Skip to main content

2022 UT-verðlaun Ský

Verðlaunahafi Upplýsingatækniverðlauna Ský 2022

Syndis

UT-verðlaun Ský
Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri Syndis og Theódór R. Gíslason, stofnandi og tæknistjóri Syndis.

Öryggisfyrirtækið Syndis hlaut UT-verðlaun Ský 2022 en þau voru afhent við hátíðlega athöfn á ráðstefnu- og sýningardegi UTmessunnar 25. maí 2022. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti Valdimar Óskarssyni, framkvæmdastjóra Syndis verðlaunin sem er glerlistaverk eftir Ingu Elínu.

Í rökstuðningi valnefndar segir:
 Fá fyrirtæki á Íslandi hafa verið jafn áberandi á sviði öryggismála og Syndis. Segja má að Syndis séu orðið að ímynd upplýsingaöryggis á Íslands. Starfsmenn Syndis hafa fundið stóra öryggisgalla í vörum og þjónustu frá stórum og þekktum framleiðendum víðsvegar um heim. Syndis hefur einnig aðstoðað mörg fyrirtæki sem hafa orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótum en mikilvægasti hluti starfsemi Syndis er hjálpa fyrirtækjum að verjast árásum og þar með lágmarka það tjón sem fyrirtæki geta orðið fyrir. Syndis hefur alltaf reynt að bregðast fljótt við þegar að nýjar ógnir steðja að, sem dæmi má nefna að Syndis tók þátt í viðbrögðum við “Log4j” veikleikanum sem hafði mikil áhrif í tölvuheiminum síðasta vetur og aðstoðaði fyrirtæki hvernig þau ættu að bregðast við þessari ógn

Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri Syndis sagði: „Hjá Syndis starfa sérfræðingar sem þekktir eru í heiminum fyrir störf sín í upplýsingaöryggi og vinna um allan heim að öryggismálum og hafa haldið fjölda erinda á alþjóðlegum ráðstefnum. Mikilvægur þáttur starfsemi Syndis er fræðsla, en starfsmenn Syndis kenna tölvuöryggi við báða háskólana í Reykjavík ásamt því að kenna unglingum og standa að hakkarkeppnum í samstarfi við Gagnaglímufélagið, Ríkið og Ský, samanber keppnina sem var að ljúka hér í dag. Syndis hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á rannsóknir og þróun á sviði upplýsingaöryggis, starfandi innan Syndis er hugbúnaðardeild sem vinnur að því að þróa lausn sem metur hversu freistandi fyrirtæki eru fyrir hakkara, sem geta jú verið út um allan heim. Reynsla öryggissérfræðinga innan Syndis nýtist vel við þessa vinnu.“

Slagorð fyrirtækisins er: Öryggi er vegferð, ekki endastöð.  Það er ekki hægt að vera 100% öruggur, en það er hægt að vera viðbúinn - eftirlit og rétt viðbrögð er lykillinn að því að lágmarka skaðann.

Syndis er um 35+ starfsmenn í dag, leitast eftir að ráða fleiri konur og gerir mikið til að kynna Syndis fyrir konum, eru með starfsstöð í Póllandi með 10 starfsmönnum frá 1.6, núna eru þeir 7, sem sjá um 24/7  vöktun og viðbragð.

Það er með mikilli ánægju að veita Syndis Upplýsingatækniverðlaunin 2022.

Jafnframt veitti forsetinn þrenn önnur verðlaun við þetta tækifæri; UT-Fyrirtæki ársins, UT-Sprotinn og UT-Stafræna þjónustan.

ALFREÐ var valið UT-Fyrirtæki ársins 2021 og tók Halldór Friðrik Þorsteinsson á móti verðlaununum fyrir þeirra hönd.

B93A2146

Alfreð steig inn á sviðið fyrir tíu árum og hefur síðan vaxið og þróast með atvinnulífinu. Hjá Alfreð búa umsækjendur til prófíl með upplýsingum um reynslu, menntun og áhugasvið. Hægt er að láta Alfreð vakta störf og fá skilaboð þegar spennandi starf er auglýst. Þannig finna tugþúsundir atvinnu á hverju ári. Með auglýsingum fá atvinnurekendur aðgang að ráðningarkerfi Alfreðs sem auðveldar þeim alla úrvinnslu umsókna. Seinni misseri hafa tengingar við mannauðskerfi fyrirtækja bæst við þjónustuna og í fyrra fór Alfreð að auglýsa námskeið. Svona er Alfreð bara, alltaf á tánum í leit að lausnum sem tengja saman fólk og fyrirtæki.

AURBJÖRG var valin UT-Sprotinn 2021 og tók Jóhannes Eiríksson á móti verðlaununum fyrir þeirra hönd.

B93A2141

Aurbjörg hefur fest sig í sessi hér á landi fyrir fólk í leit að aðstoð og upplýsingum um fjármál heimilanna, t.d. húsnæðislán, tryggingar, raforkuverð og sparnað. Markmið Aurbjargar er að einfalda fjármál einstaklinga og heimila, hjálpa fólki að fræðast um fjármál og taka upplýstar og góðar ákvarðanir í fjármálum. Á vefnum www.aurbjorg.is er að finna ýmsa þjónustu og upplýsingar sem auka gagnsæi með ýmis konar hlutlausum samanburði. Opnað hefur verið fyrir Premium áskriftarleið, þar sem fólk getur látið vakta húsnæðislán og tryggingar, auk þess sem fólk getur nú óskað eftir tilboðum í tryggingar frá öllum íslensku tryggingafélögunum í gegnum vefinn.

ALMANNARÓMUR var valin UT-Stafræna þjónustan 2021 og tók Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir á móti verðlaununum fyrir þeirra hönd.

B93A2130

Almannarómur er miðstöð máltækni og vinnur að því mikilvæga verkefni að tryggja að máltæknilausnir verði smíðaðar fyrir íslensku. Almannarómur hefur það hlutverk að tryggja að íslensk tunga sé notuð í allri tækni og sér um framkvæmd á metnaðarfullri Máltækniáætlun stjórnvalda til að fylgja íslenskunni inn í framtíðina. Árið 2021 gaf miðstöðin út fjölda máltækniafurða sem fjöldi fyrirtækja og stofnanir eru nú þegar byrjuð að nýta til að bæta þjónustu við sína viðskiptavini. Þá hefur ýmis þjónusta sem nýtist öllum í daglegu lífi litið dagsins ljós, svo sem yfirlestur.is, velthyding.is og sjálfvirk textun í rauntíma á tiro.is. Almannarómur hefur jafnframt náð miklum árangri með lýðvirkjun (crowdsourcing) með söfnun raddgagna í þágu hugbúnaðarþróunar í gegnum vefinn samromur.is en þar hafa 28 þúsund einstaklingar hafa lesið ríflega 2.8 milljónir setninga á íslensku - og þannig búið til eitt stærsta opna raddgagnasafn í heimi. 

---

Í ár hefði auðvitað verið tilvalið að veita til viðbótar öllum landsmönnum verðlaun fyrir að hafa tekið tæknina inn á erfiðum tímum og margir sem ekki hafa nýtt sér tækni hingað til lært á undraverðum tíma hvernig skal nota hinar ýmsu lausnir til að halda daglegu lífi gangandi.

---

Hér er yfirlit yfir 3 efstu í hverjum flokki sem voru tilnefnd.