Skip to main content

2021 UT-verðlaun Ský tilnefningar

UT-verðlaun Ský verða veitt á UTmessunni föstudaginn 5. febrúar

Eftirfarandi eru tilnefndir í undirverðlaunaflokkum UT-verðlaunanna og verða vinningshafar tilkynntir á verðlaunahátíð í beinni útsendingu á UTmessunni föstudaginn 5. febrúar en þá verður UTmessan haldin í 11. sinn og fer hún alfarið fram í rafheimum. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhendir verðlaunin í hádegishléi ráðstefnunnar.

Sem fyrr er ekki gefið upp hverjir eru tilnefndir til aðalverðlaunanna, Upplýsingatækniverðlauna Ský; heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Hægt er að verðlauna einstakling, fyrirtæki eða verkefni sem hefur skarað frammúr á sviði upplýsingatækni, skapað verðmæti og auðgað líf Íslendinga með hagnýtingu á upplýsingatækni. Áhersla er lögð á að framlagið hafi þegar sannað sig með afgerandi hætti.

Eftirtaldir eru tilnefndir í undirverðlaunaflokkum vegna afreka á árinu 2020:

UT-Fyrirtækið 2020:

UT-fyrirtæki ársins er flokkur fyrir fyrirtæki sem hafa unnið sérstaklega gott starf á árinu og hafa náð góðum árangri með einum eða öðrum hætti, á innlendum sem erlendum vettvangi með upplýsingatækni að leiðaljósi.

ARANJA
Hugbúnaðarfyrirtækið Aranja hefur komið að mörgum áhugaverðum verkefnum síðasta árið. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 15 sérfræðingar sem sérhæfa sig í hágæða framendaþróun með áherslu á notendaviðmót og upplifun notenda. Hlutur Aranja í Covid tæknilausnum fyrir Ísland hefur ekki farið hátt en fyrirtækið nýtti sér grunn úr hugbúnaði sem þegar var til hjá þeim og breytti á ótrúlega stuttum tíma í Rakning C-19 appið sem flestallir sem búa á Íslandi eða koma til landsins hafa í símum sínum til að auðvelda rakningu ef þeir greinast með Covid-19. Aranja gaf alla þessa vinnu.

CONTROLANT
Hug- og vélbúnaður frá Controlant hefur gegnt lykilhlutverki við flutning á viðkvæmum vörum svo sem matvælum og lyfjum síðustu ár. Þannig sjá framleiðendur mikilvægar rauntímaupplýsingar um hita og rakastig með nettengdum gagnaritum sem Controlant hannaði sem hefur komið í veg fyrir sóun á viðkvæmum vörum og tryggt gæði þeirra. Nú á tímum Covid hefur lausnin þeirra verið notuð af lyfjafyrirtækjum til að flytja viðkvæm bóluefni gegn Covid-19 veirunni. Það sýnir sig enn og aftur að nýsköpun og tækni á Íslandi er framarlega og frábært að sjá félagið vaxa og dafna hratt síðasta árið.

ÍSLENSK ERFÐAGREINING
Slagorð fyrirtækisins; „Þekking í allra þágu“ er svo sannarlega rétt ef hugað er að því hvað Íslensk erfðagreining hefur gert í gegnum árin. Þannig hefur erfðagreining á orsökum margra alvarlegustu sjúkdóma mannkyns opnað möguleika á að bæta líf og heilsu. Þar má nefna krabbamein, sykursýki, og hjartasjúkdóma. Sérfræðingar fyrirtækisins standa framarlega í rannsóknum og eru meðal áhrifamestu vísindamanna í heiminum og samstarfsnet þeirra víðtækt. Framlag Íslenskrar erfðagreiningar í heimsfaraldrinum Covid-19 við raðgreiningu veirusýna er einstakt. Vinna starfsmanna við skimun, lán á tækjabúnaði og starfsaðstöðu er ómetanleg á tímum alheimsfaraldurs ásamt öðru framlagi Íslenskrar erfðagreiningar á þessum skrítnu tímum. Tæknigeta og þekking innan Íslenskrar erfðagreiningar er eftirtektarverð hefur komið Íslendingum til góða í gegnum árin.

UT-Sprotinn 2020:

UT- sprotinn er flokkur fyrir fyrirtæki sem hafa verið starfandi síðastliðin 1-6 ár og eru að bjóða lausnir sem hafa vakið athygli.

HOPP
Deilihagkerfishugsun Hopp hefur vakið athygli. Hopp kom eins og stormsveipur inn á íslenska markaðinn sem fyrsta íslenska rafskútuleigan. Hopp smáforritið er alfarið hannað og þróað á Íslandi af fyrirtækinu Aranja í samstarfi við Metall hönnunarstofu. Hopp appið hefur vakið mikla athygli fyrir frábæra hönnun ásamt tæknilegri útfærslu. Hopp hefur náð gríðarlegum árangri en vel yfir 70.000 notendur hafa sótt appið og á árinu 2020 fóru Hopparar yfir 870.000 km og spöruðu 107.010 kg af CO2 í útblæstri.

SIDEKICK HEALTH
Sidekick var stofnað árið 2014 og sérhæfir sig í þróun á stafrænum heilbrigðislausnum og fjarheilbrigðiskerfum, sem meðal annars bæta líðan sjúklinga, auka meðferðarheldni og draga úr álagi á heilbrigðisstarfsfólk. Félagið starfar með alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum og heilsutryggingarfélögum. Í byrjun COVID-19 faraldursins þróaði Sidekick lausn á rúmum tveimur vikum fyrir sjúklinga í einangrun, sem greindust með COVID-19, þar sem starfsfólk Landspítalans getur fylgst með þróun einkenna og líðan í gegnum kerfið. Sjúklingar hlaða smáforriti í símann sinn og skrá einkenni daglega, auk þess að hafa aðgang að fræðsluefni um sjúkdóminn. Afurðin hefur nú verið aðlöguð að öðrum sjúkdómaflokkum og er komin í notkun víðar í Evrópu og í Bandaríkjunum.

YAY
Fyrirtækið YAY er áhugaverður sproti sem þróað hefur YAY appið sem býður upp á rafræn gjafabréf.  Ferðagjöf stjórnvalda var átak til að styrkja ferðaþjónustuna í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19.  Ferðagjöfin var í formi stafrænnar inneignar og nýtti YAY lausn sína til að útfæra rafræn gjafabréf skv. löggjöfinni. Þar skipti sköpum að vinna lausnina hratt enda stuttur tími sem gafst frá því ákveðið var að fara í verkefnið þar til byrjað var að nota gjöfina. Útfærslan var einföld og auðveld í notkun.

UT-Stafræna þjónustan 2020:

UT- Stafræn þjónusta flokkurinn er ætlað lausnum sem skara fram úr og einfalda daglegt líf fólks. Vefsíður, öpp og rafrænar þjónustur hvers konar falla undir þennan flokk.

EMBÆTTI LANDLÆKNIS
Embætti landlæknis hefur borið hitann og þungann af þeim tæknilausnum sem þróaðar hafa verið á methraða til að auðvelda upplýsingagjöf og utanumhald vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Þannig hoppað á mettíma inn í framtíðina með nýjum lausnum og viðbótum við lausnir sem þegar voru til staðar. Helst má þar nefna www.covid.is, Heilsuveru og sýnatökukerfi. Samspil þessara kerfa við Heklu heilbrigðisnet, gagnagrunna Sóttvarnalæknis, smitrakningakerfi, Sögu sjúkraskrárkerfi, Heilsugátt LSH ásamt rannsóknarstofukerfi ÍE og LSH ásamt fleiri kerfum hefur skipt sköpum varðandi utanumhald Covid á Íslandi. Áframhaldandi verkefni eins og utanumhald og boðun í bólusetningar koma öllum til góða og frábært að sjá hve hratt og vel það hefur gengið að fá almenning til að nota allar þessar stafrænu lausnir.

STAFRÆNT ÖKUSKÍRTEINI
Algjör tæknibylting sem margir hafa beðið eftir. Stórt skref í átt að því að hvetja fólk til að nota stafræn veski sem m.a. munu hafa mikil áhrif á umhverfið í framtíðinni. Sú grunnvinna sem hefur átt sér stað við gerð stafræna ökuskírteinisins styður við fjölda annarra opinberra skírteina sem hafa sum hver nú þegar litið dagsins ljós og enn fleiri á leiðinni. Stór hluti Íslendinga sótti stafrænt ökuskírteini á fyrstu vikunum og frábært hvað þetta gekk hratt og vel í gegn. Í dag eru hátt í 100 þúsund Íslendingar komnir með stafrænt ökuskírteini í símann. Einfalt og auðvelt í notkun og Ísland í fararbroddi í Evrópu með stafræn ökuskírteini.

STAFRÆNT ÍSLAND
Þjónustugátt hins opinbera fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Allt á einum stað með notendamiðaðri nálgun sem kemur fólki beint að efninu sem það leitar að. Stafræn þjónusta og ferlar aðgengilegir öllum á einfaldan og auðskiljanlegan hátt. Nýr vefur Ísland.is er með opinn og frjálsan kóða og því geta allir nýtt sér hann endurgjaldslaust í hugbúnaðargerð sem styður við nýsköpun. Nálgun við stafræna þróun er nútímaleg, umhverfisvæn og tengir saman einkageirann og opinbera geirann með því að bjóða út vinnu hugbúnaðarteyma til að vinna að þróun stafrænna lausna. Þannig hefur tekist að brjóta múra með nýrri hugsun sem miðar að því að leysa verkefni saman á skilvirkan hátt.

YFIRLIT YFIR FYRRI VERÐLAUNAHAFA