Skip to main content

2024 UT-verðlaun Ský tilnefningar

UT-verðlaun Ský verða veitt á fjórtándu UTmessunni föstudaginn 2. febrúar 2024.

Eftirfarandi voru valin úr fjölda tilnefninga til undirverðlaunaflokka UT-verðlaunanna og verður vinningshafi í hverjum flokki tilkynntur á verðlaunahátíð í Hörpu í lok UTmessunnar föstudaginn 2. febrúar á ráðstefnu- og sýningardegi tæknifólks og má sjá dagskrá á www.utmessan.is

Sem fyrr er ekki gefið upp hver eru tilnefnd til aðalverðlaunanna, Upplýsingatækniverðlauna Ský; heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Þar var hægt að tilnefna einstakling, fyrirtæki eða verkefni sem hefur skarað frammúr á sviði upplýsingatækni, skapað verðmæti og auðgað líf Íslendinga með hagnýtingu á upplýsingatækni. Áhersla er lögð á að framlagið hafi þegar sannað sig með afgerandi hætti. Það verður því spennandi að sjá hver hlýtur þau verðlaun.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson mun afhenda verðlaunin í Eldborgarsal Hörpu.

Eftirtalin 3 í hverjum flokki eru tilnefnd í undirverðlaunaflokkum vegna afreka á árinu 2023 og verður spennandi að sjá hver hlýtur verðlaunin í hverjum flokki.

UT-Fyrirtækið 2023:

UT-fyrirtæki ársins er flokkur fyrir fyrirtæki sem nýta sér upplýsingatækni í sinni starfsemi og hafa náð góðum árangri með einum eða öðrum hætti á árinu á innlendum sem erlendum vettvangi með upplýsingatækni að leiðarljósi.

DATALAB
Gagnadrifin nýsköpun er rauði þráðurinn í verkefnum DataLab. Þau ryðja veginn, eru óhrædd að fara ótroðnar slóðir. Þau eru að byggja upp öflugt teymi með sérþekkingu á gagnatækni og gervigreind (Center of Excellence) svo innlendir aðilar geti hagnýtt slíka tækni í starfsemi sinni til góðra verka í samstarfi við DataLab. Þau eru í dag eftirsóknarverður vinnustaður meðal þeirra sem hafa þessa sérhæfingu. Þau hafa verið brautryðjandi í því að kynna og fræða starfsfólk fyrirtækja og stofnana um skynsamlega hagnýtingu gagna til að bæta rekstur og þjónustu. Nú þegar hagnýting gervigreindar er komin á dagskrá hjá flestum fyrirtækjum og stofnunum má segja að DataLab hafi undirbúið jarðveginn eða varðað veginn með fjölmörgum vel heppnuðum lausnum sem nýst hafa fjölda fyrirtækja og stofnana.

STAFRÆN FRAMÞRÓUN LANDSPÍTALANS
LSH rekur og þjónustar eitt stærsta og flóknasta tækniumhverfi landsins. Sjúkraskrá spítalans vegur þar þyngst og samanstendur af yfir 100 tölvukerfum. Auk þess hefur Landspítalinn þróað Heilsugátt sem tengir saman öll undirliggjandi kerfi og hefur rækilega sannað sig sem lykil verkfæri heilbrigðisstarfsfólks spítalans. Flestar heilbrigðisstofnanir landsins nýta Heilsugátt sem og fjölmörg sérhæfð kerfi LSH. Síðustu ár hefur verið sérstök áhersla fjarheilbrigðisþjónustu og aðkomu sjúklinga að eigin meðferð. Sjúklinga app LSH spilar þar veigamikið hlutverk og hefur fengið sérlega góðar viðtökur. Samhliða hefur verið lögð áhersla á nýsköpun og samstarf við nýsköpunarfyrirtæki.

KLAPPIR GRÆNAR LAUSNIR
Klappir Grænar Lausnir þróa veflausn sem fyrirtæki hér á landi og erlendis notast við til þess að halda utan um kolefnisbókhald og aðrar sjálfbærniupplýsingar. Hugbúnaðarlausn Klappa styður fyrirtæki í að mæta nýjum kröfum um ítarlega upplýsingagjöf um sjálfbærni. Viðskiptavinir Klappa eru skráð og óskráð fyrirtæki sem og opinberir aðilar sem eiga að skila sjálfbærniuppgjöri samhliða hefðbundnu rekstraruppgjöri til hagaðila. Klappir hafa í áratug sérhæft sig í hvers kyns snjallvæðingu á sjálfbærnimálum fyrirtækja og leggja sérstaka áherslu á sjálfvirknivæðingu og gæði gagna.

UT-Sprotinn 2023:

UT- sprotinn er flokkur fyrir fyrirtæki sem hafa verið starfandi síðastliðin 1-6 ár og eru að bjóða lausnir sem hafa vakið athygli.

EVOLV
Sjálfvirknivæðing ferla – stafrænt vinnuafl. 
Evolv sérhæfir sig í að aðstoða fyrirtæki við sjálfvirknivæðingu í sínum rekstri og selur bæði staðlaðar lausnir þess efnis sem og þjónustu. Evolv hefur árið 2023 vaxið úr 6 starfsmönnum í 15 ásamt því að hafa þrefaldað viðskiptavinahóp sinn úr 20 í 60 viðskiptavini.

EVOLYTES
Evolytes námskerfið er gagnadrifið einstaklingsmiðað stærðfræðinámsefni fyrir grunnskóla. Efnið eykur áhuga nemenda að læra STEM þar sem það skapar jákvætt viðhorf til stærðfræði hjá öllum nemendum og tryggir grunnfærni í stærðfræði á forsendum einstaklingsins. Auðvelda börnum (5-10 ára) að læra stærðfræði með skemmtilegum leik (í anda Pokemon), myndskreyttum námsbókum og upplýsingakerfi fyrir kennara með rauntímaupplýsingum um námsárangur. Evolytes hefur náð mikilli útbreiðslu hérlendis og er að vaxa erlendis. Það eru ekki margir útgefendur kennsluefnis beðnir að árita kennslubækurnar af nemendum, en það hefur gerst í skólakynningum hjá þeim. Leikurinn þeirra er frábært verkfæri til að ná upp PISA markmiðum okkar.

INDÓ
Spennandi fyrirtæki sem kom inn á fastmótaðan bankamarkað í byrjun síðasta árs. Indó hefur hrist upp í markaðnum með því að bjóða upp á gagnsæja og sanngjarna bankaþjónustu sem er skemmtileg og laus við allt bull. Með því að nýta tæknina nær indó að einfalda bankaþjónustu, minnka yfirbyggingu og bjóða betri kjör. Í dag eru rúmlega 15% Íslendinga hjá indó og tíunda hver kortafærsla á Íslandi er greidd með indó korti.

UT-Stafræna almenna þjónustan 2023:

UT- Stafræn þjónusta flokkurinn er ætlað lausnum á almenna markaðnum sem skara fram úr og einfalda daglegt líf fólks. Vefsíður, öpp og rafrænar þjónustur hvers konar falla undir þennan flokk.

DALA.CARE
dala.care er hannað fyrir fólk sem þiggur og veitir heimaþjónustu. Kerfið byggir á reynslu okkar af starfrænni umbyltingu á heimaþjónustu í Bandaríkjunum með það að markmiði að einfalda skipulag og utanumhald á dagskrá, umönnunaráætlun og samskiptum. Aukin eftirspurn eftir heimaþjónustu er alþjóðleg áskorun sem við ætlum að mæta. Þau hafa átt stórkostlegt fyrsta ár í sögu fyrirtækisins með góðu samstarfi við viðskiptavini hérlendis og erlendis. Hápunktur 2023 var þegar þeim var tilkynnt að dala.care hefði orðið fyrir valinu í útboði Velferðarsviðs Reykjavíkur og fá nú tækifæri til að vinna með þeim sem veita þjónustu til rúmlega 10.000 Reykvíkinga.

KRÓNAN
Skannað og skundað, snjalllausn í appi Krónunnar, hefur valdið byltingu í verslunaraðferðum og þægindum neytenda. Krónan breytti samkeppnismarkaðnum og hefur notkun á Skannað og skundað aukist verulega á skömmum tíma. Vel heppnuð innleiðing og áframhaldandi stafræn þróun byggð á íslensku hugviti.

LYFJA
Lyfja hefur rutt brautina í nýsköpun á heilbrigðistengdri þjónustu á einkamarkaði. Lyfja er fyrsta og eina íslenska apótekið sem hefur sett í loftið „snjallapótek“. Lyfju appið fór í loftið rétt fyrir áramótin 2021 og er í dag eitt af stærstu apótekum Lyfju. Þjónustan í gegnum appið er einsdæmi á Íslandi - viðskiptavinir geta fengið lyfseðilsskyld lyf send frítt heim á innan við klukkustund. Appið breytti upplifun sem einkenndist af bið og óþarfa bílferðum yfir í framúrskarandi þjónustuupplifun. Appið hefur ekki bara sótt nýja viðskiptavini fyrir Lyfju heldur mælast viðskiptavinir appsins marktækt ánægðustu viðskiptavinir Lyfju.

UT-Stafræna opinbera þjónustan 2023:

UT- Stafræn þjónusta flokkurinn er ætlað lausnum á opinbera markaðnum sem skara fram úr og einfalda daglegt líf fólks. Vefsíður, öpp og rafrænar þjónustur hvers konar falla undir þennan flokk.

HUGVERKASTOFAN
Hugverkastofan er nútímaleg stofnun sem hefur sett sér skýra og metnaðarfulla stefnu fyrir stafræna umbreytingu. Einn af lykilþáttum hennar snýr að því að nýta veflausnir til að auka sjálfsafgreiðslu, bæta þjónustu og minnka handavinnu starfsmanna. Þjónusta sem veitt er í gegnum vef Hugverkastofunnar snýr að skráningu á vörumerkjum og hönnun auk umsókna um einkaleyfi á tæknilegum uppfinningum. Nýr vefur Hugverkastofunnar einfaldar mikið umsóknar- og skráningarferli viðskiptavina og minnkar vinnu sérfræðinga stofnunarinnar. Skráningarferli fyrir vörumerki er skýrt og leiðir notandann örugglega áfram. Þar er meðal annars hægt að vista skráninguna og ljúka síðar, horfa á skýringarmyndband og skoða áætlaðan kostnað við skráninguna. Meðal annarra nýjunga á vef Hugverkastofunnar eru mjög öflugar leitarvélar, sem auðvelda notendum að finna fljótt þau hugverkaréttindi sem eru skráð á Íslandi.

ISLAND.IS
Einfaldleiki og gott aðgengi einkennir Ísland.is þrátt fyrir flókið samspil fjölda opinberra aðila bæði efnislega og tæknilega. Yfir 250 manns standa að baki Ísland.is samfélaginu og miðla til verkefnisins en slíkt krefst mikils aga til að allir vinni að sama markmiði. Fjöldamörg verkefni verið unnin hjá Sýslumönnum s.s. rafrænar þinglýsingar, forskráning vegabréfa, stafræn dánarbú o.fl. Þessi vinna skilar sér í aukinni skilvirkni og þjónustu. Þá hafa 25 stofnanir og opinber verkefni flutt vefi sína á Ísland.is og annar eins fjöldi þegar hafið innleiðingu. Að baki Ísland.is er sömuleiðis að finna umsóknarkerfi sem talar við Mínar síður og Ísland.is appið, þjónustusíður sem styðja við algegnar spurningar notanda, spjallmenni sem leysir úr fyrirspurnum notanda. Ísland.is kemur fólki beint að efninu og sífellt fleiri opinberar þjónustur er hægt að klára að fullu í sjálfsafgreiðslu.

SKIPULAGSGÁTT
Skipulagsgátt markar tímamót í skipulagsmálum á Íslandi. Með gáttinni er í fyrsta sinn aðgengileg á einum stað öll skipulagsmál, umhverfismatsverkefni og framkvæmdaleyfi sem eru í kynningu hverju sinni, hvar sem er á landinu. Lausnin er aðgengileg og skiljanleg jafnt leikmönnum sem fagfólki. Skipulagsgátt stórbætir aðgengi og einfaldar almenningi og hagsmunaaðilum þátttöku í skipulagsmálum. Flóknir ferlar eru færðir á mannamál og nútímalegt, grafískt yfirlit yfir stöðu mála. Leit á korti eða leitarvél er einföld og aðgengileg. Lausnin er þegar komin í mikla notkun.

UT-Fjölbreytileika fyrirmynd 2023

Flokkurinn er til að vekja athygli á því sem vel er gert og styður fjölbreytileika og gott fordæmi.

ALDA
Alda hugbúnaður hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að mæla inngildingu á sínum vinnustað, býður upp á leikjavædda örfræðslu, markmið, mælikvarða og aðgerðaráætlanir sérsniðnar af gervigreind. Í lok árs 2023 var hugbúnaðurinn valinn á lista ráðgjafafyrirtækisins Gartner yfir leiðandi tæknilausnir sem bjóða upp á mælikvarða og markmiðasetningu í fjölbreytileika og inngildingu (DEI) en einungis fimm aðrar lausnir eru nefndar. Með Öldu hafa fyrirtæki og stofnanir gögn sem staðfesta hvort það sé mismunun milli ólíkra hópa innan fyrirtækisins, lausn sem mælir inngildingu sem er nauðsynleg til að halda í fjölbreytta hópa og niðurstöður um hvernig allt starfsfólk upplifir vinnustaðamenninguna. Alda var stofnað af Þórey V. Proppé, framkvæmdastjóri fyrirtækisins og Sigyn Jónsdóttir, tæknistjóra og starfa 13 sérfræðingar í hugbúnaðarþróun, efnissköpun, jafnréttis- og fjölbreytileikafræðum, stjórnun, sölu- og markaðsmálum.

BERENICE BARRIOS
Berenice hefur síðustu ár barist fyrir breytingum á verkferlum og vinnustaðamenningu sem gera fólki með ólíkan bakgrunn kleift að vinna á íslenskum UT markaði. Berenice er drífandi leiðtogi, brautryðjandi fjölbreytileika og drífur áfram þróun á nýstárlegum verkferlum. Hún hefur stuðlað að því að breyta menningu sem við hefur hafist í geira sem oft erfitt er að reyna brydda upp á nýjungum og hugarfarsbreytingum varðandi hluti sem „alltaf hafa verið gerðir“ svona. Berenice er flott fyrirmynd fyrir alla samstarfsfélaga sama hvort þau séu íslensku eða enskumælandi. Hún hefur verið virk rödd í samfélagi nýsköpunar á Íslandi með því að taka þátt í ýmsum viðburðum síðustu ár.

KATHRYN ELIZABETH GUNNARSSON
Kathryn, stofnandi Geko, hefur haft margvísleg áhrif á tækni og nýsköpunargeirann á Íslandi með sérþekkingu sinni á stefnumótun mannauðs og vinnustaðamenningu allt frá því hún flutti hingað frá Bretlandi árið 2016. Geko, sem var stofnað árið 2020, endurspeglar framtíðarsýn Kathryn um að leiðbeina fyrirtækjum að forgangsraða starfsfólki sínu og samþætta það stefnu og markmiðum hvers fyrirtækis. Lykilatriði í starfi Kathryn felur í sér að stuðla að sanngjörnum tækifærum fyrir alla. Kathryn er knúin áfram af því grundvallarmarkmiði að hlúa að vinnustaðsumhverfi þar sem fjölbreytileika er fagnað, inngilding er sjálfsögð og sérhver einstaklingur upplifir stuðning og að hann sé metinn að verðleikum.

-----

Yfirlit yfir fyrri verðlaunahafa er að finna hér: UT-verðlaunin