Skip to main content

2013 UT-verðlaun Ský

Verðlaunahafi Upplýsingatækniverðlauna Ský 2013

Hilmar Veigar Pétursson

HilmarVeigarUTmessan01

Forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson afhenti verðlaunin. Með honum á myndinni eru Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ský og eiginkona Hilmars Veigars, Guðrún E. Stefánsdóttir sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir Hilmars hönd en hann var staddur erlendis.

Hilmar Veigar er góð fyrirmynd og frumkvöðull. Hann hefur verið óþreytandi í að vinna með og styðja menntastofnanir, allt frá grunnskóla upp í háskóla, þegar kemur að upplýsingatæknimiðuðu námi. Hilmar er verðug fyrirmynd unga fólksins og sýnir svo ekki verður um villst að hægt sé að ná langt með þrautseigjunni og að ekkert gerist ef ekki er haldið af stað og haldið áfram þó að móti blási. Hann hefur einnig í gegnum starf sitt hjá CCP og samtökum upplýsingafyrirtækja aukið almennan áhuga á upplýsingatækni og nýsköpun.

Hilmar Veigar Pétursson hefur starfað sem framkvæmdastjóri CCP frá 2004 og alla tíð síðan leitt fyrirtækið í gegnum viðvarandi velgengni og gríðarlegan vöxt. Meðal verkefna sem hann hefur tekist á við eru umtalsverð stækkun reksturs fyrirtækisins í Shanghai, Kína og samruna við White Wolf Publishing í Atlanta árið 2006. Hilmar hefur tryggt sess CCP sem leiðandi afls á tölvuleikjamarkaði og er þekktur sem frumkvöðull í þróun sýndarveruleika, útgáfu sýndarveruleikaleikja og þróun tækninnar á bak við slíka leiki. Hann var nefndur einn af 20 áhrifamestu mönnum á sviði nettölvuleikja (e. MMO Industry) árin 2007 og 2008 af Beckett Massive Onliner Gamer Magazine. Hilmar er eftirsóttur fyrirlesari og hefur m.a. talað á Edinburgh Interactive Festival, Nordic Game Conference og the Austin Game Developer's Conference.

Hilmar gekk til liðs við CCP árið 2000 sem yfirmaður tæknimála (CTO) og leiddi verkefnið EVE Online sem leit dagsins ljós árið 2003. Áður starfaði Hilmar hjá SmartVR og OZ. Nýlega hefur CCP fyrirtækið tengt saman tvo tölvuleiki DUST 514 og EVE Online. CCP hefur náð þeirri stöðu að mestur hluti tekna félagsins er erlendis frá og telur því í samtölu útflutningstekna þjóðarinnar. Hilmar Veigar tekur virkan þátt í mótun vaxtar íslensks hugvits með setu í ýmsum stjórnum og ráðum sem tengjast upplýsingatækni og frumkvöðlastarfsemi henni tengdri. Hilmar er tölvunarfræðingur B.S. frá Háskóla Íslands.

Leikjaiðnaðurinn er nú orðinn einn af máttarstólpum í útflutningi skapandi greina. Hilmar og samstarfsfólk hans hjá CCP hafa komið að og hvatt til hugmyndaauðgi í sprotastarfsemi og þannig tekið þátt í vexti tölvuleikjaiðnaðar á Íslandi og aðstoðað þar sem þeir hafa getað. CCP er einkafyrirtæki sem margir rekstraraðilar horfa upp til og leitast við að gera sambærilega hluti og ná árangri. Oftar en ekki leita þessir aðilar ráða hjá Hilmari sem góðfúslega hefur deilt áralangri reynslu sinni og tengslaneti, því Hilmar veit að ólíkt flestum auðlindum sem eyðast þegar þær eru notaðar þá má segja að þekking vaxi sé henni deilt.

Hilmar snertir strengi víða og heyrst hefur að ungur drengur hafi horft á mynd af Hilmari, litið á móður sína og sagt: „Ég ætla sko að verða tölvunörd eins og hann“.

Það er Skýrslutæknifélagi Íslands mikill heiður að veita Hilmari Veigari Péturssyni þessa viðurkenningu. Verðlaunagripurinn er glerlistaverk eftir Ingu Elínu listamann.