Skip to main content

2010 Upplýsingatækniverðlaun Ský

Verðlaunahafi Upplýsingatækniverðlauna Ský 2010

Friðrik Skúlason

Gylfi Magnússon Viðskiptaráðherra afhenti fimmtudaginn 20. maí, heiðursverðlaun Skýrslutæknifélags Íslands en verðlaunin eru nú veitt í fyrsta sinn. Þau eru veitt til einstaklings fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi.

Afhending verðlaunana var hluti af dagskrá UT dagsins sem fór fram í Salnum í Kópavogi. Verðlaunin voru veglegur verðlaunagripur hannaður af listakonunni Ingu Elínu ásamt heiðursskjali.

Valið fór þannig fram að félagsmönnum í Skýrslutæknifélaginu var boðið að tilnefna einstakling eða forsvarsmann fyrirtækis sem hefur skarað framúr á sviði upplýsingatækni og skapað verðmæti og auðgað líf Íslendinga með hagnýtingu á upplýsingatækni. Það var í höndum valnefndar sem skipuð er af stjórn Skýrslutæknifélagsins að velja heiðursverðlaunahafann fyrir árið 2010. Nefndin lagði áherslu á það í störfum sínum að framlag viðkomandi hefði sannað sig með afgerandi hætti.

Í mati valnefndar kom fram að Friðrik var einn af fyrstu Íslendingunum til að átta sig á möguleikum netviðskipta og sölu sérhæfðs hugbúnaðar yfir Netið. Þannig tókst honum fljótt að gera allan heiminn að markaðssvæði fyrir vöru sína. Þetta gerði hann löngu áður en flestir Íslendingar höfðu gert sér grein fyrir notkunarmöguleikum Netsins eða vissu yfirhöfuð af tilvist þess. Hugbúnaður sem hann hefur komið að hefur verið hagnýttur af mörgum tölvunotendum hér heima og erlendis.

Forritið sem kom Friðrik á kortið var fyrst gefið út árið 1989 og heitir Lykla Pétur. Það má ætla að ein milljón tölvunotenda út um allan heim noti hugbúnað sem hann hefur komið að. Hjá fyrirtæki hans, Friðrik Skúlason ehf., starfa nú um 50 manns.

Veiruvarnarforritið Lykla Pétur, eða F-Prot Antivirus, eins og það heitir á ensku, hefur aukið tölvuöryggi hjá fjölda notenda. Friðrik hefur verið óþreytandi við að fjalla um tölvuöryggismál í ræðu og riti þannig að eftir hefur verið tekið. Samskipti, viðskipti og stjórnsýsla fara í vaxandi mæli fram á Netinu og því fylgir aukið mikilvægi öryggismála. Erindi hugbúnaðarins sem Friðrik hefur byggt fyrirtæki sitt á er því áfram brýnt þó langt sé um liðið síðan fyrsta útgáfa hans kom á markaðinn.

Ættfræðiáhugi Íslendinga stendur á gömlum grunni. Með því að koma ættfræðiupplýsingum úr margvíslegum bókum og blöðum yfir á aðgengilegt og stafrænt form Íslendingabókar á Netinu hefur Friðrik Skúlason í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu fengið marga Íslendinga til að tileinka sér netnotkun. Markhópurinn var mjög stór því margir Íslendingar hafa áhuga á ættfræði. Hluti þess hóps hefði trúlega ekki stigið fæti inn í Netheima ef Íslendingabók hefði ekki komið til sögunnar og veitt þeim áður óþekkta sýn á ættfræðiupplýsingar. Í þessu verkefni nýttu Friðrik og hans samstarfsmenn forritið ættfræðiforritið Espólín sem Friðrik vann að á sínum tíma.

Þar að auki hefur fyrirtæki Friðriks sett á markað ritvilluvörn sem ber heitið Púki og hefur hann nýst mörgum vel í leik, námi og störfum.

----

Valnefndin í ár samanstóð af Guðbjörgu Sigurðardóttur og Sigurjóni Péturssyni, heiðursfélögum Ský, Þórólfi Árnasyni, formanni samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, Ebbu Þóru Hvannberg frá HÍ ásamt Eggert Claessen hjá Frumtaki. Með nefndinni störfuðu Jón Heiðar Þorsteinsson úr stjórn Skýrslutæknifélagsins og Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins.