Skip to main content

Framhaldsnám kennara og þátttaka þeirra í ýmsu fræðastarfi og fjölþjóðlegu samstarfi

Kaflinn er byggður á texta frá dr. Sólveigu Jakobsdóttur.

Árið 1998 var ákveðið að setja af stað námsbraut í tölvu- og upplýsingatækni við Framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands (KHÍ)[1] sem Ingvar Sigurgeirsson veitti þá forstöðu. Byggði sú ákvörðun meðal annars á stefnumarkandi skýrslu starfshóps við KHÍ[2] um upplýsingatækni í KHÍ en hópurinn taldi brýnt að efla rannsóknir við skólann á sviði upplýsingatækni í skólastarfi og að Framhaldsdeild veiti brautargengi þeim tillögum sem fram kæmu í stefnumótun Menntamálaráðuneytis, Í krafti upplýsinga. Í þeirri stefnu var lögð áhersla á að styrkja þyrfti rannsóknir á notkun upplýsingatækni á öllum skólastigum og að nýta ætti þekkingu sem aðrar þjóðir hefðu aflað sér með markvissum tilraunum á þessu sviði. Salvör Gissurardóttir, Sólveig Jakobsdóttir og Torfi Hjartarson[3] undirbjuggu og mótuðu námið á brautinni sem fór af stað haustið 1998. Meginmarkið hennar var að mennta frumkvöðla sem gætu skipulagt og unnið að framkvæmd upplýsingamála í skólastofnunum og leiðbeint samstarfsfólki um notkun á tölvum og upplýsingatækni í skólastarfi sem byggði á nýrri námskrá.

nota.i.safnakafla.myndir.en.m.rettum.texta
Í Dipl. Ed. námi í tölvu- og upplýsingatækni. Í hópefli í fyrri staðlotu 18. september 2002 á námskeiðinu Upplýsingatækni í menntun og tölvumenning skóla. Frá vinstri til hægri: Elísabet K. Benónýsdóttir, Andrés Ellert Ólafsson, Berglind Arndal Ásmundsdóttir og Bára Mjöll Jónsdóttir. Hópurinn er að skoða stafræna myndavél.

Fyrstu tvö árin var 15 eininga[4] diplómanám í boði með fjórum námskeiðum. Í framhaldsdeildinni á þeim tíma voru námskeið í boði á haust- og vormisseri en einnig á sumarönn. Á tölvu- og upplýsingatæknibrautinni fyrstu árin var þá eitt 5 eininga námskeið í boði á haustmisseri (Upplýsingatækni í menntun og tölvumenning skóla sem Sólveig hafði umsjón með), eitt 5 eininga námskeið á vormisseri (Nám og kennsla á Netinu sem Salvör hafði umsjón með), eitt 3 eininga námskeið á sumarönn (Hugbúnaður og margmiðlunarefni sem Torfi hafði umsjón með) auk vettvangsnáms (2 einingar). Þar höfðu nemendur færi á að heimsækja stofnanir eða fyrirtæki svo sem Námsgagnastofnun og Menntamálaráðuneytið eða fara í skóla og taka beint eða óbeint þátt í frumkvöðlastarfi eða rannsóknum í upplýsingatækni. Áherslur á brautinni frá upphafi voru á myndun öflugs námssamfélags og myndun tengslaneta í nemendahópnum (Sólveig Jakobsdóttir, 2002).

Árið 2000 jókst námsframboðið á brautinni og gátu nemendur þá skráð sig í 30 eininga diplómanám sem endaði með 5 eininga Dipl.Ed. lokaverkefni. Í kjölfarið fór þá einnig fleiri aðilar að koma að kennslunni og má þar nefna Jón Jónasson, Sólrúnu B. Kristinsdóttur, Þuríði Jóhannsdóttur,[5] Allyson Macdonald og Stefán Jökulsson. Fyrstu árin voru 15 til 36 nemendur teknir inn í námið á hverju ári og luku ýmist 15 eða 30 eininga diplómanámi, yfirleitt með fullu starfi. Þeir sem vildu og höfðu tilskilda lágmarkseinkunn gátu þá bætt við sig 30 einingum (60 ECTS) og lokið meistaragráðu (Sólveig Jakobsdóttir, Torfi Hjartarson og Bergþóra Þórhallsdóttir, 2014). Nokkrum árum síðar var skipulagi framhaldsnáms breytt þannig að nemar sóttu um að skrá sig í meistaranám (120 ECTS, tveggja ára fullt nám) með sérsvið eða kjörsvið (þar á meðal kjörsviðið sem þá var kallað Upplýsingatækni og miðlun) en tóku ekki Dipl. Ed. gráðu(r) fyrst.  

Kjörsvið í upplýsingatækni og miðlun, lítið í fyrstu, var sett á laggirnar við Kennaraháskóla Íslands árið 2000, í kjölfar námskrárinnar 1999 þar sem nýtt námsvið í grunnskóla varð til, og fyrstu nemarnir á bakkalárstigi með það sérsvið útskrifaðir árið 2003 (Sólveig Jakobsdóttir o.fl., 2014).

Við sameiningu KHÍ og HÍ og þegar kennaranámið var lengt urðu verulegar breytingar á skipulagi framhaldsnáms þannig að grunnnemar gætu haldið beint áfram í meistaranám eftir B.Ed. gráðu. Á vef kjörsviðsins (https://vefir.hi.is/um/framhaldsnam/) má sjá upplýsingar um námsframboðið og fjölmörg dæmi um rannsóknir og þróunarstarf nemenda.

Til að efla rannsóknir í upplýsingatækni og miðlun stóð faghópurinn á sviðinu[6] fyrir stofnun Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun (RANNUM) árið 2008. Eru nú um 40 einstaklingar sem eru aðilar að henni auk stuðningsaðila sem eru Heimili og skóli, 3f félag um upplýsingatækni í menntun og Menntamiðja. Á vef stofunnar (https://skrif.hi.is/rannum) má finna upplýsingar um rannsóknir, þróunar- og matsverkefni sem stofan hefur komið að, yfirlit yfir fræðileg skrif Íslendinga á sviðinu, ráðstefnur, málstofur, alþjóðlegt samstarf og fleira.

Fartölvuvæðing

Í áfangaskýrslu um spjaldtölvur í Norðlingaskóla (Sólveig Jakobsdóttir, Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, Helga Ósk Snædal Þórormsdóttir og Ragnheiður Líney Pálsdóttir, 2012, bls. 42) kemur meðal annars fram Á Íslandi fór af stað verkefni í fartölvuvæðingu á framhaldsskólastigi í Menntaskólanum á Akureyri 1999–-2002 (Lára Stefánsdóttir, 2003) en þá hafði Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, hvatt til þess að framhaldsskólar fartölvuvæddust.22 Í Menntaskólanum í Kópavogi hafa nemendur mætt með fartölvur í skólann mörg undanfarin ár. Samkvæmt nýrri matsskýrslu (Guðmundsson og Þorsteinsson, 2012) einkennast kennsluhættir af fjölbreytni og er mikil áhersla á tölvunotkun og upplýsingatækni í skólanum. Í matsskýrslunni kemur fram að nemendur noti þá almennt eigin fartölvur og að þeir hafi aðgang að þráðlausu netkerfi skólans og nota í öllum áföngum rafrænt náms- og kennslustjórnunarkerfi. Ýmsir aðrir framhaldsskólar leggja einnig áherslu á notkun fartölva í námi og kennslu. Má þar nefna Fjölbrautaskóli Snæfellinga og Menntaskóli Borgarfjarðar. Sú þróun helst í hendur við þróun dreif- og fjarnáms á framhaldsskólastigi og notkun námsumsjónarkerfa s.s. Moodle.

Varðandi spjaldtölvur í skólum þá var Norðlingaskóli einn af fyrstu skólunum til að nýta þær frá 2012 (kennarar fengu reyndar tölvur 2011), sjá lokaskýrslu og önnur skrif um verkefnið (Skúlína Hlíf Kjartansdóttir og Sólveig Jakobsdóttir, 2016; Sólveig Jakobsdóttir og Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, 2015). Þá má einnig finna upplýsingar um spjaldtölvueign skóla frá 2013 (Valgerður Freyja Ágústsdóttir, 2013).

Könnun var gerð hér á landi vorið 2013 í 107 skólum á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga í samvinnu við Samtök áhugafólks um skólaþróun (Valgerður Freyja Ágústsdóttir, 2013).  Niðurstöður bentu til að íslenskir skólar væru farnir að endurnýja tækjabúnað töluvert frá því að aflað var gagna í þessa rannsókn. Meðalfjöldi nemenda á hverja borð- eða fartölvu var þegar á heildina var litið 4,6 en 33,2 á hverja spjaldtölvu. Meðalaldur yngri helmings tölvubúnaðar í þátttökuskólunum var 3–4 ár, þar af var meðalaldur yngri helmingsins í ríflega 43% skóla 1–2 ár. Meðalaldur eldri helmings búnaðar var hins vegar 6–7 ár. Könnunin gefur yfirlit yfir tækjakostinn í þátttökuskólum vorið 2013 en hafa má í huga að hlutfall skóla með nýlegan búnað kann að vera lægra í hópi hinna sem ekki tóku þátt. Spurt var um snjalltöflur, skjávarpa, borðtölvur, fartölvur og spjaldtölvur. Snjalltöflur eru fremur fátíðar og ekki að finna nema í 39% þátttökuskólanna. Skjávarpar voru í 96% skólanna (algengast var að skólar ættu 1–5 skjávarpa). Í 92% skólanna var að finna borðtölvur (algengt var að fjöldinn væri á bilinu 16–30). Í tveimur þriðju hluta skóla var að finna fartölvur til afnota fyrir nemendur. Spjaldtölvur vekja nú mikinn áhuga og hafa verið teknar í notkun við skóla víða um heim (European Schoolnet og University of Liège, 2013; Johnson, Adams og Cummins, 2012; Johnson, o.fl., 2013). Þær gætu auðveldað nemendum og kennurum tölvunotkun um allan skólann en komu ekki til sögunnar fyrr en nokkru eftir að gagnaöflun fór fram. Í könnun Valgerðar (2013) kom fram að í 23% skóla var að finna 1–5 spjaldtölvur, í 9% skóla 11–20 en í 4% skóla var spjaldtölvueignin meiri (21–50). Í rúmlega helmingi tilvika voru engar spjaldtölvur. Þá kom fram að um tveir þriðju hlutar skólanna höfðu áætlanir um kaup á tölvubúnaði á árinu 2013. Efst á forgangslistanum var að fjölga spjaldtölvum fyrir nemendur og/eða kennara en í sumum tilvikum að byggja upp þráðlaust net. Um hugmyndir um tölvur sem persónuleg verkfæri í námi (e. 1:1 pedagogy, 1:1 learning) er fjallað eilítið nánar síðar í kaflanum.

Athuga heilmikið yfirlit um rannsóknir á upplýsingatæki í íslensku skólastarfi er að finna í eftirfarandi kafla í bók um stóra rannsókn um starfshætti í íslenskum grunnskólum 2009 til 2011 sem styrkt var af RANNÍS.

anno4
Hönnunarteymi í CEEWIT átaks verkefninu að störfum í Osló haustið 1999. Á myndinni sjást: Anna Ólafsdóttir, Rastislav Harcarufka frá Slóvakíu og Barbara Winterton frá Írlandi en aðrir í teyminu voru Sólveig Jakobsdóttir og Norðmennirnir Björn Brekkan og Leikny Ögrim.

Unnið var að hönnun námskeiðs í upplýsingatækni og var það í kjölfarið í boði fyrir landsbyggðarkonur í þátttökulöndunum árið 2000. CEEWIT (Communication, Education and Employment for Women through Information Technology) verkefnið var styrkt af Leonardo áætluninni en einnig fengust styrkir til viðbótar hér á landi frá RANNÍS, Nýsköpunarsjóði námsmanna og Landssímanum. Íslenskir samstarfsaðilar voru Iðntæknistofnun, Kennaraháskóli Íslands, Menntasmiðjan á Akureyri og Símennt. Markmið verkefnisins var að hanna, þróa og halda námskeið á landsbyggðinni sem væru sérstaklega sniðin að þörfum kvenna með litla eða enga tölvureynslu. Einnig var markmiðið að stuðla með slíkum námskeiðum að því að konur á landsbyggðinni nýttu sér í auknum mæli tölvur og upplýsingatækni til náms, starfs, og samskipta. Áherslur í námskeiðinu voru á samvinnu, sjálfsstyrkingu, sjálfstæði og sköpun. Námskeiðið var í boði á Íslandi á Vesturlandi, Vestmannaeyjum, Dalvík og Akureyri. Þau þóttu takast vel en matsvinna var leidd af Sigurlínu Davíðsdóttur (Anna Ólafsdóttir, Sigurlína Davíðsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir, 2006) og í eftirfylgnirannsókn nokkrum árum síðar kom meðal annars í ljós að námskeiðin höfðu áfram verið haldin árlega með svipuðu sniði á Norðurlandi.

Meðal alþjóðlegra samstarfsverkefna sem Ísland tók þátt í var Evrópuverkefnið EUN 1998-2000 sem styrkt var af Multimedia joint fund en þá tóku 20 Evrópuþjóðir sig saman til að byggja upp og þróa Evrópska skólanetið og tók Kennaraháskóli Íslands þátt í vinnupakka sem snéri að upplýsingatækni í menntun og starfsþróun kennara (Professional Development of Teachers: Integrating ICT in Education). Samstarfsaðilar í þeim verkefnum voru kennaramenntastofnanir í Bretlandi (University of Keele), Portúgal og Ítalíu. Þátttakendur frá Kennaraháskólanum voru Sólveig Jakobsdóttir, Jón Jónasson, Ásrún Matthíasdóttir, Þuríður Jóhannsdóttir, Gréta Björk Guðmundsdóttir og Sólveig Zophoníasdóttir.

Þá tók Kennaraháskólinn þátt í Evrópuverkefninu APPLAUD (A Programme for People to Learn at a University Level at a Distance) 1997-1998 sem styrkt var af Sókratesáætluninni. Verkefnið miðaði að því auka hæfni kennara til að nýta fjarnámstækni til fulls; að bæta viðmót námsefnis sem nemar nota í fjarnámi; vinna að því að viðurkennd séu gæði þess að stunda fjarnám; og bæta samstarf stofnananna sem standa að verkefninu. Þátttakendur voru frá Finnlandi, Frakklandi, Bretlandi, Austurríki og Írlandi og tók Kennaraháskóli Íslands þátt í verkefninu fyrir hönd Íslands (Anna Kristjánsdóttir, Sólveig Jakobsdóttir, Sólrún Harðardóttir, Torfi Hjartarson og Salvör Gissurardóttir). http://www.ismennt.is/vefir/APPLAUD/

Menntamiðja

menntamidja
Menntamiðja kynnt (https://www.menntamidja.is) og samstarfssamningur undirritaður á Menntakviku árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands 5. október 2012. Anna Kristín Sigurðardóttir deildarforseti Kennaradeildar og stjórnarformaður Menntamiðju kynnir en við borðið sitja fulltrúar samstarfsaðilanna: Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri og Reykjavíkurborgar.

MenntaMiðja er samráðsvettvangur sem er ætlað að byggja brýr milli aðila innan skólasamfélags með því að skapa vettvang til samstarfs um þróun starfisins til dæmis á netinu á samfélagsmiðlum og svokölluðum torgum. Fyrstu þrjú torgin sem sett voru á stað fyrir stofnun Menntamiðju voru Tungumálatorg að frumkvæði Þorbjargar St. Þorsteinsdóttur og Brynhildar Önnu Ragnarsdóttur (http://www.tungumalatorg.is) sem opnaði fyrst á Degi íslenskrar tungu 2010; Náttúrutorg að frumkvæði Svövu Pétursdóttur (http://www.natturutorg.is) og Sérkennslutorg að frumkvæði Hönnu Rúnar Eiríksdóttur (https://www.serkennslutorg.is). Þessi torg mynduðu kjarnann í Menntamiðju og urðu fyrirmyndir torga fyrir fleiri faghópa kennara. Í kjölfar stofnunar Menntamiðju voru fleiri torg stofnuð undir þeim hatti, meðal annars UT-torg á ráðstefnu Samtaka áhugafólks um skólaþróun í ágúst 2013 (undir stjórn Bjarndísar Fjólu Jónsdóttur), http://uttorg.menntamidja.is. Markmið UT-torgs er að styðja við notkun upplýsingatækni í námi og kennslu, símenntun skólafólks og upplýsingamiðlun um tækni- og skólaþróun. Nánari upplýsingar um Menntamiðju og torgin er að finna á vefsíðum þeirra og ýmsum skrifum og kynningum (t.d. Sólveig Jakobsdóttir o.fl., 2013; Þorbjörg Þorsteinsdóttir, Brynhildur A. Ragnarsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir, 2011).

Nánari heimildir:

Sólveig Jakobsdóttir, Torfi Hjartarson og Bergþóra Þórhallsdóttir. (2014). Upplýsingatækni í skólastarfi. Í Gerður G. Óskarsdóttir (ritstj.), Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar (bls. 277–319). Reykjavík: Háskólaútgáfan. Sótt af https://hdl.handle.net/20.500.11815/389

Þar eru t.d. upplýsingar um NámUST verkefnið undir forystu Allyson MacDonald og ýmsar niðurstöður úr því verkefni.

Fjarnámskennsla

Á tíunda áratug 20. aldar netvæddust íslenskir skólar hver á fætur öðrum. Nokkur verkefni með tölvusamskiptum milli landa hófust á níunda áratugnum. Pétur Þorsteinsson, skólastjóri á Kópaskeri, fór svo af stað með IMBU og í kjölfarið, árið 1992, var Íslenska menntanetið (Ísmennt) stofnað (Markús Andri Gordon Wilde, 2011). Um svipað leyti hófst tölvustudd fjarkennsla við Kennaraháskóla Íslands og Verkmenntaskólann á Akureyri. Skólar voru netvæddir og íslenskir kennarar fengu netföng (@ismennt.is). Ýmsir kennarar hófu að víkka út skólastofuna með þátttöku nemenda í verkefnum eins og Kidlink[7] og notkun netsins við nám og kennslu breiddist smám saman út fyrir þeirra raðir.

Á tímabilinu 1998–2008 óx fjarnámi í kennaranáminu mjög fiskur um hrygg (Guðrún Geirsdóttir o.fl., 2007, Þuríður Jóhannsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir, 2011, 2012) og með því fengu meistaranemar og stór hluti grunnnema nokkurs konar virðisaukanámsefni fólgið í reynslu af netsamskiptum og ýmiss konar tölvunotkun.

Þá kemur þetta fram í skýrslu frá 2007 fyrir sameiningu háskólanna (Guðrún Geirsdóttir o.fl., 2007), kafli 4.1.1

4.1.1 KHÍ

Við KHÍ var grunnnám fyrir kennara fyrst í boði með fjarnámssniði árið 1979 þegar skipulagt var réttindanám fyrir fólk sem hafði langa kennslureynslu án kennaraprófs (Auður Kristinsdóttir, Ásrún Matthíasdóttir og M. Allyson Macdonald, 2001). Árið 1993 hófst svo fjarkennsla til B.Ed prófs í grunnskólakennarafræðum sem byggt var á tilkomu Netsins og þeim samskiptamöguleikum sem það bauð uppá (Jón Jónasson, 2001). Ákvörðunin um að bjóða fjarnám við skólann var stjórnsýsluleg en tilgangurinn var að koma til móts við þörf landsbyggðar fyrir grunnskólakennara með tilskilda kennaramenntun. Þáttur Íslenska menntanetsins var mikilvægur í þróun fjarkennslunnar (sjá Jón Jónasson). Aðgengi að náminu var til að byrja með bundið við leiðbeinendur í grunnskólum þar sem skortur var á kennurum með réttindi. Síðan hefur orðið mikil aukning á fjarnámi og nú er svo komið að nær öll námskeið í grunnnámi að undanskildum íþróttafræðum eru í boði í fjarnámi.

Námsumsjónarkerfið WebCT er nýtt í flestum námskeiðum og að jafnaði eru tvær staðbundnar lotur á misseri í hverju námskeiði.

Framhaldsnám við KHÍ (Dipl.Ed, M.Ed, og PhD) hófst 1987 þegar farið var að kenna sérkennslufræði í framhaldsnámi vegna þarfar á sérhæfingu á því sviði en smám saman bættust við fjölmargar brautir.

Hingað til hefur framhaldsnámið verið skilgreint sem fjarnám en hefur þó að jafnaði haft fleiri staðbundnar lotur en tíðkast í grunnnámi. Á skólaárinu 2006-2007 var ákveðið að bjóða upp á vikulega staðkennslu á mörgum námskeiðum á nýrri námsbraut (M.Ed) í framhaldsdeildinni (sjá kennsluskrá KHÍ, 2006-2007). Röksemdir fyrir þessu breytta skipulagi voru meðal annars þær að talið var að vikuleg kennsla í stað staðbundinna lota hentaði mörgum betur, ekki síst þar sem meirihluti nemenda skólans byggi á höfuðborgarsvæðinu eða í innan við tveggja tíma keyrslu frá borginni. Þá var einnig gert ráð fyrir að grunnnemar gætu komið beint inn á brautina eftir B.Ed nám sitt og væru þeir margir vanir vikulegri staðkennslu (Sólveig Jakobsdóttir, 2006). Skólaárið 2007-2008 er áfram gert ráð fyrir sveigjanleika fyrir nemendur á viðkomandi braut að því leyti að þeir hafi val um hvort þeir komi í skólann eða stundi námið á Netinu; staðkennsla getur verið vikuleg síðdegis eða í staðlotum (sjá kennsluskrá KHÍ, 2007-2008 og viðauka 3).

.....

Fjarlotur á Neti

Skipulag fjarlota getur verið með margvíslegum hætti. Á leiðbeiningavef Menntasmiðju KHÍ er veitt leiðsögn um hvernig nýta má námsumsjónarkerfið WebCT til að styðja við nám á Netinu (http://leidbeiningar.khi.is/) og styðjast kennarar almennt við þær. Kennsluáætlun er höfð aðgengileg á forsíðu og svæði fyrir almennar umræður er sett upp. Möppur fyrir námsþætti eru búnar til þar sem námsefni er komið fyrir. Auðvelt er að skipa efninu í rökrétta röð með sjálfkrafa tölusettu efnisyfirliti. Kerfið setur upp leiðarkerfi til að ferðast um námsþáttinn og gefur kost á að tengja mismunandi efni beint við sjálft námsefnið, t.d. umræðu, spjall, ítarefni, heimildir o.fl. Einkunnir fyrir verkefni má láta birtast beint á svæði hvers nemanda. Eins og í staðbundna náminu eru kennsluhættir mismunandi og verkfærin sem námsumsjónarkerfið býður upp á má nota á ýmsan hátt til að styðja við og halda utan um námið. Í framhaldsnámi í upplýsingatækni og miðlun hefur námsumsjónarkerfið Moodle töluvert verið notað.

 

Screenshot 2018 01 30 14.03.52

Brautskráning Grétu Bjarkar Guðmundsdóttur með 15 eininga Dipl. Ed. gráðu í tölvu- og upplýsingatækni frá framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands 13.október 2000. Á myndinni sést Gréta í samskiptaforritinu Netmeeting með útprentað skjal sem hún fékk í tölvupósti frá brautarstjóranum Sólveigu Jakobsdóttir (sést einnig í mynd). Gréta var í öðrum hópnum sem brautskráðist af brautinni og höfðu þau fengið sínar diplómur afhentar með viðhöfn deginum áður frá Ólafi Proppé rektor KHÍ. Til stóð að Gréta fengi að taka þátt í þeirri athöfn í fartölvu þar sem hún var komin til framhaldsnáms í Noregi en því miður slitnaði þráðlausa sambandið á ögurstundu. Gréta lauk síðar meistaranámi 2002 frá Oslóarháskóla 2002 og doktorsnámi 2011. Sólveig var meðleiðbeinandi hennar í doktorsnáminu (sjá Gréta Björk Guðmundsóttir, 2002, 2011; Gréta Björk Guðmundsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir, 2009). Tilraunir voru gerðar með rauntímasamskipti á neti í námi og kennslu frá haustinu 1998. Netmeeting var með fyrstu kerfunum sem var prófað.

 

Doktorsritgerðir sem veita nánari upplýsingar um efnið:

Þuríður Jóhannsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir. (2011). Samkennsla stað- og fjarnema við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Reynsla og viðhorf kennara og nemenda – togstreita og tækifæri. Netla - veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af http://netla.hi.is/menntakvika2011/033.pdf

Sólveig Jakobsdóttir, Elsa Sigríður Jónsdóttir, Hanna Lilja Valsdóttir, Ingibjörg B. Frímannsdóttir og Þuríður Jóhannsdóttir. (2008). Fjarnám við Kennaraháskóla Íslands: Skipulag á staðlotum og leiðir til að draga úr brottfalli (nr. ISBN 978-9979-793-88-5). Reykjavík: Símenntun – Rannsóknir – Ráðgjöf Kennaraháskóla Íslands. Sótt af https://geymsla.hi.is/f/87091b427e/

Guðrún Geirsdóttir, Harpa Pálmadóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sólveig Jakobsdóttir, Þorvaldur Pálmason og Þuríður Jóhannsdóttir. (2007). Mótun stefnu í fjarkennslumálum hins sameinaða háskóla - Lokaskýrsla verkefnishóps. Reykjavík, Iceland: Kennaraháskóli Íslands, Háskóli Íslands. Sótt af http://hdl.handle.net/1946/17225

Auður Kristinsdóttir, Ásrún Matthíasdóttir og M. Allyson Macdonald. (2001). Úttekt á fjarkennslu við Kennaraháskóla Íslands. Reykjavík: Rannsóknarstofnun KHÍ. Sótt af https://notendur.hi.is/allyson/fjarkennslasskyrslanetutgafa.pdf

Jón Jónasson. (2001). On-line distance education: a feasible choice in teacher education in Iceland? (M.Phi. thesis). University of Strathclyde, Glasgow. Sótt af https://skrif.hi.is/rannum/jonjonasson_thesis/

Jóhannsdóttir, Þ. og Jakobsdóttir, S. (2014, 27. október). The Internet in Icelandic teacher education - twenty years history: Problems and possibilities. Erindi og umræða á EDEN (European Distance and Elearning Network) Research workshop: Challenges for research into open & distance learning: Doing things better: doing better things, Oxford.

Jóhannsdóttir, Þ. og Jakobsdóttir, S. (2014, 7. mars). Use of Internet for teacher education and teacher development in Iceland in light of twenty years history. Exploring alternative future scenarios. Erindi á NERA (Nordic Educational Research Association), Lillehammer.

Sólveig Jakobsdóttir og Þuríður Jóhannsdóttir. (2012, 20. apríl). Teacher education via distance: development and status. Kynning á málstofu fyrir gesti frá University of Trondheim, Reykjavík. Sótt af http://www.slideshare.net/soljak/trondheim-fjarkennsla-april2012loka

Jóhannsdóttir, T. J. (2010). Teacher education and school-based distance learning: individual and systemic development in schools and a teacher education programme (doktorsritgerð). University of Iceland, Reykjavík. Sótt af http://hdl.handle.net/1946/7119

 

[1] Aðrar brautir sem í boði vor við deildina haustið 1998 voru Kennslufræði, Sérkennslufræði, Stjórnun og Uppeldisfræði (Kennaraháskóli Íslands, 2000).

[2] Í starfshópnum voru Anna Kristjánsdóttir sem leiddi hópinn, Salvör Gissurardóttir, Sigurjón Mýrdal og Torfi Hjartarson.

[3] Þau höfðu öll lokið framhaldsmenntun í Bandaríkjunum á þessu sviði. Salvör Gissurardóttir 1990, M.A. gráðu frá University of Iowa, Torfi Hjartarson 1991, M.S. frá University of Oregon (Instructional System Design) og Sólveig Jakobsdóttir 1991, M.Ed. og 1996 PhD frá University of Minnesota (Instructional Systems and Technology) og var doktorsritgerð Sólveigar um tölvumenningu skóla (Sólveig Jakobsdóttir, 1996).

[4] Í dag ígildi 30 ECTS sem svaraði fullu námi í eitt misseri eða hálfu námi í tvö misseri.

[5] Jón, Sólrún og Þuríður luku öll framhaldsmenntun á sviði upplýsingatækni í námi, net- eða fjarkennslu um aldamótin (Jón Jónasson, 2001; Sólrún B. Kristinsdóttir, 2000; Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, 2001), Jón og Sólrún frá Bretlandi en Þuríður frá KHÍ. Þuríður var næstfyrsti nemandinn frá KHÍ til að útskrifast með meistaragráðu þar sem áhersla var á nám með nýjum miðlum en áður hafði Sylvía Guðmundsóttir skrifað um notkun tölva í sérkennslu (Sylvía Guðmundsdóttir, 1999). Þuríður varð svo fyrst til að brautskrást frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands með doktorsgráðu á því sviði (Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, 2010).

[6] Sólveig Jakobsdóttir, Salvör Gissurardóttir, Stefán Jökulsson, Torfi Hjartarson og Þuríður Jóhannsdóttir

[7] KidLink-verkefnið byggðist á samvinnu og samskiptum barna á grunnskólaaldri á netinu og hófst 1990, sjá http://www.kidlink.org/. Meðal íslenskra frumkvöðla um netnotkun í skólastarfi sem tóku virkan þátt í Kidlink voru Lára Stefánsdóttir, Eygló Björnsdóttir og Hilda Torfadóttir (Hilda Torfadóttir og Eygló Björnsdóttir, 1999).