Skip to main content

Dílar og deplar

Í stafrænni myndvinnslu er algengt að lýsa flatri mynd með því að hugsa sér hana skipta upp í fjölmarga rétthyrnda reiti, sem kallast dílar og hafa hver um sig tiltekinn lit og tiltekinn styrkleika. Til þess að lýsa skerpu myndar er oft tilgreindur fjöldi díla á lengdareiningu. Minnt er á dílana hér og nú vegna þess að ennþá ber nokkuð á því að enska orðið pixel, sem er stytting á picture element, (eða afbakaða myndin pixill) rati inn í íslenskar auglýsingar um stafrænar myndavélar, skanna og annan tölvubúnað í stað þess ágæta orðs díll.

Varast ber að rugla saman dílum og deplum. Depill er jafngildi enska heitisins dot. Þegar til dæmis litaprentari prentar stafræna mynd getur hann þurft að prenta marga depla fyrir hvern díl myndarinnar til að mannsaugað skynji réttan lit og birtu á prentuðu myndinni. Til þess að lýsa því hversu fíngerðri prentaðri mynd ákveðinn tölvuprentari getur skilað er oft tilgreindur fjöldi depla á lengdareiningu.