Skip to main content

Þýðingar

Kafla þennan skrifuðu fulltrúar úr Tölvuorðanefnd.

Þýðing þess að þýða

Margir tölvunotendur létu það angra sig að viðmót flestra forrita sem notendum buðust voru á ensku. Þetta gildir um stýrikerfi, ritvinnsluforrit og önnur notendaforrit sem fylgja stýrikerfunum og margvísleg önnur notendaforrit, t.d. bókhaldskerfi. Menn áttuðu sig á að ef enska stendur á skjánum fyrir framan fólk, hvort sem um er að ræða tíu ára barn eða fimmtugan karl, er freistandi að nota ensku orðin sem þar birtast.

Árið 2008 flutti Eiríkur Rögnvaldsson erindi á málþingi Íslenskrar málnefndar og Tungutækniseturs sem hann nefndi „Á íslenska sér framtíð innan upplýsingatækninnar?“ (https://notendur.hi.is/eirikur/ut.pdf). Þar er gott yfirlit yfir þýðingar á hugbúnaði fram að þeim tíma og verður að hluta til stuðst við texta Eiríks í því sem hér fer á eftir.

Eiríkur segir að rétt fyrir síðustu aldamót hafi staða í hugbúnaðarþýðingum farið versnandi frá níunda áratugnum. Upp úr 1980 fóru frumstæð ritvinnslukerfi að koma á markað á Íslandi og voru þau undantekningalítið á íslensku. Hér á eftir verður stuttlega greint frá þýðingarstarfi á hugbúnaði fyrir Macintosh-tölvur, WordPerfect ritvinnslukerfinu, Windows- hugbúnaði og fyrir opinn hugbúnað.

Íslenskar þýðingar á stýrikerfum fyrir tölvubúnað frá Apple[1]

Á níunda áratug síðustu aldar var notendaviðmót stýrikerfis og forrita fyrir Macintosh-tölvur þýtt á íslensku. Á þeim tíma hófst tölvuvæðing fyrirtækja og stofnana. Íslenskt viðmót Macintosh-tölvanna gerði umskiptin mun auðveldari, þar sem fæst starfsfólk opinberra stofnana og fyrirtækja á þeim tíma hafði reynslu af tölvutækni.

Árið 1984 setti Apple fyrstu heimilistölvurnar, sem þeir kölluðu Machintosh, á markað. Tölvunni fylgdi nýtt stýrikerfi, nefnt Mac OS, sem þótti vera sérstaklega notendavænt fyrir almenna notendur. Fljótlega fór fólk að eiga við stýrikerfið og breyta því svo að það birtist á íslensku. Slíkt var fremur einfalt á fyrstu lífdögum stýrikerfisins og varð enn auðveldara með tilkomu forritsins ResEdit[2] sem gerði notendum kleift að breyta grunni stýrikerfisins á einfaldan máta. 

Apple-umboðið á Íslandi byrjaði snemma að halda utan um mikið af þessum þýðingum. Meðal annars mátti fá hluta af OS 6 stýrikerfinu á íslensku en því var dreift á disklingum og sett upp af þeim. Líklegast var það ekki fyrr en árið 1991 með tilkomu OS 7 stýrikerfisins að allt stýrikerfið var gefið út á íslensku. Til þess að setja tölvurnar upp með íslensku viðmóti þurfti að „strauja“ þær, þ.e. hreinsa allt stýrikerfið af harða diskinum, og setja upp nýtt kerfi með þar til gerðu stýrikerfi á íslensku sem Apple-umboðið hafði umsjón með. Í hvert sinn sem ný uppfærsla af stýrikerfinu kom á markað þurfti að setja upp nýja þýðingarpakka og tók sú vinna dágóðan tíma. Það varð þó þægilegra með komu geisladrifsins og sérstökum forritunarpökkum sem settu upp þar til gerða strengi til að birta notendaviðmótið á íslensku. 

Lengi vel var íslenskt notendaviðmót ein helsta sérstaða Apple-véla á íslenska markaðnum. Sala á Apple-vélum minnkaði í Bandaríkjunum þegar líða fór á 10. áratuginn og um leið einnig á Íslandi. Rekstrarerfiðleikar Apple Inc. í Bandaríkjunum ullu rekstarerfiðleikum Apple-umboðsins og gerðu umboðinu erfitt að halda uppi þýðingarstörfum fyrir jafn lítinn markað og íslenski markaðurinn var. Þegar gjörsamlega endurhannað stýrikerfi kom út 1997 og var nefnt OS 8 þurfti að setja íslensku þýðinguna upp á ný. Sú vinna gekk hægt ekki síst vegna þess að stýrikerfið kom ekki tilbúið í einum pakka í fyrstu heldur var innleitt með litlum uppfærslum yfir eitt ár. 

Árið 2000 hafði ACO tekið við Apple-umboðinu á Íslandi og gaf út íslenska útgáfu af Internet Explorer vafranum sem mátti nálgast á heimasíðu fyrirtækisins. Þýðingar á fleiri forritum fylgdu í kjölfarið. Þegar Mac OS 9 stýrikerfið kom til sögunnar var hægt að setja upp tungumálapakka sem þýddi stýrikerfið ásamt iTunes 2 og AppleWorks-ritvinnslupakkanum. Steingrímur Árnason sá um hugbúnaðaþróun fyrir Apple á Íslandi á þessum árum og sá að mestu um að setja saman og koma út þessum þýðingum í góðu samstarfi við samfélag áhugafólks um íslensku og tölvutækni. 

Árið 2002 lagði Apple OS 9 stýrikerfið til hliðar og byrjaði að innleiða nýtt stýrikerfi, Mac OS X. Þá var ekki hægt að nýta neitt af þeim þýðingargrunni sem hafði orðið til fyrir fyrri stýrikerfi og mikið af þeim tólum sem fólk hafði notast við áður voru ýmist ekki komin út fyrir nýja stýrikerfið eða virkuðu ekki.

Árið 2004 var Apple IMC stofnað og tók við Apple-umboðinu. Þá voru þýðingarpakkar fyrir ákveðin forrit, t.d.  iTunes, iMovie, og Safari  gefnir út. Í kjölfarið var farið að kanna hvort mætti þýða allt stýrikerfið. Einhverjir einstaklingar gáfu út sínar eigin þýðingar og Apple IMC gaf út tungumálapakka með ýmsum viðbótum sem bættu íslenskustuðning við stafatöfluna og þýðingu á forritum. Aldrei var þó farið í að þýða allt stýrikerfið. Þegar notkun á internetinu jókst fór Apple að huga meira að öryggi stýrikerfisins. Þess vegna var lokað fyrir slíkar viðbætur þegar Mac OS X 10.5 stýrikerfið kom út þar sem af þeim stafaði ákveðin öryggishætta. Síðan þá hefur Mac Os X  kerfið ekki verið þýtt opinberlega. Samt sést að  íslenskur orðalisti er kominn inn í kerfið og má t.d. sjá íslenskum orðum bregða fyrir í kerfinu af og til, sérstaklega við uppfærslur á kerfinu. Þá hafa allir notendaskilmálar verið þýddir á íslensku. 

iOS- stýrkerfið frá Apple er notað fyrir snjalltæki á borð við iPhone, iPad og iPod Touch . Íslenskt lyklaborð kom í iOS 6 og birtast gjarnan íslensk orð við uppfærslur á stýrikerfinu. Frá því að iOS 7 kerfið kom út birtast íslensk orð þegar notuð er sjálfvirk leiðrétting („Auto-Correct“).

Fyrirtækið Epli sem er dreifingaraðilli Apple á Íslandi í dag heldur áfram að leggja áherslu á mikilvægi íslenskunnar við Apple og stuðningur frá yfirvöldum hefur haft mikið að segja um framgang í þeim málum. 

WordPerfect

Fyrsta alvöru ritvinnslukerfið sem var þýtt fyrir PC-tölvur var WordPerfect. Sú þýðing var gerð árið 1986 og náði um skeið yfirburðastöðu á markaðnum – án efa að verulegu leyti vegna tungumálsins. Þýðendurnir voru Eiríkur Rögnvaldsson (síðar prófessor í íslensku) og Vilhjálmur Sigurjónsson. Þeir vildu kalla forritið "Orðsnilld" en fengu ekki að nota það heiti í þýðingunni - var sagt að það mætti ekki þýða vörumerkið. Í apríl 1986 kom út bráðabirgðaútgáfa af þýðingunni, en um haustið kom fullbúin þýðing með handbók og þýddri hjálp. Ríkisstofnanir keyptu mikið af forritinu samkvæmt samningi sem Ríkiskaup gerðu, og það réð miklu um útbreiðsluna. Heitið "Orðsnilld" var notað í ríkissamningnum.

Windows[3]

Upp úr 1990 varð Windows algengasta stýrikerfi í einkatölvum og þau forrit sem því fylgdu, m.a. ritvinnsluforritið Word sem náði yfirhöndinni sem ritvinnslukerfi og notkun á WordPerfect dvínaði. Hvorki stýrikerfið né einstök forrit voru íslenskuð. Eiríkur segir að um sama leyti hafi komið á markað tölvupóstkerfi eins og Outlook og Eudora, vafrar eins og Netscape og Mosaic, og síðar Internet Explorer. Þessi forrit voru öll á ensku, og með sprengingu í netnotkun vandist almenningur því að tölvur og allt sem þeim tengdist væri á ensku. Sumarið 1998 hóf Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, viðræður við Microsoft sem leiddu til þess að gerður var samningur 20. janúar 1999 milli menntamálaráðuneytisins og Microsoft um íslenskun á Windows 98 stýrikerfinu. Björn sagði frá því hvernig þetta bar til í fyrirlestrinum „Inn í heim Microsoft“ sem hann flutti á Málþingi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, 28. nóvember, 2002 (http://www.bjorn.is/greinar/nr/879) og er áhugasömum bent á þá grein.

Þýðingunni var lokið í apríl 2000 og lá þá fyrir þýðing á Windows 98 og Internet Explorer vefsjánni.

Þýðingin var gagnrýnd fyrir að koma of seint, Windows 2000 hafði komið á markað á undan þessari þýðingu á Windows 98 og einnig virtust tæknilegir gallar á þýðingunni. Einnig voru skiptar skoðanir um þýðingar á einstaka enskum heitum sem þýðendurnir höfðu valið. Ekki varð framhald á þýðingarvinnunni þannig að Windows 2000 var ekki þýtt.

Síðan varð stefnubreyting hjá Microsoft hvað varðaði þýðingar á hugbúnaði. Í frétt í Morgunblaðinu 10. ágúst 2004 er sagt frá .því að menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, hafi daginn áður verið afhent fyrsta eintak af þýðingu á Windows XP og Office-hugbúnaðarvöndlinum. Í fréttinni kemur fram að stefnubreyting af hálfu Microsoft lýsi sér í því að fyrirtækið einbeiti sér í ríkari mæli að axla ábyrgð gagnvart ólíkum menningarheimum. Það hafi meðal annars skilað sér í því að beitt sé nýrri tækni til að auðvelda þýðingu forrita fyrir smærri tungumál. Samkvæmt fréttinni hafði menntamálaráðuneytið beitt sér fyrir því að hugbúnaður á íslensku gangi að jafnaði fyrir við innkaup hjá ríkinu og hafði ríkisstjórnin samþykkt ályktun í þá veru.

Í frétt í Fjarðarpóstinum 11. desember 2008 er greint frá því að Microsoft á Íslandi hafi veitt yfirmönnum tölvudeilda í grunnskólum Hafnarfjarðar viðurkenningu fyrir að taka upp íslenska þýðingu Windows. Hulda Hreiðarsdóttir skrifaði ritgerð til BA-prófs við HÍ í íslensku um notkun íslenskra þýðinga á stýrikerfum í grunnskólum Hafnarfjarðar. Þar  kom m.a. fram að notkun íslensku þýðinganna hefði aukið sjálfsöryggi nemenda og skilning þeirra á tölvunotkun. Jafnframt virðist sem nemendur í Hafnarfirði hafi notað íslensk orð um tölvunotkun í meiri mæli en nemendur skóla sem notuðu enska útgáfu. Um svipað leyti gerði Capacent-Gallup könnun á notkun íslenskrar þýðingar Windows-stýrikerfisins. Þar kom m.a. fram að um það bil 16% þeirra landsmanna sem notuðu Windows stýrikerfið í vinnu eða skóla notuðu íslenska þýðingu stýrikerfisins. Örlítið fleiri, eða um það bil 22% notuðu íslensku þýðinguna í heimilistölvum sínum. Til þess að bregðast við þessu var í byrjun desember 2008 sett af stað átakið „Okkar mál – íslenska“ sem var samstarfsverkefni Microsoft á Íslandi, menntamálaráðuneytisins og Íslenskrar málnefndar sem miðaði að því auka notkun íslensku í tölvunotkun, sérstaklega í skólum.

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar ákvað árið 2011 að taka upp íslenskt notendaviðmót í öllum tölvum í grunnskólum Reykjavíkur og veitti Íslensk málnefnd viðurkenningu fyrir það á málræktarþingi 12. nóvember 2011.

Árið 2010 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir nefnd, „til að fylgja eftir stefnu um notendaviðmót á íslensku í skólum og […] gera áætlun um aðrar aðgerðir sem tilgreindar eru í málstefnunni um íslensku í tölvuheiminum“. Að beiðni nefndarinnar lét mennta- og menningarmálaráðuneyti gera könnun meðal allra grunnskóla á landinu um tölvur og íslenskt mál árið 2012. Markmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um tölvuumhverfi og íslenskt mál svo fylgja megi eftir þeim áherslum sem settar eru fram í íslenskri málstefnu. Ráðuneytið fól Capacent-Gallup framkvæmd könnunarinnar og var spurningalisti sendur öllum grunnskólum landsins á tímabilinu febrúar til mars 2012. [4]Spurningalistinn var sendur til 170 grunnskóla og svöruðu allir. Spurt var m.a. um hvort það væri opinber stefna skólans að viðmót á tölvum, sem nemendur nota, sé á íslensku. Skólastjórar 100 skóla sögðu það vera stefnu síns skóla en 70 svöruðu neitandi. Þá var spurt hvert væri sjálfgefið tungumál notendaviðmóts stýrikerfa sem nemendur hafa aðgang að í skólanum. Í ljós kom að flestir notuðu Windows eða 95%, 56% notuðu það á íslensku og 39% á ensku. Innan við 35% notuðu önnur kerfi sem spurt var um.

Frá 2004 hefur .þýðingum á Windows-stýrikerfinu og Office-hugbúnaðarpakkanum verið haldið við og þær eru aðgengilegar án greiðslu. Finna má tengla á þýðingarnar t.d. af vef Reiknistofnunar Háskóla Íslands.[5]

Þýðingar á Opnum hugbúnaði[6]

Þótt fjallað hafi verið um þýðingar fyrir Windows og Office hér sérstaklega, vegna yfirburðastöðu þessara kerfa á markaðnum, má ekki gleyma því að mikilsvert þýðingarstarf er unnið víða annars staðar. Þar má t.d. nefna öflugt starf áhugamanna að þýðingum á hugbúnað sem skilgreindur er sem opinn og/eða frjáls. Hann er opinn vegna þess að allur kóði og gögn eru unnin í opnu umhverfi – og hann er frjáls vegna þess að hver sem er má breyta honum eða nota á hvern þann hátt sem viðkomandi sýnist. Þetta tvennt þarf ekki endilega að fara saman, en gerir það oftast. Slíkur hugbúnaður er oft kenndur við Linux, þrátt fyrir að margt sé einnig skrifað fyrir önnur stýrikerfi eða virki á flestum algengum kerfum.

Töluvert er um að nemar í tölvunarfræði reyni fyrir sér við þýðingar, þó ekki væri nema til að kynna sér forritin. Fátíðara er að áhugafólk um máltækni eða íslenskufræði sjáist í þessu umhverfi. Aðrir taka þátt vegna þess hve gaman er að geta haft áhrif á vinnuumhverfið sitt og þeir vilja gjarnan hafa það á íslensku[7]. Þegar vinnuumhverfið er á íslensku verður gegnsæi meira og afköstin aukast. Einstaka þýðingar hafa verið kostaðar af fyrirtækjum og stofnunum; slíkt er þó fremur sjaldgæft.

Ekki er gott að segja hvenær fyrstu þýðingar á frjálsum hugbúnaði birtust. Á níunda áratug tuttugustu aldar var notað eitthvað af frjálsum hugbúnaði sem var annað hvort skrifaður af Íslendingum eða lagaður að íslenskum þörfum. Til dæmis var settur inn hluti þýðinga fyrir ISO-staðla á þessum árum. En um skipulagt þýðingarstarf var varla að ræða, enda í árdaga samvinnslu á internetinu og grunnkerfi þýðinga enn í mótun (t.d. GNU-gettext[8]).

Líklega er nærtækast að líta á árið 1998 sem upphaf opinna/frjálsra hugbúnaðarþýðinga í nútímaskilningi. Það er þegar Bjarni Rúnar Einarsson, Logi Ragnarsson, Hrafnkell Eiríksson, Tony Einarsson, Þórarinn R. Einarsson, Richard Allen og Stefán Einar Stefánsson (auk nokkurra fleiri) fóru að þýða KDE 1.0 skjáborðsumhverfið[9]. Náðu þeir fljótlega að íslenska flesta algengustu viðmótshlutana auk ýmissa forrita.

Nokkru síðar hófust þýðingar á GNOME-skjáborðsumhverfinu (1999-2000) auk ýmissa annarra þýðingarverkefna. Árið 2004 komst góður skriður á að auðvelda þýðendum alla umsýslu með þýðingar, en þá setti fyrirtækið Canonical[10] Ubuntu Linux-kerfið á „markaðinn“ með nokkrum látum. Nokkuð fljótlega fór að myndast samfélag íslenskra hugbúnaðarþýðenda í vefumhverfi Rosetta-þýðingarkerfisins, sem síðan þróaðist yfir í launchpad.net[11] umhverfið.

Í kringum árið 2004 var byrjað að skrifa íslenskupakka fyrir Mozilla Firefox-vafrann[12] og Sunbird-tölvupóstforritið. Helstu hvatamenn að því voru Richard Allen og Stefán Einar Stefánsson[13]. Árið 2008 fór Mozilla að styðja og dreifa íslenskum Firefox/Thunderbird-útgáfum þegar Kristján Bjarni Guðmundsson var kominn í þýðendateymi Mozilla.

Kristján Bjarni og Sveinn í Felli réðust árið 2009 í það verkefni að þýða Openoffice.org[14] hugbúnaðarsvítuna, sem síðan kvíslaðist árið 2010 yfir í LibreOffice[15]. Verkmenntaskólinn á Akureyri stóð fyrir því því að helstu notkunarleiðbeiningar voru þýddar og settar inn á vefinn www.openoffice.is[16].

Á tímabili var nokkuð öflug umræða um hugbúnaðarþýðingar á póstlista RLUG (Reykjavik GNU/Linux users group)[17] og síðar á póstlista FSFÍ (Félag um stafrænt frelsi á Íslandi[18]), en hún lognaðist út af um svipað leyti og svokallaðir samfélagsmiðlar komu til sögunnar.

Haustið 2015 voru sagðir 39 virkir þýðendur á íslensku sem notuðu launchpad.net, sjálfsagt hafa um 100 manns komið þar við sögu frá upphafi. Það er sláandi hvað kynjahlutföll eru verulega skekkt, þarna eru margir drengir úr tölvunarfræði sem oft hafa með áhuga á afmörkuðum sviðum. Skortur er á fleira áhugafólki um íslenskt mál og fólki með fjölbreyttari þekkingu.

Nokkur hópur þýðenda er viðloðandi ýmis forrit á transifex.com[19] (XFCE, VLC, Calibre o.fl. auk CreativeCommons) og enn fleiri koma við sögu á translatewiki.net[20], þar sem viðmót Wikipedia[21], WikiMedia[22] og OpenStreetMap[23] eru íslenskuð. Viðmót þessara kerfa eru þegar þokkalega þýdd.

Hugsanlega hafa á árinu 2015 verið eitthvað á bilinu 50-60 virkir þýðendur frjáls hugbúnaðar og gagna á íslensku, auk þeirra sem sjaldnar taka þátt.

Staða opins hugbúnaðar á Íslandi árið 2016

Linux-stýrikerfi eru nú (2016) notuð í mörgum skólum og stofnunum. Oftast er svokölluð Ubuntu-dreifing[24] notuð. Allt þetta algengasta sem fólk notar er nokkuð vel íslenskað, t.d. stillingaviðmót ásamt öllum helstu valmyndum í umhverfinu. Vissulega geta verið einhverjar gloppur, en almennt er ástandið nokkuð gott.

Aðrar útgáfur af Linux eru betur þýddar, t.d. LinuxMint[25] þar sem er notað Cinnamon[26]- skjáborðsumhverfið og ný útgáfa af XFCE-skjáborðsumhverfinu[27]. Íslensk þýðing á þessum kerfum er komin vel á veg.

Til eru nokkuð góðar þýðingar fyrir þau opnu forrit sem mest eru notuð, t.d. fyrir Firefox-vafrann, Thunderbird-póstforritið, og LibreOffice-vinnuforritið.

Ýmis önnur opin forrit hafa verið þýdd að nokkru leyti og má þar nefna: teikniforritið Inkscape, myndvinnsluforritið Gimp, ljósmyndamyndaumsýsluforritið digiKam, myndspilarann VLC og stjörnuskoðunarforritið Stellarium.

Einnig mætti minnast á  Gramps-ættfræðiforritið[28]. Það tók ekki langan tíma að snara megninu af öllu viðmótinu á íslensku og einnig var skrifað lítið forrit sem „étur“ gamlar Espolín-uppsetningar og kemur þeim á staðlað form sem önnur forrit geta lesið.

Þegar horft er á smátölvukerfi eins og Android er staðan hins vegar öllu verri. Þrátt fyrir að til séu forrit fyrir Android sem eru fullþýdd á íslensku (t.d. VLC-myndspilarinn, LibreOffice-kynningafjarstýringin, Domoticz-hússtjórnunarkerfið, o.fl.), þá fer stuðningur við íslenska staðfærslu og viðmótsþýðingar alfarið eftir framleiðendum tækjanna og er ekki til staðar í mjög mörgum tilfellum. Aðaldreifingaraðili Android-kerfisins, Google, var lengi vel ekki með sjálfgefinn stuðning við íslensku, en hann er hinsvegar að finna í nýjustu útgáfum.

Svarti bletturinn í þýðingarstarfinu er skortur á hjálparskjölum og leiðbeiningum á íslensku. Reyndar hefur stundum verið gantast með að það ætti að skipta út öllum táknmyndum fyrir Hjálp – fyrir táknmynd með síma; Íslendingar lesi ekki leiðbeiningar - heldur hringi í vin.

 

[1] Byggt á texta frá Ólafi Sólimann.

[2] https://en.wikipedia.org/wiki/ResEdit

[3] Sigrún Helgadóttir setti textann saman.

[4] https://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/forsidugreinar/nr/6837

[5] http://rhi.hi.is/islenskt_notendavidmot_microsoft_hugbunadar

[6] Byggt á texta frá Sveini á Felli.

[7] http://sv1.fellsnet.is/i18n/i18n.html

[8] https://www.gnu.org/software/gettext/

[9] http://www.molar.is/listar/kde-isl/1998-10/0000.shtml

[10] http://www.canonical.com/

[11] https://launchpad.net/

[12] https://www.mozilla.org/en-US/

[13] http://www.ra.is/firefox/

[14] http://www.openoffice.org/

[15] https://www.libreoffice.org/

[16] http://www.openoffice.is

[17] http://web.archive.org/web/20061010212607/http://www.rglug.org/index.html

[18] https://www.fsfi.is/

[19] https://www.transifex.com/

[20] https://translatewiki.net/

[21] https://www.wikipedia.org/

[22] https://www.wikimedia.org/

[23] https://www.openstreetmap.org

[24] http://www.ubuntu.com/

[25] https://www.linuxmint.com/

[26] http://developer.linuxmint.com/

[27] http://www.xfce.org/

[28] https://gramps-project.org/