Skip to main content

Örsögur

Tölva Háskóla Íslands í sveiflu

Það var stór stund er IBM 1620-tölvu Háskóla Íslands var komið fyrir í kjallara nýbyggingar Raunvísindastofnunar Háskólans í vetrarbyrjun 1964. Mörgum gæti þó þótt allháskalegt á að horfa meðan hún sveif um loftin blá og verið var að koma henni á áfangastað. Allt gekk þó vel enda fagmenn á hverjum stað. Meðal viðstaddra voru Magnús Magnússon prófessor, Ragnar Ingimarsson verkfræðingur og Þórhallur Einarsson, tæknimaður hjá Skrifstofuvélum (IBM). Þessar örlagamínútur í vegferð tölvunnar góðu voru blessunarlega festar á filmu.[1]

  • File0001 1
  • File0003 1
  • File0004 1
Október 1964: Tölva háskólans tekin af flutningabíl og komið fyrir í nýju húsi Raunvísindadeildar Háskólans við Dunhaga. Myndir: Þorsteinn Sæmundsson.

Gataspjöldin: Með gögnin í höndunum – vélin át gögnin

Meðferð gataspjaldanna sem notuð voru í upphafi tölvuvæðingar á Íslandi fylgdu ákveðnir siðir og venjur. Vinnslunni fylgdi talsverður hávaði og ekki var til siðs að vera með heyrnarhlífar, eins og síðar tíðkaðist. Glöggir menn gátu heyrt hvaða vinnsla var í gangi, eftir taktinum sem heyrðist frá prentaranum og „collatornum“.[2] Og þegar menn héldu á spjöldunum voru þeir í rauninni með gögnin í höndunum í orðsins fyllstu merkingu. Áki Pétursson var eitt sinn að sýna hvernig ekki ætti að raða spjöldunum og vippaði þeim upp í loftið en ekki vildi betur til en svo að hann var ekki eins snöggur að grípa þau og hann hafði ætlað, og við tók talsverð vinna við að endurraða þeim. Sum verkefni voru gríðarlega umfangsmikil og þeir Örn Kaldalóns og Hjálmtýr Guðmundsson, sem báðir voru meðal frumkvöðlanna hjá IBM, muna glöggt eftir verkefni sem var með þrjátíu þúsund spjöldum mánaðarlega sem skipt var í 3000 spjalda stafla.[3]

Þótt tæknin við gataspjaldavinnsluna væri býsna fullkomin gat ýmislegt komið upp á. Væru verkefnin umfangsmikil var ekki alltaf auðvelt að segja til um hvort öll spjöld væru á réttum stað. Sitt af hverju gat farið úrskeiðis. Eftir fimm tíma keyrslu við götun þar sem straumur sneri hjólunum var nokkuð flókið að átta sig á hvort til dæmis bókhaldið sem var í vinnslu væri kórrétt gatað.

Hjá Olíuverslun Íslands var aðalbókari, Haukur að nafni, sem var sérlega nákvæmur maður og fljótur að finna út hvort bókhaldsgögn stemmdu eða ekki. Einhverju sinni fann hann það út að svo væri ekki. Þá var bókhaldið keyrt aftur og í ljós kom að vélin „át“ tvo spjöld svo allt ruglaðist. Spjöldin sem Olís notaði voru sérprentuð og sérmerkt og í þessu tilviki hafa þau líklega verið eitthvað undin og það olli þessari villu, sem fannst við árvekni aðalbókarans og útsjónarsemi þeirra sem fengust við vinnsluna kringum gataspjöldin.[4]

IBM 1401 jarðaður

Árið 1968 fékk IBM á Íslandi tölvu af gerðinni IBM 1401. Tölvu þessari var margt til lista lagt. Fyrir utan venjulega gagnavinnslu gat hún spilað tónlist! Það vildi þannig til að Jóhann Gunnarsson kom sprenglærður á tölvuna frá Þýskalandi og hafði með sér forrit sem gat myndað tóna. Ákveðin skipun fleytti rafstraum fram hjá stjórnborði vélarinnar og með því að hengja útvarp fyrir framan mátti heyra skrölt. Tónlistarforrit Jóhanns raðaði straumpúlsunum svo snyrtilega fram hjá stjórnborðinu að tónar mynduðust.

Elías Davíðsson kerfisfræðingur og forritari bætti um betur og bjó til forrit sem einfaldaði mjög innsetningu tónlistar. Elías skráði mörg lög með þessu forriti sínu en Örn S. Kaldalóns notaði forritið til að skrá lag afa síns, „Ísland ögrum skorið“.

Árið 1971 var ákveðið að leggja niður Skýrsluvinnsluna og farga 1401-tölvunni. Í þá daga var tekin leiga af tölvum og tollurinn greiddur í áföngum. Tollurinn af 1401 var ekki greiddur að fullu og því varð að farga tölvunni með jarðýtu. Þetta var eins og að kveðja góðan vin svo að Örn og Jóhann ákváðu að halda smá athöfn, spila smá músík og taka allt upp á segulband. Þeir héldu hvor sinn ræðustúfinn, snöktu eftir bestu getu og spiluðu „Ísland ögrum skorið“. Að því búnu var tölvunni fargað. (Hlusta á minningarathöfnina)

Árið 2001 fann Örn S. Kaldalóns segulbandsspóluna í fórum sínum og sendi Jóhanni. Hann flutti athöfnina á geisladisk og sendi bæði Erni og syni sínum og upprennandi tónskáldi Jóhanni Jóhannssyni. Jóhann sá samdi lag við undirleik tölvunnar og nefndist lagið „IBM 1401, A User’s Manual“. Við lagið dansaði Erna Ómarsdóttir Kristinssonar viðskiptafræðings hjá IBM til 45 ára. Í laginu má heyra upphafsstef „Íslands ögrum skorið“ endurtekið nokkrum sinnum. Síðan hefur Jóhann Jóhannsson fengið Golden Globe- og BAFTA-verðlaunin og verið tilnefndur til Óskarsverðlaunanna. [5]

Ný tækni nýtt við rannsókn Geirfinnsmálsins

Sigurður Björnsson segir frá upphafi þess að farið var að nota tölvuskjái og sívinnslu við almenn skrifstofustörf og hvernig yfirvöld þurftu stundum að leita til einkaaðila um hjálp í óvæntustu tilvikum. Gefum Sigurði orðið:

Guðmundur Hannesson, þá starfsmaður IBM á Íslandi, átti stóran þátt í því að kynna fyrir mér þær nýjungar og þá möguleika sem sí- og/eða fjarvinnsla og notkun tölvuskjáa gæti haft í för með sér. Byltingin kom með IBM 3270-skjálínunni. Í framhaldi af nokkrum slíkum kynningum hérlendis sem og erlendis þá pantaði ég fyrir Samvinnutryggingar fyrstu tólf eða þrettán tölvuskjáina og hóf undirbúning á sívinnslu við nýskráningar og viðhald á nokkrum tegundum vátrygginga, meðal annars með innanhússtengingum og í fjarvinnslu við útibú félagsins á Akureyri og í Keflavík. Samvinnutryggingar voru óneitanlega frumkvöðlar í innleiðingu á sívinnslukerfum og skjávinnslu á Íslandi. Það voru hinsvegar mörg ljón á veginum og þurfti að sjá til þess að framsetning íslenskunnar væri í heiðri höfð. Þá var netkerfi og gjaldskrá Landssímans ekki alveg tilbúin að taka við þessari nýjung og eins þurfti að hefja innflutning á sérstökum tækjum og tólum til þess að tengja coax kapla svo nokkuð sé nefnt og komu Örtölvutæknimenn þar að. Sívinnsla Samvinnutrygginga varð fljótlega fréttamál, þegar prentarar stóðu í kjaraviðræðum og notuðu lausn Samvinnutrygginga til að gera grein fyrir því hvernig fyrirtæki gengju fram í því að reyna að drepa heilu starfsstéttina. Til gamans má einnig geta þess að þegar Rannsóknarlögreglan og saksóknari voru í miðju Geirfinnsmálinu þá fengu þeir þýskan sérfræðing í lið með sér. Sá þýski gat ekki skilið vinnubrögðin og fór svo að yfirvöld fengu lánaðan hjá okkur í Samvinnutryggingum einn skjá til þess að geta farið í sívinnslu og úrvinnslu á gögnum. [6]

Vatnskælikerfi í stað viftu

Þorvaldur Ásgeirsson byggingatæknifræðingur sem vann hjá Fasteignamati ríkisins hannaði vatnskælikerfi inn í herbergi þar sem tölva sú sem hann var að forrita á var staðsett. Mikill hiti hafði komið af vélinni og þetta var hans leið til kælingar, þegar margir hefði eflaust látið sér nægja að láta bara kaupa ögn öflugri viftu.

Þrátt fyrir gott kerfi geta allar tölvur bilað. Eitt skipti er verið var að ganga frá útreikningum á fasteignamatinu fyrir áramót bilaði tölvan. Þá þurfti að vekja einhverja háskólamenn því þar var hin tölvan, og þurfti Þorvaldur að fara á bíl með kassa af gataspjöldum (í réttri röð) í háskólann til að framkvæma útreikningana þar undir feikilegu streituálagi, því mikið reið á að þetta yrði gert tímanlega.[7]

Vélmenni í álveri 1987

Fyrsti íslenski róbótinn – vélmenni – var tekinn í notkun hjá ÍSAL árið 1987. Það var Jón Hjaltalín Magnússon verkfræðingur sem hannaði hann og setti upp. Um þetta segir meðal annars í viðtali við Jón í Pressunni í febrúar 1990: „Meðal þess sem hann hefur verið að vinna að … má nefna róbóta-kerfi, sem notað hefur verið hjá ÍSAL í 2 ár og gefið góða raun. Róbótinn eða vélmennið heitir JHM Robot 10 og hefur það verkefni í álverinu að setja álkraga utan um tinda á rafskautum. Verk sem þótti leiðigjarnt og einhæft.“[8] Þetta framtak var aðeins upphafið að róbótasmíði Jóns, en hann hefur hannað þrjátíu mismunandi sjálfvirkar vélar og sett upp yfir hundrað slíkar í 26 álverum um allan heim.[9]

Framsýnir feðgar

Um og upp úr 1985 áttu feðgar, sem hafa látið til sín taka í tölvugeiranum, í samstarfi um að hanna og forrita tvö nýstárleg kerfi. Þessir feðgar voru þeir Guðjón B. Bernharðsson hjá Tölvubankanum sem sá um hönnunina og Guðjón Már Guðjónsson, síðar kenndur við OZ, sem sá um forritun og var aðeins þrettán ára þegar fyrra verkefnið var unnið. [10]

Fyrra kerfið var sölukerfi með tímamælingu fyrir útleigu á billjardborðum með skiptingu á kostnaði leigunnar og einnig sölu úr sjoppu til leigutaka. Seinna kerfið var upplýsingakerfi fyrir verslun Sævars Karls. Það kerfi hélt utan um alla sölu til viðskiptavina, stærðir á jakkafötum og skyrtum og svo framvegis. Það kerfi er trúlega með fyrstu upplýsingakerfum hér á landi. Kerfið sýndi á margvíslegan hátt hvað seldist best og hvað ætti að hætta með og svo framvegis. Það mátti líka nota til að skrifa bréf til viðskiptavina með tilboðum og fleira þess háttar.

Símasamband við tölvu 1971


frett.i.timanum.23.2.1971
Baksíðufrétt í Tímanum 23.2. 1971.

Í febrúar 1971 birtist í dagblaðinu Tímanum merkileg frétt, sem kannski hefur ekki gripið athygli allra sem hana lásu. Þar er sagt frá því að fólki hafi gefist kostur á að hafa símasamband við tölvu IBM í Kaupmannahöfn og leggja fyrir hana ýmsar spurningar og fá svör að vörmu spori. 

IBM á Íslandi bauð upp á þessa þjónustu og var þannig að kynna nýja og fullkomna tækni sem hafði þá verið í boði í Danmörku í rúmt ár, en lengur í Bandaríkjunum. 

Í fréttinni segir meðal annars að þrjátíu og einn aðili geti haft símasamband við tölvuna samtímis og „tefur það á engan hátt afgreiðslu hennar, og verða viðskiptavinirnir þannig ekki fyrir neinum óþægindum þótt verið sé að svara mörgum samtímis og þá hinum ólíkustu spurningum.“ En niðurstaða fréttarinnar er engu að síður að ekki muni vera grundvöllur fyrir því að setja upp tölvuþjónustu gegnum síma frá Íslandi til Danmerkur þar sem það yrði of kostnaðarsamt. Með fréttinni er birt teikning tölvunnar af Íslandi.

Tölvuvæðing í þágu sjávarútvegs – á sjó og landi


365 skip Ásbjörn 1 1
Janúar 1993. Tölvur í brú skipsins Ásbjörns RE 50. Ólafur Einarsson skipstjóri situr við tækjabúnaðinn, sem var allur hinn fullkomnasti. Ljósmyndari: Þorvaldur Örn Kristmundsson. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Í sjávarútvegi var snemma hugað að tölvuvæðingu, bæði til sjós og lands. Skipstjórar og stýrimenn þurftu að laga sig að vaxandi tölvuvæðingu stjórntækjanna. Bætt fjarskiptatækni gerði áhöfnum úti á sjó kleift að vera í betri tengslum við fjölskyldur sínar en áður.

Þegar fiskurinn kom í land var tölvuvæðingin ekki minni. Fjölmargir íslenskir aðilar þróuðu sérstakan hug- og vélbúnað fyrir fiskvinnslu og matvælaframleiðslu almennt, fyrst fyrir íslenskan markað og síðan alþjóðlegan. Þessar svipmyndir eru frá Marel og úr brú skipsins Ásbjörns RE 50 1993.

  • DSC 8513
  • Flowline Fiskkaup
Marel hefur lengi verið í fararbroddi við framleiðslu tækjabúnaðar til fiskvinnslu og annarrar matvælaframleiðslu. Myndirnar eru frá vélasal fyrirtækisins í Garðabæ og frá vettvangi í fiskvinnslufyrirtæki. Myndir: Marel.

Tóku „viðtal“ við tölvu

Bræðurnir Guðjón Ingi Gestsson tölvunarfræðingur og Þorgrímur Gestsson blaðamaður brugðu á leik þegar sá síðarnefndi var blaðamaður á Helgarpóstinum 1980 og ákváðu að taka viðtal við tölvu. Kveikjan var kafli í bók Kurt Vonnegut jr. þar sem vísindamaður á langar samræður um mannlegt eðli við tölvu. Tölvan sem þeir bræður spjölluðu við var Vax-tölva Háskóla Íslands og segir Þorgrímur svo frá fundum þeirra: „Ég gekk einfaldlega á fund hæstvirtrar Háskólatölvu, sem er til húsa í Reiknistofu Háskólans.“ Guðjón Ingi tók á móti honum og kynnti blaðamann fyrir Elizu. Hægt var að komast í tæri við Elizu í tölvunni með því að keyra forrit sem byggðist á forriti Josephs Wiesenbaum frá árinu 1965 og var snemmbúin tilraun til að nýta gervigreind. Guðjón gaf tölvunni því skipunina „Run Eliza“ og þá birtist þessi texti á skjánum: „This is Eliza“ og allt fór fram á ensku. 

JIM 002 004 2 4
Guðjón Ingi Gestsson og Þorgrímur Gestsson taka „viðtal“ við tölvuna Elízu hjá Háskóla Íslands. Viðtalið birtist í Helgarpóstinum 21.11. 1980. Ljósmyndari: Jim Smart. Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Viðtalið við Elízu hefur ágætis skemmtanagildi og hún er þokkalega dugleg að snúa út úr spurningum eða svara með annarri spurningu. Spurningunni „Hvað er verðbólga?“ svarar hún til að mynda með þessari setningu: „Hvað heldur þú?“ Í spjalli við Pál Jensson forstöðumann Reiknistofnunar Háskólans sem fylgir tölvuviðtalinu lýsir hann vel hvaða forsendur Elízu eru gefnar til að svara spurningum og segir meðal annars: „En það kemur þó vafalaust að því, að tölvur fái „gervigáfur“, þótt það sé sjálfsagt langt í það. Það hafa þó þegar orðið framfarir á tungumálasviðinu. Þar eru not fyrir tölvur með slíka eiginleika. ... Það merkilegasta sem hefur gerst í sambandi við þessar „gervigáfur“ er þó líklega skáktölvan. Hún byggist algjörlega á stærðfræðilegum rökum þar sem tölvan er látin kanna flest hugsanleg afbrigði af hverjum leik, bera saman möguleikana og gefa þeim einkunnir.“

Faðir fyrsta íslenska doktorsins í tölvunarfræði treysti sér ekki alveg til að útskýra hvað hann var að læra


doktor
Frétt um fyrsta íslenska doktorinn í tölvunarfræði. Morgunblaðið, 10.3. 1979.

Þegar Jóhann Pétur Malmquist fór í framhaldsnám í tölvunarfræði erlendis átti faðir hans í megnustu vandræðum með að útskýra fyrir ættingjum og vinum í hvaða námi sonurinn væri. Á endanum var það þrautalendingin að segja bara að hann væri að læra stærðfræði.

Faðir Jóhanns var ekki sá eini sem átti erfitt með skilgreiningar á þessu nýstárlega námi og þeim hugtökum sem notuð voru um nýju tæknina. Vinur Jóhanns í Menntaskólanum á Akureyri hafði lesið grein í Scientific American 1968 eða 1969 og kom að máli við Jóhann og viðraði það að þeir færu að læra eitthvað um rafmagnsheila eða eitthvað af því tagi, sem vakið hafði forvitni hans en var flestum lítið þekkt. Jóhann fór um páskana 1969 til Ottós A. Michelsens og bað hann um að fá að fara á námskeið á vegum IBM á Íslandi, menntaskólapilturinn. Ottó svaraði: „Þú mátt fara á námskeið hjá okkur, þú borgar ekkert ef þú stendur þig vel, en borgar eitt þúsund krónur ef þú stendur þig illa.“[11] Þetta rifjaði Jóhann upp í minningargrein um Ottó, sem hann nefnir velgjörðarmann sinn. Jóhann slapp við að borga þúsundkallinn og var næstu árin í sumarvinnu hjá Ottó, meðan hann var við BS-nám í stærðfræði og eðlisfræði með tölvunarfræði sem aukafag við Caroll College í Wisconsin í Bandaríkjunum. Jóhann fékk síðan styrk frá IBM World Trade til að stunda doktorsnám við Ríkisháskólann í Pennsylvaníu, en þaðan lauk hann doktorsgráðu í „tölvufræði“ eins og segir í frétt Morgunblaðsins 10. mars 1979.

Í doktorsritgerðinni fjallaði Jóhann um það hvernig skipuleggja mætti gögn í gagnagrunnum á þann hátt að fljótlegast væri að sækja þau aftur. Eftir lok doktorsnámsins var Jóhann ráðinn til IBM TJ Watson-rannsóknastofunnar við York Town Heights í New York og var í litlum hópi sem þróaði gagnagrunnskerfið „Query-By-Examble“ og var það hlutverk Jóhanns að gera kerfið hraðvirkt til að fyrirspurnum væri hægt að svara á sem hagkvæmastan hátt. Jóhann og fjölskylda hans voru alltaf ákveðin í að snúa aftur til Íslands. Eftir heimkomuna fékkst Jóhann við margt á fagsviði sínu og hafði meðal annars mótandi áhrif á uppbyggingu tölvunotkunar hjá fjármálaráðuneytinu en þar starfaði hann í fimm ár. Hann lagði áherslu á það á árunum 1980–1985 að keyptar yrðu einkatölvur til ráðuneytisins og þær nettengdar, sem var ný hugsun í huga æði margra. Eins beitti hann sér fyrir því að koma ritvinnslu inn í ráðuneytin á þeim tíma þegar einn skjá var að finna í kjallara Arnarhvols, en það átti eftir að breytast með tilkomu IBM-einkatölvanna og ekki síður Apple-tölva með grafísku viðmóti á árunum upp úr 1980.

Vinurinn, sem kom þessu ferli öllu af stað með því að sýna Jóhanni greinina um rafeindavélina eða vélheilann, lærði hins vegar sálarfræði.

Tölvukennsla fyrir fangana á Litla-Hrauni

Frásögn frá Litla-Hrauni sem birtist á visir.is 19. desember 2014 sýnir að tölvunarfræðin á fullt erindi til fólks í vanda. Fréttin hefst á þessum orðum:

Þrír fangar eru svo hugfangnir af námi sínu í tölvunarfræði við Háskóla Íslands að þeir vinna saman yfir jólin að því að smíða nýtt app. Þessir sömu þrír nemendur hafa náð afburðaárangri við nám í deildinni og einkunnir þeirra eru yfir meðaltali annarra nemenda í nokkrum fögum. 

Ingis Ingason, kennslustjóri á Litla-Hrauni, segir afburðanemendur hafa ákaflega góð áhrif á skólasamfélagið og ryðja brautina fyrir þá sem á eftir koma. Skólastjórnendur leggi sig frekar fram um það að ná til nemenda sem standa sig vel. 

„Nú á þessari önn hófu þrír vistmenn hér nám í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. Skólinn hefur nú ekki verið mjög öflugur í fjarnámi en í ár komu stjórnendur úr tölvunarfræðideild sérstaklega hingað austur, settu þessa nemendur inn í námið og funduðu með okkur hér á Litla-Hrauni. Þeir hafa sinnt þessum nemendum ákaflega vel. Enda hefur það skilað sér í góðum árangri þeirra,“ segir Ingis. 

Margrét Frímannsdóttir sem þá veitti fangelsinu á Litla-Hrauni forstöðu var mikil áhugakona um að gefa föngunum þetta tækifæri og kennaranir sem þátt tóku fengu ekki aukalega greitt fyrir þennan óvenjulega kennslustað, þótt alllangt væri að fara. En árangurinn var líka gefandi, eins og fram kemur í fréttinni.

Jóhann Pétur Malmquist, prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, er einn þeirra kennara úr tölvunarfræðideild Háskólans sem hafa farið á Litla-Hraun að sinna kennslu. 

Það kom honum ekki á óvart hversu vel nemendur stóðu sig. 

„Nei, það kom mér ekki á óvart, ég sá hversu samviskusamlega þeir skiluðu öllum verkefnum. Ég bý ekki til væntingar um nemendur mínar. Það er svo ánægjulegt að finna fyrir áhuganum kvikna og sjá nemendur öðlast getu. Það var sigur fyrir nemendur að komast í gegnum próf hjá mér.“

ACO og 900 eintök af iMac


2018 03 03 01 02 26
iMac auglýsing ACO sem birtist í Morgunblaðinu tveimur vikum eftir að vélin var sett á alþjóðamarkað. Morgunblaðið, 30.8. 1998.

Þegar Bjarni Ákason tók við framkvæmdastjórn ACO af föður sínum, Áka Jónssyni í byrjun ársins 1997, hafði ekki blásið byrlega fyrir Apple í heiminum seinustu árin. En með endurkomu Steve Jobs að fyrirtækinu fóru hjólin að snúast á ný. Þegar iMac tölvan var sett á markað 15. ágúst 1998 þótti hún nýstárleg í meira lagi og var spáð velgengni. Bjarni ákvað að panta 900 tölvur af þessari gerð til Íslands og áttu þær að koma í þremur áföngum, en voru í staðinn sendar allar í einu og komust naumast fyrir í flugvélinni sem flutti þær. Áhættan borgaði sig og allar seldust vélarnar og urðu mjög vinsælar kringum árþúsundamótin.[12]

 

Um menntun stafsmanna og viðhorf IBM til þeirra

IBM lagði mikla áherslu á að mennta starfsmenn og viðskiptamenn og voru mjög oft haldin námskeið hérlendis og einnig gátu viðskiptamenn farið á námskeið erlendis en það þótti kostnaðarsamt.  Í byrjun voru það erlendir kennarar og fyrirlesarar sem komu og kenndu en svo færðist þetta hlutverk meir og meira yfir til starfsmanna IBM á Íslandi.

Ekkert íslenskt fyrirtæki lagði jafn mikla áherslu og kostnað til að mennta sitt starfsfólk eins og IBM gerði.  Á fyrstu árum IBM var mikið farið á námskeið til Danmerkur og Svíþjóðar (IBM Nordic Education Center) og einnig til Englands en síðan mikið til La Hulpe í Belgíu en þar reisti IBM skóla með sambyggðu hóteli og þjónaði þessi menntastofnun allri Evrópu. Námskeiðin þar voru oft  fjórar vikur.  Upp úr 1985 var einnig mikið farið til Bandaríkjanna á námskeið. 

Sem dæmi um hversu IBM lagði mikið upp úr að mennta starfsmenn má nefna að Hjálmtýr Guðmundsson sótti námskeið og ráðstefnur í flestöllum löndum vestur Evrópu og  námskeið í  10 mismundandi ríkjum BNA, yfir 60 námskeið og ráðstefnur á þeim 25 árum sem IBM á Íslandi starfaði. Þá var þess var gætt hjá IBM að starfsmenn stöðnuðu ekki í starfi og voru þeir sífellt að skipta um starf innan fyrirtækisins. 

Mikil áhersla var lögð á starfsmannamál og voru þar ýmsar nýjungar sem ekki þekkust í íslenskum fyrirtækjum.  Skylda var að hafa starfsmannaviðtöl að minnsta kosti einu sinni á ári og ræddi þá starfsmaður og yfirmaður saman um framstöðu og væntingar næsta árs.  Þetta voru ekki launaviðtöl.  

Starfsmannaklúbbar IBM tíðkuðust erlendis og lagði IBM þeim til fé.  Þetta þótti upplagt og var stofnaður IBM klúbbur hér og var Halldór Friðriksson formaður hans en Hjálmtýr Guðmundsson og Steve Rastrick voru með honum í stjórn.  Þessi klúbbur stóð fyrir alls kyns uppákomum og var mjög vinsæll meðal starfsmanna.

Þegar starfsmaður átti hálfs- eða heils tugar starfsafmæli bauð IBM honum og maka hans í utanlandsferð og var þá allur kostnaður greiddur upp að vissu hámarki sem þó var það hátt að stundum áttu menn í vandræðum með að fá nógu dýra ferð til að nota alla upphæðina.  Þetta var afar vinsælt enda ekki eins algengt á þeim tíma að fólk færi í sumarfrí til útlanda og nú er.[1] 

Skýrsluvinnsla Ottó A. Michelsens

Árið 1963 setti Ottó A. Michelsen á fót Skýrsluvinnslu Ottó A. Michelsen sem á ensku var kallað „Service Bureau“.  Fyrstu starfsmenn Skýrsluvinnslunnar voru þeir Örn S. Kaldalóns og Ebenezer Sturluson.  Í byrjun var unnið með svokallaðar Unit Record“ (UR) gatspjaldavélar vélar og hluti af Skýrsluvinnslunni var „götunardeildin“ og stjórnaði Margrét Bárðardóttir henni um langt árabil.

Árið 1968 tók Skýrsluvinnslan yfir IBM 1401 tölvu sem verið hafði hjá SKÝRR (fyrstu tölvuna sem kom til landsins) og fékk síðar IBM 360/20 vél og enn síðar öflugri IBM  tölvur. 

Þegar IBM á Íslandi var stofnað 1967 tók það yfir þessa starfsemi sem og aðra starfsemi OAM og hét þá á ensku „Data Center Services.“ Þessi þjónusta gerði fyrirtækjum kleift að taka tölvutæknina í notkun án þess að fjárfesta í dýrum búnaði. Í byrjun voru viðskiptavinir gatspjaldavinnslunnar stærri fyrirtæki eins og Eimskip og Olíuverslun Íslands en þegar IBM 1401tölvan og síðar IBM 360 komu til sögunnar fjölgaði fyrirtækum ört og minni fyrirtæki sáu sér hag í að nota þessa þjónustu. Skiptu þau tugum á meðan Skýrsluvinnslan starfaði en það var í rúman einn og hálfan áratug. Þarna voru ýmist sérhönnuð kerfi fyrir ákveðið fyrirtæki en einnig voru búin voru til kerfi sem þjónuðu mörgum fyrirtækjum án breytinga. 

Má til dæmis nefna útreikning á tryggingabótum fyrir Tryggingastofnun ríkisins.  Það kerfi  hönnuðu þeir Hjálmtýr Guðmundsson og Björgvin Schram. Fjárhagsbókhald og launakerfi var keyrt fyrir mörg fyrirtæki, kerfin hönnuðu þeir Hjálmtýr og Björgvin.  Einnig hannaði Hjálmtýr lagerbókhaldskerfi og pöntunarkerfi fyrir bílavarahlutalager og var það kerfi notað árum saman í öllum helstu bílaumboðum landsins. Sverrir Ólafsson var frá árinu 1968 yfirmaður Skýrsluvinnslunnar.  Hjálmtýr stjórnaði hugbúnaðargerðinni en Daníel Lárusson stjórnaði vinnslunni.  

 

[1] Hjálmtýr Guðmundsson, mars 2016.

[1] Myndir og upplýsingar útvegaði Þorsteinn Sæmundsson.

[2] Í samtali við Örn Kaldalóns og Hjálmtý Guðmundsson 24.9.2015 léku þeir listavel hljóðin úr raðaranum í ákveðinni vinnslu sem þeir báðir þekktu til.

[3] Örn Kaldalóns og Hjálmtýr Guðmundsson. Viðtal tekið 24.9.2015.

[4] Örn Kaldalóns og Hjálmtýr Guðmundsson. Viðtal tekið 24.9.2015.

[5] Örn Kaldalóns, apríl 2016.

[6] Frásögn Sigurðar Björnssonar í tölvupósti 14. september 2016.

[7] Byggt á tölvubréfi frá syni Þorvaldar, Sturlu Þorvaldssyni, 4. júní 2016.

[8] http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=253401&pageId=3532364&lang=is&q=%CDSAL%20Robot. Sótt 29.12.2016.

[9] Upplýsingar úr tölvubréfi frá Jóni H. Magnússyni, 3. júní 2016.

[10] Upplýsingar fengnar í tölvubréfi frá Guðjóni H. Bernharðssyni, 27. maí 2016.

[11] http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=132989&pageId=1971107&lang=is&q=Ott%F3%20A%20Michelsen . Sótt 18.2. 2018.

[12] Bjarni Ákason. Viðtal tekið 3. desember 2014.