Skip to main content

3. hluti: 1985-1994 - Einkatölvusprenging og netvæðing

Þegar tveir áratugir voru liðnir frá upphafi tölvualdar á Íslandi má segja að tölvutæknin hafi staðið á tímamótum. Stöðlun stýrikerfa hófst og þar með framgangur risans Microsoft. Þannig skapaðist grundvöllur fyrir vexti og viðgangi einkatölvunnar á heimsvísu.

Árið 1985 var mikið talað og skrifað um tölvutækni, Íslendingar höfðu nýverið uppgötvað einkatölvuna, námskeið voru víða haldin í meðferð hennar, ungt fólk var komið á kaf í að skrifa hugbúnað fyrir tölvur og jafnvel að selja hann til útlanda. Sífellt fleiri keyptu tölvur, stór og smá fyrirtæki, opinberar stofnanir og einstaklingar, eftir að tollar á tölvum voru felldir niður og söluskatturinn lækkaður verulega.

Tölvunet urðu til víðs vegar um heiminn, einkum hjá mennta- og rannsóknastofnunum, og fljótlega var farið að tengja þau saman í það net sem sem síðar þróaðist og varð almenningseign. 

Opinberir aðilar fóru að fikra sig í áttina að notkun á samtengdum einkatölvum (PC) í stað stór- og miðtölva; spurningin var hvorn valkostinn skyldi velja. Landsvirkjun var meðal þeirra sem völdu að kaupa einkatölvur í stað þess að nota stórtölvu og valdi því dreift tölvukerfi í stað miðstýrðs. Í því fólst líka að hægt var að kaupa tölvubúnað af hverjum sem væri, í stað þess að vera háður einum, stórum aðila.

Mjög ör þróun var í vinnslugetu tölvanna og brátt voru starfsmenn komnir með einkatölvur með 4 MIPS (millions instructions per second) hver, en miðtölvan/smátölvan VAX-11/780 frá Digital sem þessar mörgu PC-tölvur leystu af hólmi hafði verið 1 MIPS.[1] Á móti kom ör þróun annarra tölva en PC-nettengdu tölvanna. Það var valkostur sem margir litu hýru auga. Þetta voru fjölnotendatölvur sem hægt var að tengja við bæði skjái og annan búnað og Digital bauð upp á tímaskiptakerfi (time sharing) sem einnig var góður kostur fyrir sum fyrirtæki.

Samfélagslegt umrót, óðaverðbólga og svonefnt misgengi launa og skulda settu svip sinn á níunda áratuginn en um lok hans var gerð „þjóðarsátt“ í því skyni að stöðva víxlhækkanir launa og verðlags. Tíundi áratugurinn heilsaði með dálítilli efnahagskreppu hér á landi, á Norðurlöndum og víðar. Atvinnuleysi fór um stund vaxandi víða um land. En þetta var einnig tími nýrra hugmynda og trúar á afléttingu íþyngjandi regluverks. Trú sem að sumu leyti þróaðist upp í ofurtrú. Einkavæðing hófst á ýmsum sviðum samfélagsins. Ísland varð hluti af innri markaði ESB (þá EB) í gegnum EES og íslensk fyrirtæki mættu bæði aukinni samkeppni og tækifærum.

Vélbúnaður, forritunarmál, gagnagrunnar og stýrikerfi 1985–1994

Vélbúnaður og gagnavinnsla: Stórtölvur – runuvinnsla, beinlínuvinnsla um skjástöðvar og einkatölvur, fjarvinnsla. Margir notendur, margir viðskiptamenn; miðtölvur – margir notendur sem voru líka viðskiptamenn; beinlínuvinnsla um skjástöðvar og einkatölvu. Einkatölvur – einn notandi, mikill sveigjanleiki; samtenging einkatölva. Einkatölvur notaðar sem skjástöðvar við stórtölvur; stórtölvuhugbúnaður „fluttur á einkatölvur“ (servera). Biðlara-miðlaraumhverfið.

Forritunarmál þessa tíma voru: Fortran, Basic, LISP, Smalltalk, Clipper, RPG, PL/1, Natural.

Gagnagrunnar: Ýmsir venslaðir gagnagrunnar. Gögn á diskum, diskettum og segulböndum, ADABAS, Oracle, Informix. NorskData.

Stýrikerfi: MS-DOS, Windows 2.x, Windows 3.x, Windows NT, SunOS 2.x, SunOS 3,x, Version 8-9 Unix, OS/2, RISC OS, Linux 1.x, Linux RedHat.

Vafrar: Mosaic, Netscape Navigator, Internet Explorer.

Framtíð falin í hugbúnaðariðnaði?

Á ráðstefnu sem Alþýðubandalagið stóð fyrir haustið 1985 undir heitinu „Ný sókn“ flutti Páll Jensson, forstöðumaður Reiknistofnunar Háskólans, erindi þar sem hann ræddi meðal annars framtíðarhorfur í íslenskum rafeindaiðnaði. Hann taldi að yrði rétt haldið á málunum gætu þúsundir haft atvinnu af hugbúnaðariðnaði um næstu aldamót en ráðamenn virtust ekki átta sig á möguleikum tölvutækninnar í nýsköpun atvinnulífsins. Markaður fyrir hugbúnað stækkaði um fjörutíu prósent á hverju ári og í nágrannalöndunum væri milljörðum króna varið til þróunarstarfs og markvisst stefnt að því að gera tölvuiðnað að nýrri atvinnugrein. Hér á landi væri hún ekki til sem slík í opinberum skýrslum, þótt um þær mundir störfuðu tvö til þrjú hundruð manns við hugbúnaðargerð á Íslandi:

Þessi tala vex undra hratt eða líklega um fjórðung milli ára, sem þýðir um tíföldun eða eina stærðargráðu á hverjum áratugi. Fyrir tuttugu árum var greinin ekki til, fyrir tíu árum taldi hún nokkra tugi manna, og með sama vexti nokkur þúsund árið 1994. Erum við þá virkilega að tala um atvinnumöguleika fyrir nokkra tugi þúsunda upp úr næstu aldamótum?[2]

En mikilvægt væri að bregðast við: „Ef ekki, þá höfum við misst af tækifærum, sem allar nágrannaþjóðir okkar munu grípa, og valið okkur sess meðal láglaunaðra og vanþróaðra ríkja heims.“

Tölvusetning blaða hefst

Ýmislegt var þó að gerast á Íslandi, sem gat gefið von um að innlendur hugbúnaðariðnaður ætti sér von. Þannig vakti fyrirtækið Rafrás hf. athygli þetta haust fyrir þýðingar- og samskiptaforrit, hannað í samvinnu við Raunvísindadeild Háskólans, sem gerði kleift að flytja texta sem sleginn hafði verið inn á tölvu beint inn í setningarbúnað prentsmiðju. Þessi bylting átti eftir að hafa mikil áhrif á alla vinnu í prentsmiðjum. Frá því fjögur dagblöð sameinuðust um rekstur prentsmiðjunnar Blaðaprents, árið 1970, höfðu þau verið unnin í svonefndri offsettækni. Hún var að vissu leyti byggð á tölvutækni, en allur texti þó hamraður á ritvélar, síðan sleginn inn á setningarvél sem færði hann inn á gatastrimil og svo þræddur í gegnum „rafmagnsheila“ sem spýtti textanum út úr sér á ljósnæmum pappír. Textaræmurnar voru að lokum skornar niður í hæfilegar lengdir og límdar inn á síðurnar, sem voru yfirfærðar á sérstakar plötur og þær að lokum settar á rúllur prentvélanna.[3]

Öllum þessum handtökum átti tölvutæknin eftir að útrýma. Áratug eftir að Blaðaprent tók til starfa, í kringum 1980, voru blaðamenn farnir að slá textann beint inn á tölvur. Það féll í misgóðan jarðveg meðal lærðra prentara og í málgagni þeirra, Prentaranum, voru þessari nýju tækni gerð góð skil árið 1979 (5.–8. tbl.). Haft var eftir skólastjóra sænska blaðamannaskólans, Lars Furhoff, að reynslan hefði verið „vægast sagt ömurleg“. Það var niðurstaða hans eftir hálfsmánaðardvöl hjá bandaríska stórblaðinu New York Times, þar sem blaðamenn hefðu að miklu leyti tekið yfir störf prentara. Útlit blaðsins hefði versnað til muna, efni blaðsins væri allt óvandaðra og verr unnið og blaðamennskan öll yfirborðskenndari. Sala blaðsins og auglýsinga í það hefði minnkað verulega.[4] Sums staðar á Norðurlöndum urðu tafir á þessari þróun en hér á landi völdu stéttarfélögin að ganga til samvinnu við útgefendur um innleiðingu nýrrar tækni.

Norsk Data á Íslandi

Morgunblaðið og síðar DV og Vikan notuðu útgáfukerfi frá Norsk Data á níunda áratugnum. Upphaflega var kerfi frá Norsk Data notað til að halda utan um textavinnslu og gögn með uppflettimöguleikum og þótt það mikið nýnæmi, eins og lesa mátti í Morgunblaðinu 2. nóvember 1983.

Þetta kerfi býður í framtíðinni upp á fleiri möguleika við textavinnsluna, til dæmis getur kerfið tekið við greinum, sem hafa sögulegt gildi og nauðsyn er á að geyma. Þessar greinar mun tölvan skrá í sérstakt safn, er síðan er hægt að leita í út frá ýmsum lykilorðum eða nöfnum. Ennfremur er unnt að geyma inn í þessu kerfi ýmsar upplýsingar, sem koma blaðamönnum að notum við frétta- og greinaskrif. Aðrir möguleikar, sem gefast munu í framtíðinni er útlitsteiknun á skerma, en allt slíkt er handvirkt enn í dag.[5]                                                                                                                    

Augljóslega sá greinarhöfundur ekki fyrir sér að allar greinar yrðu varðveittar og aðgengilegar innan tveggja áratuga né fleira sem fylgdi þeirri byltingu sem fyrir höndum var. Norsk Data á Íslandi var á þessu tímabili til en varð ekki langlíft og mest var skipt beint við Norsk Data í Noregi.

Metnaðarfull tilraun með ADA-þýðanda

Nokkrir Íslendingar reyndu á þessum tíma að hasla sér völl erlendis á sviði hugbúnaðariðnaðar. Ein þeirra tilrauna var markaðssetning erlendis á fyrsta forritaþýðanda forritunarmálsins ADA á vélamál, sem einkatölvur skildu. ADA var upphaflega skrifað fyrir bandaríska varnarmálaráðuneytið og sniðið fyrir stórtölvur. Þarna voru á ferðinni Vilhjálmur Þorsteinsson og félagar hans hjá Íslenskri forritaþróun. Þeir stofnuðu árið 1985 nýtt fyrirtæki, Artek, sem hafði það verkefni eitt að vinna að þessum forritaþýðanda. Því var hrundið af stað með hjálp Frumkvæðis hf., sem hafði beinlínis verið stofnað í þeim tilgangi að hjálpa nýjum fyrirtækjum í hugbúnaðariðnaði, með því að leggja fram áhættufjármagn og draga sig svo út úr fyrirtækjunum þegar rekstur þeirra væri kominn vel á veg. Félagarnir voru stórhuga, auglýstu í erlendum tölvutímaritum, áætluðu að stofna útibú í Bandaríkjunum og stefndu á að selja þúsund þýðendur en 200 hefðu dugað til að fá til baka þróunar- og auglýsingakostnað.[6]

Artek hóf útflutning vorið eftir, fyrst til Bandaríkjanna, og hafði þar einn starfsmann en síðan fór afurðin að seljast í Evrópu og fyrirtækið opnaði skrifstofu í Frakklandi þar sem sex menn einbeittu sér að sölumennskunni. Franska menntamálaráðuneytið undirritaði samning um kaup á hugbúnaðinum fyrir þarlenda háskóla og yfirvöld í öðrum Evrópulöndum íhuguðu málið. „Við gerðum okkur grein fyrir því að hugbúnaður okkar væri nokkuð á undan tímanum þegar hann kom á markað,“ sagði Vilhjálmur Þorsteinsson stjórnarformaður og forritari við Morgunblaðið, og hélt áfram: „Nú er markaðurinn að vakna og þá er mikill akkur í því að vera þekkt nafn.“ [7]

Þrátt fyrir góðar viðtökur erlendis reyndist markaðssetningin of kostnaðarsöm svo gripið var til þess að bjóða Artek til sölu erlendis og samið við bandaríska fyrirtækið Lattice um markaðssetningu. Áætlanir voru uppi um að auka hlutafé í Artek og styrkja stöðu þess hér á landi.[8] Vilhjálmur rifjaði upp 28 árum síðar að þeim hefði tekist ljúka þessu þannig að fjárfestarnir hefðu sloppið þokkalega skaðlausir frá því:

En þetta varð ekki sú sigurganga sem sumir höfðu spáð. Ég held samt að í prinsippinu hefðum við alveg getað náð þessu. Sum félaganna sem við vorum að keppa við voru ekkert stærri en við eða öflugri, útaf fyrir sig, í starfsmannafjölda, tæknilegri getu eða slíku. Það sem hinsvegar háði okkur á þessum tíma var að okkur vantaði útflutningsþekkingu, menn kunnu ekki á þetta, að starfa erlendis. Það vantaði lögfræðiþekkingu og þekkingu á markaðssetningu, menn […] kunnu ekki að gera áætlanir, vissu ekki hvað hlutirnir kostuðu. En þetta hefur alveg gjörbreyst. Það tók alveg áratug að læra á þetta. Svo komu fyrirtæki eins og Oz, sem fóru í gegnum þetta allt, fengu peninga erlendis, réðu fólk erlendis, gerðu samstarfssamninga, og upp úr þessu hafðist gríðarleg þekking, sem fór svo víða og fólkið úr Oz stofnaði ný félög, hvaða skoðun sem maður svo hefur á Oz.[9]

Frá TölvuMyndum til TM Software

Árið 1986, þegar mikið var að gerast í tölvutækni á Íslandi, stofnuðu tveir ungir menn, Friðrik Sigurðsson og Bjarni Júlíusson, hugbúnaðarfyrirtækið TölvuMyndir. Þeir sérhæfðu sig í hönnun tölvukerfa með myndræna framsetningu og lögðu „ennfremur mikla áherslu á hönnun og forritun gagnasafnskerfa, ýmist til stuðnings myndbirtingar eða stakra kerfa“.[10] Eitt af fyrstu verkefnum þeirra var að sjá um tölvugrafík í fyrsta kosningasjónvarpi Stöðvar 2 og sagði Friðrik rúmum þrjátíu árum seinna að það hefði vissulega ýtt þeim úr vör. Bjarni hvarf til annarra starfa en Friðrik hélt áfram rekstri TölvuMynda. TölvuMyndir urðu brátt stórveldi á íslenskum tölvumarkaði og Friðrik Sigurðsson lyfti grettistaki í þróun fyrirtækisins, í því rekstrarumhverfi sem var á Íslandi fyrir fyrirtæki af þessari stærðargráðu.[11]

Upp úr þessu skrifuðu Friðrik og Bergþór Skúlason, sem vann einnig við þetta kosningakerfi, lítið PC-forrit sem hét Þjóðráður og var sett á markað. Ef slegnar voru inn kosningatölur eða -spár reiknaði það út hverjir næðu kjöri og unnt var að „leika sér“ með þessa útreikninga líkt og gert var í kosningasjónvarpi. Þetta forrit seldist allvel, meðal annars keyptu það þingmenn og fjölmiðlamenn. Friðrik segir að þarna hafi hann áttað sig á því að unnt væri að skrifa forrit og selja á Íslandi.

Áratug síðar kom Burðarás inn sem hluthafi í TölvuMyndum. Í framhaldi var ákveðið að færa fyrirtækið inn í Skyggni, sem var hýsingarfyrirtæki. Skyggnir var að jöfnu í eigu Burðaráss hf., sem var aftur í eigu Eimskips, og Strengs hf., hugbúnaðarhúss. Með sameiningu þessara fyrirtækja rann aukið fé inn í hugbúnaðariðnaðinn en áður höfðu peningamenn ekki sýnt eins mikinn áhuga á að fjárfesta þar.[12] Rekstur hugbúnaðarfyrirtækisins gekk vel næsta áratuginn og það sótti á erlenda markaði; hafði starfsstöðvar í tólf löndum árið 2005. Nauðsynlegt þótti að breyta nafninu og gera það alþjóðlegt og TM Software varð fyrir valinu. Undir því voru sameinuð allmörg dótturfyrirtæki TölvuMynda, sem einbeittu sér hvert um sig að gerð hugbúnaðar fyrir ákveðin svið, lausnir fyrir sjávarútveg, upplýsingakerfi á heilbrigðissviði, hugbúnað fyrir fjármálafyrirtæki og veitukerfi.[13] Árið 2006 voru starfsmenn orðnir 450 og viðskiptavinir 1800. En á seinni hluta þess árs vildi einn af eigendunum selja eina einingu fyrirtækisins en Friðrik ekki. Hann ákvað því að láta af störfum sem framkvæmdastjóri en TM Software rann fljótlega að mestu leyti inn í Nýherja.[14]

Hér er hins vegar ástæða til þess að staldra við og spyrja hver geti verið skýringin á því að þessi nýja atvinnugrein, hugbúnaðargerð, blómstraði í höndunum á þeim TölvuMyndamönnum. Friðrik Sigurðsson skýrir það svo og byggir á langri reynslu:

Hugmyndafræðin var að ná stöðu á íslenska markaðnum, skilja hann og ná síðan stöðu á erlendum markaði. Þetta virkaði því ef við hefðum ekki gert þetta þyrfti okkar fólk að vinna við erlend kerfi og skapa verðmæti fyrir aðra. Það er ekkert mál að hafa fullt að gera við innleiðingu kerfa frá öðrum löndum, en í staðinn sköpuðum við mikil verðmæti innanlands. TölvuMyndir uxu upp í 450 manna fyrirtæki, langstærsta hugbúnaðarfyrirtæki á Íslandi og var alla tíð langstærsti vinnustaður tölvunarfræðinga á Íslandi.[15]

Haustið 1991 var áætlað að um fjörutíu fyrirtæki væru starfandi í hugbúnaðariðnaði með um þúsund manns í vinnu. Í september tóku um tuttugu þeirra sig saman og stofnuðu Samtök íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja til þess að vinna að hagsmunamálum hugbúnaðariðnaðar á Íslandi og stuðla að eflingu hans, innanlands sem utan. Formaður samtakanna var kosinn Friðrik Sigurðsson hjá TölvuMyndum og Morgunblaðið hafði eftir honum að atvinnugreinin hefði ekki notið aðstoðar né fyrirgreiðslu af nokkru tagi og því mikilsvert að stofna eigin hagsmunasamtök. Fyrsta verkefni samtakanna átti að vera að fá viðurkenningu stjórnvalda á því að hugbúnaðargerð væri iðnaður.[16]

Tölvuvæðing í þágu landbúnaðarins

Nýting tölvutækni í þágu landbúnaðarins bauð upp á ýmsa möguleika og langt er síðan bændur tölvuvæddust. Búreikningastofa landbúnaðarins í Bændahöllinni tók tölvutæknina í sína þjónustu á sjöunda áratugnum. Hvernig kom þetta vinnuumhverfi Þorbjörgu Oddgeirsdóttur fyrir sjónir, er hún kom úr verslunarnámi í Edinborg seint á sjöunda áratugnum?

Þegar ég kem heim frá Edinborg árið 1968 má segja að það sé lítil kreppa hér og það var ekki auðvelt að fá vinnu. […] Góð vinkona mín vann á Búreikningastofu landbúnaðarins og hún lét mig vita að það vantaði starfskraft í tölvuskráningu. Ég sótti um og fékk starfið. Við vorum tvær í götunardeildinni, við skráðum upplýsingar á löng gataspjöld. Það fyrsta sem við skráðum voru sauðfjárskýrslur og hrútaskýrslur ásamt bókhaldi bænda.

Á þessum tíma var tölvuvæðing Búnaðarfélags Íslands að byrja. Ég var tvítug þegar ég kom hingað til starfa og var langyngst á vinnustaðnum. ... eldri starfsmönnum þótti það algjör firra að ráða inn tvær stelpur og koma með eitthvert tæki fyrir þær að vinna á. Þetta var hugarfarið í þá daga en Ketill A[rnar] Hannesson, yfirmaður búreikningastofunnar og Sveinn Hallgrímsson sauðfjárræktarráðunautur, sem við unnum náið með, voru mjög almennilegir alla tíð.

Móðurtölvan hjá Mjólkursamsölunni

Á þessum árum voru um fjörutíu starfsmenn í Bændahöllinni og segir Þorbjörg starfsemina hafa líkst umhverfinu sem er í dag með tilkomu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML).
„Ketill var sá sem forritaði allt en við þurftum að vinna allt í móðurtölvu úti í bæ sem var fyrst staðsett hjá IBM en lengst af hjá Mjólkursamsölunni við Laugaveg þar sem við vorum með aðstöðu. Við þurftum að fara með öll gataspjöldin þangað en síðan breyttist það og stór tölva kom með stórum floppídiskum á undan stóru PC-tölvunum,“ útskýrir Þorbjörg og segir jafnframt:

Við vorum með aðstöðu á annarri hæðinni í Bændahöllinni þar sem jafnframt var kaffistofa fyrir starfsmenn eftir að Upplýsingaþjónusta ameríska hersins og bókasafn þeirra flutti út úr húsi. Við vorum hluti af tölvudeild fyrirtækisins. […] Hér voru reiknaðar út jarðræktarskýrslur og hér var líka Vélasjóður sem var með skurðgröfumenn í vinnu úti um allt land og var í nánu samstarfi við ræktunarsamböndin.[17]

Þá er vert að geta um sláturhúsakerfi Marels sem breytti aðstæðum í allri vinnslu í sláturhúsum.

Sjávarútvegurinn og framþróunin – Hafró í fararbroddi

Tölvubúnaður, bæði vél- og hugbúnaður, var snemma snar partur í framþróun sjávarútvegsins. Hafrannsóknastofnun hefur oft komið við sögu í íslenskri tölvuvæðingu. Þar á bæ voru áhugasamir einstaklingar sem skildu vel möguleika tölvanna. Á níunda áratugnum var Þorkell Helgason stærðfræðingur að vinna fyrir Hafró við gerð líkana sem mátu stærð og þróun þorskárganga.[18] Í Þjóðviljanum í janúar 1984 er viðtal við Þorkel í kjölfar fundar Líffræðingafélagsins og Hafró. Þar kemur fram að unnið hafði verið að gerð ítarlegs reiknilíkans af fiskistofnum og fiskveiðum hér við land á vegum nokkurra stofnana um fjögurra ára skeið. Fremstar í flokki í þeim hópi voru Raunvísindastofnun Háskólans og Hafrannsóknastofnun. Á þessum tíma var ofveiði, einkum á þorski, mjög til umræðu hér á landi og skammt í að kvótakerfið yrði sett á. Þorkell segir um notagildi líkansins í viðtalinu: 

Þorkell.Helga.veidar
Frétt Þjóðviljans um hugbúnað fyrir stjórnun fiskveiða, Þorkell Helgason á kynningarfundi.

Reiknilíkön eru til þess að prófa hugmyndir. Ekki til þess að taka með þeim ákvarðanir, það er verkefni stjórnmálamannanna. Hinn eini sannleikur fæst kannski ekki með því einu að láta tölvu reikna fyrir sig […] . Það má sem dæmi nefna, að hægt er að spá nokkur ár fram í tímann um þorskafla og afkomu þorskveiðiflotans að gefnum forsendum um stærð, samsetningu og gerð fiskiskipaflotans. Ennfremur má prófa áhrif ýmissa breytinga á fiskiveiðistjórn, svo sem aukningu eða minnkun á skrapdagakerfinu eða áhrif á möskvastærðarbreytingar. Þá hefur verið unnið að útvíkkun á reikniaðferðum við stofnstærðarmat og mælingu sóknar. Hefur þar verið beitt tölfræðilegum aðferðum sem gerir það m.a. kleift að áætla óvissu í stofnstærðarmati. […] reynt hefur verið að áætla stærð fiskigangna frá Grænlandi, en óvissa um þessar göngur veldur vandamálum við allt mat á stofnstærð.[19]

Skrifstofuhugbúnaður

Margt af þeim hugbúnaði sem fluttur var inn, aðlagaður eða jafnvel skrifaður frá grunni á Íslandi flokkast undir það sem kalla má skrifstofuhugbúnað og margir voru um hituna á þeim markaði. Ritvinnsla og töflureiknar voru hluti af honum, einnig utanumhald á skjölum og ýmsir fleiri eiginleikar, stundum mismunandi milli hugbúnaðarkerfa en oft og tíðum með áþekka virkni, enda þarfirnar þekktar.

ALL IN 1 skjámynd 1990
Skjámynd af ALL-IN-1 hugbúnaðinum frá Digital (KÓS) frá seinni hluta 9. áratugarins fram yfir 1990

ALL-IN-1 frá Digital var hugbúnaður frá Kristjáni Ó. Skagfjörð og var sterkur á markaði á árunum kringum 1990. KÓS lét laga hugbúnaðinn að íslenskum aðstæðum. Sigurður G. Tómasson var fenginn til þess að þýða notendaviðmótið á íslensku. Kerfið fól í sér tölvupóst, dagatal og tímaskipulag, addressubók, ritvinnslu og skjalavörslu. Auk þess mátti innlima utanaðkomandi kerfi í ALL-IN-1, til dæmis töflureikna, sem fylgdu ekki með kerfinu.

Ritvinnslukerfið frá Digital (WPS-PLUS) hentaði ekki íslenskunni og því var brugðið á það ráð að kaupa þýskt kerfi (DECtext) sem leyfði nauðsynlegar breytingar. Þarna var í mörg horn að líta. Gísli Már Gíslason vann til að mynda við að kenna forritinu að skipta orðum milli lína samkvæmt íslenskum reglum. Töflureiknir sem fylgdi íslensku útgáfunni var 20/20 frá Access Technology.

Meðal þeirra sem notuðu þetta kerfi var Vegagerðin sem nýtti það með tengingu við margar útstöðvar stofnunarinnar. Kerfið var einnig notað í Seðlabanka Íslands. Skjáirnir sem notaðir voru sýndu eingöngu texta; grafískir skjáir komu ekki fyrr en síðar.[20]

Töflureiknar fyrir tíma Excel
Visicalc-töflureiknirinn fyrir Apple-einkatölvur kom fyrst fram á sjónarsviðið hér á landi árið 1981. Fyrstu auglýsingunum um þennan hugbúnað var sérstaklega beint til þeirra sem áttu viðskipti við tollvörugeymsluna. Það var Radíóbúin sem auglýsti þennan hugbúnað svona:

tollvorugeymslan
Apple-tölvur með margvíslegum hugbúnaði sem gagnast við erfiðar aðstæður. Auglýsingin birtist í ýmsum myndum frá 1981.

VERSLARÐU VIÐ TOLLVÖRUGEYMSLUNA?

Þá átt þú erindi við Apple-tölvuna.

Ert þú að dragast afturúr bara af því þú hefur ekki tölvu? Klukkustundir verða að mínútum. Allir kannast við pappírsflóðið, sem fylgir Tollvörugeymslunni og alla vinnuna. Það er því ómetanlegt að hafa möguleika á að útbúa nauðsynleg gögn til úttektar á sem skemmstum tíma.

Ert þú einn þeirra sem segir við viðskiptavin. „Ég gat ekki afgreitt þetta í dag, þetta er nefnilega inni í Tollvörugeymslu“, og viðskiptavinurinn fer ef til vill annað? Hefur þú efni á því?

Ein af þeim lausnum sem fylgdu Apple-tölvunni til að leysa þetta mál var einmitt töflureiknirinn Visicalc. 

Árið 1983 má fyrst sjá merki þess að töflureiknirinn Multiplan fyrir PC-tölvur hafi hafið innreið sína á Íslandi. Það ár er tölvan Panda 64 auglýst í Frjálsri verslun og sérstaklega tekið fram í auglýsingu frá I. Pálmason að hún sé búin Multicalc fyrir áætlanagerð. Þess er getið í auglýsingunni að um erlendan hugbúnað sé að ræða.[21] Verslunin Benco auglýsti ári síðar NEC-APC-tölvur, 16 bita einkatölvu með 2,4 milljóna stafa diskarými með Multicalc, í sama blaði.[22] En það var ekki nóg að bjóða upp á töflureikni, það þurfti líka að kunna að nota hann.

Tölvuskólinn Tölvufræðslan auglýsti í Frjálsri verslun árið 1985 námskeið í töflureikninum Multiplan með svohljóðandi texta:

Töflureiknarinn

MULTIPLAN

Notkun töflureikna er að verða mjög útbreidd við skýrslugerðir, fjárhagsáætlanir og rekstraráætlanir. …

Námskeiðið veitir góða æfingu í notkun töflureiknisins Multiplan og áætlanagerð í litlum fyrirtækjum.[23]

Bókhald – þegar fundur hjá sáttasemjara gat gerbreytt kerfinu
Bókhaldsforrit, hvort sem voru birgða- eða launabókhald eða annað bókahald, voru af ýmsum stærðum og gerðum, íslensk og erlend og bæði stakstæð og með tengingu í önnur forrit. Það gerði mönnum oft erfitt fyrir við að tölvuvæða launabókhald hversu miklar breytingar gátu verið gerðar á kröfum til bókhalds, forsendum og því sem ætlast var til að haldið væri utan um. Þetta var að nokkru leyti séríslenskt fyrirbrigði og á ofanverðum níunda áratugnum var ekki einungis tekin upp staðgreiðsla skatta, heldur gerðar margháttaðar breytingar sem meðal annars gátu gerbreytt öllum forsendum í launakerfum. Félagarnir Ágúst Guðmundsson og Eggert Claessen hjá Tölvumiðlun fluttu til að mynda inn erlent launakerfi á árinu 1988 og fóru út í að aðlaga það íslenskum aðstæðum. Þegar varan var orðin fullmótuð og „stabíl“ kom upp eitt og annað sem kallaði á breytingar. Næturlangir fundir hjá sáttasemjara gátu gerbreytt forsendum í kerfinu og þingfundur á milli jóla og nýárs, með mikilvægum lagabreytingum, aftur kollvarpað því sem var búið að setja inn í það. Tvö skattþrep og breytingar á þeim voru flækjustig sem einnig útheimti yfirlegu og forritunarkunnáttu. Þeir sem ekki voru með forritara á sínum snærum duttu út úr samkeppninni og hækkuðu þröskuldinn fyrir aðra sem vildu hasla sér völl á sama sviði.[24] Hugbúnaðurinn H-laun var ein af lausnunum sem voru þróaðar til að mæta þessum aðstæðum, en hann var sérhæfður fyrir launaútreikninga.

Landupplýsingakerfi – svo hver og einn þyrfti ekki að grafa eigin skurð

Upphaf samvinnu um Landupplýsingakerfi Reykjavíkur var samstarfsverkefni borgarverkfræðings, rafmagnsveitunnar, hitaveitunnar, vatnsveitunnar og símans. Gagnaveitan bættist við síðar. Samsýn annaðist sölu og þjónustu við kerfið. Síðar kom Borgarvefsjáin, notendaviðmót byggt á vafra sem geymir ekki gögn en sækir í fyrrgreint kerfi.[25]

Þegar farið var að huga að samræmingu á vinnu símans, hitaveitunnar, vatnsveitunnar og rafmagnsveitunnar, sem hver um sig hafði eigin teikningar fyrir lagnir, komu skipulagsyfirvöld í Reykjavík einnig inn í myndina. Þetta var ákveðið að samræma svo borgin yrði ekki útgrafin og hver og einn þyrfti að grafa sinn eigin skurð fyrir sínar lagnir. Á stórsýningu tölvunarfræðinema við Háskóla Íslands í nýbyggingu Borgarleikhússins í október 1986 var landsupplýsingakerfið fyrst sýnt og vakti myndræn framsetning á Reykjavíkurborg mikla athygli.[26]

Leitað var fanga erlendis og skoðuð kerfi sem gætu hentað fyrir Ísland, til dæmis með tilliti til aldursdreifingar. Horfa þurfti fram í tímann og átta sig á því hvernig líklegt væri að standa þyrfti að uppbyggingu á leikskólum og skólum svo eitthvað sé nefnt. Kerfi frá ESRI í Kaliforníu, Arc/Info var valið. Efnt var til útboðs og var HP á Íslandi falið að sjá um vélbúnaðarhluta kortaupplýsingakerfisins 1990.[27] Borgarvefsjáin, sem löngu síðar kom fram, er af sama toga og geymir margs konar landupplýsingar.

Tölvuráðgjöf og fagmennska

Fáar greinar hafa vaxið jafnhratt og upplýsingatæknigeirinn. Á fyrstu áratugunum voru oft hlutfallslega hærri upphæðir í húfi fyrir fyrirtæki og stofnanir við val á tölvubúnaði en nú. Því fóru menn að leita ráðgjafar við val á tölvubúnaði og upp spratt umræða um fagmennsku á því sviði.

Í Tölvumálum Skýrslutæknifélagsins í ársbyrjun 1988 er þetta mál á dagskrá. Þá ritar Stefán Ingólfsson verkfræðingur um þörfina á því að koma á fót fagfélagi tölvuráðgjafa og segir meðal annars:

Þeir sem kalla sig tölvuráðgjafa eiga ekki nema nafnið sameiginlegt. Í hópi þeirra eru margir hæfir menn sem hafa mikinn starfsmetnað og hafa skilað góðu starfi. Aðrir kalla sig ráðgjafa í tölvumálum þó að störf þeirra eigi lítið sammerkt með ráðgjöf. Oft er um illa dulbúna sölumennsku að ræða. …

Aðili, sem leitar ráða hjá sérfróðum aðila um hvernig hann geti best komið tölvumálum sínum verður að geta treyst því að ráðgjafinn eigi ekki hagsmuna að gæta. Þessi hagsmunatengsl eru af ýmsum toga. Augljósust eru þau að sjálfsögðu þegar “ráðgjafi“ mælir með því að keyptur sé tölvubúnaður sem hann flytur sjálfur inn eða notað tölvukerfi sem hann eða fyrirtæki hans hafa hannað. Sama máli gildir þegar “ráðgjafinn“ tekur við þóknun frá tölvuinnflytjenda.[28]

Þessi orð ritaði Stefán í tilefni af því að á komandi aðalfundi Skýrslutæknifélagsins átti að fjalla um efnið og Halldór Kristjánsson, þá nýlega orðinn stjórnarmaður í Skýrslutæknifélaginu, hélt erindi um málefnið. Halldór hafði komist á snoðir um að þvíumlík vinnubrögð væru alsiða. Væri þessi raunin taldi hann að ekki væri hægt að tala um óháða ráðgjöf, en ekki varð hann sérlega vinsæll fyrir vikið. Í framhaldi af umfjöllun hans voru settar reglur um ráðgjöf af þessu tagi fyrir ríkisstofnanir og hann fékk að heyra að hann væri kallaður „Halldór heiðarlegi“ og þá ekki til hróss. „Ég var ungur og prinsippmaður,“ segir Halldór, en hann gladdist yfir því að þessi vinnubrögð voru aflögð.[29]

Í næsta tölublaði Tölvumála er umfjöllun Halldórs sjálfs um málið þar sem hann segir meðal annars:

Æ oftar heyrast þær raddir að óeðlilegt sé að sama fyrirtækið sé ráðgefandi og eigi síðan þátt í sölu vél- eða hugbúnaðar beint eða óbeint. Þetta valdi hagsmunaárekstrum sem oftar en ekki bitna á viðskiptamönnum þess. Því miður er margt sem bendir til þess að tölvuráðgjöf hér á landi eigi lítið skylt við hefðbundna ráðgjöf sem tíðkast hefur hér á landi um langan aldur og til dæmis verkfræðistofur og rekstrarráðgjafar veita. Þegar fyrirtæki leitar til ráðgjafa ætlast það til þess að fá faglega úttekt á þörfum sínum og ráðgjöf um val á leiðum til að leysa tiltekin vandamál eða verkefni.[30] 

Halldór bendir í grein sinni á betri vinnubrögð, sem myndu felast í eftirfarandi skrefum:

 1. Þarfagreiningu fyrirtækis.
 2. Úttekt á leið leiðum sem til greina koma.
 3. Þarfagreiningu deilda og starfsmanna.
 4. Tillögu um uppbyggingu kerfis (skýrslu).
 5. Útboði
 6. Mati á útboðum
 7. Samningagerð og pöntun
 8. Eftirliti
 9. Eftirfylgni, fylgst með þróun tölvumála innan fyrirtækis.[31]

Í kjölfar erindisins og greinarinnar var umfjöllun í viðskiptahluta DV, sem vakti talsverða athygli. Þar segir Halldór einmitt frá því atviki sem vakti áhuga hans á að uppræta þessi vinnubrögð:

Halldór segir ennfremur að sér hafi verið boðin þóknun frá ákveðnu fyrirtæki fyrir að ráðleggja mönnum að kaupa tölvur þess. „Þar bauðst mér allt að 20 prósent þóknun. Ég benti á móti á að þetta snerist um siðgæði, það að bera fyrst af öllu hag tölvukaupandans sem leitar hefur til þín fyrir brjósti.“[32]

Halldór liggur ekki á skoðun sinni á þessum skorti á fagmennsku. „Það er ekkert annað en fullkomið siðleysi í viðskiptum þegar einhver maður sem hefur gott hvolpavit á tölvum opnar stofu sem ráðgjafi og ráðleggur mönnum síðan út og suður að kaupa ákveðna tegund af tölvu sem hann fær þóknun fyrir að ráðleggja.“[33]

Nettengingar og tölvusamband við umheiminn

Allt frá því um 1980 hafði IBM á Íslandi á leigu fasta símalínu til Vínarborgar og tengdist þannig alþjóðaneti IBM og væntanlega hafa ýmis önnur tölvufyrirtæki tengst sínum birgjum á sama hátt. Aðrar tengingar voru ekki fyrir hendi.

Árin áður en internetið varð almenningseign

Ýmsir reyndu að nýta sér tæknina til hraðari og öflugri samskipta áður en internetið varð almenningseign. Á seinni hluta níunda áratugarins voru ýmsar snjallar lausnir prófaðar. Meðal annars notaði íslenskt fyrirtæki þeirra Halldórs Kristjánssonar og Guðmundar Ólafssonar þá tækni að senda telex-skeyti gegnum tölvu og bauð upp á það í áskrift. Varð þessi þjónusta nokkuð vinsæl, en dó fljótlega út með tilkomu tölvupóstsnotkunar almennings og internetsins.[34]

Fyrir daga TCP/IP voru fjarskipti bundin í misjafna samskiptastaðla sem buðu upp á greið samskipti milli þeirra sem notuðu sama kerfi en gátu hins vegar ekki haft samskipti sín á milli. Meðal þeirra sem var að finna hér á landi var SDLC frá IBM, sem var allsráðandi hjá Reiknisstofu bankanna, SKÝRR og Sambandinu, sem voru með tengingar úti um allt land. Digital var með eigið samskiptakerfi og sömu sögu má segja um Burroughs, Data General og Quante.[35]

Hugbúnaður sem leyfði faxsendingar gegnum tölvu var notaður hjá Kristjáni Ó. Skagfjörð um miðjan níunda áratuginn samhliða tölvupósti og ekki fullljóst hvaða samskiptatækni yrði ofan á. Það voru einkum starfsmenn tölvudeildarinnar sem nýttu ýmiss konar tækni til samskipta við útlönd: telex, fax og X.25-tölvupóst. [36]

Stórfyrirtæki tengdust inn á net með mótöldum og telextæki. Mótöld voru býsna dýr og álagning mikil. „Það var varla á færi venjulegs heimilis að kaupa mótald enda voru þau í upphafi ekki til á heimilum, nema hjá einstaka nördum,“ segja fyrrum starfsmenn Tæknivals.[37] Það leiddi til þess að einn af starfsmönnum fyrirtækisins, Ómar Örn Ólafsson, var sendur til Taívan til að finna miklu ódýrari mótöld og flytja inn. Sá galli var á gjöf Njarðar að innflutningsleyfi voru vandfengin og hlíttu reglum um innhringingar frá Pósti og síma. Reglurnar voru verulega íþyngjandi en voru réttlættar með því að ella væri hætt við að símkerfi landsins legðist á hliðina. Ómar var því settur í að forrita mótald, sem hlítti öllum reglunum. Það tókst og þótt ferðin til Taívan hafi verið dýr varð hún ábatasöm í sölu.[38] 

Háskólinn fær tölvur að gjöf

Á níunda áratugnum var talsvert um að leiðandi fyrirtæki í tölvurekstri gæfu tæki til stórra aðila, svo sem Háskóla Íslands, og höfðu þau þannig oft áhrif á næstu skref tölvuvæðingar HÍ.

Síðsumars 1985 skýrði Guðmundur Magnússon háskólarektor frá því á blaðamannafundi að IBM á Íslandi hefði gefið Háskóla Íslands tölvubúnað. Tölvunni fylgdi stjórn- og fjarskiptabúnaður, ásamt fjárstyrk til að standa undir símakostnaði til ársloka 1987.[39] Nokkru fyrr á árinu hafði Kristján Ó. Skagfjörð afhent forsvarsmönnum Reiknistofnunar aðra tölvu að gjöf, í tilefni af tuttugu ára afmæli stofnunarinnar. Hún var af gerðinni Professional 380, sú nýjasta og öflugasta í þeirri tölvufjölskyldu, og unnt var að tengja hana við þær tvær VAX-tölvur sem RHÍ hafði áður keypt af Skagfjörð og Digital, með svonefndu Ethernet-nærneti.[40] Þetta varð vísirinn að tölvuneti Háskóla Íslands sem enn í dag byggir alfarið á Ethernet, sem er lagið undir TCP/IP.[41]

Ekki reyndist gjöf IBM til Háskólans eins mikilvæg fyrir stöðu Íslands í tölvunetsamfélaginu og vonir stóðu til. Þessi tölvubúnaður opnaði vissulega leið til að taka þátt í tölvuneti háskóla og rannsóknarstofnana í Evrópu (European Academic and Research Network – EARN), sem hafði verið hleypt af stokkunum í Genf snemma árs 1984. En nettengingin var bæði hægvirk og dýr og rekstri þessa tölvubúnaðar var hætt árið 1988. Sams konar samband fyrir notendur Háskóla Íslands fékkst hins vegar á ódýrari hátt með samvinnu innan innanlandsnetsins ISnet.

Á árinu 1987 gaf Einar J. Skúlason (EJS) Reiknistofnun Háskólans fyrstu Unix-vélina og með henni tengdust RHÍ og Hafró við netið, fyrst með upphringisambandi en fljótlega fastri leigulínu. Sama ár var SURÍS, Samtök um upplýsinganet rannsóknaraðila á Íslandi, stofnað til að stuðla að notkun OSI (Open Systems Interconnection) í tölvusamskiptum á Íslandi. Þetta ár var ISnet formlega stofnað sem hinn íslenski hluti EUnet. IANA (Internet Assigned Numbers Authority) fól SURÍS að úthluta lénum með endingunni .is hinn 25. nóvember þetta ár. ISnet tók upp svæðisnetföng (domain addressing) í tölvupósti, sem síðar var farið að nefna lén. Þessi þróun er rakin í gleggra samhengi á sérstakri tímalínu með kaflanum.

Fyrstu IP-tölunum var úthlutað árið 1988 til SURÍS, og Hafrannsóknastofnun og Reiknistofnun tóku upp TCP/IP-innra net og tengingu sín á milli. Á þessu ári var Grunnskólinn á Kópaskeri tengdur með UUCP-upphringisambandi við Reiknistofuna en samtals voru fimmtán aðilar tengdir þessu neti. Á Kópaskeri var Pétur Þorsteinsson skólastjóri og mikill áhugamaður um nettengingar.[42]

Á þessum tíma voru í notkun nokkrar gerðir nettenginga, breytilegar eftir framleiðendum tölvubúnaðarins. Þannig var EARN-tengingin bundin IBM-stórtölvunum, en Digital notaði aðra tengingu. Tilraunir voru gerðar til þess að tengjast með EARN-sambandinu en það komst aldrei almennilega í gagnið því þetta kerfi var háð því að leigulína fengist hjá Pósti og síma en það var kostnaðarsamt, og sambandið var því of hægvirkt og gallað til að vera ásættanlegt til lengdar. Þetta var einfaldlega úrelt tækni og gjafatölvan var tekin niður þegar orðið var endanlega orðið ljóst að önnur tækni til að flytja gögn milli landa yrði ofan á.[43]

Margar gerðir nettenginga tölva voru reyndar á níunda áratugnum og höfðu mismunandi eiginleika, meðal annars tengingin Arcnet hjá Örtölvutækni. „Með Arcnet voru menn eylönd, út af fyrir sig, með nokkrar tölvur samtengdar. Við vorum að selja og setja upp svoleiðis pakka fyrir litlar skrifstofur,“ rifjar Arnlaugur Guðmundsson upp frá árunum í Örtölvutækni.[44]

NORDUNET og NORDFORSK

Í nóvember 1985 gengust Skýrslutæknifélag Íslands og Reiknistofnun Háskólans fyrir eins dags ráðstefnu um tölvunet og norrænt samstarf. Á sama tíma var haldinn í Reykjavík stjórnarfundur í NORDUNET-verkefninu, sem var á vegum NORDFORSK,[45] og snerist um að efla möguleika norrænna háskóla til gagnasamskipta sín á milli og við umheiminn. Þetta samstarf var talið afar áhugavert fyrir Íslendinga þar eð von var á að gagnanet Pósts og síma kæmi Íslandi í samband við umheiminn fyrir árslok (1985). Háskóli Íslands var eini norræni háskólinn sem ekki hafði komið sér upp tölvuneti en á málþinginu kynnti Jóhann Gunnarsson, framkvæmdastjóri RHÍ[46], áætlun um slíkt háskólanet, sem skyldi nefnt ISANET. Fram kom að Háskólinn hefði í hyggju að velja svonefnt breiðband[47] til að tengja saman allar tölvur Háskólans, frekar en grunnbandsnet, þótt hið fyrrnefnda væri dýrara. Breiðbandið hafði hins vegar mun meiri flutningsgetu og nýttist betur til gagnaflutninga þar eð þar mátti koma fyrir mörgum rásum af mismunandi tagi samhliða og nýta fyrir síma, myndsendingar og tölvupóstsendingar. Lagning þessa breiðbands var þegar hafin í húsin á vestursvæði Háskólans, hús verkfræði- og raunvísindadeildar.[48]

isanet.haskolans
Áætlun um háskólanet (ISANET). Morgunblaðið, 12. desember 1985.

En breiðbandið lét bíða eftir sér og í samtali við Morgunblaðið í mars 1985 gagnrýndi Júlíus Sólnes, formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, ný fjarskiptalög, sem voru skömmu áður samþykkt á Alþingi. Um leið höfðu verið samþykkt ný lög um útvarpsstarfsemi og með þeim var rofinn einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarps- og sjónvarpsútsendinga. Júlíus taldi að nýju fjarskiptalögin hefðu takmarkað frjálsræði við rekstur tölvuboðveitna og útilokað að einstaklingar eða félög gætu nýtt sér þá nýju tækni. Hann taldi að breyta þyrfti lögunum þannig að sveitarfélög gætu átt og rekið slíkar boðveitur, eins og þau gætu rekið útvarpsstarfsemi, samkvæmt útvarpslögunum. Morgunblaðið hefur eftir Júlíusi:

Ég hef tilhneigingu til að líta á þjónustu sem þessa sömu augum og aðra almenningsþjónustu. Hvers vegna ættu sveitarfélög ekki að reka boðveitur rétt eins og þau reka rafveitur og hitaveitur? Þannig gæti tölvuboðveitan keypt margvíslegt efni af einstaklingum og fyrirtækjum og séð um dreifingu þess.[49]

Sigfús Björnsson, dósent við HÍ, hafði sams konar framtíðarsýn og Júlíus og skrifaði meðal annars í 1. tölublað Skipulagsmála höfuðborgarsvæðisins á þessu sama ári um hættuna á því að „tölvuboðveitur í þéttbýli“ myndu ekki verða frjálsar, eins og útvarpssendingar urðu með nýju útvarpslögunum, vegna þess að þær lentu undir ströngum fjarskiptalögum. Sigfús benti á að einmitt það að í því kerfi gætu boð borist til baka frá neytendum fæli sér stóraukna möguleika til félagslegrar þjónustu, sem gæti orðið lyftistöng fyrir atvinnulífið í viðkomandi bæjarfélagi:

Félagsleg þjónusta fælist til dæmis í upplýsinga- og pöntunar- og greiðsluþjónustu ýmiss konar, námskeiðahaldi, tölvufundum og persónulegum samskiptum á tölvuneti, þ. á m. þjónusta við aldraða og sjúka á heimilum. Stoð við atvinnulíf fælist til dæmis í sjálfvirkri vörslu, mælaaflestri, skoðanakönnunum og samskiptum fyrirtækja gegnum tölvunet við starfsfólk, sem af ýmsum ástæðum yrði að vinna á heimili sínu. Að færa vinnustað inn á heimili, ef þörf krefur, með hjálp tölvuboðveitu bæjarfélags er raunhæf launabót til þegnanna, til dæmis fjölskyldna þar sem báðir makar verða að „vinna úti“, einstæðra foreldra, hreyfihamlaðra, skólaskyldra barna og unglinga o.fl. Atvinnulífið í því sveitarfélagi nyti hæfs vinnukrafts í lengri tíma og með minni truflunum og gildir þetta almennt á vetrum þegar samgönguleiðir teppast.[50]

Bein tölvutenging Háskóla Íslands og annarra aðila á ISnet við erlenda aðila var við lýði frá árinu 1986 með UUCP og frá 1989 með TCP/IP.

Hröð þróun í notkun léna

Árið 1990 var tekin í notkun föst lína til Stokkhólms og tuttugu tölvur voru tengdar ISnet. Þá voru þessi lén í notkun: hi.is, hafro.is, falcon.is, os.is, hp.is, hugbun.is, ibm.is, ismennt.is, rala.is, rsp.is, strengur.is, isbank.is, islag.is, ejs.is, tmh.is, simi.is, vedur.is og marel.is. Á yfirliti yfir lén í Evrópulöndum frá því 1. október það ár eru 14 lén og eitt undirlén tilgreind á Íslandi en Svíþjóð var með flest lén á þeim lista, 6112 og 34 undirlén.[54]

Á þessum árum var þróunin hröð eins og sést á meðfylgjandi töflu sem teygir sig fram undir aldamót, en einkum voru það fyrstu árin sem voru áhugaverð[55]:

Ár Tengdir aðilar Tengdar tölvur
við ISnet
1990 19 (lén) 20
1991 30 250
1992 - 739
1993 55 1.761
1994 70 4.527
1995 130 8.310
1996 250 11.542
1999 - 28.788

Nánar er fjallað um þróun nettenginga á Íslandi í sérkafla. 

Tímalína nettenginga á Íslandi 1986 til 2000

Þróun internets á Íslandi frá 1986 til ársins 2000 má setja upp í þessa tímalínu.

isnet.tengingar.1988
Ísnet, tengingar 1988.

stofnsamningur internet a islandi
Stofnsamningur Internet á Íslandi frá 24. maí 1995.[52]
Þar er greint frá tilgangi félagsins með áherslu á að vinna eftir alþjóðlegum stöðlum. Notendur eru einkum taldir verða mennta- og rannsóknarstofnanir.

1986: Hafró tekur í notkun UUCP-tengingu við EUnet; RHÍ setur upp EARN-samband og X.400-samband; Reiknistofnun Háskólans tekur í notkun UUCP-samband við Hafró.

1987: EJS gefur RHÍ sína fyrstu Unix-vél; SURÍS stofnað til að stuðla að OSI-notkun á Íslandi; ISnet stofnað (undir stjórn ICEUUG); Nafngiftum undir .is úthlutað til SURÍS; ISnet tekur upp svæðisnetföng.

1988: ISnet hefur tíu aðila tengda; Fyrstu IP-tölunum úthlutað til SURÍS; Hafró og RHÍ taka upp TCP/IP; NORDUnet (IP yfir X.25) sett á laggirnar; EARN-samband lagt niður.

1989: RHÍ tekur við rekstri ISnet undir hatti SURÍS, hættir rekstri X.400-gáttar; isgate er sett upp með styrk frá Rannsóknaráði; Útlandasamband flutt til NORDUnet (IP yfir X.25); ISnet verður hluti af Internet.

1990: DNS-þjónusta fyrir .is flutt á isgate; 9,6 bps föst lína til Stokkhólms tekin í notkun.

1991: Útlandalína uppfærð í 56 kbs.

1994: 70 aðilar tengdir við ISnet – tæplega 4000 tölvur tengdar; Útlandalína uppfærð í 128 kbs.

1995: SURÍS stofnar Internet á Íslandi hf. 17. maí; Internet á Íslandi hf. tekur yfir rekstur ISnet og aðrar skyldur SURÍS.

1996-2000: Internet á Íslandi hf. heldur áfram uppbyggingu og rekstri á ISnet og úthlutun léna.

2000: Íslandssími hf. kaupir um 90% hluta í Internet á Íslandi hf.; Netrekstur Internet á Íslandi hf., INTIS/ISnet, seldur til Fjarskiptafélagsins Títans hf.; Internet á Íslandi hf. leggur árherslu á skráningu léna. Stuttnafni breytt úr INTIS í ISNIC.[51] 

Tölvupóstur - prentuð netfangaskrá þótti nauðsynleg

Ýmsir voru þegar farnir að nota tölvupóst þegar hér var komið sögu. Flestir fengu tölvupóst í tengslum við vinnu sína en einnig voru dæmi um að tölvuskólar og tölvuþjónustufyrirtæki úthlutuðu notendum sínum netfangi. IBM á Íslandi hóf notkun tölvupósts innanhúss árið 1981 og árið 1983 var fengin föst símalína til útlanda og tengdust starfsmenn þá alheimsneti IBM. Hjá Kristjáni Ó. Skagfjörð var farið að nota tölvupóst í samskiptum við Danmörku með sérstakri tækni um eða fyrir 1985.[56] Hjá Ríkisspítölunum voru um 90 manns með eigið netfang árið 1988. Í byrjun voru það fá netföng í notkun á Íslandi að gefin var út bók með öllum netföngum sem voru í notkun á landinu. Þetta var eins konar símaskrá þeirra sem höfðu aðgang að tölvupósti.[57]

Að tala um tæknina á íslensku

Fljótlega eftir að tölvuöld hófst á Íslandi byrjaði öflug barátta fyrir því að unnt væri að hafa orð á öllu sem þessa nýju tækni snerti, á íslensku.

Fljótlega eftir að Skýrslutæknifélagið var stofnað, árið 1968, hófust menn í forystu þess handa um að safna orðum um tölvur og gagnavinnslu og þýða erlend orð. Ekki leið á löngu uns stofnuð var orðanefnd á vegum félagsins, sem varð strax mjög virk, og sex árum síðar (1974) gaf nefndin út fyrsta orðalista sinn, tölvuprentað handrit undir yfirskriftinni Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu. Áður hafði nefndin sent frá sér stutta, óformlega orðaskrá. Frá 1978 störfuðu fjórar manneskjur í nefndinni að söfnun til útgáfu Tölvuorðsafns: Baldur Jónsson, Sigrún Helgadóttir (formaður), Þorsteinn Sæmundsson og Örn Kaldalóns.

Fyrsta útgáfa orðasafnsins kom út 1983 og hafði að geyma rösklega 700 hugtök með tæplega 1000 íslenskum heitum og rösklega 1000 enskum heitum, en engar skilgreiningar fylgdu hugtökunum. Önnur útgáfa orðasafnsins kom út árið 1986, undir ritstjórn Sigrúnar, og innihélt tæplega 2600 hugtök. Þeim fylgdu skilgreiningar, skýringar og dæmi þar sem það átti við. Þriðja útgáfan kom út 1997 og hafði að geyma um 5800 íslensk og ensk heiti á rúmlega 5000 hugtökum; sú fjórða kom 2005 og innihélt um 7700 íslensk heiti og um 8500 ensk heiti; skilgreiningar orðanna og skýringar fylgdu í þessum tveimur útgáfum. Ritstjóri tveggja síðastnefndu útgáfnanna var Stefán Briem. Baldur Jónsson lést sumarið 2009 og var þá ákveðið að vinna úr því efni sem safnast hafði eftir að fjórða útgáfan kom út og það var gefið út sem fimmta útgáfa orðasafnsins, eingöngu í rafrænu formi, aðgengilegt til leitar, á vef Skýrslutæknifélagsins. [58]

Þrjátíu ár í forystu tölvuorðanefndar

Sigrún Helgadóttir, formaður Tölvuorðanefndar, lærði stærðfræði og tölfræði í Bretlandi á árunum 1965 til 1971. Á þeim tíma þurftu nemendur í þessum fræðum einnig að læra forritun, en Bretar voru þá að stíga sín fyrstu skref í tölvuvæðingu, líkt og við hér á landi, og komu fljótlega upp stórum tölvumiðstöðvum við háskóla sína, sem námsmenn höfðu aðgang að. Sigrún vann á hinni ungu Reiknistofnun sumarið 1969, þegar hún var í námsleyfi, og eftir að hún kom heim frá námi, í árslok 1973, fékk hún vinnu þar. Hún gerðist félagi í Skýrslutæknifélaginu þegar í upphafi en þegar hún fór að vinna á Reiknistofnun var Oddur Benediktsson prófessor, forstöðumaður Reiknistofnunar, formaður félagsins og árið 1978 bað hann Sigrúnu að taka að sér formennsku í Orðanefndinni. Hún leiddi nefndina eftir það í þrjá áratugi. Sigrún segir svo frá:

Ég […] geri ráð fyrir að mönnum hafi þótt mikilvægt að unnt væri að tala um þessa nýju tækni á íslensku. Þegar ég kom heim frá námi var mjög erfitt að finna leiðbeiningar í forritun og ég fór að skrifa kennslubók í Fortran og leiðbeiningar með tölvukerfum Háskólans á íslensku. En það var ekki auðvelt. Orðin voru ekki til né heldur orðalagið. Núna er þetta allt orðið miklu þroskaðra, það er hægt að tala og skrifa um tölvutækni á íslensku að mestu leyti, nema menn séu komnir út í mjög tæknileg atriði. En það sem snýr að almenningi er auðveldara. Náttúrlega bætist alltaf við nýtt og þegar ekkert er unnið í þessu safnast vandamálin saman.[59]

Fyrstu árin var unnið allskipulega að orðasöfnun og stuðst við ISO-staðla. Sigrún kynnti sér hvað gert hefði verið annars staðar á Norðurlöndum og komst að því að bæði Norðmenn, Svíar og Danir hefðu tekið upp staðla en alþjóðlegar nefndir tekið fyrir orðaforða í tölvutækninni, flokkað hann niður og skilgreint.

Þessir staðlar voru bæði á ensku og frönsku og við gengum einfaldlega í þá þegar við unnum að Tölvuorðasafninu, fyrstu og annarri útgáfu. En eftir því sem á leið þurftum við að sjálfsögðu að taka fyrir heiti og hugtök sem voru ekki í stöðlunum. […] Síðan var þetta náttúrulega lesið yfir af sérfræðingum og þeir komu þá með tillögur um orð sem vantaði. Ég las líka mikið af orðalistum í alls konar bókum, þegar ég var ritstjóri, en þegar við gáfum út þriðju bókina var Stefán Briem ráðinn ritstjóri og þetta gekk þá betur því ritstjórinn gat unnið milli fundanna og undirbúið þá.

Vinnunni vatt síðan áfram, ár eftir ár, allt var unnið í sjálfboðavinnu, nema hvað safnað var fyrir launum ritstjórans hjá stofnunum og fyrirtækjum. Verkefni ritnefndarmanna var að finna hugtök sem þurfti að þýða, eða taka á móti ábendingum, finna skilgreiningar og leggja þær fyrir nefndina. Það kallaði oft og tíðum á talsverða eftirgrennslan og grúsk því að:

Eiginlega er ekki hægt að gefa einhverju heiti sem maður veit ekki hvað er, þannig að ef einhver spyr, sendir inn fyrirspurn: Hvað á að kalla þetta? þarf maður fyrst að finna út 99% hvað það merkir, annars er ekki hægt að gefa því almennilegt heiti. Þess vegna eru svona orðalistar dálítið erfiðir, það kemur ekki alltaf fram hvað það er sem er verið að gefa heiti.

ordanefnd3
Tölvuorðanefnd: Þorsteinn Sæmundsson, Baldur Jónsson, Sigrún Helgadottir og Örn Kaldalóns

Tölvuorðanefnd tók upp þau vinnubrögð að hafa skýringar á orðunum og index eða hugtakaskrá aftast í síðasta orðalistanum. Sigrún skrifaði mest af skilgreiningunum en orðanefndarmaðurinn Baldur Jónsson, íslenskufræðingur og lektor við Háskólann, og allmargir sérfræðingar aðrir lásu mismunandi kafla. Opinber stuðningur við þetta starf var alla tíð fremur lítill, styrkur fékkst þó frá Lýðveldissjóði, sem þá var enn til, Málræktarsjóði og Ráðgjafarnefnd um upplýsinga- og tölvumál. Íslensk málstöð var stofnuð 1985, mest fyrir forgöngu Baldurs Jónssonar, og orðanefndin hafði aðsetur hjá Málnefndinni. Fyrri útgáfur tölvuorðasafnsins voru settar á vef Málstöðvarinnar en hún hafði ekki bolmagn til að setja þetta nýja efni inn í íðorðabankann, sem hafði verið stofnaður 1997. Því var sett upp vefsetur Skýrslutæknifélagsins (sky.is) þar sem aðgangur er að tölvuorðasafninu eins og það leggur sig. En telur Sigrún að árangur hafi orðið af þessu orðasöfnunarstarfi?

Við fáum náttúrulega endalaust skammir fyrir hvað við séum gamaldags og þetta séu asnaleg orð og svoleiðis. En sama er, þegar upp er staðið og maður lítur í kringum sig og les það sem fólk skrifar er alveg greinilegt að ástandið er orðið allt annað en það var fyrir þrjátíu árum; það er hægt að skrifa um þetta efni og þessi orð seytla inn í orðaforðann, en hvaðan þau koma skiptir náttúrulega engu máli. Ég get nefnt dæmi um orð eins og gjörvi, sem við settum inn í fyrstu bókina í örvæntingu okkar, til að hafa eitthvað yfir processor. Ég heyrði allskonar skýringar á þessu orði; það er komið af orðinu örgjörvi sögðu sumir. En það er rangt, örgjörvar voru ekki til þegar bókin kom út, árið 1983.[60]

Staðgreiðsla skatta

Um miðjan níunda áratuginn var farið að ræða um nauðsyn þess að opinber gjöld yrðu staðgreidd í stað þess að skattgreiðendur þyrftu að telja fram laun liðins árs og standa skil á þeim sjálfir – eftir á. Um þetta var þvargað og þjarkað meirihluta árs 1987, alveg fram í desember. Sjálf lögin um staðgreiðslu skatta voru samþykkt í mars það ár[61] en lagabreytingar sem nauðsynlegar voru taldar vegna framkvæmda málsins ekki samþykktar fyrr en þegar komið var fram í desember 1987.[62]

Skúli Eggert Þórðarson, síðar ríkisskattstjóri, rifjar upp að þetta hafi valdið nokkrum vandræðum því starfsmenn skattsins hafi ekki getað byrjað á undirbúningi þessarar miklu kerfisbreytingar fyrr en í mars:

Staðgreiðslan er fyrsta tölvukerfi skattyfirvalda sem er hannað og skipulagt þannig að það er „online“, það er að segja lifandi kerfi frá degi til dags, en ennþá var það rekið inni í SKÝRR. Þetta var mikið verkefni því við höfðum svo lítinn tíma, níu mánuði til þess að undirbúa innheimtuna. SKÝRR-menn hömuðust við að setja þetta upp og það tókst að hefja innheimtu staðgreiðslunnar 1. janúar 1988, fyrir harðfylgi starfsmanna Ríkisskattstjóra og SKÝRR, sem var mikið afrek. Þetta lagði grunninn að frekari vélvæðingu og virðisaukaskattinum, sem kom tveimur árum seinna, og ákveðið var að gera sama með hann 1990, hafa hann „online“. [63]

rsk005
Verkefni ríkisskattstjóra voru margvísleg á ofanverðum níunda áratugnum, en þá var meðal annars tekin upp staðgreiðsla skatta. Þessi mynd er frá árinu 1987 og er af Jóni Zóphoníassyni og Guðríði Jóhannsdóttur skoða gögn á tölvuskjá.

Næsta stóra skrefið sem tekið var í tölvuvæðingu skattkerfisins var þegar keypt var fyrsta miðtölvan fyrir Ríkisskattstjóra, árið 1992. Tvö árin á undan höfðu tölvuráðgjafar velt því fyrir sér hvað best væri að gera og niðurstaðan var að setja upp svokallaðan „biðlara-miðlara“ þannig að ein tölva eða hugbúnaður sækir upplýsingar til miðlara annars hugbúnaðar eða tölvu í öðru tölvukerfi, í gegnum tölvunet; biðlari getur líka hegðað sér eins og miðlari og sent önnur gögn til baka.[64] Þetta var gert til þess að draga úr kostnaði en rekstur tölvukerfanna var orðinn mjög dýr. Í framhaldi af þessu var sett upp „víðnet skattkerfisins“, og vélar á öllum skattstofunum og síðar hjá yfirskattanefnd og Ríkisskattstjóra þegar þau urðu til. Allt þetta var að lokum tengt saman.

Gagnsemi þessara tæknilegu framfara sýndi sig berlega árið 1991. Þá voru gerðar umfangsmiklar skattbreytingar, sem ollu miklum breytingum á framtölum eftir að frumáætlun á þeim fór fram, og breyta þurfti framtölum tugþúsunda framteljenda. Áður voru breytingarnar reiknaðar út í vélum en síðan þurfti að breyta framtölunum handvirkt. En þegar allt hafði verið tengt saman og samband komið milli hinna ýmsu kerfa skattsins dugði að breyta viðkomandi reit á framtalinu og reiknaðist þá skattbreytingin inn í viðkomandi kerfi og barst til innheimtumanns.[65]

Framhald tölvuvæðingar í bankakerfinu

Breytingar voru að verða í tölvuvæðingu í bankakerfinu og kenndi þar margra grasa. Hér verður stiklað á því stærsta.

Tölvumiðstöð sparisjóðanna stofnuð

Í byrjun árs 1989 stofnuðu stærstu sparisjóðirnir Tölvumiðstöð sparisjóðanna. Henni var ætlað að sjá um kerfi sem Reiknistofan gat ekki séð um, alls kyns skýrslugerð, bókhald og fleira. Hér var tekið næsta skref í þróuninni: Reiknistofa bankanna byggðist á stórtölvukerfinu, miðlægri tölvu og skjáum á útstöðvum en hin nýja tölvumiðstöð sparisjóðanna byggðist á miðlægum miðlara og einmenningstölvum úti í sparisjóðunum, sem tengdar voru við miðlarann. Sparisjóðirnir sameinuðust síðar allir um tölvumiðstöðina, einnig lánastofnun sparisjóðanna, og úr varð Sparisjóðabanki Íslands.[66]

Reiknistofa bankanna í vexti

Holberg Másson skrifaði í Morgunblaðið að Reiknistofa bankanna (RB) hefði á þessum tíma verið stærsta tölvumiðstöð landsins ásamt SKÝRR. Árið 1990 var velta Reiknistofunnar reyndar ögn meiri en starfsmenn færri, en þó 120 talsins. Þá höfðu SKÝRR og RB tekið upp samstarf um öryggismál. Í grein sinni um RB veltir Holberg því upp hvort ef til vill ætti að huga að frekari samvinnu.

Í viðtali við Þórð Sigurðsson forstjóra RB kom fram, að dregið hefur úr aukningu aðgerða í stórtölvu RB. Samt var 20,1% aukning á aðgerðafjölda fyrstu 6 mánuði þessa árs miðað við í fyrra. …

Að nokkru leyti má segja að RB hafi verið í samkeppni við tölvudeildir bankanna. Meðan RB hefur getað veitt góða þjónustu á góðu verði, hefur lítil tilhneiging verið hjá bönkunum að fara út í eigin tölvuvæðingu, en með aukinni samkeppni verða til sérþarfir, sem ekki nýta hagkvæmni sameiginlegrar vinnslu. [67]

Holberg fjallar síðan um reynslu annarra landa, meðal annars í Danmörku.

Þórður sagði, að engin athugun hefði verið gerð á því hjá RB, hvort hagkvæmt væri að flytja eitthvað af þeim verkefnum, sem í dag eru keyrð á stórtölvu yfir á minni tölvur. […] Hann sagði, að enda þótt RB væri stórtölvumiðstöð á íslenskan mælikvarða, þá væri RB það ekki á alþjóða mælikvarða og þess vegna væri margt það hægt hér, sem ekki er hægt annarsstaðar. Ísland er eina landið í heiminum, þar sem allt bankakerfið sameinaðist í einni miðstöð og því fylgdu ýmsir kostir […] Síaukið tölvuafl vegna beinlínuvinnslu á afgreiðslutíma bankanna skapar ónotað tölvuafl utan þess tíma og hafa bankar og sparisjóðir fengið 40% afslátt af þeim föstu keyrslum, sem framkvæma má á nóttunni. [68]

Á þessum tíma voru sameiningar bankanna á Íslandi mál málanna og því var möguleg sameining SKÝRR og RB skoðuð í því samhengi.

Ljóst er að sameiginlegur rekstur á tölvusamstæðum og tölvuneti Reiknistofu bankanna og Skýrr myndi skila umtalsverðum sparnaði. Reynslan erlendis sýnir að sameining skilar a.m.k. 20% lækkun í rekstrarkostnaði slíkra tölvumiðstöðva. …

Slæmt væri ef sparnaður bankakerfisins vegna sameiningar banka og fækkunar starfsfólks tapaðist að nokkru leyti vegna aukins kostnaðar við tölvu og upplýsingavinnslu.[69]

Afgreiðslukerfi (POSar) - „rafgreiðslur á sölustað“

Upp úr 1990 komu til skjalanna hinir svokölluðu POSar. Þeir voru meðal annars nauðsynlegir fyrir debetkortagreiðslur, en kreditkortin hafði verið hægt að „strauja“ og kröfðust þau því ekki rafrænnar tengingar.

POS stóð fyrir „Point of Sale“ og hver posi var í raun sérstakur sölustaður, en tengdur miðlægu kerfi. „Þetta var rosaleg breyting og í raun gerbylting,“ segir Þorsteinn Hallgrímsson verkfræðingur um þessa breytingu er hann lítur til baka.[71]

Greiðslur um posa eða sérstök kassakerfi voru á tímabili kallaðar „Rafgreiðslur á sölustað“, eða RÁS-kerfið (EFTPOS: Electronic Fund Transfer at Point of Sale). Kjartan Jóhannsson hjá Reiknistofu bankanna lýsti fyrstu posunum hér á landi þannig:

Posi er lítil tölva með innbyggðu mótaldi, segulrandarlesara og prentara, litlum skjá og takkaborði og hefur möguleika á að safna og geyma nokkurt magn gagna. …

Flestir posar hér á landi eru í eigu Greiðslumiðlunar hf. sem leigir þá söluaðilum. RÁS-þjónustan, sem er sjálfstætt apparat, samstarfsverkefni kortafyrirtækjanna, banka og sparisjóða en rekið af Greiðslumiðlun hf. Annast RÁS-þjónustan forritun og þjónustu við posana og sér einnig um mikinn hluta samskipta við söluaðila og verslanir vegna þeirra.[72]

Einnig skilgreinir Kjartan kassakerfi og notendur þeirra með þessum hætti:

Stærri verslanir hafa oft á tíðum í stað posa svokölluð búðakassakerfi, sem meðal annars leysa hlutverk posanna, þ.e. að lesa segulrönd, senda heimildarbeiðni og prenta kvittun. Kassakerfin hér á landi eru aðallega frá þremur aðilum: EJS hf, Hugbúnaði hf. og Tákni hf, en einnig hafa stærri aðilar s.s. olíufélög sérstök kassakerfi af ýmsu tagi.[73]

Debetkortin voru tekin upp á Íslandi 1993 og var gengið út frá því að nýta fyrirliggjandi tækjakost og kerfi sem byggt hafði verið upp fyrir kreditkortin, það er RÁS-kerfið. Þá voru um fjögur þúsund kassar og posar tengdir því kerfi en fimm árum síðar, 1998, hafði þeim fjölgað í rúmlega átta þúsund.[74]

Posavélar með innbyggðum GSM-símum komu til skjalanna árið 1999. Í 1. tbl. Tölvumála það ár segir svo frá þessum áfanga:

Point á Íslandi hefur nú nýverið hafið sölu á posavél með innbyggðum GSM síma til heimildarhringingar. … Point hefur einnig hannað hugbúnaðinn í hann þannig að hann getur tekið á móti öllum greiðslukortum sem aðrar posavélar taka á móti hérlendis.

Í stuttu máli má segja að GSM posinn vinni alveg eins og hefðbundinn posi nema í stað þess að nota hefðbundna símalínu þá notar hann GSM til tengingar við greiðslukortafyrirtækin auk þess hefur hann innbyggt batterí og verður þannig óháður rafmagni og símalínu[75]

Stórfelld verðlækkun á tölvum

Einmenningstölvur voru að sækja mjög í sig veðrið um þetta leyti, ekki síst sökum þess að árið 1982 ákváðu stjórnvöld að fella niður 30% vörugjöld sem lögð höfðu verið á „tölvubúnað til samkeppnisiðnaðar“ og í febrúar árið eftir var felldur niður 23,5% söluskattur, sem lagður hafði verið ofan á 7% toll, þannig að 1984 lækkaði verð á öllum tölvum og búnaði sem þeim tilheyrði um liðlega 32%. Salan tók verulegan kipp.[76] Dráttur varð þó á því að tollyfirvöld felldu niður aðflutningsgjöldin vegna óskýrleika í orðalagi þar um, en það var gert í september.[77]

 • fyrsti.IBM.PC IBM 5150 PC-tölva
  Fyrsta PC-tölvan, 1981
 • Makki.1984 Fyrsta Macintosh-einkatölvan
  Hún kom á markaðinn árið 1984.
 

Netið og notendurnir

Með útbreiðslu internetsins og einkatölvunnar voru almenningur, fyrirtæki og stofnanir komin í alveg nýja stöðu. Notkun á tölvum varð útbreiddari og fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr.

MUD: Fjölspilunarleikur án grafísks viðmóts

Tölvuleikir voru ekki ný bóla á áratugnum 1985–1995. Hins vegar varð áhugaverð breyting á leikhegðun í tölvuleikjum með tilkomu internetsins. Rætur leiksins MUD (Multi User Dungeon) eru í eldri gerð hans, sem rakin er til ársins 1978. Nýrri internetútgáfa leiksins var til umfjöllunar í Tölvumálum árið 1992 í greininni „Hvað er þetta MÖDD?“ sem félag áhugamanna um MUD er skrifað fyrir.[78] Leikurinn var þá orðinn vinsæll fjölnotendaleikur yfir internetið, en margir MUD-leikir voru á markaði. Það merkilega við hann þá var að viðmótið var ekki grafískt og krakkarnir, sem voru kjarni spilaranna, þurftu að nota örvatakka og önnur tákn á lyklaborðinu til að spila leikinn.[79] Ef viðmót MUD-leiks frá 1992 er skoðað sést að það þarf innvígðan spilara til að finna eitthvað af viti út úr því sem sést á skjánum.

Tolvuleikurinn.mud
Viðmót MUD-leikjanna var ekki flókið.

Foreldrar MUD-spilara þessa tíma komust fljótt að raun um að nauðsynlegt var að fá aðra símalínu inn í húsið, því MUD- spilarinn í fjölskyldunni teppti símalínuna, sem mótald heimilisins tengdist. Ein þeirra sem hvað áköfust voru í spilamennskunni skrifaði síðar lokaritgerð í mannfræði árið 1993 um MUD: „Myndun samfélags á tölvuneti“.[80] Eitt af því sem einkenndi samfélagið voru samskiptin milli spilaranna:

Samskipti við aðra eru einmitt afar stór og jafnvel stærsti þátturinn þegar MUD er spilað og er félagslegi þátturinn ekki síst það sem fólk er að sækjast eftir. Þarna gefst möguleiki á því að kynnast fólki frá fjarlægum heimshlutum og eru mörg dæmi um vináttusambönd sem hafa orðið til í gegnum þennan leik. Þó nokkur fjöldi útlendinga hefur komið til Íslands til að hitta vini sína … og jafnframt eru þeir orðnir æði margir staðirnir erlendis þar sem íslenskir muddarar eru velkomnir gestir.[81]

Spilarar hérlendis töldu ekki eftir sér að leggja á sig talsverða vinnu til að geta spilað eins og fram kemur í greininni í Tölvumálum. Umhverfi MUD-spilara á Íslandi er lýst þannig:

Í dag eru 200 stór, opin MUD í heiminum. Á Íslandi er einungis eitt kerfi sem opið er öllum, starfrækt í dag, en eru þó uppi áform um uppsetningu á fleirum. […]

Íslenska kerfið varð til fyrir um tveimur árum og var notkun í fyrstu takmörkuð við vissa tíma dags, en nú er kerfið opið allan sólarhringinn.[82]

Þótt MUD-leikir þessa tímabils hafi verið ólíkir þeim tölvuleikjum sem seinna komu á markað, einkum fjölspilunarleikjum, þá kom það ekki í veg fyrir að höfundar greinarinnar frá árinu 1992 í Tölvumálum sæju fram í tímann, kannski furðu langt fram í tímann, um þróun tölvuleikja:

Nýlega hafa komið fram myndræn MUD en þau hafa þó ekki náð mikilli útbreiðslu, meðal annars vegna tæknilegra örðugleika. Ef til vill á þetta eftir að þróast meira í átt til þeirra nýjunga sem komið hafa fram í hugmyndum um „virtual reality“ þar sem fólk spennir á sig hjálm með sjónvarpsskjá, setur á sig hanska og getur gripið um ímyndaða hluti ásamt því að ganga um og skoða svæði sem hvergi eru til nema í minni tölvunnar. Slíkt krefst þó tækni sem ekki er orðin almenn í dag, hvað svo sem síðar verður.[83]

Þótt spilararnir sem spiluðu MUD væru að stærstum hluta ungt fólk og krakkar er forvitnilegt að skoða þá skilgreiningu á spilurunum, sem sett er fram í nefndri grein:  

Flestir muddara eru skólafólk, nemendur og kennarar við hinar ýmsu greinar í háskólum heimsins. Marga muddara er einnig að finna meðal stærri stofnana sem halda uppi öflugum tölvukerfum, svo sem banka, háskólastofnana og tölvufyrirtækja. Einnig hafa nemendur og jafnvel kennarar í greinum sem varða mannleg samskipti og eðli mannsins haft mikinn áhuga á muddinu […] Dæmi eru um það að fatlaðir einstaklingar sem hafa fjarlægst hið raunverulega líf eigi sér í rauninni sitt líf í mudheiminum.[84]

Sjálfsafgreiðslutölva á Reykjavíkurflugvelli 1990–1991

Merkileg nýjung, sem kom fram tiltölulega snemma en náði þá ekki að slá í gegn, var sjálfsafgreiðslutölva fyrir farmiðakaup frá IBM sem var sett upp á Reykjavíkurflugvelli veturinn 1990–1991. Sjálfsalinn var settur upp og virkaði vel, en vandinn var sá að illa gekk að fá fólk til að nota hann. Ekki tókst að fá fjárveitingu fyrir fólk sem kenndi almenningi á sjálfsalann, þótt rök mætti færa fyrir því að þessi nýjung myndi spara vinnu síðar, þegar fólk yrði orðið vant því að afgreiða sig sjálft. Tilraunin varð því skammvinnari en vonir höfðu staðið til.[85]

Villur og vandræði

Eitt af því sem hefur ávallt verið öruggur fylgifiskur hugbúnaðargerðar og vélbúnaðarsölu er að villur koma upp og undarleg hegðun krefst skoðunar, skýringa eða lagfæringar. Notendur klóra sér í kollinum og skilja hvorki upp né niður þegar eitthvað gerist sem á ekki að geta gerst. Með vaxandi hugbúnaðargerð var farið að huga að hugbúnaðarprófunum en vélbúnaðarprófanir eiga sér lengri sögu, þótt ekki hafi þær alltaf dugað til að skýra skrýtna hegðun tækja og tóla. Sögur eru til af furðulegum bilunum og oftar en ekki heyrist það fornkveðna: „Já, en þetta virkar á minni tölvu!“ – eða þá að illa gengur að endurframkalla vandamál þegar tölvusérfræðingar eða -viðgerðarmenn eru mættir á staðinn.

Í fyrirtæki einu í Reykjavík á níunda áratugnum komu æ ofan í æ upp vandamál við notkun á dýrum prentara; truflanir og hökt. Innflytjendur prentaranna voru duglegir að koma á staðinn eftir vinnutíma en það brást ekki að þá prentuðu tækin hnökralaust. Það var ekki fyrr en prentarinn var staðinn að verki á vinnutíma að vandamálið kom í ljós. Það var notkun rafmagnsheftara á sömu skrifstofu sem olli truflunum og nauðsynlegt reyndist að aðskilja prentarann og heftarann.[86]

Sumar villur og vandamál sem upp hafa komið hafa verið vandleystari og krafist grunnbreytinga á kóða. Þekktast þeirra vandamála er auðvitað 2000-vandinn sem fjallað er um í sérstökum kafla en fleiri vandamál sem tengjast tölustöfum fengu fólk til að klóra sér í kollinum. Þannig virkaði röntgenkerfið á Borgarspítalanum á níunda áratugnum ekki rétt á öllum tölvum. Vandinn lá í því að sumar tölvurnar meðtóku ekki að tímasetningar notuðu ýmist einn eða tvo tölustafi til að tákna klukkustundina, það er einn tölustaf fram til klukkan tíu á morgnana og síðan tvo. Truflanirnar hættu klukkan tíu að morgni en fram að því var tíminn skráður vitlaust, til dæmis 80:5 eða 90:5. Það var ekki fyrr en svo hittist á að sérfræðingur var mættur fyrir klukkan tíu að unnt var að takast á við málið og lagfæra villuna.[87]

Frumkvöðlar í fámennum tölvufyrirtækjum á Íslandi þurftu því að bregða sér í alls konar hlutverk og leysa hin ólíklegustu vandamál.

Tölvuþjónusta sveitarfélaga

Rekja má upphaf tölvuvæðingar sveitarfélaga til þess að Logi Kristjánsson, sem þá var bæjarstjóri í Neskaupstað, aflaði sér menntunar á sviði rafrænnar gagnavinnslu (EDV) og vakti áhuga sveitarstjórnarmanna á málinu á 33. fulltrúaráðsfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga haustið 1977. Sveitarstjórnarmenn áttuðu sig á því að tölvur væru framtíðin í stjórnsýslunni og samþykktu tillögu Loga um að skipuð yrði samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga og tekið yrði upp samstarf við SKÝRR. Af hvorugu varð en ákveðið að komið yrði á fót „samskiptamiðstöð sveitarfélaga“.

Í upphafi keypti samskiptamiðstöðin fjárhags- og gjaldendabókhald Endurskoðunar hf. og samið var við Loftleiðir um rekstur, keyrslu og viðhald kerfanna. Ljóst var að nauðsynlegt væri að Samband íslenskra sveitarfélaga legði miðstöðinni til stofn- og rekstrarstyrk á meðan hún væri að slíta barnsskónum en í framtíðinni yrðu þeir sem nytu þjónustu hennar að bera rekstrarkostnaðinn.

Rekstur Samskiptamiðstöðvarinnar hófst árið 1979 og fyrsta heila starfsárið nutu tuttugu sveitarfélög þjónustu hennar. Um ári síðar voru sveitarfélögin orðin þrjátíu, með íbúatölu frá 250 manns til 12.000. Liðlega fjórðungur þjóðarinnar bjó í þessum sveitarfélögum. Samskiptamiðstöðin notaði tvö tölvukerfi fyrir þjónustu sína, annað var fyrir fjárhagsbókhald en hitt fyrir gjaldendabókhald. Árið 1983 var nafni samskiptamiðstöðvarinnar breytt í Tölvuþjónusta Sambands íslenskra sveitarfélaga og Logi Kristjánsson, sem verið hafði stjórnarformaður samskiptamiðstöðvarinnar, var ráðinn framkvæmdastjóri hennar frá haustinu 1984. Starfsemin var rekin sem aðskilinn þáttur í rekstri sambandsins og var til húsa á fjórðu hæð að Háaleitisbraut 11, og sveitarfélög sem nutu orðið þjónustu miðstöðvarinnar voru þá orðin áttatíu. Tölvuþjónustan var samstarfsvettvangur og samræmingaraðili sveitarfélaga á sviði tölvumála og hafði frumkvæði að gerð hugbúnaðar, annaðist viðhald hans og þróun, veitti ráðgjöf um val á vél- og hugbúnaði og leiðbeindi um notkun hans.

Fjárhagsbókhald fyrir sveitarfélög

Árið 1985 bauð Tölvuþjónustan út vinnu við að smíða hugbúnað fyrir einkatölvur, staðlað fjárhagsbókhald fyrir sveitarfélög. Sex tilboð bárust, og voru opnuð 15. febrúar. Stjórn Tölvuþjónustu sveitarfélaga ákvað að semja við Tölvumiðlun hf., sem átti lægsta tilboðið.[88] Um sumarið kynnti Tölvuþjónustan hugbúnað sem saminn hafði verið hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. og fékk heitið SATS-10. Þetta var samhæfður hugbúnaður fyrir rúmfræðilega útreikninga og hönnun, kerfi sem fyrst og fremst var sniðið að þörfum tæknimanna sveitarfélaga en átti einnig að henta verkfræðistofum, verktökum og öðrum sem unnu að skipulagi.[89]  

Einkatölvur fyrir sveitarfélögin – tvöfalt diskettudrif og 720.000 tákn

Vorið 1985 auglýsti Tölvuþjónustan að hún vildi kaupa „einkatölvur og annan búnað fyrir sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki þeirra“ og reiknaði með að fá afhentar fimmtíu vélar með mismunandi fylgibúnaði, á tveimur árum.[90] Þetta leiddi til þess að gerðir voru hagstæðir samningar fyrir sveitarfélögin við nokkra tölvusala um tölvur, prentara, teiknara og disklinga á hagstæðu verði. Einnig nauðsynlegan hugbúnað fyrir stóru tölvurnar, sem notaðar voru fyrstu árin, sem og PC-tölvur starfsmanna sveitarstjórna.[91] Verðkönnun Tölvuþjónustunnar vorið 1985 bar þann árangur að ákveðið var að mæla með því við sveitarfélögin að þau keyptu Advance 88d-tölvur og Microline-prentara, samkvæmt tilboði frá Míkró hf. Þeir höfðu umboð fyrir OKI-prentara og hugbúnað og höfðu leyst ýmis mál varðandi íslenska stafasettið. Logi Kristjánsson lýsti þessum tækjum svo að þetta væru tölvur með „tvöföldu diskettudrifi og væri hægt að geyma 720.000 tákn inni á hverju þeirra“. Hver tölva kostaði 54 þúsund krónur og einnig mátti fá hana með tíu megabæta diski, en þá kostaði hún 89 þúsund krónur.[92] Til þess að setja það í samhengi hversu dýr tæki slíkir prentarar voru á þeim tíma þá nægði Míkró að selja einn prentara á mánuði til að eiga fyrir húsaleigu og launum starfsmanna, sem um þær mundir voru reyndar fáir.[93]

Náð í gögnin

Árið 1986 var ákveðið að Tölvuþjónustan skyldi reka gagnabrunn, svo sveitarfélögin hefðu aðgang að ýmsum gagnaskrám og þeim væru auðveldaðar boðsendingar sín á milli. Gagnabrunnur sveitarfélaganna var tengdur við tölvu SKÝRR og veitti sveitarfélögunum aðgang að þeim skrám sem höfðu þýðingu fyrir þau, í gegnum „mini-tölvur“ starfsmanna. Starfsmenn hringdu í símanúmer gagnabrunnsins á tölvuneti Pósts og síma og fengu þá upp valmynd ýmissa skráa. Meðal þeirra voru Þjóðskrá, fasteignaskrá, Lagasafn, reglugerðasafn um sveitarstjórnarmál, vinnumiðlun og atvinnuleysisskráning, hagtölur sveitarfélaga, lánasjóður sveitarfélaga, launatöflur og launasamningar, gagnabanki bókasafna, tölvuþing og gagnabrunnur Byggðastofnunar. Þá var unnið að því í samvinnu við bæjarstjórn Hafnarfjarðar að bókhaldskerfi bæjarins yrði opnað og almenningur ætti aðgang að upplýsingum um fjárhagsstöðu bæjarins, til að mynda með aðgangi um skjá í bókasöfnum, og hafið var samstarf við bæjarstjórn Kópavogs um að dreifa fundargerðum og dagskrá bæjarstjórnarfunda til bæjarbúa um net Pósts og síma.

Logi Kristjánsson rifjar upp að margar skemmtilegar hugmyndir í þessa veru hafi verið í farvatninu, sem urðu þó aldrei að veruleika. „Þó að mörg skref hafi verið stigin síðar vantar nokkuð á að hugmyndum um gagnsæi og gagnvirkni hafi verið komið á. Tengingin við SKÝRR var til staðar en því miður ekki mikið notuð. Ein orsökin var verðskráin hjá opinberu aðilunum,“ segir hann.[94]

Tekið mið af stærð sveitarfélaga

Í lok níunda áratugarins voru viðskiptavinir Tölvuþjónustunnar orðnir um 95 með íbúafjölda nálægt 140 þúsundum, eða 90% íbúa utan Reykjavíkur. Kerfum sem voru í notkun hafði fjölgað verulega, þau voru orðin tólf eða þrettán, en grunngerðir kerfanna þrjár, eftir stærð sveitarfélaga. Verkefnum fjölgaði, staðgreiðsla skatta var tekin upp á þessum tíma og skipt úr nafnnúmerum í kennitölur, sem hvort tveggja jók mjög álag á Tölvuþjónustuna. Aðeins einn starfsmaður vann hjá Tölvuþjónustunni fram til 1986.

Tölvuþjónustan varð að bregðast við fjölgun tölva því ekki voru á markaðnum forrit sem stóðust þær kröfur sem gerðar voru til að mynda til samræmds bókhaldslykils. Því var slíkt kerfi boðið út á árinu 1985 og samið við Tölvumiðlun. Einkatölvur urðu smám saman allsráðandi og því fækkaði kerfisgerðum Tölvuþjónustunnar. Árið 1993 voru meginlínurnar orðnar tvær, annars vegar einkatölvulína, með eða án nettengingar, og hins vegar IBM System/36-línan, en síðar á því ári tóku við AS/400-tölvur. Verkefnum Tölvuþjónustunnar fjölgaði stöðugt en fjölmörg sveitarfélög voru komin með mótöld og því gátu starfsmenn Tölvuþjónustunnar unnið í beinum tengslum við tölvur viðkomandi sveitarfélaga auk þess sem þeir fóru um landið og héldu námskeið fyrir starfsmenn sveitarfélaga og leiðbeindu þeim.

Þremur árum síðar, árið 1996, voru 112 sveitarfélög með 156.387 íbúa orðin aðilar að þessu samstarfi en utan þess stóðu 53 sveitarfélög, með 7.161 íbúa, en þar er Reykjavíkurborg undanskilin. Samstarfið náði til fjögurra tölvukerfa: Fjárhagsbókhalds sveitarfélaga, launakerfis, gjaldendabókhalds, álagningakerfis fyrir fasteignagjöld og leikskólakerfisins MÖMMU. Tölvuþjónusta sveitarfélaga var eigandi kerfanna en ýmis hugbúnaðarfyrirtæki skrifuðu þau.

Lóðsinn og ALSAM II

Tölvukerfið Lóðsinn var samstarfsverkefni sjávarútvegsráðuneytisins, Hafnarsambands sveitarfélaga og Tölvuþjónustunnar. Fyrsta útgáfa var skrifuð hjá Íslenskri forritaþróun en sú næsta hjá TölvuMyndum. Kerfið hélt utan um ferðir skipa, landaðan afla og annan flutning um hafnir landsins, ásamt gerð reikninga, og sendi upplýsingar daglega til Fiskistofu. Annað kerfi, sem hét ALSAM II, hélt utan um atvinnuleysisskráningu og vinnumiðlun og var í notkun hjá 50–60 vinnumiðlunarskrifstofum um allt land. Nokkru fleiri sveitarfélög áttu aðild að síðastnefndu tveimur kerfunum en voru í reglulegu samstarfi við TS.

Tölvuþjónusta sveitarfélaga lögð niður

Rekstur Tölvuþjónustu sveitarfélaganna gekk upp og ofan þessi árin, vegna mikils stofn- og viðhaldskostnaðar við vélbúnað og hugbúnað, óstöðugs efnahagsástands og gríðarlegrar verðbólgu. Almælt var það viðhorf ráðamanna sveitarfélaganna að þjónustugjöld væru of há en árið 1995 voru viðhorf sveitarstjórnarmanna til Tölvuþjónustu sveitarfélaganna könnuð og niðurstaðan var fremur jákvæð; nærri helmingur taldi að Samband íslenskra sveitarfélaga ætti að bjóða áfram upp á tölvuþjónustu. Hins vegar fannst svipuðu hlutfalli enn að þjónustugjöldin væru of há.

Engu að síður var Tölvuþjónusta sveitarfélaganna lögð niður sumarið 1997 og utanumhald fært út til þeirra tölvufyrirtækja sem skrifað höfðu hvern og einn hugbúnað. En fjórtán árum síðar, árið 2011, lagði framtíðarhópur SSH til að sveitarfélögin létu gera athugun á hagkvæmni þess að taka upp sameiginleg upplýsingakerfi vegna bókhalds, uppgjörs og fjármálastjórnar sveitarfélaganna. Í rauninni var með þessu verið að leggja til að Tölvuþjónusta sveitarfélaganna yrði endurvakin. Eftir að hún var lögð niður fóru sveitarfélögin hvert í sína áttina og allt samráð um samstarf í rekstri tölvukerfa sveitarfélaganna rann út í sandinn. Framtíðarnefndin taldi að þótt sveitarfélögin gætu þá orðið tengst í gegnum internetið væri mikilvægt að þau hefðu sameiginlegt upplýsingakerfi um bókhald, uppgjör og fjármálastjórn sveitarfélaganna. Með því að sameinast um sömu kerfislausnir ættu sveitarfélögin að geta tryggt gæði kerfanna.[95]

 

[1] Halldór Kristjánsson var ráðgjafi í þessu verkefni og man vel átök milli PC-manna og stórtölvusinna.

[2] Þjóðviljinn 17. október 1985, aukablað: Ný sókn.

[3] Þjóðviljinn 9. nóvember 1983, 12. BYLTING í prentiðnaðinum -  Örtölvutæknin gerir tvísetningu á texta óþarfa.

[4] Prentarinn 5.-8. tbl. 1979, 12. Breytt viðhorf við útgáfu dagblaða.

[5] Tækniþróun í 10 ár. Morgunblaðið 251.tbl. II. (2.11.1983), bls. 52-53.

[6] NT 11. okt. 1985. Sá fyrsti sinnar tegundar í heimi íslensk Forritaþróun sf. þróar ADA þýðanda fyrir einkatölvur.  Þjóðviljinn 17. okt. 1985. Hugvit Ríflega í askana látið?

[7] Morgunblaðið 5. feb. 1987. Tíminn vinnur með Artek Forráðamenn fyrirtækisins eru bjartsýnir. Ada þýðandinn hlýtur góðar móttökur og erlendir aðilar bjóða fjármagn og samvinnu.

[8] Frjáls verslun 6. tbl. 1987. Artek gerir sölusamning við Lattice.

[9] Viðtal við Vilhjálm Þorsteinsson 26. sept. 2014.

[10] Morgunblaðið 8, október 1987, B 16. Með myndræna framsetningu gagna að leiðarljósi.

[11] Frosti Bergsson, 2016.

[12] Viðtal við Friðrik Sigurðsson. Tíminn 14. mars. 1996. Strengur hf. og Skyggnir-TölvuMyndir hf.: Hugbúnaðarrisi hefur senn störf

[13] Morgunblaðið 17. febrúar 2005, B 2. TölvuMyndir verða TM Software.

[14] Morgunblaðið 20. desember 2006, 17. Hættir hjá TM Software. Viðtal  við Friðrik Sigurðsson.

[15] Viðtal við Friðrik Sigurðsson í mars 2015.

[16] Morgunblaðið 19. sept. 1991, B 16. Samtök hugbúnaðarfyrirtækja stofnuð - Markmiðið er að vinna að hagsmunamálum íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja

[17] Hættir eftir 47 ára starf fyrir bændur. Bændablaðið, 15. júlí 2015. https://www.bbl.is/folk/haettir-eftir-47-ara-starf-fyrir-islenska-baendur/11499/. Sótt 29.12.2015.

[18] Ari Kristinn Jónsson. Viðtal tekið 27.11.2015.

[19] Mun auðvelda stjórnun veiðanna. Þjóðviljinn. 14. tbl. (18.01.1984), bls. 8.

[20] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[21] Auglýsing í Frjálsri verslun, 4.tbl. 42.árg. 1983, bls. 18.

[22] Sama heimild.

[23] Starfsmennt. Auglýsing í Frjálsri verslun, 1.tbl. 44.árg. 1985, bls. 82.

[24] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 25.11.2015.

[25] Arnlaugur Guðmundsson, 2016.

[26] Sama.

[27] Hewlett Packard hreppti kortaupplýsingakerfi borgarinnar. Morgunblaðið – viðskiptablað, 18. janúar 1990. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/43966/

[28] Stefán Ingólfsson: Fagfélag tölvuráðgjafa. Tölvumál, 1. tbl. (01.01.1988), 13. árg.  Bls. 4.

[29] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 16.9.2015.

[30] Halldór Kristjánsson: Tölvuráðgjöf, er þörf á uppstokkun. Tölvumál, 2. tbl. (01.02.1988), 13. árg., bls. 16.

[31] Sama heimild., bls. 17-18.

[32] Tölvuráðgjafar þiggja sölulaun. DV, 55. tbl. 7. mars 1988, bls. 8.

[33] Sama heimild.

[34] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 16.9.2015.

[35] Einar Haukur Reynis, athugasemd í tölvupósti til SKÝ, 27.5. 2016.

[36] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[37] Hringborð fyrrum starfsmanna Tæknivals. 20.3.2016. Rúnar Sigurðsson, Sigurður Strange, Björk Kristjánsdóttir, Ómar Örn Ólafsson og Rósa Kristín Benediktsdóttir.

[38] Sama heimild.

[39] Morgunblaðið 29. ágúst 1985, 2. IBM á íslandi gefur Háskóla Íslands tölvubúnað: Kemur Íslandi í mikilvæg sambönd við umheiminn — segir Guðmundur Magnússon rektor.

[40] Morgunblaðið 11. apríl 1985, C 1. AFMÆLISGJÖF.

[41] Maríus Ólafsson. Athugasemdir í tölupósti, apríl 2016.

[42] Nánar er fjallað um áhrif Péturs í kaflanum um menntamál.

[43] Svar Maríusar Ólafssonar á tölvupósti við fyrirspurn  11. mars 2015

[44] Arnlaugur Guðmundsson. Viðtal tekið 2.9. 2015.

[45] Norræn stofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, sem sinnir menntun og rannsóknum.

[46] Hann var forstöðumaður RHÍ 1982-1983 eb frá 1983-1987 framkvæmdastjóri.

[47] Skilgreining á því hvað átt er við með breiðbandi er ekki alltaf sú sama á þessum árum. Það sem virðist vera átt við hér er að fyrirhugað hafi verið að nýta einhvers konar símatækni við að netvæða háskólasvæðið. Að mati Maríusar Ólafssonar hefði slíkt verið tímaskekkja á sama tíma og háskóla vítt og breitt um heiminn voru taka upp Ethernet staðla.

[48] Mbl. 12. des. 1985, B 6-7. Um tölvunet og norræna samvinnu — eftir Gunnar Ingimundarson.

[49] Morgunblaðið 24. mars 1985. 14-15. Boðveitukerfi – breiðbandsnet: Hindrar einokun Pósts og síma eðlilega þróun?

[50] Sama heimild.

[51] Helgi Jónsson: Úr tölvupósti frá árinu 2000. SURÍS var stofnað 9. febrúar 1987.

[52] Úr fórum Maríusar Ólafssonar.

[53] Yfirlit fengið frá Maríusi Ólafssyni, 2016.

[54] ftp://ftp.ripe.net/ripe/hostcount/History/RIPE-Hostcount.90-Oct-10

[55] Frekari upplýsingar um fjölda léna má sjá hér: https://www.isnic.is/tolur/hostcount-history.html

[56] Gísli Már Gíslason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[57] Arnheiður Guðmundsdóttir. Minnispunktar vegna viðtala 2014 og 2015.

[58] Söguvefur Sky: http://sky.is/index.php/forsiea11

[59] Viðtal við Sigrúnu Helgadóttur 5. nóv. 2014.

[60] Sama heimild.

[61] Althingi.is Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda 1987 nr. 45 30. mars. Sótt á vefinn 18.3. 2015

[62] Althingi.is 130. Frumvarp tillaga [125. mál] um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Sótt á vefinn 18.3. 2015.

[63] Viðtal við Skúla Eggert Þórðarson 3. desember 2014.

[64] http://is.wikipedia.org/wiki/Bi%C3%B0lari sótt a vefinn 18. mars 2015.

[65] Byggt á viðtali við Skúla Eggert Þórðarson 3. desember 2014.

[66] Viðtal við Jón Ragnar Höskuldsson 3. okt. 2014.

[67] Holberg Másson: Reiknistofa bankanna er stærsta tölvumiðstöð landsins. Morgunblaðið – viðskiptablað. 29. ágúst 1991. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/73023/

[68] Sama heimild.

[69] Sama heimild.

[70] Kjartan Jóhannsson: Debetkortakerfið. Tölvumál 23. árg. 1. tbl. 01.03.1998, bls. 10.

[71] Þorsteinn Hallgrímsson. Viðtal tekið 8.9. 2015.

[72] Kjartan Jóhannsson: Debetkortakerfið. Tölvumál 23. árg. 1. tbl. 01.03.1998, bls. 10.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild, bls. 9.

[75] Elfar Guðjónsson: GSM posar fáanlegir. Tölvumál 24. árg. 1. tbl. 01.03. 1999, bls. 14.

[76] Morgunblaðið 2. mars 1983, 17. Tölvubúnaður til samkeppnisiðnaðar:  Fella niður að- flutningsgjöld.

[77] Alþýðublaðið 6. sept. 1983, 1. Félag íslenskra iðnrekenda kvarta undan tollyfirvöldum: Tafið fyrir afgreiðslu á tölvum

[78] Hvað er þetta MÖDD? Tölvumál, 17. árg. 6. tbl. (01.12.1992), bls. 35.

[79] Maríus Ólafsson. Viðtal tekið 23.11. 2015.

[80] Arnlaugur Guðmundsson, tölvubréf 9.11.2015. Dóttir hans Hlíf Arnlaugsdóttir var spilarinn og höfundur BA-ritgerðarinnar. http://stirni.is/thankar/. Sótt 29.11.2015.

[81] Hvað er þetta MÖDD? Tölvumál, 17. árg. 6. tbl. (01.12.1992), bls. 36.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild, bls. 37.

[84] Sama heimild.

[85] Þorsteinn Hallgrímsson. Viðtal tekið 8.9. 2015.

[86] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 25.11.2015.

[87] Sama heimild.

[88] NT 19. mars 1985. Tölvuþjónusta sveitarfélaga.

[89] Morgunblaðið 7. júlí 1985. SATS-10 hugbúnaðurinn kynntur.

[90] DV 4. maí 1985, auglýsing.

[91] Þar sem annarra heimilda er ekki getið er stuðst við óútgefna samantekt Loga Kristjánssonar um sögu Tölvuþjónustu sveitarfélaga 1979-1997.

[92] Morgunblaðið 4. júlí 1985, B 5. Samband íslenskra sveitarfélaga  valdi Advance-tölvu .

[93] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 25.11.2015.

[94] Logi Kristjánsson, athugasemd við texta, gerð í apríl. 2015.

[95] Byggt á: Tölvuþjónusta sveitarfélaga 1979 – 1997. Samantekt Loga Kristjánssonar 2015.