Skip to main content

Formáli ritnefndar í prentútgáfu

Forsögu tölvuvinnslu á Íslandi má rekja aftur til miðrar tuttugustu aldar þegar Hagstofan fékk sérhæfða vél, sem vann með gataspjöld, til að gera manntal árið 1949. Árið 1952 voru Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar stofnaðar og það voru einnig nokkur tímamót. En upphafspunkturinn hér er þó engu að síður settur árið 1964, þegar fyrsta tölvan kom til Íslands, og fyrir því liggja gild rök. Engin saga getur verið tæmandi og á það sannarlega við um sögu upplýsingatækni á Íslandi. Það verður aldrei hægt að segja sögu allra fyrirtækja, verkefna eða þeirra sem komu að sögunni en leitast hefur verið við að stikla á stóru ásamt því að segja frá hvernig tölvuvæðingin hefur haft áhrif á íslenskt þjóðlíf. Upplýsingatækni spilar stórt hlutverk í þjóðfélagi nútímans og er nú einn af helstu vaxtarbroddum íslensks atvinnulífs. Því er það mikill ávinningur fyrir samfélagið og þau fyrirtæki og einstaklinga, sem tekið hafa þátt í að skapa söguna, að hún sé skráð.

Það mun hafa verið á aðalfundi Skýrslutæknifélags Íslands (síðar Ský) 19. mars 1981 sem Oddur Benediktsson, fyrrverandi formaður félagsins, lagði fram eftirfarandi tillögu: „Aðalfundur félagsins biður stjórnina að athuga hvort fá megi sagnfræðing eða annan hæfan mann til að skrá bók um íslenska tölvuhætti.“ Tillagan var samþykkt en ekkert varð þó af þessu alllengi. Hjá félagsmönnum var fyrir hendi áhugi á því að halda heimildum til haga og festa „á blað“ meðan þær væru ferskar í minni. Og smám saman varð til safn greina sem vistaðar voru á söguvef Ský. En þótt þessi söfnun sé góðra gjalda verð þá varð ekki til neitt heildstætt yfirlit heldur frekar sundurleitar frásagnir. Því varð úr að stjórn Öldungadeildar Ský (ÖD) ákvað í apríl 2014 að kominn væri tími til að skrásetja sögu tölvuvæðingar á Íslandi og óskaði eftir því við stjórn Ský að fara í þetta verkefni. Á það var fallist og formanni ÖD falið að finna einstaklinga í ritnefnd. 

Var ráðinn verktaki til Ský í stuttan tíma til að afla fjár til verksins. Það gekk þannig að hafist var handa.

Þorgrímur Gestsson, blaðamaður, tók verkið að sér. Ritnefnd lagði línurnar; tímabilið sem fjalla átti um skyldi afmarkast frá þeim tíma sem fyrsta tölvan kæmi til Íslands og næstu fimmtíu ár, þ.e. frá 1964 til 2014. Einnig að þessu tímabili skyldi skipt upp í fimm styttri bil. Í vali á viðmælendum var lögð áhersla á að leita í viskubrunn þeirra sem tóku virkan þátt í að taka á móti fyrstu tölvunum sem komu til landsins og voru frumkvöðlar í að móta upplýsingatæknina á Íslandi. Einnig var haft í huga við val viðmælenda að fylla inn í skörðin þar sem rituðum heimildum sleppti. Alls voru tekin formleg viðtöl við um fimmtíu manns en fleiri veittu upplýsingar um einstök atriði. Eftir tæpt ár var Þorgrímur búinn að ræða við marga þeirra og taka saman talsvert efni um fyrstu þrjú tímabilin. En Þorgrímur komst að raun um að sér hefði verið skammtaður of naumur tími til að ljúka verkinu, meðal annars vegna þess að hann hefði ekki næga þekkingu á lokatímabilinu, og því varð úr að hann hvarf frá því. 

Ský samdi við nýjan höfund, Önnu Ólafsdóttur Björnsson, menntaðan sagnfræðing og tölvunarfræðing. Ákveðið var að stefna á útgáfu á vef og sjá svo til með útgáfu bókar síðar. Voru ýmsir kostir fólgnir í því að birta verkið á vef og þeir helstir að þannig gafst mönnum tækifæri til að gera athugasemdir og koma með viðbætur. Varð sú og raunin. Anna tók fleiri viðtöl og vann ötullega að skrifunum, með hléum. Vorið 2016, tveimur árum eftir að hafist var handa, var vefútgáfan formlega opnuð. Jafnframt voru á vef Ský birt myndviðtöl við nokkra einstaklinga sem höfðu tekið virkan þátt í tölvuvæðingu landsins.

Nú, tveimur árum síðar, kemur bókin svo út á fimmtíu ára afmæli Ský. Öllum sem að bókinni standa er vel ljóst að ekki er öll sagan sögð en einhvers staðar verður að setja punktinn og vefútgáfan verður áfram opin. Ritnefndin þakkar Ský fyrir framtakið og þá sérstaklega framkvæmdastjóra félagsins, Arnheiði Guðmundsdóttur, sem var í raun ritstjóri bókarinnar. Einnig bókarhöfundi, sem hefur lifað í þessu verki í nær þrjú ár.

Þá fá allir þeir einstaklingar sem rætt var við og gáfu upplýsingar og/eða ljósmyndir bestu þakkir fyrir framlag sitt. Sama gildir um þau fyrirtæki og einstaklinga sem lögðu fé í verkið og gerðu það þar með mögulegt. Loks þakka ég samstarfsfólki í ritnefnd kærlega fyrir samstarfið, þeim Sigurði Bergsveinssyni (sem var formaður fyrsta árið), Frosta Bergssyni, Gísla Má Gíslasyni, Gunnari Ingimundarsyni, Vilhjálmi Þorsteinssyni, Sigríði Olgeirsdóttur og síðast en ekki síst Þorsteini Hallgrímssyni, fyrrverandi formanni ÖD, en hann starfaði allan tímann ötullega með ritnefndinni.

Arnlaugur Guðmundsson
formaður ritnefndar frá júní 2015

 • Arnlaugur Guðmundsson Arnlaugur Guðmundsson,
  formaður ritnefndar
 • Arnheiður Guðmundsdóttir Arnheiður Guðmundsdóttir,
  framkvæmdastjóri Ský
 • Anna Ólafsdóttir Björnssson Anna Ólafsdóttir Björnssson,
  söguritari
 • Frosti Bergsson Frosti Bergsson,
  ritnefnd
 • Gísli Már Gíslason Gísli Már Gíslason,
  ritnefnd
 • Gunnar Ingimundarson Gunnar Ingimundarson,
  ritnefnd
 • Sigríður Olgeirsdóttir Sigríður Olgeirsdóttir,
  ritnefnd
 • Sigurður Bergsveinsson Sigurður Bergsveinsson,
  ritnefnd
 • Vilhjálmur Þorsteinsson Vilhjálmur Þorsteinsson,
  ritnefnd
 • Þorsteinn Hallgrímsson Þorsteinn Hallgrímsson,
  ritnefnd