2026 UT-verðlaun Ský tilnefningar
UT-verðlaun Ský verða veitt á sextándu UTmessunni í Eldborg föstudaginn 6. febrúar 2026.
Eftirfarandi voru valin úr fjölda tilnefninga til verðlaunaflokka UT-verðlaunanna og verður vinningshafi í hverjum flokki tilkynntur á verðlaunahátíð í Hörpu í lok UTmessunnar föstudaginn 6. febrúar á ráðstefnu- og sýningardegi tæknifólks.
Sem fyrr er ekki gefið upp hver eru tilnefnd til aðalverðlaunanna, Upplýsingatækniverðlauna Ský; heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Þar var hægt að tilnefna einstakling, fyrirtæki eða verkefni sem hefur skarað framúr á sviði upplýsingatækni, skapað verðmæti og auðgað líf Íslendinga með hagnýtingu á upplýsingatækni. Áhersla er lögð á að framlagið hafi þegar sannað sig með afgerandi hætti. Það verður því spennandi að sjá hver hlýtur þau verðlaun.
Eftirtalin 3 í hverjum flokki voru valin úr hópi tilnefninga í undirverðlaunaflokkum vegna afreka á árinu 2025 og verður spennandi að sjá hver hlýtur verðlaunin.
UT-Fjölbreytileika fyrirmynd 2025
Flokkur til að vekja athygli á því sem vel er gert og styður fjölbreytileika og gott fordæmi
Félag eldri borgara í Hafnarfirði
Félagið vinnur markvisst gegn einmanaleika og einangrun. Félagsstarfið er sjálfbært. Á árinu 2018 var hvatinn að hætta að selja kaffi og bjóða það í nafni félagsins. Stafræn félagskírteini voru tekin upp 2023 sem viðbótarvalkostur. Árið 2024 var starfsemin kynnt á heimasíðu febh.is á íslensku, ensku og pólsku. Samhliða gaf félagið út vikudagskrá félagsstarfsins á íslensku, ensku og pólsku. Árið 2025 var sett upp ný heimasíða á grunni þeirrar gömlu, tilgangurinn er að gera hana aðgengilegri og einfaldari. Félagið setur sér það að markmiði að mæta eldra fólki í nútímasamfélagi til að tryggja að enginn verði undanskilinn vegna tungumála eða menningarmunar.
Mennsk ráðgjöf
Mennsk ráðgjöf fylgir þeirri grundvallarhugsjón í sínu starfi að tæknin eigi að aðlagast mannfólkinu – ekki öfugt. Með þeirri sýn leitast fyrirtækið við að skilja og taka tillit til ólíkra þarfa og upplifana notenda og hagaðila í sínum verkefnum og stuðla þannig að aðgengi, virðingu og fullri þátttöku allra í þróunarferlinu og stefnumótun. Mennsk hefur frá stofnun unnið með opinberum aðilum, félagasamtökum og einkafyrirtækjum en það er ekki síst í samstarfi við opinbera geirann sem Mennsk hefur beitt sér og stuðlað að bættu samfélagi sem tekur tillit til þarfa allra. Mennsk ráðgjöf beitir fjölbreyttum aðferðum í sínu starfi sem einkennast af því að draga fram þarfir notenda, þjónustuþeganna eða hið mennska í tækni, ferlum, þjónustu og upplifun.
Atlas Primer
Atlas Primer er fyrirtæki sem sameinar tæknilega forystu, samfélagslegan ávinning og alþjóðlegan metnað. Fyrirtækið er brautryðjandi í gerð gervigreindarlausna sem styðja við mannlegan fjölbreytileika. Umfram allt er Atlas Primer hvatning til annarra íslenskra frumkvöðla um að hugsa stórt, óttast ekki áskoranir og láta til sín taka á alþjóðavettvangi, um leið og þau standa vörð um íslenska menningu og nýsköpun. Alþjóðlegur vöxtur og nýsköpun Atlas Primer hefur vakið verðskuldaða athygli. Fyrirtækið hefur verið valið eitt af fremstu menntatæknifyrirtækjum heims af TIME og Statista, og Forbes hefur ítrekað fjallað um áhrif lausnarinnar.
UT-Sprotinn 2025
Flokkur fyrir fyrirtæki sem hafa verið starfandi síðastliðin 1-6 ár og eru að bjóða lausnir sem hafa vakið athygli
Evolv
Á árinu 2025 hefur viðskiptavinum Evolv fjölgað verulega og og eru nú yfir 100 talsins, þar á meðal stærstu fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög landsins. Jafnframt hefur Evolv fjölgað lausnum sínum og eflt framboð sitt til að mæta aukinni eftirspurn. Evolv þjónustar nú flest af stærstu sveitarfélögunum og nær þjónustan til sveitarfélaga þar sem rúmlega 80% íbúa landsins búa.
PLAIO
PLAIO er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem hefur byggt upp lausn fyrir aðfangakeðjustjórnun í lyfjaiðnaði. Fyrirtækið hefur síðustu árin unnið stóra samninga við þekkt alþjóðleg lyfjafyrirtæki, en PLAIO er með viðskiptavini í Evrópu og í Bandaríkjunum. PLAIO þróar og markaðsetur gervigreindarhugbúnað sem hámarkar framleiðslu og skipulagningu á lyfjum. Árangur í þessum iðnaði krefst djúps skilnings á aðfangakeðju og sérstökum þörfum lyfjaiðnaðarins. PLAIO er gott dæmi um íslenska nýsköpun sem náð hefur skjótum árangri á alþjóðlegum vettvangi, lausn sem leysir raunveruleg vandamál í krefjandi iðnaði með framúrskarandi tæknilausnum. PLAIO hefur einnig verið tilnefnt sem eitt af vörumerkjum ársins af Brandr.
Keystrike
Keystrike var stofnað til að leysa grundvallarvandamál í netöryggi: Hefðbundnar netöryggislausnir verja ysta byrði fyrirtækja, en dæmin sýna að árásaraðilar komast auðveldlega gegnum þessar varnir. Netöryggislausnin Core Protector var þróuð til að mæta þessum veruleika. Lausnin greinir netárásir í rauntíma og kemur í veg fyrir að árásaraðilar komist að kjarna fyrirtækja og valdi þar skaða. Keystrike hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar, er með einkaleyfi í fjölda landa og viðskiptavini á alþjóðlegum mörkuðum. Fyrirtækið hefur lagt áherslu á uppbyggingu jákvæðrar netöryggismenningar á Íslandi - með opnum viðburðum, fyrirlestrum og ráðstefnum – og lagt áherslu á að styrkja innviði og þar með áfallaþol samfélagsins.
UT-Stafræn almenn þjónusta 2025
Flokkur ætlaður lausnum á almenna markaðnum sem skara fram úr og einfalda daglegt líf fólks. Vefsíður, öpp og rafrænar þjónustur hvers konar falla undir þennan flokk
Alfreð
Alfreð er vinsælasti atvinnumiðill landsins og að jafnaði með 120 þúsund virka notendur í mánuði. Alfreð hefur tengt saman fólk og fyrirtæki í meira en áratug og innleitt lausnir sem einfalda lífið, bæði fyrir vinnuveitendur og atvinnuleitendur. Vöruheitið svo samofið hlutverki sínu að í daglegu tali er Alfreð notað sem samheiti fyrir atvinnuleit. Fyrirtæki landsins vita hvar hagkvæmast er að auglýsa eftir starfsfólki með minni tilkostnaði og tryggja um leið hámarksárangur. Velgengni Alfreðs er engin tilviljun heldur afrakstur stöðugrar þróunarvinnu. Alfreð hefur svarað nýjum þörfum atvinnulífsins með betrumbótum á viðmóti, aukinni skilvirkni kerfa og nýjum lausnum á hverju einasta ári.
Nova appið
Nova appið hefur síðustu ár orðið að einni vinsælustu stafrænu þjónustu landsins og er ómissandi hluti af daglegu lífi stórs hóps Íslendinga. Nova appið er einstakt af því það er í senn sjálfsafgreiðslulausn og tól sem einfaldar að búa til gæðastundir. Appið skarar fram úr í notendaupplifun á Íslandi. Nova hefur markvisst þróað appið á grunni vinsælasta fríðindaklúbb landsins, sem setur samveru, upplifun og vellíðan í forgang í líflegum tón. Hér er það tæknin sem þjónar upplifuninni í stað þess að vera upplifunin sjálf. Allt þetta sýnir hugrekki til að gera eitthvað sem ekki hefur verið gert áður, samhliða skýrri þjónustuhugsun. Með þessu keppir Nova ekki fyrst og fremst á því að selja fjarskipti, heldur með því að selja þjónustu sem gerir fólki kleypt að lifa litríkara lífi.
Payday
Payday hefur frá stofnun verið byggt upp með skýr markmið að leiðarljósi. Að bjóða upp á viðskiptahugbúnað sem vinnur fyrir notendur, vera í stöðugri þróun og veita áreiðanlega vöru og þjónustu á hagstæðum kjörum. Payday er hannað til að einfalda flókna og tímafreka þætti reksturs og gera fjármálastýringu aðgengilega fyrir alla rekstraraðila. Framúrskarandi þjónusta er lykilþáttur í vörumerkinu Payday. Markmiðið er að vera traustur bakhjarl rekstraraðila með persónulegri, aðgengilegri og skilvirkri þjónustu sem styður notendur í daglegu starfi og eykur öryggi. Payday er bókhaldskerfi fyrir rekstraraðila af öllum stærðum og gerðum sem vilja öfluga, skilvirka og örugga fjármálastýringu.
UT-Stafræn opinber þjónusta 2025
Flokkur ætlaður lausnum á opinbera markaðnum sem skara fram úr og einfalda daglegt líf fólks. Vefsíður, öpp og rafrænar þjónustur hvers konar falla undir þennan flokk
gottvedur.is vefur Veðurstofu Íslands
Vefur Veðurstofu Íslands er fyrsti viðkomustaður landsmanna fyrir áreiðanlegar upplýsingar um veður og náttúruvá. Vefurinn stuðlar að bættu öryggi almennings, eigna og innviða gagnvart öflum náttúrunnar. Lögð er áhersla á notendaupplifun og álagsþol því vefurinn þjónar landsmönnum allan sólarhringinn, alla daga ársins og á álagstímum vegna óveðurs eða náttúruhamfara þegar tímanlegar upplýsingar skipta sköpum. Notendahópur vefsins er fjölbreyttur með ólíkar kröfur á framsetningu upplýsinga. Kort eru gagnavirk, sýnileiki viðvarana aukinn og unnið var eftir aðgengisstöðlum til að tryggja að blindir og sjónskertir hafi aðgang að mikilvægum upplýsingum. Vefurinn (gottvedur.is) er fyrsti áfangi í endurnýjun á vedur.is og mikilvægur áfangi í að gera hann betur í stakk búinn til að þjóna íslensku þjóðinni og þeim sem heimsækja landið.
Þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkur
Þjónustu- og nýsköpunarsvið er hjartað í stafrænni umbreytingu Reykjavíkurborgar þar sem þjónustuhönnun, notendamiðuð þróun og gagnadrifin ákvarðanataka eru höfð að leiðarljósi. Sviðið hefur einfaldað ferla, aukið aðgengi og styrkt þverfaglegt samstarf þannig að borgarbúar fá góða og skilvirka þjónustu. Árið 2025 þróaði og innleiddi sviðið fjölmargar stafrænar lausnir sem bæta samfellu og sjálfsafgreiðslu og færa tíma starfsfólks frá umsýslu yfir í virði fyrir notendur. Þar má nefna Veitu, sameiginlegt umsóknakerfi um fjárhagsaðstoð, SkólaBúa í þágu farsældar barna, notendavæna gervigreindaraðstoð á vef sem hefur dregið verulega úr álagi í þjónustuveri og innleiðing stafræns vinnuafls sem sinnir síendurteknum verkefnum með sjálfvirkum hætti.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Árnastofnun hefur unnið gott og vaxandi starf við að búa til og gefa út stafræn gagnasöfn undir opnum leyfum til að styðja við íslenska tungu og menningu, bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Meðal mikilvægustu verkefnanna eru Beygingarlýsing íslensks nútímamáls, Risamálheild, stafrænar orðabækur og íðorðasöfn, íslenskt orðanet, Ísmús, Nafnið og Handrit.is. Stofnunin rekur fjölmarga vefi með opnu aðgengi: https://arnastofnun.is/is/vefir-arnastofnunar Nú á allra síðustu árum hefur Risamálheildin verið lykilgagn í þjálfun mállíkana fyrir íslensku og á þátt í því að útbreidd, alþjóðleg gervigreindarkerfi eru eins góð í íslensku og raun ber vitni. Þá er Beygingarlýsing íslensks nútímamáls algjört þrekvirki og grundvallargagn alls kyns annarra lausna.
UT-Fyrirtækið 2025
Flokkur fyrirtæki sem nýta sér upplýsingatækni í sinni starfsemi og hafa náð góðum árangri með einum eða öðrum hætti á árinu á innlendum sem erlendum vettvangi með upplýsingatækni að leiðarljósi
50skills
50skills hefur þróað framúrskarandi tæknilausn á sviði sjálfvirknivæðingar mannauðsferla. Með tilkomu Journeys frá 50skills er það ekki lengur eingöngu á færi forritara og sérmenntaðra tæknifræðinga að sjálfvirknivæða ferla, heldur þeirra sem bera ábyrgð á ferlunum og vinna í þeim dags daglega.Hugbúnaður 50skills hefur gert íslenskum fyrirtækjum kleift að ná fram verulegum hagræðingum, spara þúsundir klukkustunda af endurtekinni handvinnu svo starfsfólk þeirra geti einbeitt sér að verkefnum sem skapa meiri verðmæti. Fyrir tilstilli 50skills eru mörg íslensk mannauðsteymi í dag leiðandi á heimsvísu í sjálfvirknivæðingu mannauðsferla og eru í samstarfi við 50skills að setja ný viðmið í því hvernig mannauðsteymi nýta upplýsingatækni og gervigreind til að bæta þjónustu, skilvirkni og upplifun starfsfólks
Reon
Hugbúnaðarhúsið Reon hefur á árinu sýnt fram á hvernig lítið, sérhæft teymi skapar afgerandi áhrif með upplýsingatækni. Sem stafrænn samstarfsaðili fyrir rótgróin fyrirtæki svo sem Nova, Icewear, Elko, Festi, Acro Verðbréf og í eigin útgáfum á nýsköpunarvörunum Standby deposits, Pago snjallgreiðslur, Safe Space og Quickstart. Reon hefur einnig lagt sitt að mörkum til íslenska UT-umhverfisins með því að efla samstarf og þekkingarmiðlun og skapað vettvang og stuðning fyrir stafræna nýsköpun. Reon skapar tækni með tilgang og eru þessar lausnir hluti af daglegu lífi mörg hundruð þúsund manns hérlendis og erlendis.
Videntifier
Videntifier er orðið leiðandi fyrirtæki í heiminum á sviði mynd- og myndbandagreiningar til að bera hratt og örugglega kennsl á þekkt efni. Lausn Videntifier er notuð til að berjast gegn dreifingu ólöglegs efnis, vernda rétthafa fyrir misnotkun, fylgjst með birtingum auglýsingaefnis, og margt fleira. Meðal viðskiptavina eru auglýsingastofur, heimsþekkt vörumerki og fjarskiptafyrirtæki, enda lausnin hraðvirk og nákvæm. Lausnin er líka mjög örugg þar sem hugbúnaðurinn vinnur með dulkóðuð fingraför, en ekki myndefnið sjálft, en Interpol og hundruð tengdra lögregluembætta treysta því Videntifier.
-----
Yfirlit yfir fyrri verðlaunahafa er að finna hér: UT-verðlaunin