Skip to main content

Nám og kennsla á sviði tölvu- og upplýsingatækni

Reiknifræðin – norðan við stríð

Stundum er sagt að Íslendingar hafi skriðið á sauðskinnsskónum út úr torfkofunum í byrjun síðari heimsstyrjaldarinnar og orðið ríkir á einni nóttu af því að vinna fyrir útlendan her. En eigi vera landans í torfkofum fram að því að merkja að þeir hafi lifað gjörsamlega í frumstæðri fortíð er það langt frá því að vera rétt. Menntunarþrá hafði lengi lifað með fólkinu og einstaka hugmyndaríkir framfarasinnar fóru jafnvel að tala um háskólamenntun á Íslandi upp úr miðri 19. öld.

Hugmyndin að íslenskum háskóla varð að veruleika árið 1911, sjö árum áður en Ísland varð fullvalda ríki. Námsframboð var takmarkað. Lengi framan af 20. öldinni urðu Íslendingar að fara utan ef þeir vildu stunda verkfræðinám og langflestir sóttu til Kaupmannahafnarháskóla. En vegna hernáms Þjóðverja í Danmörku í stríðinu lokaðist leiðin þangað. Það varð til þess að hér norðan við stríð var farið að undirbúa að Háskóli Íslands tæki upp kennslu í verkfræði og haustið 1945, þegar hildarleiknum var nýlokið, hófst það sem kallað var „fyrrihlutanám“ verkfræði, sem tók þrjú ár. Þannig var staðan að mestu fram eftir sjöunda áratugnum, þegar farið var að bæta við fleiri raungreinum.

Það voru einmitt íslenskir verkfræðistúdentar við nám í útlöndum – Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku – sem fyrstir komust í kynni við hina ungu og vaxandi tölvutækni, og unnu að því að tölva yrði keypt til Íslands. Þegar það var í höfn fóru forgöngumennirnir að undirbúa kennslu í meðferð og notkun þessarar fyrstu tölvu í kjallara Raunvísindahússins nýja. Það kom í hlut þeirra Magnúsar Magnússonar prófessors og doktors Odds Benediktssonar að setja saman fyrstu drög að námsefni í tölvunarfræðum, sem þá voru nefnd „reiknifræði“ og felld undir námsgreinina „hagnýtt stærðfræði“. Á þessum námskeiðum var fyrst og fremst kennt forritunarmálið Fortran II. Fyrstu námskeiðin voru haldin skólaárið 1965 til 1966 og að auki var stutt tilraunanámskeið fyrir þriðja árs nema í verkfræði á vormisseri 1965, við litla hrifningu sumra.[1] Þessi kennsla var eftir það lítið breytt næstu tvo áratugina, að því undanteknu að forritunarmálið breyttist með tímanum, frá Fortran II í Fortran 77 og síðar C++.[2] 

Skólaárið 1972–1973 tók Háskólinn upp kennslu til BS-prófs í hagnýtri stærðfræði og árið 1976 varð tölvunarfræði sjálfstæð grein í sérstakri deild.[3] Námskrá var sniðin eftir námskrá ACM (Association for Computing Machinery), sem er alþjóðlegt fagfélag tölvunarfræðinga, og enn er leitast við að fylgja þeirri námskrá við kennslu í tölvunarfræðum í Háskóla Íslands.[4]

Faðir tölvunarfræðinnar á Íslandi

Vélaverkfræðingurinn og stærðfræðingurinn Oddur Benediktsson (1937­–2010) er oft nefndur „faðir tölvunarfræðinnar“ við Háskóla Íslands og munu það orð að sönnu. Hann lauk doktorsprófi í hagnýtri stærðfræði, starfaði sem sérfræðingur hjá Reiknistofnun á fyrstu árum hennar en kenndi jafnframt miklum fjölda fólks, innan og utan HÍ, forritunarmál. Hann hætti kennslu við HÍ um hríð þegar honum var farin að leiðast biðin eftir því að nauðsynlegar framfarir yrðu í tölvufræðum og réðst til IBM.[5] Hann varð svo dósent við stærðfræðiskor Háskólans árið 1973 og var einn af aðalskipuleggjendum hinnar nýju námsbrautar í tölvunarfræðum og formaður nefndar sem skipulagði námskrá í hugbúnaðarverkfræði. Hann var prófessor við tölvunarfræðiskor á árunum 1982 til 2007 og stundaði á ferlinum einkum rannsóknir á upplýsingakerfum og gæðastjórnun í hugbúnaðargerð.[6]

Tölvur og stærðfræðikennsla

Ekki voru margar konur voru áberandi meðal þeirra sem létu heillast af þessari nýju tækni í upphafi tölvualdar en þær voru þó einhverjar. Ein þeirra var Anna Kristjánsdóttir, sem hóf háskólanám árið 1961 og innritaðist í stærðfræði. Þá var enginn að tala um rafeindareikna, hvað þá tölvur. Hún tók ekki eðlisfræði með stærðfræðinni eins og venjulegast var heldur sagnfræði og lauk BS-gráðu í þeim fræðum. Síðan hélt hún áfram námi haustið 1965 og tók námskeið í hagnýtri stærðfræði hjá Magnúsi Magnússyni og Oddi Benediktssyni „til að fylla upp í námið“ eins og hún orðar það sjálf. Þá kynntist hún forritunarmálinu Fortran, sem henni þótti „afskaplega glæsilegt stærðfræðimál, það var svo fjölvídda, hafði margar breytur sem maður gat haft í einu. Hins vegar skilur það enginn nema þeir sem hafa lært þó nokkuð mikla stærðfræði,“ eins og hún orðar það sjálf.

Anna hélt til Danmerkur í framhaldsnám og kynntist þar forritunarmálinu Basic, sem gaf fólki með tiltölulega litla stærðfræðiþekkingu kost á að vinna með tölvutækni. Hún skrifaði lokaritgerð um tölvunotkun í stærðfræðinámi fyrir unglinga til átján ára aldurs og komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að tölvutæknin myndi ekki komast almennilega inn í skólana fyrr en komnir væru kennarar sem hefðu kynnst þessari tækni sjálfir frá unglingsaldri. Strangt til tekið hefði hún þó ekki mátt fjalla um tölvutækni, ritgerðin átti að fjalla um stærðfræði!

„Svo tók það náttúrulega miklu lengri tíma en það. Fólk er afskaplega fast í skoðunum sínum um það hvað á að kenna,“ segir Anna, sem vann síðan sem kennsluráðgjafi, kennari og námsstjóri í stærðfræði. Hún var síðast prófessor við Kennaraháskóla Íslands og lagði mikla áherslu á notkun tölvutækninnar við kennslu, einkum stærðfræðikennslu, sem síðar verður vikið að. [7]

Íslenskir kerfisfræðingar útskrifast frá dönskum skólum

Önnur kona, sem kynntist forritunarmálinu Basic í menntaskóla, var Arnheiður Guðmundsdóttir, sem síðar varð framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar. Hún lýsir upplifun sinni af forritunarmálinu svo: „Þar komst ég að því að forritun er ekkert annað en að raða saman í rökrétta röð þeim aðgerðum sem maður vill framkvæma til að leysa ákveðin verkefni.“[8] Hún fékk áhuga á forritun, sem varð til þess að hún ákvað að læra kerfisfræði í Odense í Danmörku, 1985–1986. Það var vinsæll valkostur fyrir þá sem höfðu áhuga á að vinna við forritun en höfðu ekki hug á að fara í tölvunarfræðinámið sem boðið var upp á við Háskóla Íslands. Það var lengra nám og meiri áhersla á stærðfræði en í kerfisfræðináminu.[9] „Á Íslandi var þá einungis kennd tölvunarfræði (Computer Science) en mörgum fannst það ekki henta sér og fóru góðar sögur af kerfisfræðináminu í Danmörku.“[10] Námið byggði á sama grunni og tölvunarfræðinámið. Sumir bættu síðar við sig einu ári í tölvunarfræði við háskóla á Íslandi og urðu þá tölvunarfræðingar. Þetta sama nám var svo tekið upp í Tölvuháskóla Verslunarskóla Íslands og síðan í Háskólanum í Reykjavík sem kerfisfræðinám og varð mjög vinsælt.

Ný fræði fæðast í Háskóla Íslands

Tímamót urðu í kennslu í tölvufræðum við Háskóla Íslands árið 1976 þegar tölvunarfræði varð að sjálfstæðu þriggja ára námi við stærðfræðiskor verkfræði- og raunvísindadeildar og kennt var til BS-prófs. Námið var frá upphafi 90 einingar en kjarninn í tölvunarfræðinni sjálfri var 59 einingar, sem nemendur gátu ráðstafað að vild, í samráði við kennara. Fyrsta veturinn var kennsla fyrir fyrsta og annað námsár og voru fimmtán nemendur í tölvunarfræði á báðum árunum. Fleiri en tölvunarfræðinemendur nutu kennslunnar því allir nemendur í verkfræði- og raunvísindadeild tóku eitt námskeið í tölvuforskrift og nemendur í viðskiptafræði tóku námskeið sem nefndist Rafreiknar I og fjallaði um uppbyggingu tölva og meðferð helstu upplýsingastrúktúra. Í kjarna tölvunarfræðinnar voru fög eins og stærðfræðigreining, töluleg greining, rafreiknifræði, gagnavinnsla og gagnasafnsfræði, forritunarmál, kerfishönnun, kerfisgreining og kerfishönnun. Hópinn sem undirbjó námið skipuðu Oddur Benediktsson, Guðmundur Magnússon frá viðskiptafræðideild Háskólans og Jón Zóphoníasson frá SKÝRR. Áhersla var lögð á námskeið í kerfishönnun og kerfisgreiningu þannig að í upphafi var námið skyldara hugbúnaðarverkfræði en annars staðar tíðkaðist. Enda þótti mönnum hjá háskólum víða erlendis, sérstaklega í Bandaríkjunum, námið óvenjulegt og það var ekki fyrr en eftir 1990 að farið var almennt að skipuleggja nám í hugbúnaðarverkfræði í þessum háskólum.[11]

Tölvunarfræði varð sjálfstæð skor innan raunvísindadeildar árið 1988.

Eftirspurnin svo mikil að fólk náði varla að ljúka námi

Í umfjöllun um tölvunarfræðinám við Háskóla Íslands í Alþýðublaðinu 1977 spurði blaðamaður hvort þörf væri á sérstakri námsbraut í tölvunarfræðum og hvort þessir stúdentar fengju vinnu í sínu fagi. Svarið var að þeir þyrftu varla að kvíða atvinnuleysi í framtíðinni, svo virtist sem eftirspurn eftir kerfisfræðingum og forriturum væri meiri en framboð á menntuðu fólki í þeim greinum, sem atvinnuauglýsingar í blöðum bentu meðal annars til.[12] Þetta áttu eftir að reynast orð að sönnu og næstu árin voru þess fjölmörg dæmi að fólk hyrfi frá námi og færi að vinna í þessu fagi, svo mikið var sóst eftir fólki með tölvuþekkingu. Tölvutæknin var sem óðast að breiðast út í alla króka og kima atvinnulífsins. Frá 1978 til 2013 útskrifuðust alls 1574 tölvunarfræðingar með BSc-gráðu frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík, sem tók til starfa árið 1998, en samt sem áður hefur ætíð verið skortur á menntuðu fólki í greininni. Í kringum netbóluna um árþúsundamótin bar jafnvel á því að nemendur hyrfu frá námi og í vel launuð störf rétt eftir innritun í tölvunarfræði,[13]

Sveiflukennd fjölgun

Sífellt fleiri sækja sér nám á háskólastigi og á Íslandi hefur fjöldi nemenda í háskólum (öllum greinum) farið úr 2249 nemendum árið 1977, um það leyti er tölvunarfræðinám hófst á Íslandi, í 19.183 nemendur árið 2010. Fjöldi umsókna í nám í tölvunarfræði hefur fylgt þessari þróun að nokkru leyti þó að sveiflur hafi verið á milli ára. Uppsveifla kom í aðsóknina þegar útbreiðsla einkatölva gerði tölvunotkun almennari, kringum árið 1987, en stærsti útskriftarárgangurinn úr tölvunarfræði við Háskóla Íslands á árunum 1980-2014 var árið 1989 þegar 52 útskrifuðust. Aftur kom toppur í aðsóknina í kringum árþúsundamótin. Aðsóknin kringum árið 2014 bendir til þess að áhuginn hafi aukist og sé nálægt því sem var áratug fyrr, í Háskóla Íslands einum innrituðust það ár 408 nemendur í tölvunarfræði og eftir 2014 hefur fjöldi útskriftarnemenda vaxið.[14] Forritun er ein af undirstöðunum í námi í tölvunarfræði og yfirleitt með fyrstu námskeiðum sem nýnemar taka. Í gegnum árin hafa kennarar rætt hvernig best sé að kenna nýnemum forritun, aðferðir, forritunarmál og hvernig best megi styðja við nemendur og hafa hvetjandi áhrif á námsvenjur þeirra til að laða þá að forritun.[15]

  • stereo2
  • stereo1
Úr kennslustund í Tölvugrafík í Háskóla Íslands vorið 2001. Nemendurnir áttu að gera verkefni í þrívíddargrafík, þannig að hægt væri að sjá þrívíddaráhrif með einföldum þrívíddargleraugum (rauð og blá filma). Myndir: Hjálmtýr Hafsteinsson.

Athyglisvert er að skoða þróun aðsóknar í námið út frá kynjaskiptingu. HÍ útskrifaði fyrstu tölvunarfræðingana árið 1978, tvær konur og einn karl. Engin kona útskrifaðist næstu tvö ár en eftir það ein til tvær á hverju ári þar til sex konur útskrifuðust árið 1984, en þá voru karlarnir sjö. Um það leyti voru tíu konur og tíu karlar í einum árganginum, þótt útskriftin hafi eitthvað dreifst á milli ára.[16] Eftir það jókst aðsókn í námið verulega og náði hámarki árið 1989, þegar 52 tölvunarfræðingar luku námi, 13 konur og 39 karlar. Síðan dró talsvert úr aðsókn en hún tók að aukast á ný þegar kom fram undir aldamót. Þá tók þess að gæta að Háskólinn í Reykjavík hafði tekið til starfa og útskrifaði meðal annars tölvunarfræðinga. Flestir ungir tölvunarfræðingar komu á vinnumarkaðinn á árunum 2003 til 2005, 90 til 95 á hverju ári, og þá fjölgaði einnig konum sem menntuðu sig í tölvunarfræði, þær voru 22 árið 2002 en flestar 38 árið 2004.

Það er einnig athyglisvert að eftir það, einmitt á árum útrásar og þenslu á Íslandi, fækkaði þeim talsvert sem lögðu stund á háskólanám í tölvunarfræðum og voru fæstir hrunárið 2008 en tók að fjölga aftur næstu árin „eftir hrun“. Ein skýring á þessu er að í byrjun þessarar aldar hafi tölvunarfræði orðið eins konar tískufag en eftir að þenslu hagkerfisins og stækkunar bankanna tók að gæta fyrir alvöru þótti vænlegra að leggja stund á viðskipta- og hagfræðigreinar. [17]

UtskrifadirTolvunarfraedi
Útskrifaðir með BSc-gráðu frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík 1976-2014.

Fyrstu háskólanemarnir í tölvunarfræði á Íslandi

En hvernig skyldu fyrstu háskólanemarnir í tölvunarfræði á Íslandi hafa upplifað námið? Í minningarbrotum Gunnars Linnet, eins af fyrstu útskriftarnemendum háskólagráðu í tölvunarfræði frá íslenskum háskóla, segir:

Ég var í fyrsta stúdentsárganginum frá Flensborgarskóla og heillaðist af þessu sem boðið var upp á í vali. Heimsótti sendiráð Bandaríkjanna og Bretlands og þar var hægt að komast í námskrár. Þar sá ég nám í flestum námskrám sem nefndist Computer Science.

Gunnars Linnet ákvað að hefja nám í stærðfræði/reiknifræði og einnig fór hann og heimsótti Odd Benediktsson tölvukennara við verkfræði- og raunvísindadeild og Guðmund Magnússon deildarforseta viðskiptadeildar Háskólans.

Á þessum tíma var tölvukennslan hluti af reiknifræði innan stærðfræðinnar.

Við fórum tveir í þessi viðtöl og var samstúdent minn Karl Rosenkjær með mér. […]

Viðtökur Odds voru mjög góðar fyrir okkur nýstúdenta og hvatti hann okkur til að senda inn erindi til verkfræði- og raunvísindadeildar. Hann benti okkur á að þetta færi fyrst til umsagnar stærðfræðiskorar og það væri mikilvægt að hafa gott „þak“ á stærðfræðinni, þannig að erindinu yrði ekki vísað frá í byrjun.

Við félagarnir settumst niður og skrifuðum erindi til Háskóla Íslands þar sem við óskuðum eftir því að hafin yrði kennsla í tölvufræðum […] Við lögðum til kúrsa og höfðum þar töluverða stærðfræði, að ráðum Odds, en námskráin var bæði byggð upp miðað við þær upplýsingar sem höfðu komið fram við lestur á erlendum námskrám og ráðleggingar Odds.

Við félagarnir förum til Odds með bréfið og fengum hann til að lesa það yfir. Þar skrifuðum við að við vildum hafa gott þak á stærðfræði í náminu. Oddi fannst það ekki gott til að byrja með, en sagði svo: „Það skilst“.[18]

Í mars 1976 barst Gunnari bréf frá Háskóla Íslands þar sem honum var sagt að samþykkt hefði verið að hefja kennslu í tölvunarfræði við háskólann. Hann ásamt fleirum hóf þar nám og varð meðal þeirra þriggja fyrstu tölvunarfræðinga sem útskrifuðust frá skólanum í júní 1978 en auk hans útskrifuðust í þessum fyrsta hópi Hólmfríður Pálsdóttir og Sigríður Gröndal. Um tilhögun námsins segir Gunnar meðal annars:

Mjög margir hófu nám, en stærðfræðin var mikill þröskuldur að yfirstíga. Jafnframt var mikil ásókn í starfsmenn með einhverja þekkingu og strax að afloknu fyrsta ári komu atvinnutilboðin og enn fleiri þegar tveimur árum var lokið. Þetta til samans leiddi til þess að mjög fáir útskrifuðust. Ég gekk t.d. frá minni ráðningu ári fyrir útskrift.

[…] Oddur Benediktsson var eini tölvukennarinn og aðrir voru stundakennarar sem kenndu tölvugreinar. Stærðfræðinám og viðskiptanám var að sjálfsögðu í höndum kennara viðkomandi greina. Tölvunarfræðin var undir stærðfræðiskor og ég fékk upplýsingar um að heimild hefði verið fengin til að ráða prófessor fyrir tölvunarfræðina, þá lyftist brúnin. Í kjölfarið var búist við því af okkur nemendunum að við hefðum einn dósent og einn prófessor. Stöðugildið var veitt til stærðfræðiskorar og þar var auglýst eftir stærðfræðikennara. Oddur var ekki talinn hæfur, en hæfur stærðfræðikennari var valinn. Þetta voru gífurleg vonbrigði. Fyrsti prófessorinn í tölvunarfræði við Háskólann var ekki ráðinn fyrr en Oddur fékk ráðninguna 1982.

Það var áhugavert að upplifa þessa miklu breytingu á tölvukosti sem átti sér stað á þessum þremur vetrum sem ég var við nám. Á fyrsta vetri var kennt Fortran II á IBM 1620 vél. Inntak þessara véla var gataspjöld og óverulegt geymslurými á diskum. Á öðrum vetri var komin IBM 360, en það var gömul tölva sem IBM á Íslandi gaf Háskóla Íslands. Þessi vél var með diskarými, en inntak var með spjöldum. […] Á síðasta árinu var kennt á Digital PDP vél. Sú vél var með skjái sem inntaksmiðla, margfalda afkastagetu á við fyrri vélar Háskólans. Á þessum þremur árum var kennt á þrjár mismunandi kynslóðir tölva.[19]

Tölvunám á ýmsum skólastigum

Snemma vaknaði áhugi á að kenna börnum og unglingum á hina nýju tækni sem var að ryðja sér til rúms. Því fer fjarri að sú barátta að koma því námi á laggirnar hafi alltaf verið dans á rósum.

Tölvufræði á framhaldsskólastigi

Það fer ekki fram hjá neinum sem kynnir sér umfjöllun og umræðu um tölvutækni á fyrri áratugum að hún vakti mjög fljótt forvitni og áhuga. Enda liðu ekki mörg ár frá því farið var að kenna tölvunarfræði við Háskóla Íslands þar til menn fóru að huga að tölvukennslu á menntaskólastigi. Halla Björg Baldursdóttir, ein af fyrstu konunum sem lærðu það sem þá hét stærðfræði og reiknifræði, útskrifaðist úr Háskóla Íslands árið 1977. Hún hóf þegar um haustið að kenna við Menntaskólann við Tjörnina, sem síðar varð Menntaskólinn við Sund, og tók fljótlega að sér að kenna um tölvur. Einhvers konar tölvukennsla hafði raunar verið við skólann í fáein ár, en afar frumstæð. Ekki var til nema ein borðtölva og kennslan fólst aðallega í því að kenna á hana og semja eitt eða tvö Fortran-forrit fyrir 1620-tölvu Háskólans.

handskrifud.kennslubok
Úr kennslubók Höllu Bjargar Baldursdóttur: Forritunarmálið Basic, sem kom fyrst út árið 1980.

Halla Björg byggði upp tölvufræðslu sem valgrein fyrir allar deildir þriðja og fjórða bekkjar og tölvufræði, sem var skyldugrein í fjórða bekk. Einnig gátu þeir nemendur síðasta bekkjarins sem þess óskuðu fengið að stunda sjálfstætt nám í tölvufræði, sem fékkst metið sem tæplega áttatíu kennslustundir. Aðstæður voru ekki góðar, skólinn átti eina forritanlega reiknivél og prentara og tvær skjátölvur, aðra frá Wang, sem jafnframt var notuð við nemendabókhald skólans, en hin var af gerðinni Commodore, sem var hvað algengust þá. Einnig notuðu aðrir kennarar tölvurnar í vaxandi mæli vegna annarra námsgreina. Halla Björg samdi allmikið af kennsluefni enda var það torfengið utan frá, þó kenndi hún bókina Hvað er tölva? eftir Gunnar M. Hansson um tíma.[20] Hún stundaði tölvukennslu til ársins 1987 þegar hún hélt utan til framhaldsnáms. Ekki var mikið framboð af hugbúnaði til að vinna flókið töfluefni fyrir prentvinnslu á þeim tíma svo Halla hikaði ekki við að handskrifa og -teikna skýringarefni í kennslubók sína. Kennsluefni hennar varð ýmsum hvatning til að leggja út á þessa braut.[21]

Þegar Flensborgarskólinn færðist yfir á framhaldsskólastig var einn nemenda skólans Gunnar Linnet og hann rifjar hér upp hvernig staðið var að tölvukennslu í skólanum:

Á árunum 1973 til 1974 átti sér stað umtalsverð þróun á smátölvum, en það voru forritanlegar tölvur. Stærðin varð mun minni en áður og verðið lækkaði verulega. Ég var í Flensborgarskóla og þegar kom að skólabyrjun haustið 1974 var boðið upp á forritunarnámskeið sem valgrein. Flensborgarskóli var nýr menntaskóli og var fyrstu tveimur útskriftarárgöngunum boðið upp á þessa valgrein, þ.e. 3. og 4. bekk.

Tölvurnar voru litlar miðað við það sem síðar varð, með mjög takmarkaða möguleika. Þá reyndi mjög á útsjónarsemi að nýta þessi takmörkuðu afköst til að framkvæma það sem ætlunin var að gera. Einnig var boðið upp á Fortran II-forritunarnámskeið í húsakynnum Raunvísindastofnunar við Dunhaga. Forritunarnámskeiðin við Háskóla Íslands höfðu verið í gangi um einhvern tíma fyrir framhaldsskóla landsins. Hér var verið að kynna menntaskólanemum þessa nýju tækni.[22]

Nokkrir framhaldsskólar með sérstaka áherslu á tölvunám

Framhaldsdeild Samvinnuskólans í Reykjavík og Tækniskólinn buðu upp á kennslu í tölvufræði um 1980.[23] Tækniskólinn er sprottinn upp úr tveimur skólum sem sérhæfðu sig í upplýsingatækni og tölvutengdum greinum á framhaldsskólastigi, Iðnskólanum í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands. Í Tækniskólanum var öflugt grunnnám í upplýsingatækni, meðal annars á tölvubraut og á seinustu árum einnig sérstakt nám í vefhönnun. Á hverjum vetri voru fjórir til sex hópar í tölvunámi og í hverjum hópi frá 10­­–12 nemendum, upp í um og yfir 20.[24]

Kennsla hófst í tölvufræðum í Verzlunarskóla Íslands árið 1971 en var síðan tekin upp sem valgrein í sjötta bekk, og nefnd Rafreiknar. Engin tæki voru notuð við kennsluna heldur var hún fyrst og fremst almenn fræðsla um tölvunotkun. Árið 1977 var farið að kenna valgrein sem hét Stærðfræði II og rafreiknar og stóð sú kennsla í tvo vetur. Sama ár var skólinn tengdur tölvu Reiknistofnunar með fastri símalínu og settur upp einn skjár í skólanum, og prentari. Árið 1978 var keypt ein míkrótölva af gerðinni Commodore og haustið 1980 keypti skólinn 25 tölvur af þeirri gerð, ásamt kassettutækjum sem voru notuð til að geyma gögn, prentara og diskettustöð.

Haustið 1981 keypti Verzlunarskólinn forrit hjá Tölvubúðinni til að fá broddstafi, ásamt öðrum íslenskum sértáknum, í tölvurnar. Loks var ákveðið að kaupa tengikerfi fyrir allar tölvurnar sumarið 1982 þannig að nemendur hefðu aðgang að öllum tækjunum, óháð hver öðrum, en tengingarnar reyndust alltof flókar og veikbyggðar svo aldrei fékkst öruggt samband. Þá var pantað annað kerfi frá Kanada, sem reyndist mun betur, og einnig ritvinnsluforrit. En þá vildi ekki betur til en svo að íslensku sértáknin lentu aftur á röngum stöðum. Því bjargaði nýútskrifaður verslunarskólamaður, Örn Hansen, og loks virkaði allt ágætlega, samtengdu tölvurnar 25 og ritvinnsluforritið.[25]

Þrautaganga tölvunnar inn í grunnskólann

Fyrstu árin lá ekki endilega í augum uppi hvernig kennarar gætu haft not af tölvum við almennt skólastarf, hvernig þær gætu nýst við nám og kennslu, nema helst í stærðfræði. Árið 1975 unnu þrír stúdentar við Háskóla Íslands lokaverkefni í reiknifræði sem þeir kölluðu „námskrá fyrir tölvukennslu í stærðfræðideildum menntaskólanna“. Þetta voru Yngvi Pétursson, seinna rektor MR, Helgi Þórsson, sem var forstöðumaður Reiknistofnunar um tíma, og Halla Björg Baldursdóttir. En fátt gerðist í þessum efnum næstu árin, enda höfðu tölvur þá náð takmarkaðri útbreiðslu.

Tölvunámskeið fyrir kennara

Anna Kristjánsdóttir stærðfræðingur vann á þessum árum sem námsráðgjafi í Menntaskólanum við Hamrahlíð og efndi til tölvunámskeiðs fyrir kennara á unglingastigi sumarið 1978 í samstarfi við endurmenntunardeild Kennaraháskólans, sem stóð straum af kostnaði, og Reiknistofnun Háskólans. Forsendan var sú að þá voru ódýrar einmenningstölvur komnar á markaðinn, á viðráðanlegu verði. Námskeiðið var auglýst fyrir kennara í landafræði, efnafræði, eðlisfræði, jarðfræði og stærðfræði á unglingastigi. „Málakennarar voru ekki þarna, vegna þess að ég þorði ekki að setja jafnólíka kennara saman á námskeið, en gerði það óhrædd seinna,“ segir Anna þegar hún rifjar þetta upp. [26] Á námskeiðinu var kennd forritun, farið í heimsókn á vinnustaði þar sem tölvur voru notaðar og fjallað um hvernig mætti nota tölvur við kennslu. Viðbrögð fólks við námskeiðinu voru á ýmsa lund og á göngum heyrðist hvíslað að þetta væri nú meiri vitleysan, eins og barnakennarar hefðu eitthvað með að gera að fræðast um tölvur! En Anna lét það sem vind um eyru þjóta og stóð fyrir einum fimmtíu tölvunámskeiðum fyrir kennara næstu árin.[27]

Anna Kristjánsdóttir hóf kennslu við Kennaraháskólann haustið 1981 og fór strax að ræða við nemendur um tölvur og fékk góðar undirtektir. Seinni hluta vetrarins stóðu hún og nemendur hennar fyrir ráðstefnu fyrir kennaranema og kennara um tölvur í skólastarfinu. Á sama ári var hún skipuð í nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins, sem doktor Oddur Benediktsson stýrði. Sú nefnd átti að gera úttekt á því sem var að gerast í þessum málum og koma með tillögur. Nefndin skilaði áfangaskýrslu um sumarið, lauk störfum um haustið og skilaði lokaskýrslu en síðan gerðist ekkert. „Þær fóru bara niður í skúffu í ráðuneytinu, voru aldrei birtar, aldrei sagt frá þeim, aldrei farið eftir þeim og nefndin var aldrei kölluð til ráðuneytisins til að ræða málin,“ segir Anna í viðtali rúmum þrjátíu árum síðar.

Tölvukostur Kennaraháskólans

Ekki var miklu meira líf í yfirstjórn Kennaraháskólans en menntamálaráðuneytinu og ekki tókst að kaupa nema eina tölvu fyrir skólann. En Anna var iðin við að skrifa greinar í blöð um tölvur og skólastarf og var einnig tíður viðmælandi um það efni í útvarpi. Þá flutti hún fjölda fyrirlestra úti í skólum og fann áhuga meðal foreldra og kennara. Haustið 1983 var Anna einu sinni sem oftar í viðtali um tölvur og skólamál í útvarpinu. Gunnar Hansson, forstjóri IBM á Íslandi, hringdi í framhaldi af viðtalinu og bauð skólanum búnað. Henni þótti í fyrstu fráleitt að skólinn þægi slíka gjöf en úr varð að nýr rektor skólans, Jónas Pálsson, skrifaði í samráði við hana og Gunnar bréf til IBM um nauðsyn þess að Kennaraháskólinn eignaðist tölvubúnað til að auðvelda kennurum nýja háskólans að stunda rannsóknir á áhrifum tölvuvæðingar á íslensku, stærðfræði og sérnám. Í framhaldi af bréfinu eignaðist skólinn nokkrar PC-tölvur frá IBM og tölvunám varð í fyrsta sinn fastur þáttur í menntun kennaraefna.[28] Á sama ári ákvað ráðuneytið að tölvukaup fyrir framhaldsskóla og grunnskóla yrðu samræmd, og ráðuneytið kæmi að hálfu til móts við skóla í tölvukaupum – innan ákveðinna marka. Úr varð að keyptar voru Apple IIe-tölvur, en misjafnt var hvort fólk vildi Apple- eða PC-tölvur.[29]

Tölvurnar tínast inn í skólana

Grunnskólarnir áttu frekar á brattann að sækja í þessum efnum en framhaldsskólarnir. Frekar var litið á tölvufræðslu sem undirbúning undir þátttöku í atvinnulífinu eða framhaldsnám en almenna þekkingu. Smátt og smátt opnuðust þó augu fólks, ekki síst vegna tíðra kennaranámskeiða, og tölvur tóku að tínast inn í skólana, oft sem gjafir félagasamtaka eða foreldra eða frá sveitarfélögunum. Áhugasamir og starfsfúsir kennarar beittu sér fyrir tölvuvæðingunni. Einnig hafði nokkur áhrif að Námsgagnastofnun stóð fyrir hálfs mánaðar fræðsludagskrá í ársbyrjun 1984, í samstarfi við Kennaraháskólann, menntamálaráðuneytið, fyrirtæki og einstaklinga, undir heitinu Tölvur og grunnskóli.

Kennsla í tölvutækni fyrir grunnskólanema var í boði á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur á bernskudögum tölvuvæðingar á Íslandi, á árabilinu 1981­–1985. Þá tók ráðið, sem þá var til húsa á Fríkirkjuvegi 11, að bjóða efstu bekkjum grunnskóla kennslu á tölvur og fjárfesti í BBC-tölvum í upphafi. Síðan voru nemendur sendir á Fríkirkjuveginn í kennslu sem síðar fluttist í Tónabæ. Þetta var gert til að bæta upp skort á slíkri kennslu í grunnskólunum. Kennt var vélamál og BASIC-forritunarmálið.[30]

Leikskólar fara nýjar leiðir

Tölvutækni var snemma nýtt á leikskólum eins og á öðrum skólastigum, í upphafi einkum til hagsbóta fyrir starfsfólk og samband við fjölskyldur leikskólabarna en síðar með þátttöku leikskólabarnanna sjálfra.

Notkun tölva í leikskólastarfi í námi og leik hefur verið með margvíslegum hætti og línurnar voru lagðar í aðalnámskrá leikskóla frá 1999 þar sem segir: ,,Barn í leikskóla þarf að kynnast tölvu og læra að nota hana á sinn hátt.“ Í námskránni er bent á að þá höfðu ekki öll börn aðgang að tölvum á heimilum sínum og því þyrfti að gæta þess að öll börn hefðu tækifæri til að vinna með tölvu. Þá er lögð áhersla á að nýta tölvur til að efla samvinnu og gæta jafnvægis milli stúlkna og drengja í tölvunotkun.[31] Greina má áhrif samfélagsbreytinga í námskránni frá 2011 þar sem bent er á þátt leikskólanna í að stuðla að stafrænu læsi, miðlamennt og miðlalæsi barnanna til að hjálpa þeim að verða virkir þátttakendur í samfélagi þar sem mikið framboð er af miðlum og tækni.[32]

Á árunum kringum árþúsundamótin voru nokkrir leikskólar farnir að prófa ýmsar leiðir í notkun tölvutækni í starfi með leikskólabörnum. Meðal annars voru tveir leikskólar á Seltjarnarnesi og einn á Akureyri farnir að gera tilraunir í þá átt.[33] Árið 2004 kom út skýrsla um slíkt starf í sex leikskólum, þar á meðal skólunum tveimur á Seltjarnarnesi, og var hún hluti af stærra rannsóknarverkefni um notkun upplýsinga- og samskiptatækni (UST) á öllum skólastigum, NámUST. Leikskólarnir fóru misjafnar leiðir í tölvunotkun þegar kom að starfi með börnunum.[34] Notuð voru kennsluforrit og tölvuleikir og mikil áhersla lögð á samvinnu barnanna og að kenna þeim að nota tölvuna sem verkfæri við ýmiss konar sköpun.[35] Nýir möguleikar voru kannaðir, einn skólinn nýtti Kidlink-verkefnið til að mynda til að gefa börnunum tækifæri til að kynnast lífi barna í öðrum löndum. Þá voru margir sem töldu að tölvunotkunin hefði jákvæð áhrif á læsi barnanna og fleiri jákvæð áhrif voru tilgreind,[36] en einnig ókostir, sem þó voru ekki ýkja margir.

Í framhaldi af þeim upplýsingum sem fengust um reynslu þessara sex leikskóla voru framleidd þrjú myndbönd sem fræðsluefni til að styðja við leikskólakennara í hlutverki sínu og verkefninu fylgt eftir á margvíslegan annan hátt.[37]

Fjar- og netkennsla

Með batnandi umhverfi til net- og fjarkennslu um og eftir árþúsundamótin hefur framboð á fjarnámi og námi í gegnum netið farið vaxandi.

Fjar- og netkennsla á framhaldsskólastigi hefur … vaxið hröðum skrefum undanfarin ár (tuttugufaldaðist frá 1997 til 2008 – 232 nemar til 4782) þó bakslag hafi komið í þá þróun í kjölfar kreppunnar (Hagstofa Íslands, 2011). Ef litið er til þróunar t.d. í Bandaríkjunum á framhalds- og háskólastigi er líklegt að sífellt meiri kennsla og nám fari fram á netinu, bæði formlegt og óformlegt …. Margir líta svo á að um byltingu sé að ræða með nýjum miðlum […][38]

Tölvukennsla grunnskólanna metin að verðleikum

Snemma á níunda áratugnum hófust nokkrir áhugamenn handa við að þýða frumskipanir forritunarmálsins Logo til að greiða fyrir tölvunotkun í stærðfræði og fleiri námsgreinum. Almennt var afstaða kennara og skólastjóra til tölvuvæðingar skóla jákvæð, sem kom meðal annars í ljós í skoðanakönnun kennaranema í grunnskólum vorið 1985. Af þeim sem voru spurðir töldu 60% efnið mjög mikilvægt, 30% mikilvægt og 10% í meðallagi mikilvægt. Enginn taldi að það skipti ekki máli, enda höfðu um sex hundruð grunnskólakennarar í Reykjavík skrifað undir ályktun vorið 1983 þar sem skorað var á menntamálaráðherra að hann sæi til þess að kennurum á grunnskólastigi yrði hið fyrsta gefinn kostur á námskeiðum í undirstöðuatriðum tölvunotkunar og hvernig tengja mætti tölvur námi í grunnskólum.

Tölvunám verður hluti af kennaramenntun

Árið 1982 bauð Háskóli Íslands tvö valnámskeið, 60 stunda, um upplýsingatækni og skólastarf fyrir uppeldis- og kennslufræðinema við skólann. Kennaraháskólinn gerði 24 stunda[39] grunnnámskeið í tölvufræðslu að skyldu fyrir alla kennaranema sem útskrifuðust 1984 eða síðar. Á næstu árum voru haldin tvö til þrjú sumarnámskeið í tölvunotkun og sóttu þau nær fimm hundruð kennarar. Fleiri sóttu um en komust að, vegna takmarkaðra fjárveitinga til endurmenntunar við Kennaraháskólann. Því leituðu margir kennarar í námskeið ýmissa tölvuskóla, þar sem áherslur voru ekki miðaðar við þarfir þeirra.[40]

Kennarar leita sér tölvukennslu utan skólanna

Skortur á heppilegum hugbúnaði var einnig tilfinnanlegur í grunnskólunum; þar eins og víðar skorti fé frá ríkinu og lítið hafði þokast í tölvuvæðingu skólanna. Anna Kristjánsdóttir brá á það ráð að skrifa grein, sem birtist í Morgunblaðinu 6. nóvember 1985, undir titlinum „Einkabréf til ráðherra – frá Önnu Kristjánsdóttur“. Hún átaldi menntamálaráðherra harðlega fyrir að hafa staðið slælega að uppbyggingu á tölvukennslu í skólakerfinu og að ekki bólaði á því að fé væri veitt til kaupa á fjögur hundruð tölvum fyrir tvö hundruð skóla á árunum 1986 til 1988, eins og lofað hefði verið. Hún gagnrýndi að öllum skýrslum starfshópa ráðuneytisins hefði verið stungið undir stól, sem og skort á nauðsynlegri endurmenntun. Kennarar þyrftu að sækja dýr námskeið utan skólakerfisins og greiða fyrir úr eigin vasa og með styrk frá Kennarasamtökunum.[41] Sverrir Hermannsson var þá nýtekinn við menntamálaráðuneytinu. Hann brá við skjótt eftir að hafa lesið bréfið frá Önnu og spurði hvað væri að gerast í ráðuneytinu í þessum efnum og þar urðu menn að viðurkenna að það væri ekkert. En eftir þetta fékk Kennaraháskólinn leyfi til að ráða ráðgjafa í tölvumálum og réð Jóhann Malmquist í það starf, en hann var fyrsti Íslendingurinn sem lauk doktorsgráðu í tölvunarfræði. Jafnframt fékk Anna Samtök fræðslustjóra og Námsgagnastofnun til liðs við sig til að knýja á um að menntamálaráðuneytið gengist fyrir ráðstefnu um tölvumál, og sneri sér síðan beint til ráðherra. Sverrir brást vel við og ráðstefnan var haldin. En eftir það féll allt í sama farið, ekkert gerðist og árið 1988 kom ný námskrá, án þess að þar væri nokkuð að finna um tölvunám.

Í krafti upplýsinganna

Á tíunda áratugnum var reynt að þoka málum er vörðuðu tölvukennslu áfram, ýmsir kennarar fjölluðu um málefni tölva og kennslu, en yfirvöld menntamála tóku samt ekki við sér. Árið 1995 gagnrýndi Anna Kristjánsdóttir í fyrirlestri að enn væri engin stefnumótun komin frá ráðuneytinu og um sumarið skipaði Björn Bjarnason menntamálaráðherra enn einn starfshópinn, „og hafði vit á að velja alla forystukólfana, sem höfðu verið að vinna í þessum málum í fimmtán til tuttugu ár, og út úr því kom stefnumörkun sem nefnist „Í krafti upplýsinga“.[42]

Upphaf Íslenska menntanetsins

Á meðan tölvutæknin var að springa út og búa sig undir að blómstra voru tæknimenn ekki lengi að sjá hvaða möguleikar væru fólgnir í henni. Svo virðist sem mörgum hafi gengið verr að átta sig á mikilvægi þess að fá tölvur inn í grunnskólana og koma tölvufræðslu inn í skólakerfið. Gerendur í því efni í upphafi voru fyrst og fremst einstaklingar með brennandi áhuga á tölvum og möguleikanum á að nýta þær í þágu menntunar.

Imba verður til

Pétur Þorsteinsson, skólastjóri Grunnskólans á Kópaskeri, er einn þeirra sem sannfærðir voru um að tölvutæknin ætti erindi við skólana. Hann og örfáir kennarar aðrir byrjuðu, jafnskjótt og fyrstu einkatölvurnar fóru að berast til landsins upp úr 1980, að kynna fyrir nemendum sínum forritunarmálið Logo. Á árunum 1985 og 1986 kynntist Pétur internetinu, sem þá var í fæðingu. Hann keypti sér tölvu sem unnt var að keyra með Unix-stýrikerfinu, nefndi hana Imbu, og sótti nokkrar norrænar ráðstefnur um tölvumál. Þar var meðal annars talað um nýtingu tölvuneta fyrir lægri skólastig en eingöngu horft á ósamtengd net, Bulletin board system (BBS) eða Videotext. En Pétur talaði fyrir því að byggt yrði á internetinu og fékk heldur dræmar undirtektir enda var internetið nánast óþekkt á þessum tíma utan háskóla- og rannsóknaheimsins.

Um miðjan níunda áratuginn átti Pétur á hættu að missa skólastjórastöðuna því hann hafði ekki kennararéttindi, en hann brá við og sótti réttindanám við Kennaraháskólann og skrifaði lokaritgerð um forritunarmálið Logo hjá Önnu Kristjánsdóttur. Hann hafði þá þegar hafist handa, í samvinnu við nokkra áhugamenn, við að byggja upp nettengingu milli nokkurra skóla og var einn hinna fyrstu sem fengu símatengingu við internetið, sem hafði þá verið flutt frá Hafrannsóknastofnun til Reiknistofnunar Háskólans. Með hjálp Maríusar Ólafssonar og fleiri starfsmanna RHÍ tengdi Pétur saman nokkra skóla, fyrst sinn eigin skóla á Kópaskeri og grunnskólana á Ísafirði, Ólafsfirði og Laugum í Aðaldal.

Markmiðið var að byggja upp boðskiptakerfi innan menntakerfisins, um internetið, og opna menntastofnunum landsins aðgang að upplýsingaveitum heimsins, eftir því sem tækni og fjárhagur leyfðu. Menntastofnanir byrjuðu að tengjast Imbu hver af annarri árið 1990 og í ársbyrjun 1992 var ljóst að tölvusamskipti voru orðin sjálfsögð staðreynd á lægri skólastigum. Þá hafði Pétur heimsótt meira en helming íslenskra grunnskóla og haldið fjölda fyrirlestra og kynningarfunda um land allt.

Kópasker – Akureyri ­– Reykjavík

Um mitt árið 1992 stofnaði Pétur Íslenska menntanetið hf. og réð nokkra starfsmenn, sem settu upp þrjár miðstöðvar, á Kópaskeri, Akureyri og í Reykjavík, allar tengdar saman innbyrðis og við SURÍS, yfir háhraðanet Pósts og síma.

Íslenska menntanetið fékk ýmiss konar stuðning, meðal annars frá Alþingi, menntamálaráðuneytinu, Kennarasambandi Íslands, Kennaraháskólanum og Fræðsluskrifstofu Norðurlandsumdæmis eystra. Það vó einnig þungt að Reykjavíkurborg ákvað að veita öllum grunnskólum Reykjavíkur aðgang að netinu. Það var mikilvægt vegna þess að hvergi var unnt að tengjast internetinu með upphringiaðgangi nema hjá Reiknistofnun Háskólans en aðgangur þar var það dýr að hann var ekki á færi allra skóla. Því var nauðsynlegt að tryggja skólunum aðgang með þessum hætti og því var fylgt eftir með markvissri fræðslu fyrir kennara og heimsóknum í skóla og menntastofnanir. Á fyrstu þremur árunum sáu starfsmenn Íslenska menntanetsins um að tengja skólana við netið. Síðan var kennurum kennt að nota Menntanetið og samhliða voru haldin námskeið sem öllum stóð til boða, og að liðnum fyrstu fjórum starfsárunum var byggt upp íslenskt menntanet sem náði til 85–90% skóla í landinu.

Töluvert líf var í Íslenska menntanetinu á árunum 1992 til 1997. Meðal annars byggðist sú fjarmenntun sem fram fór á þeim árum, svo sem á vegum Kennaraháskólans, Fósturskólans og Verkmenntaskólans á Akureyri, á tilvist þess og einnig hélt Menntanetið sjálft allmörg námskeið. Menntanetið var opið öllum sem áhuga höfðu á tölvusamskiptum og nokkuð var um aðild einstaklinga að því. Þegar brautin hafði verið rudd vildu forsvarsmenn fyrirtækja einnig nýta sér kosti internetsins með því að fá aðild að Menntanetinu. Síðla árs 1994 jókst aðsókn einstaklinga og fyrirtækja verulega og notkun þessara hópa á Menntanetinu varð sífellt meiri.

Kostir og gallar menntanetsins

Nokkuð skiptar skoðanir voru meðal skólamanna á ágæti Menntanetsins og Anna Kristjánsdóttir, prófessor við KHÍ, telur að það hafi ekki verið notað mikið til að byggja upp nýbreytni í kennslu og kennarar hafi lítið hugleitt hvað þyrfti að gera í þeirra námsgreinum.[43] En ýmislegt gagn gerði Íslenska menntanetið þó, ekki síst að rjúfa einangrun kennara í litlum skólum úti á landi.

Auk þess var þetta dýr rekstur og haustið 1995 var Íslenska menntanetið komið í þrot. Ráðamenn menntamála töldu að það væri þess virði að komið yrði í veg fyrir að það legðist niður. Því keypti menntamálaráðuneytið nafnið Íslenska menntanetið og hugmyndina á bak við það af Pétri í júlí 1996 fyrir verð sem gerði að hann færi skaðlaus út úr ævintýrinu. Sjálfur vélbúnaðurinn var orðinn úreltur og talinn lítils virði. Íslenska menntanetið var síðan rekið innan veggja Kennaraháskóla Íslands þar til í desember 1999 þegar ráðuneytið ákvað að efna til útboðs á rekstrinum með það í huga að honum yrði haldið áfram í þágu skólakerfisins. SKÝRR hf. keypti eignir og viðskiptasamninga Menntanetsins. Árið 2014 var það enn á veraldarvefnum og í nafni þess, undir slóðinni ismennt.is, eru reknir ýmsir vefir sem tengjast námi, kennslu og skólum.[44]

Tölvuskólar á vegum einkaaðila

Fáum árum eftir að tölvufræðin var efld í Háskóla Íslands tóku að skjóta upp kollinum tölvuskólar fyrir almenning, og ekki lét áhuginn og aðsóknin standa á sér. Sagan byrjaði þó ögn fyrr.

Tölvuskóli IBM á Íslandi

Árið 1968 hóf IBM að halda námskeið þar sem kennd var forritun og kerfisfræði og þróaðist þetta yfir í sérstaka deild innan fyrirtækisins. Gefin var út ítarleg námskrá á hverju hausti og starfsemin orðin mjög umfangsmikil um tíma. Hún var mikilvæg fyrir þá þróun íslensks hugbúnaðariðnaðar sem tók að myndast á áttunda áratugnum. Um 1990 rann þessi deild síðan inn í skóla Stjórnunarfélags Íslands.[45]

Tölvuskólinn

Fyrsti skólinn slíkrar tegundar, Tölvuskólinn, tók til starfa haustið 1979. Stofnandi hans var Reynir Hugason, verkfræðingur og atorkusamur frumkvöðull. Reynir áttaði sig á þörfinni fyrir tölvukennslu fyrir almenning, þegar fóru að koma á markað míkrótölvur á viðráðanlegu verði fyrir almenning og meðfærilegar fyrir aðra en sérfræðinga. Hann fékk húsnæði að Borgartúni 29 og samdi við Þór hf., sem var farinn að flytja inn tölvur en var annars dráttarvélainnflytjandi, um kaup á slatta af Commodore PET-tölvum. Þegar þær voru komnar á sinn stað í skólastofunni var þar líklega samankominn einhver mesti fjöldi tölva sem sést hafði á einum stað á Íslandi. Tölvuskólinn virðist ekki hafa vakið mikla athygli fjölmiðla þetta fyrsta haust enda þótt Reynir auglýsti námskeiðin nær daglega í Dagblaðinu, Vísi og Morgunblaðinu en orðalagið í auglýsingunni var vissulega til þess fallið að vekja athygli fólks:

Viltu læra á smátölvur? Við kennum forritunarmálið Basic sem notað er á allar smátölvur (microcomputers). Við bjóðum efnismikil, samþjöppuð og nýtízkuleg námskeið. Þrautreynt kennslukerfi. Kennt er með aðstoð tölva. Skemmtileg húsakynni og nútímalegur tæknibúnaður. Tveir nemendur eru um hverja tölvu. Ný námskeið hefjast síðari hluta nóvember. Innritun stendur yfir.[46]

Aðsóknin að skólanum var með ágætum og meira en tvö hundruð manns luku þeim tuttugu tíma námskeiðum sem boðið var upp á, frá því í nóvember og fram að jólum.[47] Sumarið 1981 opnaði Reynir svo Tölvubúðina að Laugavegi 20, ásamt Unni Steingrímsdóttur og Vilhjálmi Þorsteinssyni, pilti sem hafði sest í skóla hans og sýnt undraverða hæfileika í þessum efnum.

Fjölgun og fjölbreyttara námsval

Í byrjun níunda áratugarins höfðu bæst við fleiri sérhæfðir tölvuskólar í Reykjavík: Tölvuskólinn Framsýn og Tölvufræðslan sf. ásamt Stjórnunarfélagi Íslands, sem rak umfangsmikla tölvukennslu árum saman, en Stjórnunarfélagið lagði sérstaka áherslu á ritvinnslu. Arkimedes, sem byrjaði starfsemi 1982, kenndi nemendum sínum forritunarmálið BASIC, skráavinnslu og kerfisfræði.[48]

Tölvufræðslan sf. og Stjórnunarfélagið

Tölvufræðslan sf. bauð upp á námskeið fyrir unglinga og fullorðna byrjendur, auk þess forritunarnámskeið, meðal annars á forritunarmálinu BASIC, sérhæfð námskeið fyrir ákveðnar tölvutegundir og starfsgreinar, þar á meðal læknisfræði, lögfræði og verkfræði. Stjórnunarfélagið var stofnað árið 1960 og hélt fyrstu tölvunámskeiðin árið 1980. Félagið bauð sérhönnuð námskeið fyrir ýmsa starfshópa og fyrirtæki, bæði almenn námskeið í meðferð tölva og hverskyns forritun og bauð upp á leiðbeiningar fyrir stjórnendur í vali tölva og hvernig nota mætti þær til stjórnunar.[49]

Tölvuskólinn Framsýn – einkatölvur til leigu

Tölvuskólinn Framsýn var stofnaður árið 1982 og stóð fyrir námskeiðum fyrir alla starfs- og aldurshópa, almenn grunnnámskeið og ýmis forritunarnámskeið. Einnig var kennd notkun ýmissa tilbúinna forrita. Á útmánuðum 1984 auglýsti Tölvuskólinn Framsýn tilboð til nemenda sinna og annarra, sem áhuga hefðu: Að fá tölvu til leigu, viku í senn. Þarna var um að ræða stærri gerðir heimilistölva ásamt lyklaborði, skjá, kassettubandi, handbók tölvunnar, forritunarmálinu BASIC, kassettu með leikjum og íslenskum leiðbeiningum um uppsetningu tölvunnar.[50] Þetta var í upphafi innflutnings á einkatölvum, sem voru meðfærilegar fyrir almenning, og forvitnileg nýjung fyrir flesta. Um sumarið gerði Tölvufræðslan sf. út tvo námskeiðahópa, sem ferðuðust um landið og héldu námskeið í undirstöðuatriðum tölvutækninnar, forritun í BASIC, ritvinnslu og áætlanagerð, á fimmtíu stöðum.[51] Einkatölvubyltingin var hafin.

Blómatími tölvuskólanna

Áratugurinn 1985–1995 var ákveðinn blómatími tölvuskólanna. Með einkatölvubyltingunni var sífellt meiri eftirspurn eftir kennslu í tölvunotkun, ekki síður en í forritun. Jafnframt áttu sér stað miklar breytingar á tölvunotkun. Í upphafi tímabilsins var full þörf á kennslu í ritvinnslu og grunnatriðum í notkun einkatölvunnar. Um miðbik þess hafði þeim farið fjölgandi sem voru sjálfbjarga um notkun tölva, en þá var gluggakerfið að ryðja sér til rúms. Undir lok þessa tímabils varð síðan ein afdrifaríkasta breytingin á tölvunotkun almennings sem orðið hefur, er internetið kom til sögunnar.

Markhópar námskeiða einkaaðila

Skipta má tölvukennslu einkaaðila í nokkur tímabil eftir áherslum. Í upphafi var mest áhersla lögð á að þjálfa fagfólk í notkun flókinna kerfa og byggja ofan á þekkingu úr skóla. Þá kom tímabil þar sem notendur einkatölva, allt frá börnum til eldri borgara, þurftu á kennslu halda í því sem nú þykir sjálfsagt: Ritvinnslu, einföldum töflureiknum og tölvupósti. Alltaf var markaður fyrir lengri og flóknari námskeið í ýmsum tækjum og tólum sem notuð eru, allt frá kerfisstjórn til myndvinnslu. Með netvæðingunni breyttist ýmislegt og snjalltækin juku enn á þá þróun. Sumir voru hættir að nota ritvinnslu árið 2014 og létu samskipti gegnum tölvupóst og samfélagsmiðla duga. Á vissan hátt má segja að þróunin sé komin í hring, því margir nota frekar einfalda textaritla frekar en flókna valkosti ritvinnsluforrita. Það er þá helst fyrir skýrslur og ritgerðir sem ritvinnsla á borð við Word er notuð.

Einkatölvan öflug, notendur kröfuharðir en ekkert net – ennþá

Snemma árs 1992 var gerð ágæt úttekt á tölvuskólum á höfuðborgarsvæðinu í DV. Á þessum tíma var notkun einkatölva orðin mjög útbreidd, afl þeirra og virkni alltaf að batna og notendur sífellt kröfuharðari. Námskeið í Word og Excel voru vinsæl og einnig skrifstofutækninám, en netið var ekki komið til sögunnar, sem valkostur fyrir almenning, nema að litlu leyti. Þá voru starfandi fimm skólar sem höfðu verið til mismunandi lengi. Tölvuskóli EJS, Tölvuskóli Stjórnunarfélagsins og IBM, Tölvuskóli Íslands, Tölvuskóli Reykjavíkur og Tölvuskóli Tölvu- og verkfræðiþjónustunnar. Auk þess voru haldin tölvunámskeið á vegum ýmissa aðila, til dæmis Macintosh-námskeið hjá Tölvustofunni og ýmis námskeið hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands auk þess sem ýmis hugbúnaðarfyrirtæki buðu upp á kennslu á hugbúnað sem þau framleiddu eða seldu.[52]

Tölvuskóli Reykjavíkur

Tölvufræðslan var skóli sem hafði boðið upp á ýmiss konar kennslu, meðal annars var hann framarlega í því að bjóða upp á svokallað skrifstofutækninám, sem byggðist á tölvu- og viðskiptagreinum. Námið var 250 stundir í heild. Meðal annars var farið í stýrikerfi, ritvinnslu, töflureikna og gagnagrunna. Tölvufræðslan varð gjaldþrota en nokkrir starfsmenn ákváðu að stofna Tölvuskóla Reykjavíkur í kjölfarið. Árið 1992 var talið að um þúsund manns hefðu lokið skrifstofutækninámi, bæði hjá þessum skólum og einnig Tölvufræðslunni á Akureyri og Tölvuskóla Íslands.[53]

Tölvuskóli Reykjavíkur gekk vel og komst í eigin húsnæði við Borgartún. Þar var IBM síðar með sín námskeið. Þegar internetið kom til skjalanna bauð skólinn upp á að fólk gæti fengið netföng á vegum skólans.[54]

Sérhæfing og verkaskipting

Talsverð verkaskipting var milli þeirra skóla sem buðu upp á löng og stutt tölvunámskeið. Námskeið á vegum hugbúnaðar- og vélbúnaðarfyrirtækja voru miðuð að því að kenna á ákveðinn hugbúnað, kerfi eða vélbúnað. Promennt/Þekking sá meðal annars um kennslu fyrir Microsoft, Rafiðnaðarskólinn var mjög öflugur á tímabili og bauð upp á mjög breitt úrval námskeiða. Sérhæfðari námskeið voru á vegum Upplýsingatækniskólans og Örtölvuskólinn sá meðal annars um að kenna kerfisstjórn fyrir Novell-net.

Á seinustu árum hefur sérhæfingin aukist enn frekar meðal þeirra sem bjóða upp á tölvunámskeið. Promennt og NTV eru til að mynda dæmi um skóla sem hafa þróast í þá átt að vera með langt nám í bókhaldi og tölvugreinum en Tölvu- og verkfræðiþjónustan býður nú eingöngu upp á stutt námskeið sem fyrirtæki senda starfsmenn sína á. Þar njóta ýmis Excel-námskeið langmestra vinsælda.

NTV

Nýi tölvu- og viðskiptaskólinn, NTV, var stofnaður árið 1996. Bræðurnir Jón Vignir Karlsson og Sigurður Karlsson settu hann á laggirnar.[55] Skólinn var upphaflega til húsa í Hólshrauni í Hafnarfirði en opnaði síðan útibú í Hlíðarsmára í Kópavogi og þangað var starfsemi hans flutt að fullu árið 2003. Þá voru kennslustofur skólans orðnar fjórar en fjölgaði síðar í sjö. Skólinn er annar þeirra skóla sem hafa smátt og smátt fært sig yfir í að veita heildstæða menntun á lengri námskeiðum og er viðurkenndur fræðsluaðili af hálfu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, þannig að unnt er að nýta nám í skólanum til eininga í framhaldsskólum.

Skólinn hefur lengi boðið upp á nám í kerfisstjórnun, bæði fyrir Windows og Linux, auk margs konar mismunandi námsleiða í kerfisstjórnun. Eins árs forritunarnám skiptist í diplómanám, forritunarbraut og það nýjasta: skýjaforritun. Auk þess er boðið upp á fornám. Tengt þessu er nám í grafík og margmiðlun sem meðal annars felst í að veita nemendum góða menntun í vefsíðugerð.

iSoft-Þekking verður að Promennt

Tölvuskólinn Promennt var stofnaður árið 2011 á grunni tölvuskólans iSoft-Þekkingar, sem á rætur mun lengra aftur í tímann og tengist sögu fyrirtækisins Þekkingar, sem fjallað er um í þessari sögu á öðrum stað. Tölvuskólinn Þekking var stofnaður árið 2002 en skipti um eigendur 2006 og hóf þá starfsemi á Akureyri um hríð og var þá til húsa í Faxafeni í Reykjavík og við Glerárgötu á Akureyri. Skólinn rann saman við iSoft árið 2008 við samruna fyrirtækjanna iSoft og Tölvuskólans Þekkingar.

Promennt hefur verið til húsa frá upphafi í Skeifunni eins og fyrirrennarinn var. Skólinn breytti einungis um nafn en starfsemi hélt áfram undir sömu kennitölu. Líkt og áður var sérhæfir Promennt sig meðal annars í Microsoft-vottuðum námskeiðum og prófum. Það beinir áherslum sínum bæði að byrjendum og starfsfólki sem fyrirtæki vilja þjálfa til meiri kunnáttu. Þá er einnig kennd kerfis- og netstjórnun, vefnámskeið og almenn tölvunámskeið, meðal annars fyrir eldri borgara. Promennt hefur líka haft fjarkennslu sem valkost fyrir nemendur sína.

Tölvu- og verkfræðiþjónustan

Tölvu og verkfræðiþjónustan (TV) hóf að bjóða upp á tölvukennslu árið 1986. Það var Halldór Kristjánsson verkfræðingur sem kom henni á fót. Í upphafi var skólinn í lítilli skrifstofu í Ármúlanum og seinni hluta dagsins var boðið upp á námskeið á sex til átta Macintosh-einkatölvur í þröngu húsnæði. Fljótlega flutti TV á Grensásveg í nýtt húsnæði sem var ögn rýmra en það gamla og þar hefur verið hægt að stækka kennslurýmið í tvígang með því að skipta og taka yfir húsnæði annarra sem voru með starfsemi í húsinu, síðast árið 2003. Kennslustofurnar urðu fimm og tíu manns störfuðu við ráðgjöf og kennslu þegar mest var.

IMG 0155
Mikil gróska var í starfsemi tölvuskólanna á tíunda áratug síðustu aldar. Þúsundir sóttu námskeið á vegum skólanna, gróska var í útgáfu fréttabréfa og fræðsluefnis af ýmsu tagi, en enn var það á pappír. Fréttabréf Tölvu- og verkfræðiþjónustunnar, Tölvuvísir, kom út nokkrum sinnum á ári frá árinu 1989 og flutti námskeiðsfréttir og ýmiss konar fróðleik. Hér sjást vinsæl námskeið árið 1990. Næstu árin stígur fjöldi nemenda jafnt og þétt og var hann orðinn um þrjú þúsund árið 1997.

Kennsla á töflureikni, fyrst á Lotus 123 og síðar Excel, naut frá upphafi vinsælda á námskeiðum Tölvu- og verkfræðiþjónustunnar. Í fyrstu var markhópurinn í kennslunni einkaaðilar sem lærðu að nota Macintosh-einkatölvur en síðar var áherslan fremur á fagmenn og loks þjálfun starfsmanna fyrir ýmis fyrirtæki. Þörfin fyrir slíka kennslu er aðallega tvenns konar: Annars vegar setja fyrirtækin fólk sitt á námskeið til að læra grunnatriði í tölvunotkun út frá því sem gagnast því í starfi. Hins vegar senda fyrirtæki tölvufært starfsfólk á tölvunámskeið til að auka þekkingu þess. Við notkun á Excel hefur viljað brenna við að fólk hafi einungis grunnþekkingu og námskeið eru haldin til að bæta úr því. Með bættum vinnubrögðum getur sparast mikill tími í vinnu. Jafnvel þeir sem telja sig nokkuð færa í notkun töflureikna kunna oft ekki á auðveldustu leiðirnar. „Ef einhver þarf til að mynda að slá inn sömu tölurnar í lista tvisvar, þegar nóg er að gera það einu sinni og tengja við upprunalega listann, þá má hugsa sér að tvær stundir í viku sparist, svo þetta er fljótt að telja.“[56]

Menntun og margbreytileiki

Kennsla í tölvunotkun, kerfisstjórnun og hugbúnaðargerð hefur tekið ýmsum breytingum frá því hún hófst fyrir alvöru.

Skýrslutæknifélag Íslands hélt ráðstefnu ásamt Félagi tölvukennara og Kennaraháskóla Íslands á árinu 1996. Í ávarpi Jóhanns Gunnarssonar við setningu ráðstefnunnar segir meðal annars:

Upplýsingasamfélagið, upplýsingabyltingin er að koma yfir okkur. Um það fáum við ekki vélað. Miklar breytingar eru fyrirsjáanlegar, reyndar að hluta þegar orðnar, á því hvernig einstaklingar og þjóðir heimsins eiga samskipti sín á milli. Nýjar auðlindir kunna að verða gjöfulli ein þær hefðbundnu, til dæmis auður mannsandans.[57]

Kynjahallinn í tæknigreinum ekkert náttúrulögmál

Ýmislegt hefur verið gert til að lagfæra kynjahallann í tölvunarfræðinámi. Fundir og ráðstefnur hafa verið haldnar og ýmislegt ritað um þetta efni.

Háskólinn í Reykjavík hefur gripið til ýmissa úrræða á seinustu árum til að auka hlut kvenna í upplýsingatækninámi. Þær hafa einkum beinst að framhaldsskólunum en einnig hefur verið farið í grunnskóla til að kynna upplýsingatækninám. ­­„Við höfum boðið nemendum í efri stigum grunnskóla í hús og þá í tengslum við starfsvalsdaga í 9. og 10. bekk grunnskólanna. Það er auðvitað takmarkað sem við komumst yfir að gera í sjálfboðavinnu,“ segir Ari Kristinn Jónsson rektor HR. Annað verkefni sem miðar að því að auka hlut kvenna í upplýsingatækni er að konur í tæknistörfum hjá ýmsum fyrirtækjum bjóða stelpum að koma og skoða fyrirtækin og í leiðinni sjá þær fyrirmyndir í slíkum störfum. Hvað sem veldur þá hafði hlutur kvenna í upplýsingatæknigreinum í HR farið vaxandi á lokaárum tímabils þessarar sögu og hlutfall kvenna meðal nýnema var farið að nálgast 30% árið 2014. Í skólanum hafa stelpurnar stofnað með sér ákaflega virkt félag, /sys/tur, sem hefur byggt upp stemningu meðal stelpnanna í tæknigreinum í skólanum.[58]

systur
Veturinn 2013-2014 voru stelpurnar í Háskólanum í Reykjavík orðnar mjög áberandi í félagsstarfi tölvunarfræðinema. Þær voru í góðum meirihluta stjórnar Tvíundar, félags tölvunarfræðinema við HR og höfðu stofnað félagið /sys/tur sem hefur beitt sér fyrir því að efla stelpur í tölvunarfræðinámi. Enn voru þó aðeins 20% nemenda í tölvunarfræðideildinni konur. Morgunblaðið 20. apríl 2014.

Í tímaritinu Tölvumál 2013 er fjallað um sérstakan upplýsingatæknidag kvenna sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík í apríl 2014:

HR mun í apríl 2014 standa fyrir sérstökum degi tileinkuðum konum í upplýsingatækni – GIRLS IN ICT 2014 en atburðurinn er hluti af ECWT verkefninu. Dagurinn á að vekja athygli á mikilvægi þess að kynna upplýsingatækni fyrir konum og stuðla að því að störf við tæknigreinar séu aðgengileg og lifandi starfsvettvangur sem laðar til sín ungt fólk af báðum kynjum. [59]

Nánar segir um framkvæmd þessa dags á vef skólans nokkrum dögum seinna:

Hátt í hundrað stelpur úr 8. bekk fimm grunnskóla var boðið í Háskólann í Reykjavík og í fjögur fyrirtæki sem sérhæfa sig í upplýsingatækni á fyrsta „Stelpu og tækni“ deginum sem haldinn er hér á landi. Markmiðið með honum er að kynna fyrir stelpunum ýmsa möguleika í þessari atvinnugrein.

Skólarnir sem taka þátt eru Austurbæjarskóli, Laugalækjaskóli, Hlíðaskóli, Hörðuvallaskóli og Garðaskóli. Að verkefninu standa Háskólinn í Reykjavík, Ský, Samtök iðnaðarins, GreenQloud, Skema og /sys/tur en verkefnið hefur hlotið styrk úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála.[60]

Mentor og Skema – með árherslum kvenna

Tvö fyrirtæki byggð upp af konum, innbyrðis ólík, hafa vakið athygli í menntageiranum á undanförnum árum. Annað þeirra, Mentor ehf., var stofnað árið 2000 en sænski hluti fyrirtækisins á rætur aftur til ársins 1990. Vilborg Einarsdóttir er meðal stofnenda og það er hún sem stýrt hefur fyrirtækinu á því tímabili sem þessi saga nær til. Nýsköpunarsjóður er meðal fjárfesta sem hafa komið að Mentor.

Mentor sérhæfir sig í heildstæðu upplýsinga- og námskerfi fyrir alla sem starfa með börnum og unglingum. Markmiðið er að auka árangur í skólastarfi með Mentor-kerfinu en þar er fókus á einstaklingsmiðað nám. Fyrirtækið hefur fært út kvíarnar til fleiri Evrópulanda og keypti með aðkomu Nýsköpunarsjóðs meðal annars sænskt fyrirtæki, PODB, sem sérhæfir sig í upplýsingakerfum sérhönnuðum fyrir kennara með sérstakri áherslu á einstaklingsmiðaðar námsáætlanir og foreldraviðtöl árið 2007.[61]

Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema, fékk UT-verðlaun Ský árið 2014. Hún stofnaði sprotafyrirtækið Skema árið 2011 og það hefur vaxið hratt síðan þá. Við veitingu verðlaunanna var eftirfarandi rökstuðningur valnefndar hafður að leiðarljósi:

Ný nálgun og hugmyndafræði Rakelar hefur valdið straumhvörfum í fræðslu og áhuga allra aldurshópa á nýtingu upplýsingatækni. Aðferðafræðin sem er studd af rannsóknum á sviði sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði, hefur það markmið að kenna ungu fólki frá 6 ára aldri að forrita. Undirstöðuatriði aðferðafræðinnar byggja á jákvæðni, myndrænni framsetningu og notkun á þrívíðum forritunarumhverfum til að stíga fyrstu skrefin inn í heim tækninnar. Rakel hefur verið sérstaklega góð fyrirmynd fyrir ungar konur sem eru að stíga sín fyrstu skref í tækniheiminum eða stefna að því að afla sér menntunar á sviði tækni og/eða vísinda.[62]

Fjölbreyttur bakgrunnur frumkvöðla

Forvitnilegt er að rýna í menntun og bakgrunn frumkvöðlanna sem hafa sett svip sinn á sögu upplýsingatækni á Íslandi. Áður en farið var að kenna tölvunarfræði á háskólastigi á Íslandi var kominn fram stór hópur fagfólks í tölvu- og upplýsingamálum sem hafði mótað þann veruleika sem fagið bjó við á Íslandi. Meðal þeirra voru stærðfræðingar, tæknifræðingar, verkfræðingar, jarðeðlisfræðingar og viðskiptafræðingar. „Þetta var nokkuð sérstakur, lokaður heimur fólks með alls konar bakgrunn. Það voru fáir sem voru innvígðir í bransann.“[63]

Breyting varð á þessu þegar kennsla í tölvunarfræði varð útbreidd á Íslandi en áfram bættist við fólk með alls konar bakgrunn. Og smátt og smátt var ekki þörf á því að vera innvígður.

Háskólanámskeið fyrir frumkvöðla í aldarfjórðung

Aldarfjórðungur er síðan kennsla hófst við Háskóla Íslands í námskeiði sem gengið hefur undir ýmsum nöfnum en hefur lengi heitið: Frá hugmynd til veruleika. Þetta námskeið er í boði bæði fyrir nemendur í grunn- og framhaldsnámi.

Það sem er sérstakt við þetta námskeið er að það hefur reynst hálfgerð útungunarstöð fyrir frumkvöðla og nægir að nefna að einn af nemendunum fyrstu árin var Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP. Í tengslum við þetta námskeið hafa ýmsir fleiri lagt grunninn að vel heppnuðum hugbúnaði, til dæmis má nefna tvíburamóðurina Guðrúnu Eiríksdóttur sem ákvað ásamt öðrum nemanda að vinna tölvuleik sem kennir leikskólabörnum tákn með tali, þar sem hún þekkti þessa aðferð frá sínum börnum. Leikurinn heitir Tumi og táknin og náði útbreiðslu til um 40% íslenskra leikskóla eftir útkomu. Einnig má nefna kerfið XPC Network, verkfærakista þjálfarans, frá Sideline sports, sem er alþjóðlegt íþróttaþjálfunarkerfi. Þetta er kerfi sem Guðbrandur Ágúst Þorkelsson hefur þróað frá hugmynd og yfir í veruleika, rétt eins og heiti námskeiðsins gefur til kynna. Loks má nefna gítarstilli sem hefur verið í notkun í yfir 200 löndum, Tunerific, sem Guðmundur Freyr Jónasson þróaði. 

„Ég reyni að kveikja einhvern neista og ýta fólki af stað,“ segir Jóhann Pétur Malmquist, sem séð hefur um kennslu þessa námskeiðs. „Og segi nemendum frá reynslunni sem hefur safnast upp í hugbúnaðargerð, ekkert síður mistökunum en því sem vel hefur gengið.“

Tölvunotendur mismunandi vel upplýstir

Á níunda áratugnum varð tölvunotkun almenn á Íslandi. Hvort tveggja var að almenn einkatölvunotkun fór vaxandi en ekki síður að sífellt fleiri vinnustaðir voru að gera breytingar á tölvunotkun innan sinna fyrirtækja. Í stað þess að stjórnun og notkun tölva væri afmörkuð við sérhæft starfsfólk eða þjónusta tölvanna keypt utan úr bæ var farið að ætlast til þess að starfsfólk væri sjálfbjarga á þeim tölvukosti sem notaður var innan fyrirtækisins. Ekki voru allir jafnvel undir þær breytingar búnir eins og eftirfarandi klausa úr Vikunni snemma árs 1984 ber með sér:

Kunningi okkar var nýverið staddur í verslun sem selur tölvubúnað af ýmsu tagi og varð það á að hlusta á mann sem ætlaði að fara að fjárfesta í tölvubúnaði fyrir fyrirtæki sitt. Hann þurfti að sjá um póstsendingar fyrir nokkra aðila og vildi meðal annars geta tölvuunnið skrá fyrir 2000 manns.

Sölumaðurinn sýndi honum meðalstóra borðtölvu með harðdiski og forrit sem gerði honum kleift að flokka skrána á ýmsan hátt – eftir heimilisföngum, skilvísi í innborgunum og meðalstærð pantana. Forritið mátti líka nota til að geyma stöðluð bréf og auðvitað skrifaði það út límmiða, gíróseðla og annað þess háttar.

Maðurinn sem ætlaði að kaupa tölvubúnaðinn sýndi áhuga og spurði hvernig maður kæmi upplýsingunum inn í kerfið.

„Það þarf bara að lesa þær inn,“ svaraði sölumaðurinn.

–Nú, hvernig á ég að gera það? Hvernig kem ég listunum sem ég er með inn í tölvuna?

Sölumaðurinn var undrandi á svipinn þegar hann svaraði: „Auðvitað með því að vélrita á lyklaborðið.“

–Vélrita? Á ég að fara að vélrita fleiri þúsund nöfn alveg upp á nýtt? spurði maðurinn alveg eins og sölumaðurinn væri að reyna að plata einhverju inn á hann. […]

Til skamms tíma hefur „vélritunarkunnátta æskileg“ verið dulnefni fyrir óskir um konu í rútínu-skrifstofuvinnu. Röggsamir stjórnendur læra ekki að vélrita, svo hljómar boðorðið. Þeir fá sér bara einkaritara.[64]

Þar sem tölvukennslu í grunnskóla og framhaldsskóla sleppir sækir fólk sér tölvuþekkingu á ýmis námskeið, en alltaf verða þó einhverjir sem verða útundan. Í samfélagi sem er jafntölvuvætt og Ísland nútímans er finnast vitanlega allmargir sem það á við um. Aldurshópurinn 55 ára og eldri er mjög misvel að sér í notkun tölva og því hefur verið mætt á ýmsan hátt, ekki síst með tölvunámskeiðum sem beint er sérstaklega að þessum aldurshópi. Námskeiðin hafa bæði verið í boði sem hluti af félagsstarfi aldraðra og á vegum einkaaðila. Þó eru allmargir sem hvorki vilja né geta, oft af efnahagsástæðum, eignast tölvu og lært á hana. Annar hópur, sem minni gaumur hefur verið gefinn, er hópur ungs fólks sem hættir snemma í skóla og fer út á vinnumarkaðinn, í störf sem krefjast lítillar eða engrar tölvukunnáttu, og byggir ekki upp þekkingu á því sviði.[65]

Sigrún Eva Ármannsdóttir þekkir vel til þess í starfi sínu sem forstöðumaður veflausna Advania hvernig tölvuþekking fólks sem þarf að festa kaup á dýrum hug- eða vélbúnaði fyrir fyrirtæki sín getur verið mismunandi, burtséð frá menntun þess. Þeir sem ekki hafa fengið sérstaka menntun á sviði upplýsingatækni geta átt erfitt með að taka upplýstar ákvarðanir um hvaða búnaður henti best, grunnhugtök geta verið framandi þeim sem ekki hafa kynnst upplýsingatækni í starfi sínu. Það á við um þorra starfsfólks furðu margra fyrirtækja. Hún telur nauðsynlegt að byrja að kenna læsi í upplýsingatækni strax í grunnskólum. Það er gott og gilt að kenna forritun, en það vantar svo miklu víðtækari menntun á öllum skólastigum, að hennar mati. Upp getur komið sú staða að til upplýsingatæknifyrirtækja komi langmenntaðir kaupendur sem finnst erfitt að útskýra hvað þeir vilja, vegna þess að þeir hafa ekki grunnskilning á þeim búnaði og þjónustu sem þeir ætla að kaupa. Þetta er jafnerfitt fyrir kaupendur og seljendur og þarna þarf menntakerfið að taka sig á, því upplýsingatæknin er orðin allt um lykjandi og er ekkert á leiðinni úr lífi okkar.[66]

Framhaldsnám í upplýsingatækni og tölvufræðum á háskólastigi

Nokkrir íslenskir háskólar hafa boðið upp á framhaldsnám í tölvu- og upplýsingatækni frá því fyrir árþúsundamótin en áfram hafa margir nemendur haldið áfram að sækja sér þekkingu út fyrir landsteinana.

Háskóli Íslands hefur kennslu til meistaraprófs í tölvunarfræði

Meistaranámið í tölvunarfræði hafði verið í bígerð um nokkurt skeið áður en það var sett á laggirnar og var byggt á tillögum frá starfshópi um stuðning við hugbúnaðariðnað, sem starfaði á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis. Formaður hópsins, Oddur Benediktsson, skrifaði um þetta fyrirhugaða nám í júlíblað Tölvumála árið 1996 og bendir þá meðal annars á að um það bil 1200 manns starfi þá við hugbúnaðargerð og -þjónustu á Íslandi. Hugbúnaðargerð sé eina hátæknisviðið þar sem stöðug eftirspurn virðist vera eftir háskólamenntuðu fólki. Og hann bætir við: „Á meginlandi Evrópu þekkist varla að háskólamenntun ljúki með þriggja ára BS prófgráðu. Til þess að teljast full menntað þarf fólk að hafa lokið MS eða sambærilegu námi.“[67] 

Þau þáttaskil urðu að boðið var upp á meistaranám í tölvunarfræði í fyrsta sinn á Íslandi árið 1998. Ebba Þóra Hvannberg skrifaði um það í Tölvumál í árslok 1998. Þar segir hún meðal annars: „Það er okkar mat að markaðurinn þurfi nú að auki fólk með framhaldsmenntun […] Einnig er brýn þörf að mennta kennara, bæði fyrir háskólastig og framahaldsskólastig.“[68] Árið 2001 var einnig farið að kenna hugbúnaðarverkfræði við skorina. Þeir sem luku meistaraprófi í hugbúnaðarverkfræði fengu full réttindi sem verkfræðingar. [69]

Framhaldsnám við Kennaraháskóla Íslands og menntavísindasvið Háskóla Íslands

20121002 180649
Á vinnustofu í Skálholti fyrir frumkvöðla um uppbyggingu og stuðning við starfssamfélög 2.-3. október 2012. Vinnustofan var á vegum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og var hluti af undirbúningi að stofnun svonefndrar Menntamiðju, samstarfsfélags skólafólks á netinu. Hér eru Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, Salvör Gissurardóttir, Svava Pétursdóttir og Sigurbjörg Jóhannesdóttir.

Árið 1998 var ákveðið að setja af stað námsbraut í tölvu- og upplýsingatækni við Framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands og var í fyrstu boðið upp á diplómanám í notkun á tölvum og upplýsingatækni í skólastarfi. Við sameiningu KHÍ og HÍ og þegar kennaranámið var lengt urðu breytingar á framhaldsnáminu. Lenging námsins fól það í sér að kennaranámið skiptist þá í grunnnám og meistaranám. Í meistaranáminu er margvíslegir námsmöguleikar í upplýsingatækni, bæði fyrir nemendur sem leggja aðaláherslu á nám og rannsóknir á því sviði og þá sem velja upplýsingatækni sem hluta af framhaldsnámi sínu. Margvísleg þátttaka í innlendum og fjölþjóðlegum verkefnum hefur verið einkennandi í tengslum við námið og námsbrautina. Nánari upplýsingar um þetta efni er að finna í sérstökum ítarefniskafla.

Íslenskir doktorar í tölvunarfræði

Samkvæmt yfirliti yfir doktorsritgerðir Íslendinga í tölvunarfræði á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni höfðu 28 Íslendingar lokið doktorsnámi í fræðigreininni frá því fyrsti doktorinn, Jóhann Malmquist, lauk doktorsprófi 1979 til 2013. Mögulega eru þeir fleiri. Þrír þeirra luku doktorsprófi frá íslenskum háskólum, tveir frá HR og einn frá HÍ og gerðist það undir lok sögutímabilsins, 2012-2013. 

Fleiri skólar og aukin fjölbreytni á háskólastigi

Lengi vel var Háskóli Íslands eini skólinn á háskólastigi sem bauð upp á nám í tölvunarfræði. Í lok níunda áratugarins[70] bættist Tölvuháskóli Verzlunarskóla Íslands (TVÍ) við og útskrifaði fyrstu kerfisfræðingana 1989 en skólinn breyttist í Háskólann í Reykjavík árið 1998, eftir að ný lög höfðu verið sett um háskóla árið áður.

Um markmiðið með námi í TVÍ segir Helga Sigurjónsdóttir aðstoðarkennslustjóri TVÍ í grein í Tölvumálum í maí 1996: „Í TVÍ hefur alltaf verið lögð áhersla á verklega hlið námsins og stefnt er að því að nemendur hafi öðlast verulega hagnýta þjálfun þegar þeir ljúka námi.“[71] 

TVÍ og síðar Háskólinn í Reykjavík lögðu mikla áherslu á að nemendur ynnu sín lokaverkefni í nánum tengslum og oft með stuðningi eða styrk frá fyrirtækjum, þar sem þeir hefðu starfsaðstöðu.[72]

Samstarfsaðili er í hlutverki verkkaupa gagnvart nemendum í verkhóp. Ætlast er til að nemendur hafi greiðan aðgang að tengilið, sem getur veitt upplýsingar um kröfur verkkaupa til verksins, og hafi tækifæri til að kynnast væntanlegum notendum. Í flestum tilvikum sér samstarfsaðili verkhópnum fyrir vinnuaðstöðu og faglegri aðstoð eftir því sem þörf er á.[73]

Tækniháskóli Íslands sinnti einnig tölvunarfræðikennslu, fyrst á framhaldsskólastigi og síðar á háskólastigi, er hann var færður upp á háskólastig árið 2002. Hann sameinaðist Háskólanum í Reykjavík árið 2005 undir nafni þess síðarnefnda. Kennsla í tölvunarfræði hefur verið við Háskólann á Akureyri með hléum frá því upp úr árþúsundamótum og er nú í samstarfi við HR eftir nokkurt hlé.[74]

Aukning á námsframboði – HR útskrifar flesta á nýrri öld

Háskólinn í Reykjavík hefur á nýrri öld haft forystu meðal íslenskra háskóla hvað varðar námsframboð og fjölda nemenda í upplýsingatækni og tölvunarfræði. Um 60–80% nemenda í tölvunarfræði á Íslandi hafa á seinustu árum stundað nám við skólann. Árið 2014 voru umsækjendur um nám í upplýsingatæknigreinum um fimm hundruð og inn voru teknir um þrjú hundruð. Það var talsverð aukning á nemendafjölda frá árunum á undan. HR var einmitt stofnaður formlega þegar mikil eftirspurn var eftir fólki með menntun í upplýsingatækni. Er netbólan sprakk minnkaði eftirspurn eftir kerfis- og tölvunarfræðingum um hríð. „Árið 2007 vorum við á forvitnilegum stað í upplýsingatækninámi,“ segir Ari Kristinn Jónsson rektor HR, sem þá kom heim frá Bandaríkjunum til að taka við forstöðu tölvunarfræðinámsins við skólann. „Það ár útskrifaði HR 20 af þeim 30 tölvunarfræðingum, sem útskrifuðust á landinu. Það var um það bil 10% af þörfinni þá. Þeir fóru allir til eins atvinnuveitanda, Landsbankans.“ Þar sem skólinn lagði sérstaka áherslu á að vera skóli atvinnulífsins var hafist handa við að fjölga fólki í upplýsingatæknigreinum við skólann og um haustið þar ár bárust sjötíu umsóknir um námið.

Margt hefur verið gert til að auka áhuga framhaldsskólanema á náminu og einnig hefur það verið kynnt í grunnskólum. Haldnar hafa verið forritunarkeppnir sem „laða ungt fólk að tæknigreinunum. Það er svo fjöldamargt sem keppir um athygli ungmenna og verður sífellt fleira. Keppnir eru leið til að gera námið sýnilegt fyrir fleira fólki og sýna fram á að það er hægt að keppa í fleiru en Morfís.“[75]

Þá hefur námsframboð verið aukið verulega á seinustu árum og þar er tekið mið af síbreytilegum þörfum atvinnulífsins. Árið 2014 voru alls um 900–1000 manns í námi á hinum ýmsu námslínum í upplýsingatækni við HR, bæði í tölvunarfræðideild og í þverfaglegu námi. Upp úr árinu 2010 fór að bera á eftirspurn eftir fólki, sem hefði sambland af tölvunarfræði- og viðskiptafræðimenntun, og slíkt nám var því sett á laggirnar með mismiklu vægi beggja námsgreinanna. „Þetta er langdýrasta, útselda vinnan hjá fyrirtækjunum, sem sóttust eftir þessu fólki,“ segir Ari.[76] Auk þess var meistaranámi í upplýsingastjórnun (information management) komið á til að mæta þörf atvinnulífsins fyrir slíka menntun.  

Menntun fyrir sjávarútveginn

Eitt af því sem hefur komið mörgum nemendum í upplýsingatækni á óvart er hversu tæknivæddur íslenskur sjávarútvegur er. Hugað hefur verið að því að bæta þar um enn betur og í því skyni gerðu Háskólinn í Reykjavík og Landsamband íslenskra útvegsmanna, LÍÚ, með sér samstarfssamning árið 2014, samning sem reyndar nær til fleiri greina en upplýsingatækni. Í frétt um það á vef HR 4. júní 2014 segir:

Sjávarútvegurinn er grunnatvinnuvegur á Íslandi og stendur undir fjölbreyttri atvinnustarfsemi. Hlutfall sjávarútvegs af öllum útflutningi vöru og þjónustu árið 2012 var rúmlega 28%. Þá benda greiningar Íslenska sjávarklasans til þess að áætla megi að sjávarútvegur standi með beinum og óbeinum hætti undir 15-20% starfa í landinu, en það samsvarar til 25-35 þúsund starfa. 

Það er því til mikils að vinna fyrir samfélagið í heild að efla enn frekar rannsóknir og nýsköpun í atvinnugreininni, meðal annars til að auka sjálfbærni, nýta afurðir eins vel og mögulegt er og skapa fleiri störf.

Þetta verður gert meðal annars með því að gera nemendum HR kleift að vinna nýsköpunarverkefni í starfsnámi hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og meistaranemum að tengja verkefni sín fyrirtækjum í greininni.[77]

Fyrirkomulagið hefur fallið í góðan jarðveg hjá nemendum og að sögn Ara Kristins Jónssonar rektors snýst samstarfið ekki síst um að „gefa nemendum hugmynd um hvað sjávarútvegurinn snýst um, sem er fyrst og fremst tækni, upplýsingatækni og viðskipti. Það er vandaverk að markaðssetja svo viðkvæma vöru sem sjávarafurðir eru. Það var líka gaman að sjá viðhorf nemenda til sjávarútvegs breytast. Og svo hefur verið dálítil keppni í kringum þetta samstarf og það hafði jákvæð áhrif.“[78]

Gagnvirkt íslenskunám á vegum háskóla

Icelandic Online er gagnvirkt og samfellt íslenskunámskeið á netinu. Fyrirrennari þess var verkefni sem kalla má „glorious failure", og hét Learning Icelandic. Árið 1978 fengu Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn og Háskólinn í Madison Wisconsin 25.000 dollara styrk frá A. W. Mellon-sjóðnum til að skilgreina verkefnið og vinna umsókn til sjóðsins. Það var gert fyrri hluta árs 1999 en Mellon-sjóðurinn hafði aðrar hugmyndir en komu fram í umsókninni og því fékkst ekki verkefnisstyrkur. 

Verkefnið var svo tekið upp hjá HÍ um mitt árið 2000 og þá fengust styrkir frá ýmsum aðilum og sumarið 2004 var vefurinn icelandiconline.is opnaður. Hann byggist á nýjustu rannsóknum í kennslufræði erlendra tungumála og einnig er stuðst við áralanga reynslu af íslenskukennslu við Háskóla Íslands. Beitt er nýjustu tæknilausnum til að kenna tungumálið og þjálfa helstu færniþætti málsins. Með kennslukerfinu hafa verið þróaðir stuðningsmiðlar, eins og málfræðigrunnur og rafræn orðabók. Námskeiðin eru bæði ætluðu háskólanemum og öðrum sem áhuga hafa á að læra íslensku hér á landi og erlendis eins og fram kemur á vef Háskóla Íslands. 

Í árslok 2014 voru yfir 150.000 skráðir á vefinn. Þar af höfðu um 40.000 sótt námskeið og um 600 til 700 eru virkir hverju sinni. 

 

[1] Þorsteinn Hallgrímsson, apríl 2015.

[2] O Benediktsson, J Gunnarsson, E B. Hreinsson, J Jakobsson, O Kaldalóns, O Kjartansson, O Rósmundsson, H Sigvaldason, G Stefánsson, J Zophoniasson: Computerisation of the Icelandic State and Municipalities: 1964 to 1985, Presented at The First Conference on the History of Nordic Computing, Trondheim, Norway, 15 - 17 June, 2003, Norwegian University of Science and Technology.

[3] Dr. Oddur Benediktsson í samtali við Ebbu Þóru Hvannberg  prófessor, viðtal á stafrænu formi, í vörslu bókasafns HÍ.

[4] Ebba Þóra Hvannberg, viðtal höf. 5. des. 2014.

[5] Viðtal Ebbu Þóru Hvannberg við Odd 2006. Upptaka varðveitt á skjalasafni Háskóla Íslands.

[6] http://www.sky.is/index.php/um-felagie/eldri-frettir/1464-andlat-oddur-benediktsson. Sótt á vefinn 19. feb. 2015.

[7] Anna Kristjánsdóttir. Viðtal tekið 3.11. 2014.

[8] Arnheiður Guðmundsdóttir. Viðtal tekið 15.10.2015.

[9] Anna Kristjánsdóttir, spjall á UTmessu, febrúar 2016.

[10] Arnheiður Guðmundsdóttir. Viðtal tekið 15.10.2015.

[11] Viðtal Ebbu Þóru Hvannberg við Odd Benediktsson 2006. Alþýðublaðið 23. feb. 1977. Bls. 4; TÖLVUNARFRÆÐI TEKIN UPP SEM SÉRGREIN VIÐ HÁSKÓLANN. Paper presented at History of Nordic Computing, Throndheim, June 2003 Early curricula in computer science at the University of Iceland.

[12] Alþýðublaðið 23. feb. 1977. Bls. 4.

[13] Viðbótarupplýsingar frá Jóhanni Malmquist, febrúar 2018.

[14] Gögn frá Jóhanni Malmquist, febrúar 2018.

[15] Ásrún Matthíasdóttir: Vandi nýnema í forritun. Tölvumál 1. tbl. 36. árg. 2011, bls.  36. 2015.http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/2011_proof_loka.pdf Sótt 14.11. 2015.

[16] Ágúst Guðmundsson um sinn útskriftarárgang, sem var einmitt 1984. Viðtal tekið 25.11.2015.

[17] Arnheiður Guðmundsdóttir, Ský, línurit: „Útskrifaðir BSc Comp. Science BÁÐIR 1976-2014.

[18] Byggt á tölvubréfi frá Gunnari Linnet frá 7. júní 2016.

[19] Sama heimild.

[20] Viðtal við Höllu Björgu Baldursdóttur 4. des. 2014; „Fyrsta íslenska kennslubókin um tölvumálið BASIC“. 19. júní, 1. tbl. 34. árg., bls. 30.

[21] Vilhjálmur Þorsteinsson. Viðtal tekið 9.9.2015.

[22] Gunnar Linnet, efni sent til Ský 7. júní 2016.

[23] Þetta kemur fram í sérblaði Tímans um tölvur 11.11.1982 þar sem rætt er við einn kennara skólanna í tölvufræði, Steinþór Diljar Kristjánsson stærðfræðing. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=278822&pageId=4019661&lang=is&q=t%F6lvur. Sótt 1.febrúar 2016.

[24] Viðtal við Höllu Björgu Baldursdóttur 4. des. 2014 og fyrirlestur hennar á fundi Ský 10. júní 1981, í fórum hennar.

[25] Tölvumál 6. tbl. 1983, 4. UM TÖLVUKOST OG TÖLVUKENNSLU Í VERZLUNARSKÖLA ÍSLANDS.

[26] Anna Kristjánsdóttur. Viðtal tekið 3.10.2014.

[27] http://www.simnet.is/konur/reynslusogur/anna_kristjansdottir.htm Tekið á netinu 21. mars 2015.

[28] Anna Kristjánsdóttir. Viðtal tekið 3.10.2014.

[29] Tölvumál september 1993, 45. Anna Kristjánsdóttir: Dæmi um upphaf tölvuvæðingar Íslenskir skólar.

[30] Upplýsingar frá Jóni B. Lorange í tölvubréfi 27. maí 2016. Jón kom sjálfur að því að byggja upp þessa fræðslu.

[31] Aðalnámskrá leikskóla 1999. http://brunnur.stjr.is/mrn/utgafuskra/utgafa.nsf/SearchResult.xsp?documentId=D26D13FDEBE9810C002576F00058D4C0&action=openDocument. Sótt 27.1. 2018.

[32] Aðalnámskrá leikskóla 2011. https://www.stjornarradid.is/verkefni/menntamal/namskrar/. Sótt 27.1.2018.

[33] Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir: ,,Notkun upplýsinga- og samskiptatækni í sex leikskólum.“ Desember 2004. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, bls. 6. ;,,Tölvur til að örva sköpunargáfu barnanna.“ Morgunblaðið, 22. september 1998, bls. 26.

[34] Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir: ,,Notkun upplýsinga- og samskiptatækni í sex leikskólum.“ Desember 2004. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, bls. 37.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild, bls. 67.

[37]  http://mennta.hi.is/vefir/namust/leikskkólar.htm. Sótt 27.1. 2018; Anna Elísa Hreiðarsdóttir, janúar 2018.

[38] Sólveig Jakobsdóttir: Nýting upplýsingatækni í kennslu. Símenntun og starfsþróun kennara í og með upplýsingatækni. Tölvumál 1. tbl. 36. árg. 2011, bls. 7. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/2011_proof_loka.pdf. Sótt 14.11. 2015.

[39] Síðar lengt í 36 stundir.

[40] Tölvumál september 1993, 46-47. Anna Kristjánsdóttir: Dæmi um upphaf tölvuvæðingar Íslenskir skólar.

[41] Morgunblaðið 6. nóvember 1985, 32-33. Einkabréf til ráðherra — frá Önnu Kristjánsdóttur.

[42] Anna Kristjánsdóttur. Viðtal 3.10. 2014.

[43] Sama heimild.

[44] http://www.ismennt.is/main.asp?id=1&uid=1

[45] Í vist hjá IBM. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Reykjavík 2008, bls. 188

[46] Dagblaðið 20. nóv. 1979; smáauglýsingar.

[47] Morgunblaðið 3. feb. 1980 Heimilistölvur, liður í sjálfvirkni framtíðarinnar! 24.

[48] http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=278822&pageId=4019661&lang=is&q=t%F6lvur. Sótt 1.febrúar 2016.

[49] Vikan 19. tbl. 10. maí 1984. Kynning á tölvuskólum ; DV 12. nóv. 1982. Tölvufræðsla Stjórnunarfélagsins: Fyrir stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja.

[50] Morgunblaðið 25. mars 1984, auglýsing.

[51] Morgunblaðið 23. maí 1984, 24. Tölvukennsla á landsbyggðinni.

[52] Tölvunámskeið – aukin samkeppni. Dagblaðið VísirDV, 12. febrúar 1992, bls. 18. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=193899&pageId=2594881&lang=is&q=Tölvuskóli Tölvuskóli Tölvuskóli Reykjavíkur Tölvuskóli. Sótt 6.12.2015.

[53] Sama heimild.

[54] Arnlaugur Guðmundsson fékk til að mynda fyrsta netfangið sitt hjá skólanum. Viðtal tekið 2.9. 2015.

[55] Viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Fjarðarpósturinn. 23.1.1997. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=360121&pageId=5789408&lang=is&q=N%FDi%20t%F6lvu%20og%20vi%F0skiptask%F3linn%20og

[56] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 5.10.2015.

[57] Ávarp Jóhanns Gunnarssonar við setningu ráðstefnunnar Skólastarf og upplýsingatækni. Tölvumál, x. tbl. x. árg. október 1996, bls. 5.

[58] Svana Helen Björnsdóttir. Viðtal tekið 20.10.2015; Ari Kristinn Jónsson. Viðtal tekið 27.11.2015.

[59] Ásrún Matthíasdóttir og Kristine Helen Falgren: Konur og tölvunarfræði. Tölvumál, 1. tbl. 38. árg., október 2013, bls. 49. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/Tolvumal_2013.pdf. Sótt 15.11.2015.

[60] http://www.ru.is/haskolinn/frettir/nr/30762

[61] http://www.visir.is/nyskopunarsjodur-fjarfestir-i-mentor/article/200770630039

[62] http://www.sky.is/index.php/9-felagidh/1679-2014-ut-verdhlaun-sky

[63] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 16.9.2015.

[64] Hvert er frumskilyrði nútíma tölvunotkunar? Vikan 9. tbl. 46. árg. 1984, bls. 36-37. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=299622&pageId=4504334&lang=is&q=vélritun Vikan

[65] Halldór Kristjánsson. Viðtal tekið 5.10.2015.

[66] Sigrún Eva Ármannsdóttir. Viðtal tekið 28.10. 2015.

[67] Oddur Benediktsson: Tillaga um MS nám í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. Tölvumál, 4. tbl. 21. árg, bls. 23.

[68] Ebba Þóra Hvannberg: M.S.-nám við tölvunarfræðiskor Háskóla Íslands. Tölvumál, 4. tbl. 23. árg. 01.12.1998, bls. 9.

[69] Oddur Benediktsson: Tölvunarfræði við Háskóla Íslands í tuttugu og fimm ár. Algrímur. Fréttablað útskriftarnema í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. 1. tbl. 3. árg. 2003, án blaðsíðutals.

[70] 1988.

[71] Helga Sigurjónsdóttir:  Lokaverkefni við tölvuháskólann. Tölvumál, 2. tbl. 21. árg. maí 1996, bls. 27.

[72] Björg Birgisdóttir: Viðskiptaháskólinn í Reykjavík. Tölvumál, 4. tbl, 23. árg, 01.12. 1998, bls. 5.

[73] Helga Sigurjónsdóttir:  Lokaverkefni við tölvuháskólann. Tölvumál, 2. tbl. 21. árg. maí 1996, bls. 28.

[74] Í grein Odds Benediktssonar er sagt að hún hafi hafist árið 2001 en í frétt í Vísi er greint frá því að námið hafi fallið niður skólaárið 2008-2009 vegna lítillar aðsóknar og kennurum þá sagt upp. Námið var tekið upp að nýju eftir nokkurra ára hlé, árið 2015, og þá í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Oddur Benediktsson: Svipmyndir af kennslu í upplýsingatækni. Í vist hjá IBM. Tekið hefur saman, skrásett og ritstýrt Sverrir Ólafsson, Reykjavík 2008, bls. 196-197; visir.is, 22. ágúst 2008. http://www.visir.is/haskolinn-a-akureyri-innritar-ekki-nemendur-i-tolvunarfraedi-i-ar/article/200811135887. Sótt 3.10.2015.

[75] Ari Kristinn Jónsson. Viðtal tekið 27.11.2015.

[76] Sama heimild.

[77] http://www.ru.is/haskolinn/frettir/nr/30952

[78] Ari Kristinn Jónsson. Viðtal tekið 27.11.2015.