Skip to main content

Íslenska stafataflan

Þegar fólk slær inn íslenskan texta á lyklaborð, snertiskjá eða með annarri tækni, þá gleymist eflaust oft að það var aldrei sjálfgefið að séríslensku stafirnir yrðu hluti af kjarna þess stafasetts sem algengast er á Vesturlöndum.

Skýrslutæknifélagið
Þeir eru margir sem hafa lagt hönd á plóginn við að aðlaga tölvur, prentara og skjái séríslenskum þörfum. Skýrslutæknifélagið kom snemma inn í myndina, en árið 1978 var stofnuð sérstök nefnd innan félagsins til að vinna að framgangi íslenska stafasettsins. Nefndin gerði tillögu að staðsetningu íslensku stafanna og broddsins í ASCII-töflunni, sem síðar varð ISO-útgáfa. Þetta var ekki staðall í sjálfu sér heldur aðferð til að mynda íslenska stafi. Farin var sama leið og á ritvél, broddurinn sleginn fyrst og síðan stafurinn. Gerður var greinarmunur á broddi á litlum og stórum staf. Þessi aðferð var notuð hjá símaskránni og starfsmenn Símans sáu að þessi leið var fær.[1] Baráttan hefur lengst af verið háð af einkaaðilum en ekki stjórnvöldum nema að litlu leyti.

Þótt íslensk stjórnvöld hafi löngum talið sig reka öfluga málverndunarstefnu virðist ríkisvaldið ekki hafa mikinn áhuga á að tryggja möguleikann á notkun séríslensku stafanna í upplýsingatækni. Sú barátta lenti einkum á herðum áhugasamra einstaklinga, félagsmanna í Skýrslutæknifélagi Íslands. Þeir nutu þó góðrar aðstoðar manna úr háskólasamfélaginu, […][2]

Íslenska á við í íslenskum tölvum, hvað allir athugi!

Skýrslu- og töflugerðarvélar þær, sem voru fyrirrennarar tölva nútímans, voru þeim annmarka háðar að takmörk voru fyrir því hve margir bókstafir rúmuðust í þeim. Töflugerðarvélin IBM 405, sem kom hingað til lands árið 1952, rúmaði til að mynda ekki fleiri en 38 stafi en þar af voru tíu tölustafir, 0–9. Í íslenska stafrófinu eru hins vegar 36 bókstafir, að meðtöldum C, Q og W, sem hafa aldrei átt þegnrétt þar, og Z, sem var lagður niður fyrir löngu. Þetta þýddi að skera þurfti niður þann fjölda bókstafa sem nota mátti, og eins varð að láta hástafina eina duga. Stafirnir Ð, Þ, Æ og Ö urðu óhjákvæmilega að vera með en fórna mátti Q-inu. Ekki var þó með nokkru móti komið við að nota bókstafi með broddi, sem eru eitt af sérkennum íslensks ritmáls. Eitt sæti fór í að halda tveimur sértáknum, * og CR, sem notuð voru til að auðkenna summur. Þar vantaði því tvö sæti en sá vandi var leystur með því að gera tvo stafi tvíræða, sameina annars vegar 2 og Z, hins vegar l og I. Mönnum var vel ljóst að þetta væri meingallað, en svo varð að vera.

Þetta skánaði heilmikið með fyrsta rafreikni SKÝRR, IBM 1401, fyrstu tölvunni sem náði verulegri útbreiðslu í heiminum. Henni fylgdi prentari sem spýtti út úr sér 600 línum á mínútu og þótti það ótrúlega mikill hraði. Fyrsta útgáfa þessa prentara gat prentað 48 mismunandi tákn og 132 stafi í hverja línu. Þarna vannst svigrúm til að fjölga táknum á ný og teknir voru inn bókstafirnir I, Z og Q og tveir broddstafir: Á og É.

Samfara örri tækniþróun á áttunda áratugnum og því að vinnsla og geymsla gagna losnaði úr viðjum gataspjaldanna, auk þess sem disklingar, segulbönd og síðan beinlínuvinnsla komu til sögunnar, jókst talsvert rými fyrir tölu- og bókstafi. Þá var almennt farið að tákna tölvustafi með tiltekinni samsetningu bita í talnakerfi sem hafði grunntöluna 16 (hexadecimal, HEX). Búin var til stafatafla sem byggðist á sjö 16 stafa línum og þannig er til komin svonefnd 7 bita ASCII-stafatafla en hún var síðan notuð í alþjóðlega ISO 646 staðlinum. Í þessari töflu var rúm fyrir 128 tákn; þar af voru 32 sæti tekin frá fyrir stýritákn en tíu sæti voru til frjálsrar ráðstöfunar til að uppfylla sérþarfir hverrar þjóðar.

Þessi tíu sæti dugðu ekki fyrir öll tákn íslenska stafrófsins, meðal annars vegna þess að farið var að nota bæði há- og lágstafi. Í byrjun var fundin sú aðferð að nota lausan brodd, sem tók sérstakt sæti á undan stafnum sem hann skyldi vera yfir, en táknin tvö sameinuðust þegar sjálfur stafurinn var sleginn og birtust á skjá eða voru prentuð. Þetta þýddi meðal annars að breyta þurfti stýrikerfum allra skjáa og prentara sem fluttir voru til landsins.

Hinn dauði lykill

Margs var að gæta þegar unnið var að því að tryggja íslenskunni sess í tungumálaheimi tölvunnar. Ekki er ýkja langt síðan fólk átti í brösum við að setja kommu yfir stafi. Sá vandi var leystur með hinum „dauða lykli“, sem er raunar þekkt fyrirbæri á ritvélunum gömlu en virðist hafa vafist fyrir mönnum þegar tölvur áttu í hlut.

ASCII og ISO

ASCII dugar vel til að skrifa á eftirfarandi tungumálum: latínu, svahílí, havaísku og ensku (US). Hins vegar dugði ASCII ekki fyrir ýmis önnur tungumál í heiminum. ISO 646 var alþjóðlega útgáfan af ASCII eins og áður segir. Til urðu margar sérstakar þjóðlegar útgáfur af ISO 646 og þar á meðal ein íslensk. Með því að nota tvö sæti fyrir brodd yfir stóran staf og lítinn þá voru átta sæti eftir og það passaði fyrir íslensku stafina sem ekki voru í töflunni, það er Þ, Æ, Ð og Ö. Á þessu stigi var það einmitt sem Skýrslutæknifélagið kom til skjalanna. Nefndir um EBCDIC-kóðun, ASCII-kóðun og lyklaborð voru settar á laggirnar haustið 1977 og skiluðu af sér í febrúar 1978. Nefndin um 7 bita kóðann, undir forystu Frosta Bergssonar, skilaði þeirri tillögu sem sýnd er á meðfylgjandi mynd.

7 bitaKodi
Taflan sem varð „de facto“-staðall á Íslandi og var nýtt í öllum 7 bita tækjum, skjáum og prenturum. Tölvumál 1. tölublað 3. árgangur.

ISO 646-taflan varð grunntaflan í nýjum ISO-staðli, ISO 8859, sem var 8 bita staðall. Sá staðall byggir á ISO 646 sem eins konar grunnsíðu, „Latin“, þar sem áttundi bitinn er núll. Margar mismunandi síður koma þar á eftir: „Latin-1“, „Latin-2“ og upp í „Latin-15“, þar sem áttundi bitinn er einn.

Baráttufólk

Tölvuorðanefnd

Tölvuorðanefnd eru gerð góð skil í þessum köflum en fullyrða má að framlag meðlima hennar hafi skipt sköpum um það hvernig íslenskur tölvuorðaforði hefur þróast.

JG-stafakóðinn og Jóhann Gunnarsson

Á þessum árum, um 1985, blandaði Jóhann Gunnarsson, sem þá var forstöðumaður Reiknistofnunar Háskólans, sér talsvert í staðlamál sem tengdust tölvutækni. Staðall fyrir íslensk tákn í stýrikerfum tölva er meðal annars við hann kenndur, nefndur JG-staðall eða JG-stafakóði. Í þessum kóða eru tuttugu séríslenskir stafir á „sama stað“ og í ISO-8859-1[4]

Eitt það mikilvægasta í hans frumkvæði var að kalla saman innflytjendur PC-tölva á Íslandi og fá þá til að sammælast um að samræma kóðatöflurnar og lyklaborðin. Ekki er vitað til þess að neitt viðlíka hafi verið gert annars staðar í heiminum með þessum hætti.

Um kveikjuna að þessu framtaki Jóhanns segir í sögu IBM á Íslandi:

Einmenningstölvan IBM PC var kynnt í ágúst 1981. Fljótlega eftir það komu fram á sjónarsviðið margar eftirlíkingar, sem sumar þóttu reyndar betur heppnaðar en fyrirmyndin. […] Það var ljóst að PC-tölvurnar voru ekki eylönd. Notendur þeirra þurftu að geta skipst á göngum milli véla án vandræða. Hér stefndi allt í rugl og óefni sem engum væri til þægðar.

Höfundur þessarar samantektar […] hafði frumkvæði að fundum með innflytjendum og nokkrum stórum notendum […] þar sem þess var freistað að ná samkomulagi um samræmda stafatöflu. Það tókst, og var svokölluð JG-stafatafla í notkun í nokkur ár þar til ný tafla frá IBM, er bar númerið 850, ruddi sér til rúms í PC-heiminum.[5]

Örn og Ritvangur

Orðanefndarmaðurinn Örn S. Kaldalóns, sem var starfsmaður IBM á áttunda og níunda áratugnum, var sendur til Kanada á vegum fyrirtækisins árið 1982 til að taka þátt í hönnun á nýjum hugbúnaði, sem hlaut nafnið DisplayWriter á ensku en Ritvangur á íslensku. Hans verkefni var að búa þannig um hnúta að þar væru allir íslensku stafirnir tiltækir, og útvega prófunargögn (test cases) til að tryggja það. Áður en Örn fór til Kanada var IBM á Íslandi einnig komið með skjái sem sýndu alla íslensku stafina, bæði stóra og litla, en ekki var hægt að slá þá inn, þá vantaði á lyklaborðið. Hann útbjó því forrit sem gerði kleift að slá úrfellingarmerki á undan broddstöfunum a, e, i, o, u og y, þannig að þegar ýtt var á „enter“ kom broddurinn á réttan staf. Örn rifjar þetta upp:

Það var í Kanada sem ég uppgötvaði mér til furðu, að þrátt fyrir frönskumælandi þjóðarbrot, sem þurfti að nota broddstafi eins og á og é til áherslu, þá vissu menn í Toronto ekki hvernig þessir stafir væru skráðir inn. Ég fræddi þá á því að til væri nokkuð sem héti „dauður lykill“, fór upp að töflu og útskýrði að þegar slegið væri á brodd væri bendillinn kyrr undir broddinum þar til slegið væri á næsta staf – ef hann væri á eða é breyttist stafurinn í það en ef hann væri r eða ess þurrkaðist broddurinn út. Þetta þótti Kanadamönnum nýmæli, en ég var hissa á að þeir skyldu ekki hafa vitað þetta.[6]

Frumkvæði fyrirtækjanna

Fyrirtæki sem seldu vélbúnað þurftu eitt af öðru að leysa vandann sem skapaðist af því að vera ekki með íslenskt stafasett á þeim vélbúnaði sem þau seldu, áður en þau komu sér saman um lausnir að frumkvæði Jóhanns Gunnarssonar. Ýmsar leiðir voru fundnar til að laga þetta og skal hér stiklað á því stærsta.

Örtölvutækni

ASCII-skjáir með öllum íslensku stöfunum og dauðum broddi komu fyrst á markað hér á landi frá Örtölvutækni árið 1979.

Örtölvutækni hafði meðal annars séð margs konar aðilum fyrir búnaði sem byggðist á örtölvutækni, meðal annarra Flugmálastjórn, bændum og skipum, bæði fiskiskipum og varðskipum. Þegar farið var að tengja þennan búnað við tölvuskjái þurfti að huga að séríslenskum bókstöfum. Örtölvutækni flutti inn skjái frá Bandaríkjunum. Vandinn var sá að ekki var gert ráð fyrir íslensku sérbókstöfunum í hugbúnaði fyrirtækisins. En starfsmenn Örtölvutækni fundu ráð við því og bættu þessum séríslensku stöfum við, í samræmi við „staðal“ ASCII-töflunnar sem gerður hafði verið á vegum Skýrslutæknifélagsins. Síðan fengu þeir framleiðanda skjáanna til að breyta hugbúnaðinum eftir þeirra forskrift. Þar með voru þeir komnir með vænlega söluvöru í hendurnar og fóru að selja þessa skjái hér. Þeir fundu einnig, á tölvuvörusýningu í Bandaríkjunum, Hewlett Packard laser-prentara sem gátu prentað íslensku stafina. Öðrum prenturum sem fluttir voru til Íslands þurfti að breyta svo þeir gætu prentað þá og þarna var komin önnur vara sem seldist ágætlega.

Tæknilega útfærslan var með þessum hætti eins og Arnlaugur Guðmundsson rifjaði upp í tilefni af ritun þessarar sögu:

Örtölvutækni sf. breytti árið 1978 bandarískum skjá frá Beehive þannig að hann sýndi þ, æ, ð og ö, hástafi og lágstafi og sameinaði brodd og sérhljóða í breiðan sérhljóða, væri sérhljóði sem tekur með sér brodd sleginn næst á eftir broddinum. Annars sýndi skjáinn brodd og næsta staf; t.d. [´] [a] skilaði [á] en [´] [s] skilaði [´s] á skjáinn. Fyrirtækið breytti einnig EPSON-prenturum á svipaðan hátt. Reyndar varð að skrifa sérstakan rekil fyrir prentarana. Við að fá brodd sendi rekillinn [BS] (backspace) á undan næsta staf ef sá stafur var sérhljóði sem tók með sér brodd. Þetta er nú ekki sérstaklega flókin lógík en einhvern veginn hafði hún staðið í mönnum fram að þessu.[7]

Tölvubúðin – íslenskir stafir gáfu forskot í samkeppninni

Þegar Vilhjálmur Þorsteinsson, Reynir Hugason og Unnur Steingrímsdóttir stofnuðu Tölvubúðina árið 1981 var eitt þeirra fyrsta verk að huga að íslensku stöfunum. Þau seldu ýmsar tegundir örtölva eða míkrótölva, eins og þær voru gjarnan nefndar, og forrit og tengibúnað fyrir þessar tölvur. Þeir Reynir og Vilhjálmur höfðu verið atkvæðamiklir í tölvumálum og lögðu áherslu á að allar tölvur og prentarar sem þeir seldu væru með íslensku letri og sjálfar tölvurnar með venjulegu ritvélalyklaborði.[8] Ekki var þó hlaupið að því og það kostaði talsverða vinnu, sem Vilhjálmur annaðist. Hann breytti meðal annars stýrikerfi tölvanna til þess að unnt væri að setja íslensku stafina inn í þær, teiknaði stafina upp, en varð síðan að fórna grafískum táknum í tölvunni fyrir þá. Commodore-tölvan var tiltölulega snemma komin með íslensku stafina og fékk með því ákveðið samkeppnisforskot á Apple og fleiri merki.

IBM – stafatafla frá 1983 enn notuð á stór- og miðtölvum

Fyrir tíma almenningstölvuvæðingarinnar, þegar tölvur voru nær einungis í eigu opinberra stofnana, háskóla og stærri fyrirtækja var markaðsstaða IBM gríðarlega sterk á Vesturlöndum. Þeir staðlar og viðmið sem fyrirtækið ákvað slógu tóninn fyrir aðra framleiðendur.[9]

Einn vandi á fyrstu árum tölvutækninnar á Íslandi var að IBM-stórtölvur og miðtölvurnar komu hver frá sinni verksmiðju og höfðu mismunandi stafatöflur. Örn Kaldalóns tók að sér á vegum IBM í Kanada að sameina þessar töflur í eina þannig að þær hefðu sama stafamengi og allar helstu stafatöflur í Vestur-Evrópu. IBM var þá stærsti tölvuframleiðandi heims og gerði mikið til að markaðssetja þær í þessum ellefu Evrópulöndum, og síðan á Íslandi, sem varð hið tólfta. Þessi stafatafla fékkst skráð fyrir Ísland sérstaklega og hlaut auðkennið IBM CECP 871 (Country Extended Code Page). Enn í dag nota allar stórtölvur og miðtölvur á Íslandi þessa stafatöflu sem Örn tók saman í Kanada árið 1983.

Um 1987 fóru að berast kröfur frá IBM um að hvert land þyrfti að gera grein fyrir sínum þjóðlegu hefðum í notkun bókstafa og annarra tákna og hvernig stöfunum og nöfnum væri raðað. Einnig hvernig ætti að skrifa upphæðir, dagsetningar, símanúmer og fleira. Verkefnið lenti á borði Arnar Kaldalóns, sem sá um þjóðlegar kröfur fyrir IBM á Íslandi (NLR = National Language Requirements). Í ljós kom að yfirlit um þetta var hvergi til á einum stað. Fyrst var leitað til Iðntæknistofnunar, sem þá sá um staðlamál á Íslandi. Þar var fyrir Þorvarður Kári Ólafsson, sem tók saman það sem þar var að finna, en annað fékkst hjá Íslenskri málnefnd og Orðabók Háskólans.

Oddur Benediktsson prófessor við Háskóla Íslands kom síðar að málinu. Að hans tillögu var stofnað „UT-staðlaráð“, sem síðar sameinaðist Staðlaráði Íslands sem Fagráð í upplýsingatækni (FUT).  

Árið 1995 var skipuð nefnd undir stjórn Jóhanns Gunnarssonar til að taka saman og skrásetja staðal um upplýsingatækni og til varð svokallaður „forstaðall 130“. Að verkinu komu íslenskufræðingar, tölfræðingur og kerfisfræðingar nokkurra fyrirtækja, þar á meðal Nýherja, Microsoft, Apple og fleiri. Forstaðall gildir aðeins í þrjú ár og enn var stofnuð nefnd til að fullmóta íslenskan staðal um kröfur til upplýsingatækni. Nefndarmenn voru Örn Kaldalóns (formaður), Þorvarður Kári Ólafsson, Jón Þór Árnason og Sveinn Ólafsson. Staðallinn „ÍST 130“ kom út árið 2004. Þessi staðall er undirstaða þess að unnt sé að búa til stýrikerfi sem Íslendingar geta notað hnökralaust.[10] 

Um gæsalappir

Örn Kaldalóns segir að stundum hafi verið dálítið skondið að vinna í þessari nefnd og nefnir sem dæmi um það vandamálið með „gæsalappir“:

Eitt sem menn áttu ógurlega erfitt með að koma sér saman um voru gæsalappirnar. Áttu þær að vera uppi báðum megin eða uppi öðrum megin og niðri hinum megin? Og þá hvorum megin? Áttu þær að snúa svona eða hinsegin? En bíddu, 1920 vorum við með öðruvísi gæsalappir, oddklofa sem bentu sitt í hvora áttina, og það kom svona fortíðarbragur svolítill í menn! Að lokum ákváðum við að mynda undirnefnd um þetta, gæsalappanefnd, og hún var snögg á fundi að ákveða, að þetta skyldi vera eins og það var í bókum þá, niðri og uppi, eins og 99 niðri og 66 uppi.[11]

Örn skilaði fyrstu drögum að „íslenskum kröfum til upplýsingatækni“ til IBM árið 1989 og hefur æ síðan unnið að staðlastarfi fyrir IBM, nú að tilstuðlan Nýherja.

Í mars 2015 kom út nýr staðall fyrir lyklaborð, IST-125, þar sem evrumerkinu var fundinn staður, ásamt jenamerkinu og ø, sem hafði vantað fram að því. Búið er að þýða staðalinn á ensku og senda IBM og væntanlega erlendum framleiðendum vélbúnaðar.[12]

Sérstaða Apple

Því miður var það ekki svo að Apple væri með í samstarfi um samræmingu á íslensku stafatöflunni. Apple-samfélagið notaði töflu sem var nokkuð frábrugðin þeim stafatöflum sem Jóhann Gunnarsson og fleiri brautryðjendur unnu að.[13] Jóhann segir svo frá hvernig þeim málum var háttað í grein sinni í sögu IBM á Íslandi:

Apple Macintosh-tölvan var utan við samkomulagið 1985. Reynt var að ná aðstandendum Makkans þar að, en þeir höfnuðu. Tilgáta til skýringar á þeirri afstöðu er að menn hafi haldið að Apple geislaprentarinn, sem þá var nýkominn á markað gæti ekki tekið slíkum breytingum. Sá ótti reyndist alla vega ástæðulaus þegar betur var að gáð. En sú staðreynd að þrír stafir voru settir á annan stað í Makkatöflunni en í pésum hefur kostað veruleg óþægindi í gegn um tíðina og gerir jafnvel enn þrátt fyrir Unicode.[14]

Það er ekki fyrr en á seinni árum að samræmingin milli Apple- og PC-tölva hætti að vera verulegt vandamál. Í Machintosh höfðu stafirnir ð, þ, ý, Ð, Þ og Ý verið til vandræða en síðar var hægt að komast hjá því þar sem Unicode var notað í stýrikerfinu, en í þeim 16 bita staðli er pláss fyrir alla sérþjóðlega stafi og tákn.[15]

Ýmsar hliðar stafatöflunnar

Fagráð í upplýsingatækni

Fleiri aðilar komu að því að samræma og staðla það sem skipti máli fyrir íslenska stafasettið. Reynt var að staðla lyklaborð á vegum Fagráðs í upplýsingatækni, FUT, og stofnaður var tæknihópur til að koma með tillögur um breytingar á ÍST 125. Þarna voru skiptar skoðanir milli Linux-notenda og annarra; Linux-menn vildu hafa önnur tákn á lyklaborðinu en hinir, en takmarkaður fjöldi lykla kallaði á samræmingu. Þetta mál var leyst með því að skilgreina sérstakt lyklaborð fyrir skrifstofuvinnslu, sem var viðauki við fyrri staðal.

Torkennilegur texti

Hvað hefði gerst ef ekki hefði tekist að fá íslenskt stafasett samþykkt? Margir hafa sýnt með mismunandi dramatískum hætti hvernig tungumál líta út ef rétta stafi vantar. Hér í kaflanum verða rakin nokkur þeirra:

Sjö bitar með sérstökum hætti
Dæmi um texta sem skrifaður er á „7-bisku“ þegar aðeins var val um 7 bita gæti litið svona út:

"Unix er skrifa` |i m|otu`u forritunarm|ali, sem gerir {a` a` verkum
a` au`velt er a` skilja kerfi`, breyta {v|i og flytja milli mismunandi
v|elb|una`ar. [a` er au`vita` {etta atri`i ~`rum fremur sem gert hefur
Unix svo vins}lt me`al t~lvuframlei`enda."[16]

Til að ráða bót á þessu var búin til ný stafatafla með 8 bitum eins og lýst er í kaflanum um ASCII og ISO.

Verst var að ekki var hægt að fara í fýlu
Sigurjón Sindrason var einn þeirra sem komu að því að leysa stafasettsmál fyrir Hewlett Packard á Íslandi. „Það sem gerðist var að við seldum lífeyrissjóðunum 180 skjái veturinn 1984­–1985. Það vandamál sem kom upp við þessa skjái var að þú gast slegið inn staf eins og til dæmis ý og stafurinn var geymdur í stafaminninu en birtist hins vegar ekki. Þannig að orðið fýla birtist til dæmis sem: f la“. Ástæðan fyrir því að Sigurjón tekur einmitt þetta dæmi er sú að meðan þetta vandamál var enn við lýði fékk hann sendingu frá einum málsaðila sem í stóð: „Verst er að geta ekki farið í fýlu.“ Sigurjón var sendur til Frakklands til að vinna að lausn málsins og það gekk vonum framar.[17] Frosti Bergsson, sem var yfirmaður Sigurjóns á þessum tíma, segir að stafavandamálið hafi verið leyst á sex mánuðum, bæði fyrir skjái og prentara, og Sigurjón hafi átt langmestan heiður að því að þetta hafi tekist.[18]

Lexía á ensku
Ein þekktasta sagan um sýnilegar afleiðingar af rangri birtingu stafa í þessari baráttu er líklega bréfið sem Örn Kaldalóns sendi til IBM árið 1988 þegar til stóð að setja IBM AS/400 á markað án íslensks stafasetts í fyrstu útgáfu. Borist hafði símskeyti frá rannsóknarstofu IBM Rochester: „Við verðum að láta Ísland bíða í næstu útgáfu, 1.2, ekki hægt að ráða bót á þessu í útgáfu 1.0 eins og óskað er.“[19] Örn sendi til baka alllangt bréf og lýsti þar hvernig texta Íslendingar myndu þurfa að búa við ef þeir þyrftu að senda frá sér bréf til viðskiptavina án íslensku stafanna. Hann ákvað að sýna þetta svart á hvítu með því að senda sambærilegan texta á ensku, en án stafanna WXYZ. Hér er upphaf bréfsins:

Dear Mr. Customer.

We are e$reme% sorr% that our ne# AS/400 s%stems are not able to displa%, print nor sort on the last four caracters in our alphabet. #e have done all #e could to include those caracters in release 1.0 #ithout success. %ur s%stem #ill be fi$ed in a later release, hopefull% before %ear end.[20]

Bréfið var talsvert lengra og allt jafnóskiljanlegt. Það dugði til þess að íslenskan næði inn í útgáfu 1.0. eins og til hafði staðið.

Stærri stafatöflur ryðja sér til rúms

Unicode er oft talið allra meina bót í stafatöflumálunum. Vandinn sem fylgdi 8 bita stafatöflunum leystist upp úr 1990 þegar fram komu staðlaðar aðferðir við að tákna mun stærri stafamengi en áður hafði verið unnt og vinna með þau í tölvum. Þær stafatöflur voru 16 bita, nefndust Unicode og rúmuðu yfir sextíu þúsund rittákn og ISO/IEC 10646, sem var byggð upp af 32 bita stafatöflu og rúmaði á fimmtu milljón tákna. En stafatöflurnar voru margar, ein þeirra er svonefnd alheimstafla, áðurnefnd Latin-1 tafla, og því mikilvægt fyrir Ísland að halda sértáknum sínum þar inni.

Tyrkjaránin síðari

Tyrkir gerðu harða atlögu í alþjóða staðlasamtökunum að því að fá þar inn tvö af sínum sértáknum í stað tveggja íslenskra tákna. Arnlaugur Guðmundsson lýsir fyrri atlögu Tyrkjanna svo:

Willy Bohn starfaði hjá IBM í Þýskalandi sem kerfisfræðingur. Hann tók virkan þátt í evrópsku staðlastarfi og var hlynntur Íslendingum og íslensku. Hann kom til Íslands árið 1977 og hélt fyrirlestur hjá Skýrslutæknifélagi Íslands á desemberfundi félagsins. Hann átti eftir að koma oftar.

„Slagurinn“ við Tyrkjana snerist um hvort íslensku sértáknin, þ.e. allir broddstafir sem og þ, ý, ð, Þ, Ý og Ð ættu að fara inn í Latin-1 eða einhver sértyrknesk tákn.

Willy Bohn studdi okkur dyggilega og komu margir að þessu máli. Meðal þeirra var Baldur Sigurðsson, dósent við KHÍ (á þeim tíma), sem skrifaði kröftuga grein málinu til stuðnings.

Á þessum tíma heyrði ég að Willy Bohn hefði stutt okkur og notað rökin að Ísland væri í Vestur-Evrópu og þar að auki í NATO. En Latin-1 er fyrir Vestur-Evrópu, Latin-2 er fyrir Austur-Evrópu, Latin-3 fyrir Suður-Evrópu og Latin-4 fyrir Norður-Evrópu. Tyrkland er einungis að hluta til í Evrópu og fékk sína eign töflu, Latin-5.[21]

Þetta var hagsmunamál samtaka tölvuframleiðenda í Evrópu og þau ráku fyrir því áróður á alþjóðavettvangi að 8 bita stafataflan yrði stöðluð, undir samheitinu ISO/IEC 8859. Raunar eru til allmargar slíkar töflur, sú útbreiddasta heitir 8859-1, og þar komu Íslendingar sínum sérstöfum inn, sem er fyrst og fremst þakkað téðum Willy, sem ávallt var kallaður svo þótt hann héti fullu nafni Wilhelm F. Bohn. Í þakkarskyni fyrir þessa baráttu var Willy sæmdur hinni íslensku fálkaorðu.[22]

Ein lota þessarar atburðarásar átti sér stað vorið 1992 og þótti málið svo brýnt að utanríkisráðuneytið dróst inn í það. Örn Kaldalóns frétti af því að óvíst væri að íslensku stafirnir yrðu með í stafatöflunum frá fyrrum vinnufélaga hjá NLTC (National Language Technical Center) hjá IBM í Kanada. Hann tók málið upp á fundi framkvæmdaráðs FUT. Þar fékkst ekki fullnægjandi niðurstaða um hvernig taka skyldi á málinu að hans mati, svo að hann skrifaði Jóni Baldvin Hannibalssyni utanríkisráðherra pistil. Morguninn eftir hafði Morgunblaðið eftir Jóni Baldvin í baksíðufrétt að yrðu íslensku stafirnir ekki inni í þessum stöðlum gæti það valdið milljarða króna útgjöldum því Íslendingar þyrftu þá að breyta öllum hugbúnaðarkerfum næstu áratugina. Því hafði ráðherrann falið sendiherrum Íslands, sérstaklega í EFTA- og Evrópusambandsríkjum, að taka málið upp en um þessar mundir var einmitt verið að semja við nítján Evrópuþjóðir um samræmt efnahagskerfi. Haft var eftir Jóni Baldvin í Morgunblaðinu:

[…] það er lykilatriði að allt sem varðar upplýsingasamskipti og upplýsingamiðlun, sem öll fer fram í tölvukerfum nú þegar og gerir það í enn vaxandi mæli á komandi árum, sé á sameiginlegu tungumáli. Þess vegna munum við reyna til hins ýtrasta að fá þessar aðildarþjóðir til að fallast á að innan hins Evrópska efnahagssvæðisins hljótum við að reyna að tryggja sameiginlegt tölvumál.[23]

Allt fór þetta vel því fáeinum dögum síðar varð ljóst að íslensku stafirnir þ, ð og ý yrðu áfram á besta stað í alþjóðlegum stafatöflum tölva en breytingartillaga Tyrkja var felld, með 24 atkvæðum gegn sex.[24] Þetta gerðist enda þótt sjötíu milljónir manns í heiminum töluðu tyrknesku en Íslendingar væru aðeins 0,26 milljónir. Talið var að íslenskan hefði haldist inni vegna þess hve útbreidd stafataflan hans Willy Bohn var orðin.[25] Einnig hefur verið nefnt að vera Íslands í NATO hafi skipt máli í þessu sambandi. Í skýrslu nefndar menntamálaráðuneytisins um tungutækni frá 1999 segir Gunnlaugur S.E. Briem, sem kom ásamt fleirum að því að gæta hagsmuna Íslendinga, svo: „Fyrir rúmum áratug fengu stafirnir Þþ Ðð og Ýý oft að fljóta með. Mér var sagt að það væri þrýstingi frá NATO að þakka; tókst aldrei að fá það staðfest.“[26]

Án íslensku stafanna hefði þróunin orðið önnur

Nokkuð ljóst er að ef ekki hefði tekist að fá það í gegn að hafa íslenskt stafasett sem hluta af upplýsingabyltingunni og tölvuvæðingunni liti íslenskan öðruvísi út nú. Orð Baldurs Sigurðssonar úr tímaritinu Tölvumálum ættu að vera íhugunarefni:

Mikilvægur þáttur í því að hafa umráð yfir menntun og þekkingu er að fá þekkinguna á sínu eigin móðurmáli. Með því að geta talað og skrifað á íslensku um þekkingu, tækni, vísindi og fræði, hafa Íslendingar hingað til reynt að tileinka sér þekkingu, ná valdi á þekkingu til þess að geta beitt henni, samfélaginu til hagsbóta. Þegar þekkingin er á erlendu máli verður hún alltaf svolítið framandi, við verðum alltaf gestir í heimi þar sem móðurmálið er annað en okkar eigið, við verðum alltaf í lakari stöðu en þeir sem eiga mál þekkingarinnar að móðurmáli.

Nú, þegar skjálífið er farið að taka jafn mikinn tíma og raun ber vitni, er mikilvægt að við missum ekki sjónar á þeim hugmyndum og hugsjónum sem liggja að baki rétti hverrar þjóðar til að nota eigið tungumál í eigin landi.[27]

 

[1] Arnlaugur Guðmundsson. Viðtal tekið 2.9.2015.

[2] Stefán Pálsson: ð ævisaga. Rv. 2012, bls. 156.

[3] Texti þessi er að mestu leyti fenginn frá Arnlaugi Guðmundssyni í tölvubréfi 24.11.2015.

[4] Oddur Benediktsson: Tölvutækni og samfélagið. Íslenska stafrófið.  http://www.sky.is/images/stories/Oldungadeild/skjol/03-islenskirstafir2_4.pdf

[5] Jóhann Gunnarsson: Í tölvutækni og stafrófsgerð. Í vist hjá IBM. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Reykjavík 2008, bls. 181.

[6] Viðtal höf. við Örn S. Kaldalóns 7. nóvember 2014.

[7] Arnlaugur Guðmundsson. Tölvubréf frá 24.11.2015.

[8] Morgunblaðið 25. júlí 1981, 35. Tölvur með íslensku letri.

[9] Stefán Pálsson: ð ævisaga. Rv. 2012, bls. 156.

[10] Á vefsíðu Staðlaráðs stendur um ÍST 130: “Þessi staðall lýsir íslenskum kröfum til upplýsingatækni. Þessi staðall lýsir íslenskum kröfum til upplýsingatækni. Hann tekur til menningarþátta sem sammæli náðist um, svo sem stafrófs, röðunarreglna og hvernig skuli skrá og birta tölur, dagsetningar og tíma. Efnistök hans miðast við ISO/IEC 15897:1999 þó að tilhögun sé eilítið önnur. Enskur texti þessa staðals er til upplýsingar. Íslenski textinn er sá sem gildir.“

[11] Viðtal höf. við Örn S. Kaldalóns 7. nóvember 2014.

[12] Örn Kaldalóns. Athugasemdir í tölvupósti, apríl 2016.

[13] Oddur Benediktsson: Tölvutækni og samfélagið. Íslenska stafrófið.  http://www.sky.is/images/stories/Oldungadeild/skjol/03-islenskirstafir2_4.pdf

[14] Jóhann Gunnarsson: Í tölvutækni og stafrófsgerð. Í vist hjá IBM. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Reykjavík 2008, bls. 181.

[15] Oddur Benediktsson: Tölvutækni og samfélagið. Íslenska stafrófið.  http://www.sky.is/images/stories/Oldungadeild/skjol/03-islenskirstafir2_4.pdf

[16] Maríus Ólafsson í athugasemdum við viðtal við höf. frá 14. nóv. 2014.

[17] Sigurjón Sindrason. Viðtal tekið 15.9.2015.

[18] Frosti Bergsson. Viðtal tekið 14.9.2015.

[19] Örn S. Kaldalóns: Þýðingar IBM og Orðabókar háskólans. Í vist hjá IBM. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Reykjavík 2008, bls. 215.

[20] Sama heimild, bls. 213.

[21] Arnlaugur Guðmundsson. Athugasemdir í tölvupósti 24.11.2015.

[22] Jóhann Gunnarsson: Í tölvutækni og stafagerð. Í vist hjá IBM. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Reykjavík 2008, bls. 176-180.

[23] Morgunblaðið 3. maí 1992, baksíða. Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra: íslensku stafírnir verði í samræmdu hugbúnaðarkerfí EES Gæti kostað okkur milljarða í breytingar og aðlögun á hugbúnaðarkerfum á næstu tveimur áratugum ef svo verður ekki .

[24] Morgunblaðið 5. júní 1992. Íslensku stafirnir áfram í stafatöflum.

[25] Í vist hjá IBM. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Reykjavík 2008, bls. 180

[26] Gunnlaugur S.E. Briem: Vandamál íslensks leturs efa ég að leysist sjálfkrafa. Tungutækni. Skýrsla starfshóps. Menntamálaráðuneytið. 1999.

[27] Baldur Sigurðsson: Tungumál og þekking í rafrænum heimi. Tölvumál 1. tbl. 36. árg. 2011, bls. 21. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/2011_proof_loka.pdf