Skip to main content

2014 UT-verðlaun Ský

Verðlaunahafi Upplýsingatækniverðlauna Ský 2014

Rakel Sölvadóttir

UTverdlaun2014

Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema, fékk í dag UT-verðlaun Ský 2014 en þetta er í fimmta sinn sem verðlaunin eru afhent.

Í rökstuðningi valnefndar segir að Rakel sé hugsjónamanneskja og frumkvöðull sem sýnt hafi hversu mikilvægt það sé að vera jákvæður og trúa á sjálfan sig og hugmyndir sínar.

„Ný nálgun og hugmyndafræði Rakelar hefur valdið straumhvörfum í fræðslu og áhuga allra aldurshópa á nýtingu upplýsingatækni. Aðferðafræðin sem er studd af rannsóknum á sviði sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði, hefur það markmið að kenna ungu fólki frá 6 ára aldri að forrita. Undirstöðuatriði aðferðafræðinnar byggja á jákvæðni, myndrænni framsetningu og notkun á þrívíðum forritunarumhverfum til að stíga fyrstu skrefin inn í heim tækninnar. Rakel hefur verið sérstaklega góð fyrirmynd fyrir ungar konur sem eru að stíga sín fyrstu skref í tækniheiminum eða stefna að því að afla sér menntunar á sviði tækni og/eða vísinda.“

Rakel stofnaði sprotafyrirtækið Skema árið 2011 og hefur það vaxið á ógnarhraða frá stofnun. Rakel er Bs í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og starfaði meðal annars hjá Mentis, Teris og Tryggingastofnun ríkisins áður en hún stofnaði Skema. Um mitt síðasta ár stofnaði Rakel fyrirtækið reKode Education í Bandaríkjunum, sem byggir á sömu hugmyndafræði og Skema og hefst kennsla þar í apríl næstkomandi.

Þá segir ennfremur í rökstuðningi valnefndar:

„Rakel hefur lagt ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð í störfum sínum og með því að auka þekkingu á tæknitengdum greinum er verið að svara kalli atvinnulífsins og samfélagsins í heild. Forbes valdi Skema sem eitt af tíu sprotafyrirækjum í heiminum sem talin eru líkleg til að ná miklum árangri á næstunni og var Rakel valin í hóp átta frambærilegustu kvennanna á tækniráðstefnunni SXSW í Bandaríkjunum 2013 af Women 2.0. “

Markmið Skema er að uppfæra menntun í takt við tækniþróun og býður fyrirtækið upp á námskeið fyrir börn frá 7 ára aldri í forritun. Jafnframt leggur Skema mikla áherslu á endurmenntun kennara og er því með námskeið ætluð kennurum í notkun upplýsingatækni í kennslu ásamt ráðgjöf við innleiðingu á notkun tækni og kennslu í forritun í almennt skólastarf.

Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem afhenti Rakel verðlaunin á UTmessunni sem nú stendur yfir í Hörpu.

----

Fimmta valnefnd var skipuð í desember 2013 og samanstóð af Hilmari Veigari Péturssyni verðlaunahafa UT-verðlauna Ský 2013, Maríusi Ólafssyni verðlaunahafa UT-verðlauna Ský 2012, Daða Friðrikssyn sem fulltrúa frá Samtökum Upplýsingatæknifyrirtækja, Ara K. Jónssyni rektor HR ásamt Eggerti Claessen frá Frumtaki. Til viðbótar er Hjörtur Grétarsson úr stjórn Ský og Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ský.