Skip to main content

Framtíðarsýn

Þeir Hjálmar Gíslason og Ólafur Andri Ragnarsson hafa hugsað og fjallað talsvert um framtíð tölvutækninnar á komandi árum og því kemur það í þeirra hlut að spá í framtíðarþróunina.

Framtíð tölvutækninnar

Þegar framtíð tölvutækninnar er rædd er vinsælt að mála dökkum litum. Segja að tölvurnar muni taka völdin, að tölvurnar muni taka störfin, að samskipti í gegnum tölvu muni útrýma mannlegum samskiptum og að þeir sem ráði yfir gögnum um okkur muni geta stjórnað skoðunum okkar, orðum og gjörðum.

Ég tek ekki undir neitt af þessu. Með því er ég ekki að stimpla mig inn sem bjartsýnismann, ég er – eins og ein mín stærsta fyrirmynd, læknirinn, samfélagsrýnirinn og gagnagoðið Hans Rosling, sagði – gallharður möguleikamaður.

Möguleikarnir eru nefnilega óþrjótandi. Í gegnum tíðina hefur hver einasta tæknibylting verið útmáluð sem endalok heimsins eins og við þekkjum hann. Og þegar mönnum hefur verið bent á það hafa þeir í hvert einasta skipti sagt: „Já, en núna er þetta öðruvísi.“ Fjórða iðnbyltingin er ekkert öðruvísi. Hún er enn eitt skrefið sem mun færa okkur betri heim, betri lífsskilyrði og meira frelsi til að sinna nýjum og merkilegri verkefnum. Gervigreind mun gerbylta krabbameinsgreiningu og seinna krabbameinsrannsóknum þannig að við munum þurfa að finna eitthvað nýtt til að deyja úr. Gervigreind mun vissulega „taka af okkur“ mörg af störfum hversdagsins en á móti skapa tíma til að sinna bóklestri, listsköpun og frjálsri hugsun. Með henni verða líka til ný störf sem líklega munu að miklu leyti snúast um umönnun og mannleg samskipti af ýmsum toga.

Tæknin mun líka halda áfram að skapa tíma til að slæpast. En við höfum gott af því að slæpast. Okkur langar innst inni til að slæpast og oft gerast góðir hlutir einmitt þegar við leyfum okkur það. Í gegnum tíðina hafa margir þeirra sem hafa haft hvað mest fram að færa til framfara í tækni, vísindum og listum einmitt verið þeir sem fengu tækifæri til að slæpast. Leonardo da Vinci, Isaac Newton og Ada Lovelace voru öll fólk sem nutu þess að fá að slæpast. Og við njótum ávaxtanna.

Þetta þýðir auðvitað ekki að allt sé fullkomið, eða að frábær framtíð sé sjálfsögð og sjálfgefin. Því fer fjarri. Þetta þýðir ekki heldur að við eigum að horfa framhjá vandamálum sem þarfnast úrlausnar, stórum sem smáum. En án trúar á því að þau verði leyst og að framtíðin geti orðið betri verður hún það aldrei.

Við þurfum að ræða siðferðilegar spurningar varðandi gervigreind. Við þurfum að ræða hvað vernd persónuupplýsinga þýðir á tímum samfélagsmiðla og umfangsmikillar miðlægrar gagnasöfnunar. Við þurfum að ræða valdið sem tæknirisar samtímans hafa með aðgangi sínum að slíkum upplýsingum og valdið sem þeir hafa til að stjórna því hvaða upplýsingar við sjáum og lesum.

Allt þetta eru áskoranir sem við þurfum að takast á við, en þetta eru í eðli sínu byltingar ekki ólíkar þeim sem urðu þegar prenttæknin var fundin upp, gufuaflið ruddi sér til rúms eða þegar verksmiðjuvædd fjöldaframleiðsla tók yfir sífellt meira af viðfangsefnum verkamanna. Allt voru þetta tæknibreytingar sem höfðu í för með sér samfélagssviptingar, en allar leiddu þær til lengri tíma til betri heims og betra lífs fyrir þorra mannkyns. Það gerðist ekki umsvifalaust, né af sjálfu sér, heldur yfir allnokkurn tíma fyrir tilstuðlan öflugrar gagnrýni, nýrra laga og reglugerða og nýrrar hugsunar með breyttri tækni og samfélagsgerð.

Tæknin er ekki áhyggjuefni og framþróun hennar verður ekki stöðvuð. Í tækninni felast stórkostleg tækifæri en jafnframt krefjandi úrlausnarefni. Helsta úrlausnarefnið er samt sem áður ekki tæknilegt. Það er að svara því hvaða samfélagsgerð tryggir að allir njóti þeirra ávaxta sem tækniframfarirnar hafa í för með sér og að tryggja að sú samfélagsgerð verði ofan á. Hingað til hefur mannkyninu borið gæfa til að gera það við hvert byltingarkennda framfarastigið á fætur öðru og ég hef óbilandi trú á að við gerum það áfram.

Hjálmar Gíslason

Á seinni helmingi skákborðsins

Árið 1958 fundu menn upp samrásina (integrated circuit) þar sem smárum (transistor) var komið fyrir á kísilflögu í stað þess að víra þá saman. Framfarirnar hafa síðan verið ævintýralegar. Á fyrstu árum samrásarinnar mátti fjölga smárum á kísilflögunni um helming árlega. Þessu veitti ungur verkfræðingur, Gordon Moore, athygli og skrifaði um það í tímaritið Electronics. Lögmál hefur síðan verið nefnt eftir honum, sem segir að tölvur verði helmingi öflugri með hverju árinu, eða reyndar á 18 til 24 mánaða fresti.

Lögmál Moore er óvenju lífsseigt og þarf ekki annað en að bera nokkurra ára gamlar tölvur saman við nýjar vélar til að sjá gríðarlegan mun. Venjulegur snjallsími er milljón sinnum öflugri en risastórar vélar voru fyrir aðeins nokkrum áratugum. Veldisvöxtur er einföld formúla þar sem tölur tvöfaldast við hvert skref. Þetta er einfalt að sjá með því að telja: fyrst kemur 1 og svo tvöföldum við og þá kemur 2, aftur þá 4, svo 8, 16, þá 32, svo 64, 128 og þannig virkar þessi sakleysislega formúla. Þó þetta sé nú ekki merkilegt fyrirbæri þá er þetta lýsing á tölvubyltingunni, hvorki meira né minna.

Þessi einfalda formúla leynir á sér. Fræg er sagan af indverska kónginum sem fékk gest í heimsókn sem færði honum tafl. Eftir að hafa kynnt sér leikinn vildi kóngur ólmur verðlauna gestinn. Sá var hógvær og vildi einungis hrísgrjón sem talin væru þannig að eitt grjón færi á fyrsta reit, tvö á annan, svo fjögur og alltaf tvöfaldað upp frá því. Það þótti kóngi frekar ómerkilegt en bað hirðmenn að sækja grjón í hina konunglegu grjónahirslu og gera eins og lagt var til. Þegar komið var í þriðju röð fóru að renna á konung tvær grímur. Tölurnar hækkuðu hratt og á 17. reit þurfti 131.072 grjón og á þann 33. þurfti 4.294.967.296 grjón. Á seinni helmingi skákborðsins fór allt úr böndunum en á síðasta reit hefði konungur þurft 4.611.686.018.427.390.000 grjón.

Ef við gerum ráð fyrir að afkastageta tölva hafi tvöfaldast á 18 mánaða fresti frá 1958 þá fórum við yfir á seinni helming skákborðsins árið 2006. Upp frá því höfum við séð miklar breytingar á okkar lífi. Við höfum öfluga snjallsíma og getum flett upp hverju sem við viljum, fengið kort af borgum, keypt strætómiða, skráð okkur í flug, borgað reikninga o.s.frv. Allt þetta getum við gert sitjandi í strætó. Með Facebook hafa samskipti og umræður breyst, Netflix gefur okkur þætti og myndir og Spotify hvaða tónlist sem er.

Í raun eru breytingarnar rétt að byrja. Gervigreindin er mjög skammt á veg komin og mun breyta mörgum störfum fólks. Forsendur gervigreindar eru skýjalausnir í öflugum vélarsölum og gríðargögn (Big data). Hægt er að þjálfa upp gervigreind sem lærir að þýða milli tungumála í rauntíma, getur lesið yfir ritgerðir nemenda og gefið einkunn, samið tónlist, lagt til genabreytingar, metið tjón tryggingafélags, metið umsóknir um lán, umsóknir um störf og sjúkdómsgreint sjúklinga. Við erum bara rétt að byrja. Þjálfa má gervigreind til ráðgjafarstarfa og sýnt hefur verið fram á að gervigreindin sé jafnvel betri en mannleg greind.

Í fyrsta skipti í mannkynssögunni er nú til einhvers konar greind sem er á við eða öflugri en mannsgreindin. Með ofurgreind, sem er miklu öflugri en hin mannlega greind, má takast á við vandamál sem mannsgreindin hefur ekki ráðið við hingað til, svo sem að finna lækningar við illvígum sjúkdómum, útbúa öflugri lyf, genabreyta plöntum og hugsanlega skilja loftslagsbreytingar.

Einstaklingar munu hafa persónulegan einkaritara til að ráðfæra sig við og sjá um ýmis verk, t.d. að bóka borð á veitingastað, minna á brúðkaupsdaginn og leggja til gjafir, segja hvað er til í ísskápnum og kalla á sjálfkeyrandi deilibíl.

Internet hlutanna (Internet of things) er önnur bylting sem er rétt að hefjast. Örtölvur og annars konar tölvubúnaður er orðinn smár og á sama máta öflugur, og því eru komnir á markað alls kyns skynjarar. Í venjulegum snjallsíma er fjöldi skynjara. Með því að setja skynjara á hluti eins og bíla, færibönd, hús, sjúkrarúm, kornakra, plöntur o.s.frv. má afla alls kyns upplýsinga um hluti í umhverfinu. Slíkar upplýsingar má nota til að finna lausnir á verkefnum sem áður var mjög erfitt að leysa. Í raun mun allt lifna við. Bílar munu tala við vegaskynjara sem tala við skýjalausnir sem tala við leiðsögukerfið sem bíllinn notar til að keyra. Húsið mun tala við orkufyrirtækið sem framleiðir orku eftir þörfum. Plöntur munu tala við skýjalausnir sem tala við vísindamennina sem rannsaka loftslagsbreytingar. Akurinn mun tala við upplýsingakerfi bóndans sem talar við róbótana sem sá, taka upp, vökva og dreifa áburði.

Róbótar hafa lengi verið mannkyninu hugleiknir. Hingað til hafa þetta verið einfaldar vélar, iðnþjarkar. Róbótar framtíðarinnar munu skynja umhverfi sitt. Þeir hafa sjón og geta þekkt hluti. Þeir hafa heyrn og því er hægt að tala við þá. Róbóta má koma fyrir við færiband og kenna honum ákveðið verkefni. Spítalaróbótar fara um spítalann með aðföng fyrir starfsfólk og sjúklinga. Róbótar munu fara inn á heimilin og sjá um heimilisstörf.

Þá stöndum við frammi fyrir mikilli byltingu þar sem maðurinn sjálfur, líkaminn, er sem ónumið land. Örtölvur eða örróbóta mætti senda inn í líkamann. Þannig mæti laga æðar, kanna innyfli og bólgur og fá rauntímaupplýsingar. Hugsanlega væri hægt að fylgjast með ástandi okkar í rauntíma og nota gervigreind til að meta líkur á að sjúkdómar geri vart við sig.

Í raun mun það eina sem heldur aftur af tækniþróuninni vera geta mannsins til að meðtaka tæknina. Rithöfundurinn og framtíðarfræðingurinn Arthur C. Clark sagði eitt sinn að erfitt væri að spá um tækni framtíðarinnar. Það eina sem hann vissi væri að framtíðin verður frábær.

Ólafur Andri Ragnarsson