll með því að fyrr á tíð hefðu börn sett sauðarvölu á höfuð sér, farið með þessa þulu og síðan spurt spurningar, sem svara mátti með já eða nei. Svo steyptu þau völunni fram af höfðinu og niður á gólf. Kæmi kryppan upp sagði valan já, sneri hvilftin upp merkti það nei en legðist valan á hliðina vildi hún ekki svara. Síðan vék Páll að því að vafalítið væri skyldleiki með orðunum vala og völva og vitnaði um það í Völuspá. Þar með var komin sú tillaga Páls, að rafeindareiknivélarnar yrðu kallaðar vala en rafmagnsvala við hátíðleg tækifæri. Hann taldi þetta eiga býsna vel við „þá galdranorn rafeindatækninnar, sem menn leita til með erfiðastar ráðgátur nú á dögum, rafeindareiknivélina“. Ýmsum þótti þessi tillaga Páls skemmtileg, ekki síst samlíkingin við sauðarvöluna, sem svaraði ýmist með já eða nei. Tvíundarkerfið er einmitt undirstaða í tölvutækni, byggð á tölunum 1 eða 0.

Það var hins vegar Sigurður Nordal prófessor sem skaut fram afbrigðinu „tölva“ á árinu 1965 í samtali við Magnús Magnússon prófessor. Sigurður sagði að það orð væri dregið af orðunum vala og tala, en málfræðileg rök eru fyrir því að v komi inn í orðið og vísar það þá til orðsins völva, sem er af sama uppruna.

Menn í Háskólanum voru á báðum áttum og notuðu flestir áfram um sinn orð eins og rafeindareiknivél, rafreiknir og reikniheili. Einn maður hafði þó gripið orðið á lofti og rak harðan áróður fyrir því. Það var Þorsteinn Sæmundsson, ritstjóri Almanaks Háskólans. Í fyrstunni varð honum lítið ágengt meðal þeirra sem unnu við hin nýju tæki, en svo varð almanakið fyrir 1967 fyrsta verkefni rafeindareiknis Háskólans og fékk verknúmerið H0001.[29] Það var prentað og kom út á árinu 1966, og á blaðsíðu 40 greinir ritstjórinn frá því að tölva hafi í fyrsta sinn verið notuð við útreikning almanaksins, en til öryggis hafði hann þó orðið rafeindareiknir innan sviga. Eftir það fékk orðið góðan byr og náði fótfestu óvenjufljótt, af nýyrði að vera. Það er ekki síst þakkað Þorsteini en hann hefur sagt að sú virðing sem Sigurður Nordal naut hafi átt drjúgan þátt í því að menn tóku að nota orðið enda hafi hann óspart beitt nafni Sigurðar fyrir sig í áróðrinum fyrir orðinu.[30]

Tæknin í upphafi: Hraðfleyg þróun

Frá gataspjöldum til seguldiska

Íslendingar fikruðu sig inn á tölvuöld innan við tveimur áratugum eftir að fyrsta frumstæða útvarpslampatölvan var ræst. Það kann að virðast fljótt, en þeir sem tóku þátt í brautryðjendastarfinu benda á að við höfum í rauninni verið sein til að slást í hópinn. Báðar tölvurnar sem komu í upphafi til Háskólans og SKÝRR árið 1964 komu á markað 1960 og voru því orðnar nokkuð úreltar. Næsta kynslóð tölva var komin á markaðinn um það leyti sem Íslendingar voru að gangsetja sínar fyrstu tölvur af eldri kynslóðinni. Að vísu átti SKÝRR-tölvan að koma fyrr en kaupunum var frestað vegna þess að húsið við Háaleitisbraut var ekki tilbúið.

Stjórn SKÝRR tók fljótlega að huga að næsta skrefi og í ágúst 1967 var pöntuð ný tölvusamstæða til að taka við af IBM 1401, en þá voru IBM 360-tölvurnar komnar til sögunnar. Í fyrstunni var hugmyndin að taka afbrigði af þeirri vél sem einungis ynni með spjöld og talið að minnisstærð 8 kB myndi nægja, tvöfalt meira minni en í þeirri vél sem fyrst var tekin í notkun. En í desember, þegar pöntunin var staðfest, hafði hún tekið talsverðum breytingum, og fyrir valinu varð IBM 360/30, sem hafði 16 kB minniseiningu með tveimur diskastöðvum (IBM 2311), segulbandsstöðvum, pappírsræmulesara (IBM 2671) og fleiru. Vélin átti einnig að geta keyrt óbreytt 1401-forrit.

fyrstu.seguldiskar.skyrr
Fyrstu seguldiskar SKÝRR. Laus diskur sést ofan á samstæðunni á neðri myndinni. Þjóðviljinn 29.09.1968

Fljótlega var farið að undirbúa komu hinnar nýju tölvu og starfsfólk Skýrsluvéla fékk meðal annars námskeið fyrir forritara og „operatöra“, eða tölvara eins og starfið var nefnt síðar. Vélin kom til landsins haustið 1968 og var tekin í notkun 1. október. Hún var notuð í tæp þrjú ár en fljótlega kom í ljós að 16 kB minni var bagalega lítið og 1970 var það stækkað í 32 kB. Vinnubrögð breyttust talsvert á þeim tíma sem 360/30-vélin var í notkun og meðal annars var farið að færa skrárnar yfir á segulbönd. Sú færsla, sem var áður tímafrek nákvæmnisvinna í hjálparvélum, var nú unnin í tölvunni sjálfri. Farið var að varðveita hugbúnaðinn á seguldiskum þar sem tölvan gat nálgast forrit á augabragði, og flýtti það gangsetningu verka.

Eftir sem áður voru inntaksgögn skráð á gataspjöld og frá 1969 einnig á gatastrimla að hluta, en lesari fyrir gatastrimla var tekinn í notkun í byrjun þess árs.

Gataspjöld með 80 táknum

Skýrsluvélarnar, sem voru forverar tölvanna (UR-vélar), voru ekki forritunarlegar en var stýrt af töflum og öll gögn þeirra á gataspjöldum. Gataspjaldið var á stærð við dollaraseðil við upphaf 20. aldar og hafði tólf láréttar raðir og áttatíu lóðrétta dálka. Þannig rúmuðust áttatíu bókstafir, tölustafir og tákn í hverju spjaldi. Í upphafi tölvuvinnslu á Íslandi voru einnig öll forrit skráð á gataspjöld og geymd þannig. Þrátt fyrir tilkomu segulbanda og seguldiska voru gataspjöldin í notkun vel fram á áttunda áratuginn.

gataspjald1
Lýsing á heiti raða og því hvernig bókstafir, tölvur og tákn voru geymd á gataspjaldi.

Spjöldin voru skráð í skráningarvélum, sem nefndust gatarar. Skráningarfólkið var langoftast stúlkur og nefndust þær götunarstúlkur. Þær voru margar og mikilvægar, því að götun var upphafsliður í gagnavinnslunni og götunin var mikil nákvæmnisvinna.

0.gataspjald
Gataspjald

Gataspjöldin gátu mest geymt áttatíu stafi og olli það oft vandræðum. Til dæmis var ekki hægt að skrá í þjóðskrá nöfn sem voru lengri en þrjátíu stafir og ekki var bætt úr því fyrr en komið var fram á þessa öld. Notendur gerðu þó ýmislegt til að ráða bót á plássleysinu og til dæmis má nefna að þegar Loftleiðir fluttu höfuðskrár sínar af spjöldum á seguldiska var starfsfólk á söluskrifstofum ekki ánægt því það hafði skrifað á spjöldin ýmsar gagnlegar upplýsingar um farþegana sem ekki var gert ráð fyrir í diskaskránum.

Skýrslugerðarvélar gátu lesið götin á meðan spjöldin runnu undir svokallaða bursta, sem þreifuðu á götunum. Vélarnar voru margs konar en hjá IBM voru þessar helstar:

  • Gatari (card punch)
  • Endurgatari (verifier)
  • Raðari (sorter)
  • Samraðari (collator) kallaður „collator“
  • Áritari (interpreter)
  • Summugatari (reproducer)
  • Kalkúlator/reiknivél (calculator)
  • Skýrslugerðarvél (tabulator) kölluð „tabbi“
029.endurgatari
IBM IBM029-gatari/endurgatari
082.radari
IBM 082-raðari
087.samradari
IBM 087-samraðari
0.552.aritari
IBM 552-áritari
0.519.summugatari
IBM 519-summugatari
0.602.reiknivel
IBM 602-reiknivél

Gatarar IBM voru einkum tvenns konar: 024 annars vegar og hins vegar 026, sem gat áritað, það er prentað innihald efst á spjaldið. Það var tiltölulega auðvelt að lesa tölustafi (1 gat), en snúnara að lesa bókstafi (2–3 göt) út úr götunum. Það gat komið sér vel að hafa spjaldið áritað, en áritandi gatari var dýrari en hinn.

Endurgatari (IBM 029) las gataspjald og bar saman við það sem skráð var. Kæmi villa mátti reyna aftur, en ef það sem skráð var passaði ekki í tvígang þá kom hak í spjaldið beint fyrir ofan dálkinn sem villan var í. Fyndist villa varð að endurgera (dúplísera) spjaldið.

Raðarar voru nauðsynlegir til að flokka spjöldin og koma þeim í rétta röð. Raðari las spjöld og flokkaði þau í þrettán mismunandi vasa (stackers). Spjaldabunki sem átti að raða var settur í „fídið“ (the feed), það er kjaftinn, stillt á aftasta dálk svæðisins sem raða átti, og spjöldunum rennt í gegn. Spjöldin voru hirt úr vösunum í réttri röð, stillt á næstaftasta dálk og rennt aftur í gegn og svo koll af kolli, þar til endað var á fyrsta dálki svæðisins. Það var afar mikilvægt að gera ekki „lúkufeil“ því það gat kostað umröðun á öllu slenginu (spjaldabunkanum).
Til að raða stórum skrám, til dæmis yfir 10.000 spjöldum, var byrjað á að „blokka“ spjöldin með því að raða öllu slenginu eftir fyrsta staf og raða síðan einum bunka í einu. Áki Pétursson stærðfræðingur og skákmaður var snillingur í að raða og aðrir lærðu handtökin af honum.

Samraðari (IBM 087 collator) gat lesið tvær skrár í einu og raðað þeim saman (merging) eða borið saman (matching). Hann hafði tvo kjafta og fjóra vasa. Stundum var færsluspjöldum raðað saman við viðskiptamannaskrá til undirbúnings við að prenta út reikninga eða skuldalista, enda spjöldin öll í röð á viðskiptanúmer. Spjöldin urðu að vera í réttri röð, annars stöðvaðist samraðarinn með rauðu ljósi. Eins mátti raða færsluspjöldum saman við vöruskrá til að prenta sölulista með heiti og verði vöru.
Samraðarinn hafði litla töflu sem hægt var að stýra honum með.

Áritari(IBM 552 card interpreter) las spjöld og prentaði innihaldið efst á spjaldið. Það þurfti ekki ef gatað var í IBM 026-gatara. Tengitaflan var afar einföld.

Summugatarinn (IBM 519) gat lesið inntak, til dæmis vörumaster, og gatað upplýsingar á borð við verð í færsluspjöld sem fylgdu á eftir. Það var gert til að undirbúa útreikning í kalkúlator. Einnig gat summugatarinn tengst tabúlator og gatað samtalstölur í spjöld eftir að „tabbinn“ var búinn að leggja saman per viðskipta- eða vörunúmer, eða raunar hvaða númer sem var.

Reiknivélin (IBM 602 calculator) gat lesið svæði í spjaldinu, reiknað útkomu og gatað annars staðar í spjaldið. Kalkúlatorinn skipti sér ekkert af röð spjaldanna. Tengitaflan var sömu gerðar og summugatarinn, en flóknari.

Skýrsluprentarinn (IBM 407 tabulator) var langstærsta og merkilegasta vélin. Hann las spjöld og prentaði út um leið. Ef hvert spjald var prentað var talað um að „lista“ spjöldin, einnig voru prentaðar summutölur. Þegar prentaðir voru til dæmis reikningar, þá prentaðist hausinn úr nafnspjaldinu (viðskiptamaster), hver lína úr færsluspjöldunum og summan neðst úr tabbanum sjálfum. Þá rumdi gjarnan í summugataranum, ef hann var tengdur tabbanum.   

0.407.skyrsluprentari
IBM 407-skýrsluprentari

Skýrsluprentaranum var stýrt með tengitöflu sem var um hálfur metri á kant. Götin í töflunni skiptust í „entry“ og „exit“. Þessu má líkja við það að styðja á hnapp. Straumur sem kom út úr „exit“-inu samsvarar fingrinum en „entry“-ið sem tók við straumnum samsvarar hnappi sem tekur við skipun. Skipunin gat verið ýmiss konar: leggðu saman, dragðu frá, prentaðu summu, hlauptu yfir á nýtt blað og svo framvegis. Úr „exit“-inu komu straumar úr götum gataspjaldanna, en einnig ef vélin fann að nú kom nýtt númer. Númerin urðu að vera í réttri röð og voru á nokkrum stigum, minor, inter, major og final. Tengitöflurnar mátti skipta um eftir verkefnum og á Klapparstíg 25–27 í Skýrsluvinnslu Ottós Michelsen var til dæmis skápur sem tók um þrjátíu töflur og náði frá gólfi til lofts.

Með komu tölvanna var hætt að nota reiknivélina og skýrslugerðarvélina og þegar segulbönd og síðar seguldiskar komu til sögunnar var ekki lengur þörf fyrir raðara, samraðara og summugatara.

Fyrstu tölvurnar (IBM 1401 og IBM 1620) unnu í upphafi eingöngu með gataspjöld. IBM 1401 gat lesið spjöld í spjaldalesara (feed) og gatað út ný spjöld í spjaldagatara.  IBM 1620 tengdist mjög fljótlega seguldiskum. Forrit á eigin táknmáli voru götuð og keyrð í gegnum „þýðara“, sem þýddi yfir á vélamál, sem tölvan skildi. Nokkurra hundraða gataspjalda forrit (source deck) gat komist fyrir á fáeinum gataspjöldum þegar tölvan hafði sett það yfir á vélamál (object deck). Forritið var sett í spjaldamatara (fídið) á undan gagnaspjöldunum og stutt var á „load“-hnappinn. Þá las tölvan inn forritið og keyrði það, tók svo við stjórninni og las spjaldabunkann eftir kúnstarinnar reglum. Þar sem ekkert stýrikerfi var í IBM 1401 og 1620 kviknaði rauða „process check“-ljósið og vinnslan stöðvaðist ef forritið klikkaði. Því var um að gera að prófa forritin rækilega.[31]

Segulbönd og disklingar – hraðinn eykst

Með tilkomu næstu IBM-tölvukynslóðar, IBM 360/xx, voru segulbandastöðvar teknar í notkun. Þá las ein stöðin forritið, en hinar gögnin. Allt gerðist hraðar eins og gefur að skilja. Segulbönd mátti lesa og rita á margfalt hraðar en gataspjöld og langtum minna fór fyrir þeim. Þau buðu hins vegar eingöngu upp á „runuaðgang“ (sequential access). Til að hægt væri að raða gögnum þurftu segulbandastöðvarnar að vera minnst fjórar. Röðun gat verið tímafrek, en gerðist að mestu sjálfkrafa, það er án þess að mannshönd kæmi nærri.

Þegar seguldiskar voru tengdir tölvunum varð gífurleg framför. Þeir voru mun hraðari en segulböndin og buðu auk þess upp á „beinan aðgang“ (direct access) og lyklaðar skrár sem flýtti fyrir og kom sér vel við alls konar vinnslu. Diskar gátu verið ýmist lausir (removable) eða fastir.

Forrit mátti einnig geyma á seguldiskum, jafnvel forritshluta. Minni tölvu (core storage) var kallað „innra minni“ en seguldiskar og -bönd „ytra minni“. Vel fór á að hafa bæði segulbönd og diska; þessi tæki unnu vel saman.[32]

Árið 1973 var loks tekið í gagnið skráningartæki fyrir disklinga af gerðinni IBM 3742 og var það fyrir átta tommu disklinga. Eftir það fór að draga úr notkun gataspjaldanna sem inntaksmiðils. Viðamesta verkefnið sem enn byggðist á gataspjöldum árið 1973 var úrvinnsla mikillar mergðar fylgispjalda með skeytum og langlínusamtölum fyrir Landssímann, sem raða þurfti og undirbúa í hjálparvélum. Um þær mundir var þó unnið að því að breyta þessari vinnslutilhögun og leysa gataspjöldin af hólmi með nýrri tækni.[33]

Tölvur sem taka ekki meira rými en þrjú skrifborð

Til marks um hina hröðu tækniþróun í upphafi tölvualdar á Íslandi er að sama haust og tölvurnar tvær komu til Íslands kallaði Ottó Michelsen blaðamenn til fundar til að skýra frá því nýjasta á þessu sviði. Þá var IBM 360 þegar kominn fram og með honum varð stórbylting í þróun tölva, sem átti að gera minni fyrirtækjum kleift að taka þær í sína þjónustu. IBM 360 var raunar heiti á nokkrum tölvum sem komu á næstu árum og leystu hver aðra af hólmi.

Markvert þótti blaðamanni Vísis að tæknimenn IBM sögðu allt stefna í að tölvur (rafreiknar) framtíðarinnar yrðu ekki stærri en mannsheilinn en sú nýja kynslóð tölva sem var verið að kynna var þó ekki komin svo langt. Tækið var þó talsvert minna en tölvurnar tvær sem áður voru komnar voru til landsins og tók ekki meira rými en þrjú meðalskrifborð. Með þeirri vél mátti að sögn tæknimannanna vinna verkefni á borð við bókhald, reikningsyfirlit, viðskiptamannabókhald, söluskýrslur, útreikning vaxta og iðgjalda og ýmsa tölfræði, jafnvel vísindalegar rannsóknir, líkt og þá var þegar gert í tölvu Háskólans. Ein af skýringunum á því að vélin hafði minnkað svona, og minnkaði fljótlega enn meira, var transistorinn, sem hlaut íslenska heitið smári og ruddi sér mjög til rúms á þessum árum. Hann var þá þegar svo smár að hundruð eða jafnvel þúsundir þeirra komust fyrir í einni fingurbjörg. Þetta var náttúrulega gríðarleg breyting ef litið var til útvarpslampanna sem áður voru notaðir og þurftu heilu vélasalina. [34]

Frá vélabókhaldi til tölvuforrita – og nokkur orð um spjaldamokara

Auk Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurbæjar voru nokkur fyrirtæki með gataspjaldakerfi og ber þar að nefna Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS), Landsbanka Íslands, Sláturfélag Suðurlands, Mjólkursamsöluna, Loftleiðir, Búnaðarbankann og Verslunarbankann. Öll unnu þau að eigin verkefnum.

Það var því nokkur nýlunda þegar Skýrsluvinnsla Ottós A. Michelsen tók að bjóða fyrirtækjum úrvinnslu á bókhaldi árið 1963. Fram að því hafði slík starfsemi einungis farið fram hjá Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurbæjar, sem sinnti einvörðungu opinberum fyrirtækjum.

Ottó reið þó ekki feitum hesti frá þeirri starfsemi því rekstur af þessu tagi var á ýmsan hátt erfiður með þeirri tækni sem þá var notuð. Þótt úrvinnslan í gataspjaldavélunum væri vélræn voru vélarnar mataðar handvirkt á upplýsingunum. Minnsta yfirsjón við það starf olli villum í niðurstöðum, sem erfitt gat verið að skilja og leiðrétta, og síðan þurfti að endurtaka vinnsluna. Stundum voru þeir sem mötuðu vélarnar kallaðir „spjaldamokarar“.[35] Algengt var að vinnsla bókhalds fyrir meðalstórt fyrirtæki tæki tvo til fjóra daga og endurtekin vinnsla þýddi að sjálfsögðu töf á því að niðurstöðum væri skilað. Einnig voru vélarbilanir tíðar og tafsamt gat verið að finna þær og gera við. Það gat eðlilega valdið megnri óánægju meðal launafólks þegar útborgun dróst af þessum sökum. Ýmsar sögur eru til af því, þeirra á meðal af flökurunum hjá Sænska frystihúsinu, sem hótuðu því að koma með hnífana fengju þeir ekki borgað.

Það varð úr að IBM yfirtók rekstur Skýrsluvinnslunnar og ýmsa fleiri þætti rekstrar Ottós árið 1967. Þegar SKÝRR fékk nýju tölvuna, System 360/30, var til ráðstöfunar gamla 1401-tölvan sem hafði komið haustið 1964. Sú vélasamstæða samanstóð af spjaldlesara, stjórntölvu, minniseiningu og prentara. Þar eð ekki varð séð að nein verkefni væru fyrir hana nema hjá Skýrsluvinnslunni ákváðu Ottó og hans menn að taka hana í notkun þar. Þeir gerðu það í stað þess að farga þessari aflóga tölvu ellegar senda hana til útlanda. En í ljós kom að hjá hinu alþjóðlega tölvufyrirtæki var ekki til þess ætlast að þannig væri staðið að málum.

Svo var litið á að útibúið á Íslandi hefði í heimildarleysti farið í fjárfestingu. Málið þvældist milli IBM í Danmörku og aðalstöðvanna í París með tilheyrandi skriffinnsku: útreikningar voru gerðir og skýrslur samdar og á endanum var skrifuð löng „réttlætingar- og nauðsynleikagreinargerð“. En á meðan þessu fór fram settu Íslendingarnir búnaðinn upp eins og ekkert hefði í skorist og tóku hann í notkun, og gamla tölvan þjónaði hlutverki sínu dyggilega árum saman. Einhver mun þó hafa fengið skömm í hattinn og Danirnir nöldruðu um „óviðeigandi hátterni“ og að farið hefði verið á svig við það regluverk sem vinna hefði átt eftir. Nokkrum mánuðum síðar kom þó heimild fyrir fjárfestingunni.

Tölva af næstu kynslóð, System 360 Model 20, leysti þessa gömlu tölvu af hólmi nokkrum árum síðar og fljótlega var bætt við diskum og segulböndum, þegar þau komu til sögunnar. Nýjar kynslóðir 360-tölvanna komu svo hver eftir aðra, og var hver þeirra öflugri en sú fyrri.[36]

Flest þeirra fyrirtækja sem voru með gataspjaldakerfi, Sláturfélag Suðurlands, Mjólkursamsalan, Loftleiðir hf., Samband íslenskra samvinnufélaga og Landsbanki Íslands, fengu árið 1967 tölvur af gerðinni IBM 360/20 og voru tölvur í landinu þá orðnar átta talsins. Eðli verkefnanna breyttist þó lítið því áfram voru notuð gataspjöld, en segulbönd og síðar seguldiskar urðu allsráðandi geymsluform.

Vandi hjá SKÝRR – misst af verulegum tekjufjárhæðum

Þótt ný og öflug tölva væri tekin í notkun hjá Skýrsluvélum haustið 1968 leysti það í sjálfu sér ekki öll fyrri vandamál. Ný vandamál komu í ljós og tók langan tíma og fyrirhöfn að leysa þau.

Grundvallarvandinn lá í skipulagningu verka og „gerð forskrifta“ eins og það er haft í fundargjörð stjórnar Skýrsluvéla 1969, og líklega var átt við að vandinn lægi í forritun. Þeim vanda höfðu menn ýtt á undan sér um hríð óleystum og leiddi af sér að ekki hafði tekist að anna þeim verkefnum sem lágu fyrir, og hægt var „að finna stað með greinilegum dæmum, að þetta ástand hefur orðið til þess að fyrirtækið hefur um skeið misst af verulegum tekjufjárhæðum,“ eins og segir í fundargjörðinni.

365 Skýrsluvélar ríkisins 6
Starfsfólk SKÝRR að vinna að ýmsum verkefnum 1976. Ljósmyndari: Loftur Ásgeirsson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Sú skýring sem Óttar Kjartansson, höfundur Sögu SKÝRR, gefur á þessum vandræðagangi í bók sinni er að sambúð stjórnar og forstjóra hafi verið stirð um þessar mundir. Víst er að Óttar hafði góða innsýn í innri málefni stofnunarinnar því hann gegndi þar sjálfur ábyrgðarstörfum.

Stjórnin virðist hafa á tímabili hugleitt að gera forstjórann, Bjarna P. Jónasson, að eins konar tæknilegum yfirmanni eða forstjóra en „losa hann undan“ hinni almennu yfirstjórn, en hann óskaði sjálfur eftir leyfi frá störfum í eitt ár frá 1. apríl 1971. Þremur mönnum var falin stjórn fyrirtækisins, Jóni Zóphoníassyni, Hjörleifi Hjörleifssyni og Óttari Kjartanssyni. Jón og Óttar tóku að sér stjórn skipulagningar og forritunar en Hjörleifur varð fulltrúi stjórnarinnar við daglegan rekstur. Í raun var Skýrsluvélum ríkisins skipt upp í deildir með þessu, þannig að kerfishönnun og forritun voru unnin í eigin deild, rétt eins og Hjörleifur hafði stungið upp á. [37]

Í júlí 1972 var doktor Oddur Benediktsson ráðinn til starfa hjá Skýrsluvélum sem ráðunautur stjórnarinnar og til að sinna ákveðnum verkefnum. Þar á meðal var honum ætlað „að gera grein fyrir fyrirkomulagi og afstöðu til Háskóla Íslands varðandi hugsanlegt samband um APL fjarvinnslukerfi og reyna að koma í gang notkunarbókhaldi fyrir tölvuna, þ.e. „Job Accounting““. Eitt af fyrstu verkum Odds var að kanna, ásamt deildarstjóra vinnsludeildar, hagkvæmni þess að skrá inntaksgögn á disklinga í stað gataspjalda, en sú tækni var þá nýlunda. Niðurstaðan varð sú að tekið skyldi á leigu „IBM 3742-skráningatæki“ (IBM 3742 Dual Data Station) en jafnframt að kannaðir skyldu möguleikar á að fá sambærileg tæki frá öðrum en IBM. Þetta sætti nokkrum tíðindum og boðaði breytingar, því ítök IBM á þessum markaði höfðu verið algjör fram að því. Snemma árs 1971 hafði verið pöntuð ný tölva, IBM 370/135 með 96 kB minni, með fjórum bandstöðvum og þremur diskastöðvum. Afgreiðslutíminn var hins vegar áætlaður tvö ár og því ekki von á gripnum fyrr en í byrjun árs 1973. [38]

Árið 1972 voru liðin tuttugu ár frá stofnun SKÝRR og var þess minnst með veglegum hátíðarhöldum 2. júní. Hjörleifur Hjörleifsson stjórnarformaður ritaði af því tilefni grein sem birtist í Morgunblaðinu og lauk á hugleiðingum hans um framtíð Skýrsluvéla og gagnavinnslu á Íslandi, sem telja verður að séu athyglisverðar í ljósi þeirrar þróunar í tölvutækni sem orðið hefur á þeim fjórum áratugum sem síðan eru liðnir:

Eftir aðstæðum hér á landi, má teljast óhjákvæmilegt að SKÝRR hafi forgöngu um það að skapa aðstöðu til þess að nútímakröfum varðandi tölvutækni verði fullnægt, þ.e.a.s. að málum verði þannig hagað, að nægilega stór tæki séu fyrir hendi, að minnsta kosti á einum stað, til þess að leysa úr öllum þeim verkefnum, sem þessu tæknisviði henta með nútíma tækjum. Því er ekki að neita, að við hér höfum dregizt afturúr í hagnýtingu tækninnar, og fyrirsjáanlegt er að breytingar muni verða á næstu árum.[39]

Hjörleifur benti einnig á að fjarvinnsla hefði rutt sér til rúms erlendis og varla myndi dragast að slík vinnubrögð yrðu tekin upp hér. Síðan minntist hann á að athugun á vegum póst- og símamálasambandsins í Evrópu á fjarvinnsluþörf í álfunni benti til þess að eftir 12–15 ár yrði fjarvinnsla á þessu sviði jafnalgeng og talsímanotkun. Ný tæki voru einmitt væntanleg til Skýrsluvéla en stjórnarformaðurinn minnist ekki á það í grein sinni. Þó kemur fram í að minnsta kosti tveimur dagblöðum að þáverandi vél sé orðin of lítil og von á stærri vél, af gerðinni 370/136, sem var þrefalt stærri en sú gamla og hafði sexfalt meira geymslurými.[40]

Blaðamönnum var boðið að heimsækja SKÝRR í tilefni afmælisins. Í umfjöllun blaðanna kom meðal annars fram að fimmtíu starfsmenn ynnu þar störf um 800 manna, sem þörf hefði verið á ef ekki hefði verið sá vélakostur sem stofnunin hafði til umráða. Þar eru einnig nefnd helstu verkefni stofnunarinnar: þjóðskrá, skattskrá og launaútreikningar. Vinnsluhraðinn vakti athygli blaðamannanna; vélin var 52 sekúndur að skrifa 1100 línur með 132 stöfum í hverri, sem eru nærri 150 þúsund stafir. Sagt var frá því að upplýsingar um viðskiptavini stofnunarinnar væru geymdar á 800 segulbandspólum og sem dæmi um hve fljótlegt væri að sækja upplýsingarnar var nefnt að þennan dag hefðu borist 700 greiðslur til Gjaldheimtunnar og það hefði tekið vélarnar sex mínútur að finna þær úr samtals 70 þúsund greiðslum, og færa þær inn.[41]

Stækkandi minni – fjarvinnsla hefst

Verkefnum SKÝRR fjölgaði mjög eftir tilkomu segulbanda- og diskastöðvanna og starfsemin byggðist að nokkru leyti á vinnslu fyrir Þjóðskrá, þar á meðal kjörskrá, auk vinnslu á skattframtölum og innheimtu fyrir ýmsar opinberar stofnanir, þar á meðal rafmagns- og vatnsveitur, síma og Ríkisútvarpið. Til að hafa undan varð starfsfólk SKÝRR að hafa hraðar hendur við tæknilega framþróun fyrirtækisins.[42]

Tölvan sem beðið hafði verið í tvö ár kom loks snemma árs 1973. Hún var búin fjórum bandastöðvum og þremur diskastöðvum en bilaði mikið fyrstu mánuðina. Talið var að minni hennar hefði verið í knappara lagi miðað við þau verkefni sem henni voru ætluð en þá var hafin svonefnd samhliðakeyrsla, farið að setja prentun inn á biðskrá og keyra notkunarskrá, að ógleymdri fjarvinnslunni, sem þá var hafin. Reynt var að bæta þetta með því að auka minni vélarinnar, fyrst í 240 kB seint á árinu. Það bætti úr skák en dugði þó skammt og í ársbyrjun 1974 var minnið enn stækkað, þá í 384 kB.[43]

Það var orðið ljóst þegar árið 1974 að nýja vélin myndi ekki duga til frambúðar og farið var að huga að næsta skrefi. Forstjórinn lagði fram tillögur um vélakaup í janúar 1975 þar sem gert var ráð fyrir að innan tveggja ára yrði bætt við einni tölvu, IBM 370/145, svo Skýrsluvélar yrðu með tvær samtengdar vélasamstæður. Þær átti að keyra næstu þrjú árin með einu aðalstjórnkerfi fyrir runuvinnslu og fjarvinnslu. Nýja vélin var tekin í notkun í mars 1976, sú stærsta fram að því, minni hennar var 786 kB. Þessum tveimur tölvum voru síðan tengdar sjö diskastöðvar, sex bandastöðvar, tveir prentarar, stýritæki, stjórnskjáir og fleira.[44]

Árið 1973 var stigið það mikilvæga skref að tengja saman í fjarvinnslu þær tvær stofnanir sem rutt höfðu brautina í tölvuvinnslu á Íslandi, Háskóla Íslands og SKÝRR. Þessi fyrsta tenging var með svonefndu APL/360-sambandi en það byggðist á forritunarmáli sem þróað hafði verið á sjöunda áratugnum. Það mun hafa verið fyrsta fjölnotakerfið sem hingað barst, sniðið fyrir vísinda- og stærðfræðileg viðfangsefni og notað af nemendum og kennurum Háskólans. Það var ekki vandalaust að keyra fjarvinnsluna því kerfið olli miklu álagi á tiltölulega litla vél SKÝRR. Tengingin við Háskólann var ekki notuð nema í þrjú ár og var oft brösótt. Um sama leyti var komið á tengingu við gjaldkerakerfi Gjaldheimtunnar í Reykjavík, sem gekk betur, og hún var rekin óslitið þar til Gjaldheimtan var lögð niður, í árslok 1997. [45]

Borgarspítalinn í Reykjavík tengdist SKÝRR árið 1974. Vinnslan fór fram með runuvinnslu sem keyrð var á kvöldin og olli því minna álagi en ella. Þetta kerfi var notað í fjögur ár, eða þar til spítalinn fékk sitt eigið tölvukerfi. Árið 1978 var komin sívinnslu-/fjarvinnslutenging við Borgarspítalann, Háskóla Íslands, Bifreiðaeftirlit ríkisins, Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Veðurstofu Íslands en önnur verkefni SKÝRR voru launa- og bókhaldsvinnsla fyrir ríkið og Reykjavíkurborg og umfangsmikil vinnsla fyrir Póst og síma, meðal annars reikningaskrift og orlofsvinnsla, einnig Þjóðskrá, rafmagnsreikningar og margs konar vinnsla fyrir skattyfirvöld.[46]

Tölvuviðgerðir í stað lyfjafræði

Haustið 1956 hófu fjórir ungir menn fornám í lyfjafræði, sem var á vegum lyfsala á Íslandi og var að hluta starfsnám í apótekum. Sama haust hófst kennsla í þeim fræðum í Háskóla Íslands án þess að þessir lyfjafræðinemar hefðu frétt af því, en lyfsalarnir drógu fram eftir haustinu að gera við þá námssamning. Einn þessara fjórmenninga var Jóhann Gunnarsson og hann ákvað að hætta við þetta nám en settist þess í stað í heimspekideild Háskólans og hóf nám í ensku og eðlisfræði og hugðist verða kennari.

Árið 1959 auglýsti Ottó Michelsen eftir tæknimanni og þar sem Jóhann hafði þá stofnað fjölskyldu ákvað hann að sækja um starfið, og fékk það. Ottó og hans menn voru raunar tregir til að taka „svona strák, sem hafði enga reynslu“, eins og hann orðar það sjálfur, þeir vildu fá rafvirkja eða einhvern slíkan. En Jóhann kannaðist við Ottó og bauð honum og Jóni Óttarri Ólafssyni, aðstoðarmanni hans, heim og tókst að sannfæra þá, sýndi þeim meðal annars útvarpsviðtæki og fleira af slíkum toga sem hann hafði sett saman.

365 Skýrsluvélar ríkisins 1
Október 1964, Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar, SKÝRR. Starfsmenn IBM vinna við að setja upp fyrsta rafeindaheilann sem kemur til Íslands, IBM-1401 hjá SKÝRR. Bjarni P Jónasson forstjóri SKÝRR og Jóhann Gunnarsson við heilann. Ljósmynd: Vísir. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Sumarið eftir sendi Ottó hann í skóla hjá IBM í Þýskalandi, eins og hann tíðkaði alla tíð þegar hann réð ungt fólk til starfa, og þar var Jóhann í hálft ár. Svo komu fyrstu tölvurnar til Íslands haustið 1964 og ungir verkfræðingar sem höfðu kynnst þessari nýju undratækni komu heim frá námi, hver af öðrum: Oddur Benediktsson kom með doktorspróf frá Bandaríkjunum, einnig Björn Kristinsson prófessor, Ragnar Ingimarsson, Magnús Magnússon og Helgi Sigvaldason.

Jóhann Gunnarsson rifjar það upp rúmlega hálfri öld síðar að þeir sem unnu við að koma fyrstu vélinni fyrir í kjallara nýbyggingar Raunvísindadeildar vestur á Melum hafi verið hálfhræddir um að þetta gengi ekki, kjallarinn var frekar hrár, þótt hann héldi veðri og vindum. Ýmis vandamál fóru að hrjá vélina, hún átti það til að bila á dularfullan hátt og tók talsverðan tíma að komast að því hvað var að. Einn, ef ekki tveir sérfræðingar voru fengnir að utan til þess að líta á þetta og annar þeirra skrifaði skýrslu um ferðina, þar sem hann kenndi því meðal annars um að tölvan hefði verið sett þarna í kjallara ófullgerðrar byggingar. Svo kom í ljós að þetta var vegna galla í framleiðslu.

Rafeindabúnaðurinn á þessum tölvum var á spjöldum, sem voru heldur stærri en venjuleg spil, og þeim var stungið inn í grindur. Bak við grindurnar voru pinnar og svo voru þræðir, einangraðir vírar, vafðir utan um pinnana og lágu upp og niður, framhjá öðrum pinnum. Þetta var þrætt í vélum í verksmiðjunni og í ljós kom að vírarnir voru of fast dregnir utan um pinnana og þar sem vír fór í vinkil utan um tiltekinn pinna gat hann rofið einangrunina og þá gaf hann samband inn á vitlausan stað. Þetta fór jafnvel eftir veðri eða hitastigi eða einhverju svoleiðis og var óskaplega erfitt að eiga við. En svo fannst út úr því á endanum hvar þetta lá og það var skipt út einhverjum vírum og þetta var lagað, og var alls ekki byggingunni að kenna.[47]

Jóhann kynntist báðum tölvunum í öndverðu, aðallega þó tölvu Skýrsluvéla:

Þessar gömlu tölvur voru ekki flóknari tæknilega en það að maður þurfti aðallega að þekkja elektróníkina, hún var dálítið sundurlaus og hana þurfti að þekkja út í hörgul. Ég lærði aldrei formlega á Háskólatölvuna heldur á hina, sem kom á Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar. Þær voru ekki eins en það líkar að maður gat áttað sig á þessu. Það var félagi minn sem lærði á Háskólatölvuna en ég þurfti oft að vera með honum í henni, þegar þetta vesen var, og skildi það nógu vel til að það var ekki mikið mál. Þegar maður kunni á aðra þá var þetta ekki svo ólíkt.

Jóhann Gunnarsson vann hjá IBM í 23 ár, fram til 1982, og upplifði gríðarlegar breytingar á tölvutækninni. Frá IBM fór hann til Reiknistofu Háskólans, var forstöðumaður þar í eitt ár og nefndur framkvæmdastjóri í önnur fjögur. Á þessum árum blandaði hann sér talsvert í staðlamál sem tengdust tölvutækni og staðall fyrir íslensk tákn í stýrikerfum einmenningstölva er meðal annars við hann kenndur, nefndur „JG-staðall“, eins og sagt er frá í sérkafla.

Reiknistofa bankanna

Eitt af áhrifamestu afsprengjum tölvutækninnar, sem fór þó hljótt um, er Reiknistofa bankanna. Í nóvember 1970, þegar ekki voru liðin nema sex ár frá því tvær fyrstu tölvur landsins voru ræstar, vestur í Háskóla og á Háaleitisbrautinni, var farið var að ræða í fullri alvöru um stofnun sameiginlegrar reiknimiðstöðvar fyrir íslensku bankana, eins og það var orðað.[48] Ákveðið var að skipa svonefnda „rafreikninefnd“ til að athuga málið og hún skilaði stjórnum bankanna greinargerð tæpu ári síðar. Eftir það var skipuð ný nefnd til að undirbúa stofnun reiknimiðstöðvarinnar. Í henni voru bankastjórarnir Helgi Bergs, Jóhannes Nordal, Jónas Rafnar og Stefán Hilmarsson en þeir fengu sér til aðstoðar dr. Guðmund Guðmundsson hjá Seðlabankanum, Ólaf Rósmundsson hjá Landsbankanum og Þórð Sigurðsson hjá Búnaðarbankanum. Lýst var eftir tilboðum um vélbúnað, sem leiddi til þess að vélar tveggja tölvuframleiðenda þóttu koma til greina, frá IBM og Burroughs. Tilboðinu frá IBM var tekið og leigusamningur undirritaður um IBM-tölvu 370/135 148 kB, tvo OCR-B lesara, 100 MB diska (3330), segulbandastöðvar (80 kB, 3420), 80 og 96 dálka spjaldalesara og prentara sem gat skrifað allt að 2000 línur/mín. Þann 23. mars 1973 voru kjörnir í fyrstu stjórn Reiknistofu bankanna, eins og ákveðið var að hún yrði nefnd, bankastjórarnir Helgi Bergs, Höskuldur Ólafsson, Jónas G. Rafnar, Stefán Hilmarsson og Svanbjörn Frímannsson. Þann 1. september var Einar Pálsson ráðinn forstjóri, en hann hafði starfað um árabil hjá IBM í Danmörku. Starfsfólk var ráðið síðustu mánuði ársins 1973 og hóf flest störf í janúar 1974. [49]

Hjarta viðskiptalífsins

Liður í undirbúningnum á rekstri Reiknistofu bankanna var að Bankamannaskólinn, sem hafði starfað frá árinu 1959, hélt námskeið í mars, apríl og maí til að kynna starfsmönnum bankanna þá þróun sem myndi hefjast með tilkomu Reiknistofunnar. Var þar meðal annars fjallað um „optískan lestur“ (OCR eða rafaugnalestur), fjarsendingar og hönnun sameiginlegs bankabókhalds. Námskeiðið sóttu 38 bankastarfsmenn og ljóst var að fleiri höfðu hug á að kynna sér allar þessar nýjungar svo haldið var annað námskeið, sem 33 sóttu. Kennarar voru Einar Pálsson forstöðumaður, Jón V. Karlsson og Gunnar Ingimundarson frá IBM. [50]

Á árinu 1974 og 1975 birtust allmargar auglýsingar í dagblöðum þar sem Reiknistofa bankanna lýsti eftir starfsfólki:

Reiknistofa bankanna óskar að ráða eftirfarandi starfsfólk 1. Sérfræðing í stjórnforskriftum. Kostur að hafa þekkingu á DOS, BAL og PL/1 en ekki skilyrði. Umsækjandi verður að geta farið til þjálfunar erlendis. 2. Tölvustjórar. Reynsla eða þekking á tölvustjórn eða forskriftagerð kostur en ekki skilyrði. Keyrslur fara fram undir DOS/VS IBM 370/135. 3. Aðstoðarfólk við móttöku og frágang verkefna, fyrir og eftir tölvuvinnslu. Óskað eftir umsækjendum með bankamenntun, stúdentsprófi eða tilsvarandi. […] Skriflegar umsóknir sendist Reiknistofu bankanna, […] fyrir 1. desember 1974.[51]

Og um mitt ár 1975 birtist þessi auglýsing í öðru dagblaði:

Reiknistofa bankanna óskar að ráða KERFISFRÆÐINGA. Óskað er eftir umsækjendum með bankamenntun, stúdentsprófi, viðskiptafræði, eða tilsvarandi. Laun samkvæmt launakerfi bankamanna og eftir menntun og reynslu. Reiknistofa bankanna þjónar bönkum og sparisjóðum landsins. Mjög skemmtilegt starfssvið við þróun og uppbyggingu nýtízku bankakerfa, sem byggist á nýjustu tækni í rafreiknikerfum. Ennfremur þjónusta við viðskiptalíf almennt gegnum bankakerfið.[52]

Starfsemi Reiknistofu bankanna hófst haustið 1973, en í byrjun árs 1974 hófu störf sex starfsmenn til að sinna kerfissetningu, enginn þeirra með reynslu nema Ólafur I. Rósmundsson sem ráðinn var sem kerfisfræðingur og fulltrúi forstjóra. Á þeim tíma var ekki farið að kenna tölvunarfræði í Háskóla Íslands og eins konar meistarakerfi gilti, þannig að fólk sem áhuga hafði á þessu fagi þurfti að ráða sig til fyrirtækja sem höfðu starfsemi á sviðinu og læra af þeim sem reynslu höfðu.

Til að byrja með var Reiknistofan ekkert annað en skrifborð í húsi Búnaðarbankans við Hlemm og við sátum þarna í eitt ár, lásum handbækur og leystum æfingaverkefni í forritun með hjálp gataspjalda. Við röltum svo með spjöldin niður Laugaveginn til IBM, sem var þá á horni Hverfisgötu og Klapparstígs, þar sem spjöldin voru lesin og forritin þýdd. Daginn eftir gat maður svo hugað að niðurstöðunum, en oft fékk maður í fangið blaðastafla með villutilkynningum, ef til dæmis hafði gleymst að skrá semíkommu í enda setningar. Þá var ekki um annað að ræða en skunda upp á Hlemm, leiðrétta og strunsa svo aftur niður á Klapparstíg og gera aðra tilraun. Í ársbyrjun 1975 var Reiknistofan flutt suður í Kópavog, í hús Útvegsbankans í Hamraborg. Þá fékk Reiknistofan sínar fyrstu tölvur, undirbúningur verkefna hófst fyrir alvöru og starfsfólki fjölgaði verulega.[53]

Ákveðið var að fyrsta verkefnið á Reiknistofu bankanna skyldi verða að búa til, hanna og forrita launabókhald bankanna. Það var valið fyrsta verkefnið því það var einfalt og því kjörið æfingakerfi. Áætlað var að það yrði tilbúið um haustið og gæti þá annað launabókhaldi þeirra aðildarbanka sem þess óskuðu. Fyrsta bankaverkefnið sem ákveðið var að ráðast í var að koma á vélrænu eftirliti með ávísana- og hlaupareikningum, sem myndi gera kleift að lesa og „cleara“ allar ávísanir daglega milli banka. Gert var ráð fyrir að þessu verkefni yrði lokið upp úr miðju ári 1975.[54]

Reiknistofan útrými gúmmítékkum

Með vélrænu ávísanaeftirliti vonuðust menn til þess að ná mætti tökum á vandamáli sem hafði aukist verulega hin síðustu ár: Fjöldi innistæðulausra ávísana, svonefndra „gúmmítékka“, olli mörgum miklum áhyggjum. Ein aðferðin í þessum tékkamisferlum var að leggja innistæðulausa ávísun inn í eitt bankaútibú og taka fé út í öðru, áður en fyrri færslan var könnuð og skráð. Menn bundu miklar vonir við að reiknistofan myndi útrýma þessu vandamáli.

Útvegsbankinn flutti í nýtt húsnæði í desember 1974 og Reiknistofa bankanna flutti þangað á útmánuðum 1975.[55] Í skyndikönnun Seðlabankans í byrjun nóvember 1975 reyndust 1254 tékkar vera án innistæðu, að samanlagðri fjárhæð 102,5 milljónir króna (þetta var fyrir gjaldmiðilsbreytingu, þegar tvö 0 voru strikuð aftan af íslensku krónunni). Þetta var þrisvar sinnum meira en í næstu skyndikönnun á undan, sem farið hafði fram í mars sama ár, svo ástandið virðist hafa farið versnandi. Bankarnir höfðuðu miskunnarlaust mál gegn þeim sem staðnir voru að tékkamisferli og í nóvember 1975 voru í gangi um fjögur þúsund slík innheimtumál. Bankamenn höfðu eðlilega áhyggjur af þessu og Morgunblaðið hefur eftir Birni Tryggvasyni, aðstoðarbankastjóra hjá Seðlabankanum:

Það er engum blöðum um það að fletta að ávísanamál bankanna hafa farið úr böndum … Það munu vera nálægt 100 þúsund ávísanareikningar í gangi á landinu og það hefur komið í ljós, að ekki hefur reynzt unnt að hafa nægilegt eftirlit með þeim. En það er að því stefnt að hér verði breyting á og eftirlit með tékkaútgáfunni hert.[56]

Unnið var að málinu hjá Reiknistofu og Einar Pálsson sagði við Alþýðublaðið nokkrum dögum síðar:

Við erum komnir það langt núna, að það sem kemur inn í bankana í dag af tékkum, það er allt lesið vélrænt inn að kvöldi, þannig að þetta liggur allt fyrir daginn eftir. Þetta nær reyndar ekki enn til allra bankanna, en er sem sagt á dyraþrepinu. Viðskiptabankarnir hér í Reykjavík eru komnir inn í þetta kerfi, en einstakir bankar úti á landi ekki enn.[57]

Blaðamaðurinn spurði þá hvort rétt væri að fólk hefði verið að „leika sér með tékka á milli banka“ og fékk þetta loforð frá forstöðumanninum: „Já, en ég mundi segja, að áramótagjöfin verði sú, að það verði lokað fyrir það algerlega.“

Það stóðst og þar með var komin sameiginleg tölvuþjónusta allra banka og sparisjóða eins ríkis, nánast alls fjármálaheims þess. Leiðin, sem valin var, var einsdæmi í heiminum og gerði alla bankaþjónustu lipurri, þægilegri og fljótlegri en væru kerfin fleiri, bæði fyrir bankana og viðskiptavinina. Gunnlaugur G. Björnson, deildarstjóri í Útvegsbanka Íslands, orðaði það svo í samtali við Dagblaðið vorið 1978, þegar reiknistofan var óðum að taka á sig mynd:

Ísland verður eini staðurinn í heiminum þar sem samtímis er bókað milli banka og „clearing“-miðstöðvar þar sem allir tékkar eru eins og fara allir í gegnum sömu vél, eru færðir inn á reikning eiganda og til tekna hjá bankanum sem innleysti hann. Það er ekki bara smæð landsins og peningakerfisins sem gerir þetta mögulegt heldur samvinnan sem um þetta hefur tekizt. Með nútímabúnaði er hægt að koma bókhaldi allra banka á einn stað. Þá þarf ekkert bankaeftirlit, að minnsta kosti ekki eins og það er í dag.[58]

Skýrslutæknifélag Íslands – fyrstu árin

Þannig var staðan í lok fyrsta áratugar tölvuvæðingar. Þessi tiltölulega nýja tækni hafði þá þegar valdið ótrúlegum samfélagsbreytingum, meðal annars gerbreytt viðskiptaháttum og auðveldað öll samskipti manna og upplýsingaöflun. En meiri áttu þó breytingarnar eftir að verða.

Árið 1968, aðeins fjórum árum eftir að fyrstu rafeindareiknarnir voru gangsettir, hóuðu framsýnir menn saman hópi sem hafði áhuga á þessari nýju tækni og stofnuðu Skýrslutæknifélag Íslands. Eins og nafnið bendir til á félagið rætur í því hlutverki sem þessar skrásetningar- og reiknivélar sinntu í upphafi, að auðvelda alls kyns skráningu og skýrslugerð. Félagar SÍ, eins og nafnið var skammstafað í upphafi, hafa ætíð verið áhugafólk um upplýsingatækni, sem kom víða að úr atvinnu- og viðskiptalífinu og spannaði litríka flóru upplýsingatækninnar. Starfsemi félagsins endurspeglar það á margvíslegan hátt.

Fyrsti formaður félagsins var Hjörleifur Hjörleifsson, fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur og stjórnarformaður SKÝRR um hríð. Hann gegndi formennsku til ársins 1975 og mótaði mjög starfshætti félagsins. Fljótlega var stofnuð orðanefnd félagsins, sem varð einn hornsteina starfseminnar. Aðrir í fyrstu stjórn Skýrslutæknifélagsins voru Gunnlaugur Björnsson varaformaður, Jakob Sigurðsson ritari, Svavar Jóhannsson féhirðir, Bjarni P. Jónasson skjalavörður og Magnús Magnússon meðstjórnandi en varamenn voru Sigfinnur Sigurðsson og Sigurður Þórðarson. Um sögu og starfsemi Skýrslutæknifélagsins er fjallað nánar í sérkafla.

 

[1] Paul Allen: Idea Man: A Memoir by the Co-founder of Microsoft, staðsetning (location) 718­–721 af 5087. Kindle-útgáfa. 2012.

[2] Fyrsti rafeindaheilinn kominn til landsins. Verður notaður hjá Skýrsluvélum ríkis og bæjar. Morgunblaðið, 6. okt. 1964, baksíða.

[3] Rafeindareiknivél Háskólans komin til landsins. Morgunblaðið, 16. okt. 1964, bls. 21.

[4] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það: Ottó A. Michelsen rekur minningar sínar. Hörpuútgáfan Akranesi, 1997, bls. 149.

[5] Vinnur ársverk á 8 klukkustundum. Alþýðublaðið, 230. tbl., 44. árg., 23. okt. 1963, bls. 16.

[6] Alþýðublaðið, 23. okt. 19 63, bls. 16 og 10.

[7] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það: Ottó A. Michelsen rekur minningar sínar. Hörpuútgáfan Akranesi, 1997, bls. 151.

[8] Nákvæm tala er 54.222.217 kr. miðað við neysluverðsvísitölu, með húsnæðisliðnum, en 50.102.336 kr. án hans. Útr. Hagstofa Íslands, apríl 2015.

[9] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það: Ottó A. Michelsen rekur minningar sínar. Hörpuútgáfan Akranesi, 1997, bls. 150.

[10] Magnús Magnússon prófessor emeritus: The advent of the first general-purpose computer in Iceland and its impact on science and engineering, 26.08.2003.

[11] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það: Ottó A. Michelsen rekur minningar sínar. Hörpuútgáfan Akranesi, 1997, bls. 151.

[12] Hjálmtýr Guðmundsson: Tölvusaga – punktar. 2015.

[13] Rafeindareiknirinn og segulmælingar. Tímarit verkfræðinga 5.­–6. tbl. 1964, bls. 78.

[14] Magnús Magnússon prófessor emeritus: The advent of the first general-purpose computer in Iceland and its impact on science and engineering, 26.08.2003.

[15] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[16] Magnús Magnússon: The advent of the first general-purpose computer in Iceland and its impact on science and engineering, 26.08.2003; O Benediktsson, J Gunnarsson, E B. Hreinsson, J Jakobsson, O Kaldalóns, O Kjartansson, O Rósmundsson, H Sigvaldason, G Stefánsson, J Zophoniasson: Computerisation of the Icelandic State and Municipalities: 1964 to 1985, Kynnt á The First Conference on the History of Nordic Computing, Trondheim, Norway, 15 - 17 June, 2003, Norwegian University of Science and Technology, bls, 45­–60.

[17] Að mestu byggt á: Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 16–85.

[18] Hjálmtýr Guðmundsson, athugasemdir í tölvupósti, mars 2016.

[19] Hjálmtýr Guðmundsson, athugasemdir í tölvupósti, mars 2016.

[20] Örn Kaldalóns, athugasemdir í tölvupósti, mars 2016.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild.

[23] Örn Kaldalóns og Hjálmtýr Guðmundsson. Viðtal tekið 24.9.2015.

[24] Örn Kaldalóns, athugasemdir í tölvupósti, mars 2016.

[25] Örn Kaldalóns og Hjálmtýr Guðmundsson. Viðtal tekið 24.9.2015.

[26] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 81–91.

[27] Verður búinn til vjelrænn heili með 10,000 frumum? Morgunblaðið, 17. nóvember 1949. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=107991&pageId=1274354&lang=is&q=rafheila

[28] Vélheili. Vísir, 9. ágúst 1946, bls. 2. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=80308&pageId=1160040&lang=is&q=V%E9lheili

[29] Þorsteinn Hallgrímsson í athugasemdum í apríl 2016: „Árið 1966 var almanakið stækkað að mun, eða upp í 32 síður. Það ár var tölva háskólans notuð í fyrsta sinn við hina stjörnufræðilegu útreikninga, og var þá unnt að birta sólargangstöflur fyrir sex staði á landinu. Einnig var bætt við kafla um hnetti himingeimsins, tímaeiningar o.fl.“

[30] Baldur Jónsson: Um orðið tölva, Sagnaþing helgað Jónasi Kristjánssyni sjötugum, 1994, bls. 37–38.

[31] Þessi kafli er byggður á innsendum texta: Hjálmtýr Guðmundsson, Örn Kaldalóns og Þorsteinn Hallgrímsson unnu textann í samvinnu í mars og apríl 2016 með athugasemdum frá Jóhanni Gunnarssyni.

[32] Sama.

[33] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 91–93.

[34] Tekur rúm á við þrjú meðalskrifborð. Vísir, 28. nóv. 1964, bls. 16.

[35] Hjálmtýr Guðmundsson, athugasemdir við handrit, apríl 2016.

[36] Í vist hjá IBM, svipmyndir úr sögu IBM á Íslandi. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Skýrslutæknifélag Íslands, öldungadeild, Reykjavík 2008, bls. 53-55 og 57–58.

[37] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 93-94.

[38] Sama heimild, bls. 99.

[39] Sama heimild, bls. 101–102; Lesa 1000 tákn á sek. — prenta 150 þúsund stafi á mínútu. Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkur 20 ára. Morgunblaðið 1. júní 1972, bls. 15.

[40] Skýrsluvélar þrefalda tölvubúnaðinn. Alþýðublaðið, 1. júní 1972; Skýrsluvélar 20 ára. Þjóðviljinn, 3. júní 1972.

[41] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 103-105. Þar er getið um dagblöðin sem þetta er tekið út, og dags.

[42] O Benediktsson, J Gunnarsson, E B. Hreinsson, J Jakobsson, O Kaldalóns, O Kjartansson, O Rósmundsson, H Sigvaldason, G Stefánsson, J Zophoniasson: Computerisation of the Icelandic State and Municipalities: 1964 to 1985, Presented at The First Conference on the History of Nordic Computing, Trondheim, Norway, 15 - 17 June, 2003, Norwegian University of Science and Technology.

[43] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld, Saga SKÝRR 1952-2002. SKÝRR, Reykjavík, 2002, bls. 107–108.

[44] Sama heimild, bls. 110.

[45] Sama heimild, bls. 109.

[46] Upplýsingar um Tölvustofnanir. Tölvumál, 1. tbl. 1979, bls. 11.

[47] Jóhann Gunnarsson. Viðtal tekið 28.10.2014.

[48] Reiknistofa bankanna. Bankablaðið, 1. júlí 1974, bls. 6.

[49] Sama heimild.

[50] Gunnar H. Blöndal: Stutt yfirlit um starfsemi Bankamanna skólans frá stofnun 1959 til 1975, Bankablaðið 1. april. 1975, bls. 58.

[51] Auglýsing. Þjóðviljinn 26. nóv. 1974, bls. 12.

[52] Auglýsing. Vísir, 3. júní 1975, bls. 4.

[53] Jón Ragnar Höskuldsson. Viðtal tekið 2.12 2014; Jón Ragnar Höskuldsson, athugasemdir í tölvupósti apríl 2016.

[54] Reiknistofa bankanna. Bankablaðið, 1. júlí 1974, bls. 7–8.

[55] Heimasíða Reiknistofu bankanna: http://www.rb.is/um-rb/saga/ Sótt 7.2. 2015.

[56] Bankarnir ætla að láta til skarar skríða vegna tékkamisferlis: Nálægt 4 þúsund tékkamál í gangi. Morgunblaðið 13. nóv. 1975, bls. 2.

[57] Áramótagjöf bankanna: Tékkasvik úr sögunni. Alþýðublaðið 21. nóv. 1975, 1.

[58] Þetta er bara hægt á Íslandi: EIN MIÐSTÖÐ FYRIR ALLA OKKAR BANKA. Dagblaðið 23. maí 1978, bls. 4.