Skip to main content
18. ágúst 2016

Viljum við upplýsingatækniiðnað?

haukur.prentÉg kom inn á rannsóknarstofnun á sviði heilbrigðismála fyrir nokkru og við mér blasti skemmtileg sjón. Lang flest tækin, jafnvel heilu tækjasalirnir, voru framleidd á Íslandi. Eða var það ekki? Í þessa átt dreymdi tæknimenn fyrir 2-3 áratugum og framtíð þeirra er kannski einmitt núna.Við höfum vissulega Össur, TM og DeCode sem öll vinna að heilbrigðismálum og svo höfum við Actavis hér enn að einhverju leyti og svo Hugvit í rafrænni stjórnsýslu. Kannski fleiri. Það vekur athygli að þessi fyrirtæki voru öll stofnuð í árdaga tölvualdar hér á landi og það er eins og ný tækifæri hafi ekki skapast síðan þá.

 

Nýlegar ábendingar benda til að Ísland sé orðið langt á eftir nágrannaríkjunum í uppbyggingu upplýsingatækniiðnaðar og það þannig að hlutur hans í atvinnulífinu pr. íbúa sé allt að 12 sinnum meiri í Finnlandi og Svíþjóð en hér. Þrátt fyrir það að við vinnum oftast alþjóðlegan samanburð ef miðað er við höfðatölu.

Því er eðlilegt að spyrja: Hvað fór úrskeiðis á síðustu áratugum og hvað er hægt að laga - svona í ljósi þess að framtíðin kemur aftur og aftur.

Hver átti og á að gera hvað?

Jafnvel í þeim löndum þar sem andúðin á ríkisvaldi er hvað mest og almenningur gengur vopnaður um til þess að mæta ógnunum frá því - er það engu að síður ríkið sem myndar alla markaði, hvort sem þeir eru frjálsir samkeppnismarkaðir eða við aðstæður náttúrulegrar einokunar. Ríkið annast uppbyggingu allra atvinnugreina þegar kemur að stefnumótun og reglusetningu og það skapar önnur megineinkenni ytra umhverfis þeirra hvort sem það snýr að útflutningi, gjaldmiðli eða menntun vinnuafls.

Ríkið getur gert fjöldamargt til þess að efla upplýsingatækniiðnað og fylgt í því efni árangursríku fordæmi finnsku framtíðarnefndarinnar (fastanefnd hjá þinginu). Um 40% af útflutningstekjum Finna af upplýsingatækni er nú vegna hug- og vélbúnaðar fyrir heilbrigðisgeirann. Íslenska ríkið getur fyrst og fremst stutt breytingu vinnubragða, endurhönnun opinberra verkferla. Við hana verða nýsköpunarfæri til. Á öllum sviðum starfsemi þess. Þá þarf sterka rannsóknarsjóði. Munum að það er ekki tölvuvæðing að setja tölvu með Word og prentara á borð starfsmanna í stað IBM kúluritvélanna eða að nota PDF skjöl í rafrænum samskiptum. Það er peningasóun.

Síðan þarf ríkið að takast á við áskorun sem það á ávallt erfitt með eða samstarf við einkageirann. Nýsköpun breyttra vinnubragða og þróun nýrra verkfæra, hugbúnaðar og vélbúnaðar, þarf að vera í höndum sprotafyrirtækja. Af því að þau munu takast á við samnýtingu (dreifingu) lausnanna og ekki síst alþjóðlega. Þá erum við mögulega farin að tala um útflutningstekjur og þá fyrst getum við farið að reikna hvað hugbúnaðardeildir ríkisins sem semja hver fyrir sína stofnun kosta skattgreiðendur í raun og veru.

Þá þarf ríkið að mynda samkeppnismarkað á sviði rafrænna lausna og hindra einokun. Það er gert í Hollandi og BNA með því að láta smá fyrirtæki og fyrirtæki í eigu kvenna sitja fyrir. Það hefur reynst afar vel og hindrar ekki notkun lausna frá risunum (Oracle o.s.frv.) heldur dreifa þessi fyrirtæki þeim ef þær henta og þróa áfram.

Ruðningsáhrif

Eins og alkunna er styðja stjórnmálamenn og leiðtogar ríkisvaldsins upplýsingatækniiðnaðar á tyllidögum og reglulega er rætt um auknar fjárveitingar til rannsókna, en bilið milli orða og gerða hefur verið langt. Hins vegar er sjaldnar talað um endurnýjun vinnubragða ríkisins, nýsköpun á helstu starfssviðum þess eins og t.d. heilbrigðissviði, samstarf við einkageirann á tæknisviðinu og ekki um nauðsynlegar breytingar á skólakerfinu og eflingu háskólanna. Þá er þó ótalinn helsti óvinur upplýsingatækniiðnaðarins.

Það er önnur uppbygging. Opinber stefnumörkun snýst ekki hvað síst um forgangsröðun. Ef ríkið hefur lagt áherslu á orkunýtingu og stóriðju auk landbúnaðar og sjávarútvegs á síðustu áratugum (og fjármálastarfsemi á tímabili) þá er líklegt að nákvæmlega þær atvinnugreinar eflist. Og svo auðvitað ferðamannaiðnaðurinn en aukinn hlutur hans kemur hinu opinbera álíka á óvart og þjófur að nóttu.

Á litlum markaði, hjá fámennri þjóð, verður að velja og hafna. Sérhver framkvæmd er líkleg til að bera með sér ruðningsáhrif. Hún kallar á þekkingu af ákveðnum toga, innviði, stefnumótun og reglusetningu af ákveðnum toga - og þótt enginn stjórnmálamaður hafi amast við upplýsingatækniiðnaði á síðustu 3 áratugum, hefur jafnframt nánast enginn þeirra og því síður starfsmenn stjórnarráðsins unnið að uppbyggingu hans. Þeir vinna einfaldlega að annarri uppbyggingu.

Stefna ríkisins í málefnum atvinnugreina er gríðarlega mikilvæg fyrir framtíðina. Hún hefur áhrif á framtíðar menntunarstig þjóðarinnar, launaþróun og hvort hæfileikafólk vill búa á landinu eða ekki. Ýmis neikvæð teikn eru á lofti, svo sem atvinnuleysi hámenntaðs fólks. Á meðan flytjum við inn iðnþekkingu. Það má líta á áhersluna á frumatvinnuvegi, orkuvinnslu og frumframleiðslu í iðnaði og jafnvel ferðamannaiðnaðinn sem andstæðing þess að efla mannauðinn, þess að fjárfesta í fólkinu og þekkingu þess og efla hana og á það jafnt við um tæknigreinar og listir. En þær greinar eru þó taldar gefa mestan afrakstur fjárfestinga. Og er þá ekki farið að tala um umhverfisáhrif núverandi stefnu.

Lokaorð

Kosningar eru fram undan. Ástæða er til þess að fylgjast með því hvaða frambjóðendur og stjórnmálaflokkar styðja nýja atvinnuvegastefnu. Það er alltaf hægt að breyta, við misstum ekki endilega af lestinni, það kemur ný og ný tækni - hraði í framþróun upplýsingatækninnar er með veldisvexti og öflug fyrirtæki á þeim markaði koma og fara. Því má hefja átak í nýsköpun hvenær sem er og til dæmis nú þegar og ná árangri á næstu árum, ef við viljum lifa á upplýsingatækniiðnaði.

Höfundur: Dr. Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur

Skoðað: 2286 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála