Skip to main content

Fjárfestingarfélögin

Eignarhaldsfélag Alþýðubankans EFA, Þróunafélag Íslands, Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn ÍSHUG, Eimskip - Burðarás og Baugur - Dagsbrún

Nokkur fjárfestingafélög störfuðu á Íslandi á ofanverðum níunda áratugnum og í upphafi þess tíunda. Burðarás, fjárfestingarfélag Eimskipafélagsins, sem stofnað var utan um hlutabréfaeign Eimskipa í öðrum félögum 1989, var líklega þeirra þekktast. Eignarhaldsfélag Alþýðubankans var annað. Ríkið stofnaði einnig tvo sjóði til að efla hlutabréfamarkaðinn: Þróunarfélagið og Draupnissjóðinn. Öll þessi félög störfuðu sem áhættufjárfestar og fjárfestu meðal annars í tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækum.[1]

Nýherji stofnaði Klak sem fjárfesti í sprotafyrirtækjum. Þá varð sprenging í framboði áhættufjármagns með tilkomu Nýsköpunarsjóðs sem varð til um leið og FBA.

Stór hluti þessa áhættufjár rann til hátæknifyrirtækja – sérstaklega ýmissa tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækja. Mjög miklar vonir voru bundnar við tölvu - og hugbúnaðariðnaðinn á þessum árum og því myndaðist gríðarleg spenna í kringum hlutabréf þessara félaga. Bréf langfæstra þeirra voru þó í nokkurri umferð og því beindist athygli almennings að þeim félögum sem áttu mikið af óskráðum hlutabréfum.[2]

Þessi fjárfestingarfélög voru arftakar hlutabréfasjóðanna sem almenningur hafði keypt hlutabréf sín í gegnum á tíunda áratugnum, ekki síst á skattaafsláttarárunum, sem fyrr eru nefnd.[3]

Þróunarfélag Íslands var stofnað árið 1985 að frumkvæði þáverandi ríkisstjórnar. Markmið þess var “að örva nýsköpun í íslensku atvinnulífi og efla arðsama atvinnustarfsemi. Þróunarfélagið sérhæfir sig í því að leggja fram áhættufé (e. Venture capital) til atvinnurekstrar, að mestu leyti hjá fyrirtækjum sem byggja á tækni og hugviti og eru ekki skráð á verðbréfamarkaði þegar kaupin fara fram. Eignarhlutur ríkisins í félaginu var að nafnverði 100 Mkr. eða um 29% af heildarhlutafé.“ [4]

Þróunarfélagið var í byrjun undir stjórn Gunnlaugs Sigmundssonar en þegar hann fór til Kögunar árið 1993 tók Hreinn Jakobsson aðstoðarframkvæmdastjóri félagsins við stjórnartaumunum. Þegar Þróunarfélagið gerðist stærsti hluthafi í Opnum kerfum hf. varð hann stjórnarformaður þar og síðan framkvæmdastjóri Skýrr hf. þegar Opin kerfi keyptu ráðandi hlut í félaginu árið 1997 er meiri hluti þess var einkavætt.[5] 

Þróunarfélagið kom meðal annars að stofnun Kögunar hf. í árslok 1988 og átti í því meirihluta, í upphafi 70%,  fram til ársins 1993 en aðrir eigendur voru 37 hugbúnaðarfyrirtæki innan Félags íslenskra iðnrekenda (FÍI, síðar Samtaka iðnaðarins), hvert með 0,7% hlut og FÍI átti einnig smáhlut. Kögun var eitt þeirra fyrirtækja sem oft stóð styr um, ekki síst vegna verkefna fyrirtækisins og eignarhalds. Stofnun Kögunar var fyrir tilstilli utanríkisráðuneytisins og til þess að taka þátt í smíði íslenska loftvarnarkerfisins (IADS[6]-ratsjárkerfisins) sem byggt var á vegum NATO á vegum bandarískra aðila. Kerfið komst í gagnið árið 1994 og sáu Íslendingar um reksturinn. Kögun var undirverktaki Ratsjárstofnunar, sem hélt utan um reksturinn, og sá um viðtaldi og þróun IADS hugbúnaðarins. Forstjóri Kögunar var lengst af Gunnlaugur Sigmundsson fram til ársins 2006. Árið 1996 var fyrirtækið skráð á Opna tilboðsmarkaðinn og árið 2000 voru hlutabréf þess skráð á Verðbréfaþingi Íslands. Á þessum mánuðum urðu gríðarlega miklar hækkanir á gengi hlutabréfa í fyrirtækinu.

Straumur

Straumur hefur verið kallað mikilvægasta fjárfestingarfélagið, sem reis úr rústum aldamótabólunnar. Félagið var fyrsta fjárfestingarfélagið, sem varð til á fyrrgreindan hátt, upp úr hlutabréfasjóði, nánar tiltekið Hlutabréfasjóðnum hf.[7] Starfsemi Straums bæði skaraðist og sameinaðist sjóðum sem höfðu sinnt sérstaklega hátækni og sprotafyrirtækjum og má þar nefna Íslenska hugbúnaðarsjóðinn. Samantekt sem gerð var í tengslum við Rannsóknarskýrslu alþingis gefur góða mynd af flókinni fléttu sem varð í kringum starfsemi Straums á þessum árum.

Strax í upphafi tók Straumur stefnuna á að taka yfir áhættufjárfestingarfélögin sem öll komu illa undan aldamótabólunni. ... í maí 2002, voru tveir áhættufjárfestingasjóðir, sem FBA hafði stofnað í byrjun árs 2000 utan um ýmsar fjárfestingar FBA í hátækni og sprotafyrirtækjum, Talenta Hátækni og Talenta Internet, sameinaðir Íslenska hugbúnaðarsjóðnum sem síðan sameinaðist Straumi í ársbyrjun 2003. Á aðalfundi Íslenska hugbúnaðarsjóðsins í febrúar 2003 var samþykkt að sameina sjóðinn Straumi en hluthafar í Íshug fengu hlutabréf í Straumi. Straumur flutti mikinn hluta eigna Íshug og aðrar eignir sínar í tæknifyrirtækjum yfir í fjárfestingarfélagið Brú Ventur Capital en auk bréfa úr safni Íshug voru bréf úr Talentu Hátækni, EFA og eignasafni Símans í upplýsingatæknifyrirtækjum sameinuð í Brú Venture Capital sem átti að leggja aukna áherslu á fjárfestingar í umbreytingarverkefnum.[8]

Og enn var haldið áfram á sömu braut. Eignahaldsfélag Alþýðubankans (EFA) og Þróunarfélagið, sem bæði höfðu fjárfest mikið í hlutabréfum tölvu- og tæknifyrirtækja kringum hina svokölluðu aldamótabólu[9] höfðu verið sameinuð, fyrst undir nafni Þróunarfélagsins og síðar Framtaks, fjárfestingabanka en runnu nú inn í Straum um mitt ár 2003.[10]

Um þróun Straums þetta ár, frá ágústmánuði og fram í desember, segir í annál Seðlabankans:

Íslandsbanki hf. keypti allt hlutafé í Framtaki fjárfestingarbanka hf. (áður Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf. og Þróunarfélag Íslands hf.) af Fjárfestingarfélaginu Straumi hf. í byrjun desember. Framtak fjárfestingarbanki hf. verður sameinaður Íslandsbanka hf. og mun sameiningin miðast við 1. janúar 2004. Samhliða sölunni var gengið frá samkomulagi þar sem Fjárfestingarfélagið Straumur hf. kaupir þær eignir Framtaks fjárfestingarbanka hf. sem flokkast undir áhættufjárfestingu. [11]

Ein af stærstu eignum sameinaðs félags voru Opin Kerfi Group. Straumi var breytt í fjárfestingarbanka árið 2004 og fór í útrás og tengdist Baugi í stórum fjárfestingum erlendis  en ári síðar sameinaðist Straumur Burðarási, félagi með rætur í Eimskipafélaginu, og hét þá Straumur – Burðarás Fjárfestingarbanki hf.[12] 

 

[1] Magnús Sveinn Helgason: Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið. Viðauki 5 við skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis. Rv. 2010, bls. 21.

[2] Magnús Sveinn Helgason: Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið. Viðauki 5 við skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis. Rv. 2010, bls. 91.

[3] Magnús Sveinn Helgason: Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið. Viðauki 5 við skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis. Rv. 2010, bls. 110.

[4] Einkavæðing á Íslandi 1992-2003. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skýrsla nr. C03:3. Skýrslan var unnin fyrir forsætisráðuneytið og þeir sem tóku hana saman voru dr. Friðriki Má Baldursson og Guðmundi Sigfinnsson B.Sc. Rv. apríl 2003, bls. 22.

[5] Óttar Kjartansson: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld. Saga SKÝRR 1952-2002. Rv. 2002, bls. 262.

[6] Iceland Air Defense Systems.

[7] Magnús Sveinn Helgason: Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið. Viðauki 5 við skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis. Rv. 2010, bls. 114.

[8] Magnús Sveinn Helgason: Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið. Viðauki 5 við skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis. Rv. 2010, bls. 115-116.

[9] Sjá kafla um tímabilið 1995-2004.

[10] Magnús Sveinn Helgason: Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið. Viðauki 5 við skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis. Rv. 2010, bls. 116.

[11] SÍ: Annáll efnahags- og peningamála 2003.

[12] Magnús Sveinn Helgason: Íslenskt viðskiptalíf – breytingar og samspil við fjármálakerfið. Viðauki 5 við skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis. Rv. 2010, bls. 117.