Skip to main content

Þróun nettenginga við Ísland

Nettenging gegnum Hafró og „Prótókoll-stríðið“

Tenging Íslands við umheiminn um tölvunet var í raun og veru endalok stríðs sem hafði staðið í nokkur ár, en Maríus Ólafsson, reiknifræðingur hjá Reiknistofnun á þessum tíma, líkir því við trúarbragðadeilur. Þær deilur snerust um val milli tveggja leiða til gagnaflutninga: svokallaðrar rásaskiptingar (OSI, Open Systems Interconnection) og pakkaskiptingar (IP, Internet Protocol), og stóðu nær eingöngu milli tæknimanna.

Árið 1983 kom ungur tölfræðingur, Gunnar Stefánsson, frá námi í Bandaríkjunum og fór að vinna hjá Hafrannsóknastofnun. Á námsárunum hafði hann kynnst því hvernig bandarískir háskólar voru farnir að tengja sig saman með neti sem var kallað ARPANET (The Advanced Research Projects Agency Network). Evrópskir háskólar tengdust einnig með skyldu neti og allsherjarnet um allan heim var í burðarliðnum. Gunnari fannst alveg augljóst að hið sama yrði að gerast hér en fékk litlar undirtektir. „Viðbrögðin hér voru að þetta væri nú bara fyrir tölvukalla. Fax og sími virkuðu ágætlega,“ rifjaði Gunnar upp rúmum þrjátíu árum síðar.

En Gunnar vissi hvað hann var að fara og þá þegar höfðu myndast spjallhópar á þessum netum, „usenet“, þar sem vísinda- og fræðimenn skiptust á upplýsingum úr fræðum sínum.

„Kosturinn við þetta var að þarna hafði maður aðgang að stórum og breiðum hópi, áður voru menn hver í sínu horni að setja upp kerfi, hugbúnað og annað til að tengja tölvurnar saman með símalínum. Þarna var allt í einu kominn risastór hópur, mörg þúsund manns, og þegar háskólarnir komu inn gerðumst við áskrifendur að þessum fréttagrúppum, sem það hét, og þetta var notað til að senda spurningar og fá upplýsingar. Fyrirspurnirnar voru sendar inn á spjallrásina og svar kom seinna. Símatengingarnar voru svo hægvirkar og dýrar að spurningarnar voru sendar þegar tölvurnar hringdu, nokkrum sinnum á sólarhring.[1]

Þremur árum síðar, árið 1986, kom reiknifræðingurinn Maríus Ólafsson einnig heim frá námi, en hann hafði kynnst sams konar umhverfi í Kanada, og fór að vinna á Reiknistofnun. Saman fóru þeir Gunnar að undirbúa að koma á betri tengingu við umheiminn. Þeir höfðu samband við Póst og síma og vildu fá að tengjast í gegnum hann en menn þar á bæ voru ófáanlegir til þess enda var Póstur og sími með allt annað kerfi til slíkra gagnaflutninga. Fyrirkomulagið var þannig að Póstur og sími gerði hvort tveggja, að votta tæki og búnað og selja hann, sem leiddi meðal annars til þess að símamódem voru óheyrilega dýr. Árið 1986 var komið á UUCP-tengingu (Unix-to-Unix Copy) milli Hafrannsóknastofnunar við Skúlagötu og Amsterdam. Það var tenging sem byggðist á Unix-stýrikerfi, sem var tiltölulega ódýrt og meðfærilegt. Þetta UUCP-alheimsnet var keyrt milli fjölnotendatölva með Unix-stýrikerfi sem notendur tengdust með 24x80 skjáum. Árið 1988 voru þúsundir nemenda og starfsmanna Háskóla Íslands komnir með netfang á þessu neti.[2]

Nettenging við alþjóðleg tölvunet var því orðin að veruleika. Sú gerð tengingar sem Evrópumenn og evrópsk símafélög, meðal annars á Íslandi, börðust fyrir byggðist á allt annarri tækni en þeirri sem komið hafði verið upp fyrir forgöngu Hafrannsóknastofnunar og Reiknistofnunar Háskólans. Maríus Ólafsson orðar þetta þannig: „Þetta kerfi var kallað OSI, sem stendur fyrir Open Systems Interconnection, og Evrópumenn vildu það fremur en internettæknina vegna þess að þeir vildu ekki að heimsnetið yrði byggt á amerískri tækni. En það fyndna við þetta er að tæknin er upprunalega frönsk, það var Frakkinn Louis Pouzin sem byggði fyrsta pakkaskipta netið í Frakklandi (CYCLADES).[3] Sú tækni hafði mikil áhrif á hönnun netsins í byrjun og reyndist miklu betri en símatæknin, sem er rásaskipt.“[4]

OSI-kerfið átti sér ýmsa talsmenn, Landssíminn var til að mynda hallur undir það kerfi. Fleira en andúð á amerískum lausnum olli því að Evrópubúar vildu lengi vel halda í þessa tækni. Hægt var að gjaldfæra fyrir hvern sendan pakka en í TCP/IP-kerfinu (internetkerfinu) var aftur á móti engin innbyggð leið fyrir mælingar á gjaldtöku. Í Evrópu voru menn því enn um sinn uppteknir af því að búa til staðla sem byggðu á OSI og þeirra á meðal voru skráaflutningastaðall (X.25) og tölvupóststaðall (X.400). „Það var fáránlega dýrt að nota X.25 í venjulegum samskiptum með mótöldum ,“ segir Helgi Jónsson sem var hjá Reiknistofnun Háskólans og SURÍS á þeim tíma sem þessi barátta um samskiptastaðla var í algleymingi.[5] „Eitt sinn sátum við niðri á Hótel Borg, ég og Páll Jensson forstöðumaður RHÍ. Páll spurði mig hver væri eiginlega munurinn á TCP/IP og OSI. Ég sagði honum að á meðan kerfiskarlar í Evrópu hittust og ræddu OSI væru ungir og frjóir námsmenn í háskólum í Bandaríkjunum að vinna að TCP/IP-stöðlum; hvort myndir þú velja?“[6]

Óhætt er að halda því fram að með UUCP-tengingunni hafi Ísland verið komið í samband við umheiminn, internetið var komið til Íslands árið 1986 og efldist hröðum skrefum næstu árin. Allar helstu stofnanir þjóðfélagsins voru orðnar nettengdar 1986: menntastofnanir, stjórnsýslan, þar með ráðuneytin og Alþingi, Ríkisútvarpið, Landsvirkjun og Póstur og sími, tengdar alneti, sem var og er í rauninni mörg sjálfstæð net. En breytingin sem kom með UUPC var sú að gáttir höfðu verið opnaðar á milli þeirra þannig að þau tengdust saman í eitt allsherjar heimsnet, alnet sem er nú orðinn snar og sjálfsagður hluti af lífi okkar og tilveru.

Stofnaður var félagsskapur Unix-notenda á Íslandi í framhaldi af þessum miklu breytingum á tölvuumhverfi og hröðum umskiptum í umhverfi þeirra sem voru með tengingar til útlanda. Eftir aðeins þrjú ár höfðu 40–60 tölvur á sautján stofnunum verið tengdar þessu fyrsta íslenska tölvuneti með svonefndum TCP/IP-tengingum: Hafrannsóknastofnun, SURÍS, Reiknistofnun Háskólans, Flugmálastjórn, Raunvísindastofnun, Strengur hf., Orðabók HÍ, Tölvudeild Ríkisspítala, Íslensk málstöð, IBM á Íslandi, Verkfræðistofnun HÍ, Magnús hf., Norræna eldfjallastöðin, Grunnskólinn á Kópaskeri, Rannsóknastofa landbúnaðarins og HP á Íslandi (Hewlett Packard).

Með þessari tengingu fékkst aðallega tvennt: alþjóðlegur tölvupóstur og aðgangur að „usenet“-hópunum. Til þess að geta notað tölvupóstkerfið fengu notendur skráð netföng sem enduðu á .is.

HInet verður til

Árið 1987 var ákveðið að Háskóli Íslands, að frumkvæði starfsmanna Reiknistofnunar Háskólans, myndi koma upp gagnaneti (glerþráðaneti) á háskólalóðinni. Vorið 1988 lá fyrir frumáætlun um hraðvirkt gagnanet og var fyrsti hlutinn settur upp skömmu eftir að stofnunin fluttist í Tæknigarð, snemma í febrúar 1989. Spennan var mikil þegar taka átti búnaðinn í notkun og í ljós kæmi hvort hann ynni samkvæmt tilskyldum stöðlum:

Vart var við smá taugatitring þegar þessi fyrsti hluti glerþráðanetsins var prófaður. Enda e.t.v. ekki nema von, því þetta var í fyrsta sinn sem glerþráður var notaður fyrir tölvuumferð hérlendis. Ekki var dagurinn sérstaklega uppörvandi til slíkra tilrauna, mánudagurinn 13. febrúar. Sem betur fer reyndist auðvelt að koma glerþráðum fyrir þó splæsingin á honum sé vandaverk en Breiðbandsdeild Pósts og síma sá um þann þátt verksins.

Netið nær nú [í október 1990] til ellefu bygginga.[7]

Við hönnun á háskólanetinu, HInet, var áhersla lögð á eftirfarandi þætti: að tölvu- og vélbúnaðartengingar væru samkvæmt Ethernet-stöðlum, að samskipti milli tölva væru samkvæmt IP-stöðlum – það sama gilti um fjarskiptabúnað – og að Unix-stýrikerfi væri notað á netþjónum og vinnustöðvum.

SURÍS og Internet á Íslandi hf.

Tölvudeild Hafró rak útlandasambandið (UUCP-tengingu til Amsterdam) fyrstu árin. Rekstrarkostnaði var dreift milli þeirra sem nýttu tenginguna. Undir lok árs 1989 var rekstrarkostnaður orðinn það mikill að Hafró gat ekki lengur séð um reksturinn. Ákveðið var að SURÍS tæki við netinu (ISnet) síðla árs 1989. SURÍS hafði verið stofnað til þess að koma á samvinnu um rekstur upplýsinga og tölvunets fyrir rannsóknaraðila hér á landi og var því rökrétt að færa rekstur netsins til SURÍS.

SURÍS samdi við Reiknistofnun Háskóla Íslands og Háskóla Íslands um að annast daglegan rekstur netsins og skráningu léna. SURÍS stofnaði Internet á Íslandi hf. 17. maí 1995, og tók það við rekstri ISnet, lénaskráningu og sá um þátttöku í NORDUnet-samstarfi.

Þann 18. júlí 1990 var gefin út auglýsing nr. 321/1990 hjá samgönguráðuneytinu. Í henni var að finna breytingar á reglum um notkun leigulína. Línum fyrir gagnaflutninga var skipt í þrjá flokka. Blátt bann var lagt við tengingu þriðja aðila við gagnalínur í flokki 1 og flokki 2. Skilyrði fyrir notkun gagnalínu í flokki 3 voru þess eðlis að útilokað var að verða við þeim.

Þessar hörmulegu reglur voru því þess eðlis að ekki var unnt að nota leigulínur til nettenginga. Ljóst var að breytingarnar voru gerðar að undirlagi Póst- og símamálastofnunar.

Ekki var hægt að kenna ráðherranum um þennan ófögnuð. Hann var ekki sérfróður um netmál. Hann hefur í góðri trú farið eftir ráðleggingum ráðgjafa sinna. Ráðgjafarnir voru hins vegar frá Póst- og símamálastofnun.[8]

Í víðneti eru leigulínur líflínur netsins. Hefðu reglur um notkun gagnalína samkvæmt þessari auglýsingu náð fram að ganga hefði það næsta víst gengið af neti SURÍS, ISnet, dauðu. SURÍS mótmælti og sendi harðorð bréf til ráðherra. Hið sama gerði Helgi Þórsson forstöðumaður RHÍ. Fundir voru haldnir og mótmælin dugðu til þess að banni við notkun samkvæmt auglýsingunni var ekki framfylgt. Í auglýsingunni voru einnig tilgreindar töluverðar gjaldskrárhækkanir sem komu sér afar illa fyrir SURÍS og viðskiptavini sem tengdir voru ISnet um leigulínur.

Árið áður höfðum við byrjað tilraunir með ókeypis hugbúnað frá Northwestern University. Hugbúnað sem breytti venjulegri PC tölvu í einfaldan rúter; þetta var gert með hugbúnaði sem hét og heitir PCroute. Hægt var að nota rúter með þessum búnaði til að tengja net saman yfir leigulínu með lághraða mótöldum. Við höfðum þegar notað PCroute til að tengja einstaka aðila við ISnet. Þegar hækkun gjalda á leigulínum kom til virtist lítið vera hægt að gera til mótvægis.

Um vorið 1992 ákvað ég að athuga hvort unnt væri að breyta PCroute hugbúnaðinum; breyta honum þannig að í stað leigulína væru notaðar venjulegar símalínur. Hugmyndin var að hafa upphringi PCroute rútera tengda við mótald og símalínu bæði í netmiðstöð og hjá viðskiptavini. Rúterar kæmu á sambandi þegar samskipta var þörf. Samband væri svo rofið að samskiptum loknum. Garðar Georg Nielsen fékk það hlutverk að búa til prótótýpu til að kanna hvort þessi breyting væri yfirhöfuð möguleg. GGN lauk þessu verkefni í júní 1992.

Upphringi PCroute, PCroute með breytingum GGN, virkaði en var ekki áreiðanlegur. PC tölvan sem keyrði búnaðinn átti til með að frjósa í tíma og ótíma. GGN var sumarmaður hjá RHÍ og verkefnið virtist sjálfdautt þegar hann hætti síðar um sumarið. Ég tók þá verkefnið upp á mína arma og vann að því utan vinnutíma. Undir áramót 1992 var loks komin útgáfa sem virkaði.[9]

Búnaðurinn var þróaður áfram og reyndist afar gangviss við upphringinetsambönd og var reyndar einnig notaður við fastar leigulínur í stað upprunalega PCroute. Með upphringi-PCroute reyndust samskipti yfir leigulínur vera hraðari en áður. Hraðaaukning kom til vegna breytinga sem gerðar voru á hugbúnaðinum. Upphringinetsambönd voru jafnhraðvirk og netsambönd yfir fastar línur. Mörg af minni fyrirtækjunum sem höfðu UUCP-tengingu við ISnet notuðu PCroute þegar þau skiptu yfir í TCP/IP-nettengingu. Reyndar fór svo að mörg fyrirtæki notuðu þennan búnað við fyrstu tengingar sínar við ISnet.

Á árinu 1996 fór að rofa til í leigulínumálum. Reglugerð 608/1996 var gefin út 30. október 1996. Fimmta grein reglugerðarinnar byrjar svona: „Jafnræði. Fjarskiptafyrirtæki skal leigja línur sömu tegundar á eins kjörum.“

Reglugerð 608/1996 var sett samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 73/1984, sbr. nr. 32/1993 og með hliðsjón af tilskipun 92/44/EBE frá 5. júní 1992 og ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB 94/439/EBE frá 15. júní 1994.

Hverjir voru tengdir við internetið 1995?

Í febrúar 1995 birtist yfirlitsmynd í tímaritinu Tölvumálum, sem sýndi þá íslenska aðila sem tengdir voru internetinu.

isnet.1994
Ísnet, tengingar 1994. Tölvumál 1. tölublað, 1995.[10]

Aðstandendur SURÍS stofnuðu Internet á Íslandi hf. 17. maí 1995 (INTIS). Útlandalínan var færð upp í 1 Mbps (megabitar á sek). Samgönguráðuneytið tilkynnti lækkun á verði leigulína til útlanda og í boði var tveggja ára samningur með 15% afslætti og fimm ára samningur með 30% afslætti. En Póstur og sími krafðist fyrirframgreiðslu fyrir allt tímabilið. 

Mikið var reynt til að ná samkomulagi sem unnt væri að sætta sig við milli Pósts og síma og INTIS. Frá fundi þessara aðila í mars 1997 var meðal annars reynt að fá einhvers konar „pakka“ fyrir notendur, sem sumir voru æði stórir, vegna netsambands við Evrópu.

Póstur og sími

Í febrúarblaði Tölvumála 1992 lýsir Hákon Sigurhansson verkfræðingur háhraðaneti Pósts og síma. Hann fjallar meðal annars um þau staðarnet sem sett hafi verið upp á árunum þar á undan, bæði þau sem voru á afmörkuðu svæði en einnig ef tengt var milli landshluta eða bæjarhluta. „Fram til þessa hafa menn tengt staðarnet sem eru fjarri hvort öðru saman með leigulínum eða með Gagnaneti Pósts og síma.“[11] Lýsing Hákonar í Tölvumálum er tæknileg, en hann getur þess að gjaldskráin fyrir Gagnanetið henti ekki vel fyrir háhraðatengingar á milli staðarneta. Eini valkosturinn í viðbót sé leigulína frá Pósti og síma, sem hann einn hafi afnot af.[12]

PosturOgSimi
Fjallað var um háhraðanet Pósts og síma í 1. tölublaði Tölvumála 1992.[13]

Hákon bendir á að gagnanetið bjóði ekki upp á sama hraða og staðarnet en háhraðanetið eigi að leysa úr því, gjaldskrá sé hins vegar ekki tilbúin. Hákon gerir ekki ráð fyrir öðrum kostum en Pósti og síma, enda var það í takt við þau lög og reglur sem þá giltu. Þar á bæ var á þessum tíma fullur vilji til að styðja alla helstu staðla sem enn voru við lýði, ekki bara TCP/IP heldur þá sem síðar urðu undir í þróuninni.

Miðheimar

Í apríl 1994 var fyrirtækið Miðheimar hf. stofnað og var það fyrst á Íslandi til að selja aðgang að vefnum til einstaklinga og fyrirtækja. Það var einnig fyrsta vefsíðufyrirtækið hér á landi og framleiddi til dæmis vefsíður fyrir Björk Guðmundsdóttur, Landsbankann, Morgunblaðið, Flugleiðir og fleiri. Miðheimar buðu upp á internetið í pakka þar sem voru leiðbeiningar og disketta með aðgengilegum hugbúnaði fyrir PC og Mac.

Forveri Miðheima var centrum.is sem Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Róbert Viðar Bjarnason stofnuðu árið 1993. Centrum.is var ein fyrsta internetveitan á Íslandi og sú fyrsta sem bauð upp á SLIP-aðgang sem opnaði aðgang að vefnum, nokkrum mánuðum eftir að fyrsti vefvafrinn, NCSA Mosaic, kom út. Við stofnun Miðheima tók það fyrirtæki við rekstri centrum.is. Róbert stóð að stofnun dótturfyrirtækis í Danmörku 1995, centrum.dk. Skíma var stofnuð 1994 eins og Miðheimar og sameinuðust fyrirtækin árið 1997 undir stjórn Dagnýjar Halldórsdóttur. Nokkru síðar var Miðheimar-Skíma selt Símanum[15]

Nýjum símalínum bætt við

Í júlí 1996 hóf Póstur og sími að selja internettengingar til almennings. Árið eftir var tekin í notkun föst lína til Montreal í Kanada og annarri bætt við nokkrum mánuðum síðar þannig að heildarflutningsgetan var orðin sex megabitar á sekúndu. Síminn tók þetta ár í notkun línu til Bandaríkjanna og útlandasambönd urðu samtals tíu megabitar. Í lok þessa árs höfðu 24.828 tölvur verið tengdar.

Árið 1999 var enn bætt við línum og aðrar stækkaðar og heildarflutningsgeta ISnet fór í 47 megabita. Á því ári tók Íslandssími í notkun 34 megabita samband til Bandaríkjanna.

ISnet.2000
Árið 2000 tóku þeir Maríus Ólafsson og Helgi Jónsson saman yfirlit yfir nettengingar á Íslandi.[16]

Árið 2000 keypti Íslandssími, sem varð síðar Vodafone, hluta Háskóla Íslands og annarra ríkis- og rannsóknastofnana (nema Alþingis) í Internet á Íslandi. Jafnframt var samböndum ISnet til Stokkhólms lokað. Internet á Íslandi tók þá að sér að reka svokallaðan skiptipunkt netumferðar á Íslandi (Internet exchange). Þegar fram eru komin fleiri en tvö netþjónustufyrirtæki á sama svæði myndast þörf fyrir samtengipunkt, þar sem viðskiptavinir fyrirtækjanna þurfa að geta náð sambandi hverjir við aðra. Ef þau tengdust ekki þýddi það að umferð milli viðskiptavina þeirra myndi flæða um útlandasamböndin, og gat það verið mjög óhagkvæmt fyrir alla aðila. Internet á Íslandi hf. setti því upp „Reykjavik Internet Exchange“, RIX, árið 2000 og þar tengdust allir helstu netþjónustuaðilar landsins og skiptust á umferð. Maríus Ólafsson skýrði þetta svo:

Það sem merkilegt er við þessa skiptipunkta er að yfirleitt er ekki þörf á sérstökum samningum milli aðila, og hvorugur greiðir hinum fyrir umferð enda tengingin augljóslega beggja hagur. Stærstu aðilarnir á markaðnum hér á landi (Síminn og Vodafone) voru auðvitað ekkert hrifnir af þessu framtaki (þeir sáu ekki þörf á því þar sem allir þessir aðilar gætu einfaldlega tengst þeim og greitt þeim fyrir tengingu – og ef það eru bara tveir þjónustuaðilar er engin þörf á slíkum tengipunkti) en auðvitað sáu tæknimenn þeirra ljósið strax og tengdust fljótlega. [17]

Framhald tenginga við heimsnetið var að Íslandssími bætti við sambandi við Evrópu og Lína.Net tók í notkun 45 megabita samband til Bandaríkjanna. Þar með var 39.901 tölva tengd. Rannsókna- og háskólanet Íslands (RHnet) var stofnað formlega 24. janúar 2001 til þess að koma á hraðvirku neti háskóla- og rannsóknastofnana og tengjast NORDUnet beint, og í gegnum það stærstu háskólanetum Evrópu og Ameríku.[18] Fjöldi tengdra tölva var kominn í 54.668. Árið eftir var RHnet stækkað í 155 megabita samband og á því ári fór fjöldi tengdra tölva upp í 68.261 og árið 2003 fór fjöldinn í 104.786.

Árið 2004 voru íslenskir stafir leyfðir í lénanöfnum, HIVE opnaði 45 megabita samband til Bandaríkjanna og fjöldi tengdra tölva fór í 139.427. Árið 2005 var samband RHnets stækkað í 310 megabita á Cantat-strengnum og var þá Landssími Íslands með samtals 465 megabita á Farice, HIVE með 45 megabita og Og Vodafone með 310 megabita á Farice.[19]

 

[1] Viðtal við Gunnar Stefánsson 24. nóv. 2014.

[2] Maríus Ólafsson. Athugasemdir í tölvupósti í apríl 2016.

[3] Því miður var CYCLADES drepið niður af franska ríkissímafélaginu. Maríus Ólafsson, apríl 2016.

[4] Maríus Ólafsson. Viðtal tekið 14. nóv. 2014.

[5] Helgi Jónsson. Viðtal tekið 2. apríl 2016.

[6] Sama heimild.

[7] Helgi Jónsson: Stutt ágrip af sögu HInet og staða netsins í október 1990. Handrit.

[8] Helgi Jónsson. Athugasemdir í tölvupósti í apríl 2016.

[9] Sama heimild.

[10] Kristinn Einarsson: Internet. Tölvumál, 1. tbl., 20. árg., febrúar 1995, bls. 13. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2363121

[11] Hákon Sigurhansson, verkfræðingur. „Háhraðanet Pósts og síma,“ Tölvumál, 1. tbl., 17. árg., bls. 15.

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild, bls. 17.

[15] Dagný Halldórsdóttir, Skíma-Miðheimar. Frjáls verslun, 3. tbl., 58. árg. 1997. Bls. 73. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=233218&pageId=3178145&lang=is&q=Mi%F0heimar

[16] Yfirlit fengið frá Maríusi Ólafssyni, 2016.

[17] Maríus Ólafsson í athugasemdum við viðtal hans við  14. nóv. 2014.

[18] Maríus Ólafsson, viðtal við  14. nóv. 2014. Sjá einnig: http://www.rhnet.is/

[19] SagainternetsinsMarius.txt