Skip to main content

Tölvunotkun og hugbúnaður á heilbrigðissviði

Tölvunotkun og hugbúnaðargerð fyrir heilbrigðiskerfið er svið sem býður upp á mörg tækifæri og hefur skilað áður óþekktum árangri. Sviðið er stórt, tilraunirnar margar, sumar hafa heppnast vel, annað látið á sér standa.

Læknar sýndu möguleikum tölvuvinnslu snemma áhuga. Helgi Sigvaldason verkfræðingur segir svo frá því er hann var að vinna á Reiknistofnun Háskóla Íslands á sjöunda áratugnum að þá þegar hafi þessi áhugi einstakra lækna verið orðinn sjáanlegur.

Árin 1964 til 1969 vann ég á Reiknistofnun Háskóla Íslands (RHÍ) og kom þá í minn hlut að halda kynningarfyrirlestra um tölvur og tölvunotkun við læknadeild Háskóla Íslands. Nemendur létu lítið sjá sig, enda sjálfsagt haft nóg um að hugsa í náminu, en nokkrir prófessorar voru ótrúlega þolgóðir við að mæta. Minnist ég sérstaklega þeirra Sigurðar Samúelssonar, Ólafs Bjarnasonar, Ásmundar Brekkan og Tómasar Helgasonar, en fyrir þá vann ég að verkefnum seinna. Mikill skortur var á mönnum í tölvuvæðingu læknisfræðigagna og síðan í tölfræði við úrvinnslu þessara gagna fyrir greinaskrif í alþjóðleg læknisfræðitímarit, ásamt því að skrifa ritgerðir sem hluta af vinnu við að fá sérfræðiréttindi og doktorsritgerðir, og þróunin varð sú að ég sneri mér sífellt meira að þessu og vann nálega eingöngu á þessu sviði síðustu 20 árin sem ég starfaði (1985-2007).[1]

BSP.velbunadur.skyrr
Vélbúnaður SKÝRR í árslok 1978 þar sem fram kemur að SKÝRR sjái meðal annars um tölvuvinnslu (RJE) fyrir Borgarspítalann. Tölvumál, maí 1979.

Sjúkrahúsin fóru snemma að huga að tölvuvæðingu. Milli spítalanna tveggja á höfuðborgarsvæðinu var nokkur verkaskipting á þessum tíma. Borgarspítalinn var með bráða- og slysaþjónustu fyrir allt höfuðborgarsvæðið fram til þess að spítalarnir sameinuðust í Landspítala – háskólasjúkrahús. Borgarspítalinn var meðal annars kominn með rannsóknarstofukerfi á undan Ríkisspítölunum, keypt frá IBM, gatað þar og keyrt, en síðan notað á spítalanum. Það var ekkert sérlega fullkomið og síðar skrifaði Elías Davíðsson sérstakt rannsóknarkerfi fyrir spítalann. Það kerfi var notað hjá spítalanum í þónokkur ár á áttunda áratugnum.[2] Í myndrænu yfirliti yfir vélbúnað SKÝRR í maí 1978 sem birtist í Tölvumálum[3] kemur fram að SKÝRR er þá þegar með vinnslu (RJE-vinnslu) fyrir Borgarspítalann.[4]

Tölvudeild var formlega stofnuð á Borgarspítalanum árið 1974 og var Halldór Friðgeirsson fyrsti yfirmaður hennar. Í grein í Morgunblaðinu af því tilefni kemur þó fram að aðdragandinn er mun lengri:

… regluleg tölvunotkun við upplýsingavinnslu hefur verið við rannsóknardeild síðan 1966, þar af daglega frá 1968, við röntgendeild síðan 1966 og við sjúklingabókhald og slysadeild síðan 1966. … Rannsóknadeild er með langstærsta tölvuverkefnið. Á deildinni eru framkvæmdar um 120 mismunandi rannsóknir á ýmsum sýnum úr mannslíkamanum.[5]

Eggert Ó. Jóhannsson yfirlæknir rannsóknardeildar Borgarspítalans var mikill frumkvöðull í tölvuvæðingu rannsóknardeildarinnar og Ólöf Jónsdóttir kerfisfræðingur, sem var ein fyrsta konan til að vinna við forritun á Íslandi, tók einnig þátt í þessu starfi.

Rannsóknarstofukerfið – þegar meinatæknar komust heim klukkan fjögur

Gunnar Ingimundarson, lengst af starfandi hjá Ríkisspítölum/Landspítalanum, hafði unnið í nokkur ár hjá IBM þegar hann var fenginn til að byggja upp tölvudeild hjá Landspítalanum árið 1980. Þótt IBM hafi unnið mikið fyrir spítalana hafði Gunnar ekki verið í þeim verkefnum, Elías Davíðsson hafði þau nánast einn á hendi. Á þessum tíma var svo gott sem engin tölvuvinnsla á aðalspítalanum en spítalinn hafði fengið gefins tölvu. Upp kom sú hugmynd að fara að byggja upp rannsóknarstofukerfi, því ekkert kerfi fylgdi með tölvunni og menn vissu ekki alveg hvað þeir áttu að gera við hana. Tölvudeildin fór fljótlega að sinna fleiri verkefnum, eftir því sem unnt var. Fyrst í stað var Gunnar einn í deildinni en fljótlega fékk hann fleiri í lið með sér. Fyrst kom Svanhildur Ásgeirsdóttir, hún hafði sótt námskeið hjá Reyni Hugasyni og lært á Apple-tölvu, þá kom viðskiptafræðimenntaður maður úr tæknideildinni og loks „strákar úr háskólanum“ sem Gunnar hafði kennt. Þeir forrituðu kerfi fyrir ýmsar stoðdeildir spítalans, til dæmis lyfjabúr.

Niðurstaðan varðandi rannsóknarstofukerfið varð að skrifa það ekki frá grunni heldur fá sænskt kerfi og aðlaga það þörfum spítalans. Á endanum var kerfið reyndar endurskrifað nánast alveg og tók tvö ár að fá það til að virka vel. Kerfið fylgdist með öllu sem gert var á rannsóknarstofu frá A til Ö og sparaði mikla vinnu, svo mikla að vinna meinatæknanna minnkaði verulega og þeir voru búnir í vinnunni um klukkan fjögur. „Það tók nokkuð langan tíma að laga sig að þessu og sumir höfðu einfaldlega lítið að gera,“ segir Gunnar.[6] Ríkisspítalarnir fóru fljótlega í samvinnu við SKÝRR um ýmis verkefni, svo sem kerfi fyrir sjúklingabókhald og Blóðbankann. Notaðir voru stórir skjáir sem tengdir voru beint við tölvuna hjá SKÝRR. „Það virkaði svo sem ágætlega en hafði sínar takmarkanir, bauð bara upp á tölur og bókstafi. Engar myndir voru mögulegar í þessu kerfi. Við fórum aldrei að neinu ráði yfir í mini-tölvuheiminn, það voru einhverjar slíkar til, en næsta skref var að fara yfir í einkatölvurnar og kerfi sem byggðust á þeim. Við skrifuðum fullt af kerfum fyrir einkatölvur, meira að segja kerfi sem við seldum til útlanda.[7]

Borgarspítalinn var kominn með vísi að sjúklingabókhaldskerfi á svipuðum tíma, en kerfi stóru spítalanna tveggja voru þróuð hvort í sínu lagi, ekki fékkst leyfi til að nota sama kerfið eða færa á milli því um tvo mismunandi rekstraraðila var að ræða og kannski var ekki vilji fyrir hendi. „Þetta var pólitík,“ segir Gunnar Ingimundarson.[8]

Sjúklingabókhald – fyrsta skref á langri leið

Tölvumiðlun var í samstarfi við erlenda aðila og IBM um að koma upp sjúklingabókhaldi sem boðið var aðilum víða um land og fyrst sett upp á Akranesi og á Landakoti en síðan á öllum sjúkrahúsum á landinu nema Landspítalanum og Borgarspítalanum. Fyrirtækið sá þó um hluta þjónustunnar við síðarnefnda sjúkrahúsið.[9] Á vef Tölvumiðlunar var að finna stutt ágrip af starfi fyrirtækisins á heilbrigðissviði.

Á árinu 1988 setti Tölvumiðlun upp upplýsingakerfi fyrir sjúkrahús ásamt skrifstofukerfi fyrir ritara. Í framhaldi af uppsetningu upplýsingakerfa sjúkrahúsa hóf Tölvumiðlun markaðssetningu á hinum ýmsu hugbúnaðarkerfum fyrir sjúkrahús.

Kerfin voru kynnt undir heitinu HUS (Heildar Upplýsingakerfi Sjúkrahúsa). Um var að ræða göngudeildarkerfi fyrir hinar ýmsu deildir sjúkrahúsa ásamt leguskráningarkerfi. Tölvumiðlun hefur átt mikið og gott samstarf við Sjúkrahús Reykjavíkur, nú Landsspítalann Háskólasjúkrahús, sem hefur allt frá 1995 notað LEGU legudeildarkerfi og HUS-RIS bókunarkerfi fyrir röntgendeildir. [10]

Tölvumiðlun færði síðan þann hluta hugbúnaðarþróunar sinnar sem laut að heilbrigðiskerfum yfir til eMR, sem nánar er fjallað um síðar.

Þegar Arnheiður Guðmundsdóttir kom til starfa á tölvudeild Ríkisspítalanna árið 1986 voru sérsmíðar tölvukerfa algengar. Hún vann að kerfi fyrir skurðstofur þar sem haldið var utan um allar svæfingar og aðgerðir sem framkvæmdar voru á spítalanum. Þetta var ítarlegt kerfi og sá um allt sem við kom skurðstofum, skurðlæknum og skurðhjúkrunarfræðingum. Notaðir voru gátlistar sem meðal annars héldu utan um tuskur og tól og sannreyndu að allt sem hefði verið notað væri á sínum stað áður en skurðinum á sjúklingnum væri lokað. Kerfin voru skrifuð í Clipper, þýðanlegri útgáfu af dBase, ofan á DOS-stýrikerfi, en þetta var fyrir tíma Windows.[11]

Tölvuþekking á sviði krabbameinsrannsókna og röntgenkerfi

Oddur Benediktsson og síðar Björgvin Gunnlaugsson voru frumkvöðlar í því að byggja upp kerfi fyrir krabbameinsrannsóknir í fyrirtækinu Tölvuþekkingu, upphaflega í samstarfi við Landspítalann. Skráningarkerfið var skrifað í dBase en fljótlega var farið að nota Clipper eins og í fleiri sjúkrahúskerfum. Mörg ljón voru á veginum og í allítarlegri úttekt Björgvins í Tölvumálum árið 1992 má sjá við hvað var að eiga.

Upphafið má rekja til samstarfs Norðurlanda, sem hófst árið 1984 í því skyni að þróa nýja tækni fyrir krabbameinslækningadeildir, ekki síst viðkvæma og flókna geislameðferð. Verkefnið nefndist CART (Computer-Aided Radiation Therapy). Landspítalinn og Tölvuþekking tóku verkefnið að sér. CART-hluta verkefnisins lauk 1987 en þá voru enn ýmsir ágallar á kerfinu. Í kjölfarið var Björgvin Gunnlaugsson ráðinn í að vinna að uppbyggingu framhalds þessa kerfis og var áherslan á að búa til kerfi sem gagnaðist daglegri starfsemi krabbameinsdeildarinnar og skráði í leiðinni nauðsynlegar upplýsingar.

Við opnun K-byggingar Landspítalans 1988 var tekið í notkun einfalt bókunarkerfi um heimsóknir sjúklinga til lækna og í meðferð. Í framhaldi af því voru skilgreind meðferðarskemu. Tölvuþekking var gerð að hlutafélagi kringum þessa þróunarstarfsemi sama ár með þátttöku Odds, Ríkisspítalanna og Tækniþróunar hf. Þá var farið að huga að sölu kerfisins erlendis og gekk hún nokkuð vel.[12] Kerfið var fyrst selt til sjúkrahússins í Odense í Danmörku árið 1989 og í kjölfarið fylgdi Sahlgrenska-sjúkrahúsið í Gautaborg 1990 og sjúkrahúsið í Lundi um svipað leyti. Vonir um að selja dönsku ríkisspítölunum kerfið brugðust hins vegar og kerfið seldist ekki utan Norðurlandanna. Fleiri ljón voru á veginum. Eigendaskipti urðu að hluta, Oddur seldi mestallan sinn hlut og Ríkisspítölunum var gert að losa sinn hlut úr samstarfinu. Það olli Gunnari Ingimundarsyni, fulltrúa spítalanna, miklum vonbrigðum: „Þegar við vorum komin á þetta stig og með góða hluthafa og áttum sjálf hlutafé inni í þessu fyrirtæki þá var okkur [Ríkisspítölum] bannað að taka þátt í þessu samstarfi. Fengum skipun að ofan að við yrðum vessgú að selja okkar hlut.“[13] Einnig hvarf Tækniþróun úr samstarfinu um svipað leyti. Tölvumiðlun hf. tók við stórum hluta hlutabréfa í Tölvuþekkingu.

P0000744
Skrifað undir samninga um sölu Tölvuþekkingar til Eastman Kodak í september 2000.

Fljótlega eftir þetta hóf Tölvuþekking (undir heitinu Computer Knowledge) samstarf við fyrirtækið Eastman Kodak um gerð kerfis fyrir röntgendeildir er byggt skyldi á sama grunni og krabbameinskerfið. Þetta kerfi fékk nafnið RIS 2010 og keyrði á Windows-stýrikerfinu. Kerfið var fyrst sett upp á sjúkrahúsinu í Randers í Danmörku árið 1995 og reyndist vel. Á næstu árum var það selt til fjölda sjúkrahúsa víðs vegar um heim gegnum sölukerfi Kodak og rættist loks draumurinn um sölu til dönsku ríkisspítalanna.

Samstarfið við Kodak gekk vel og svo fór að lokum að Kodak keypti allt hlutafé í Tölvuþekkingu í september 2000. Eftir þetta var RIS 2010 þróað áfram af Tölvuþekkingu og af forritunarteymi hjá Kodak Kanada. Tölvuþekking var starfrækt á Íslandi sem dótturfyrirtæki Kodak til ársins 2006 er því var lokað og þróun RIS 2010-kerfisins alfarið flutt til Kanada.[14]

Sjúkraskrárkerfin

Starri, Hippocrates, Medicus, Saga og Gagnalind

Umræða um möguleika á tölvuvæðingu heilbrigðiskerfisins í heild hefur af og til skotið upp kollinum, ekki síst hvað varðar samhæfð sjúkraskrárkerfi. Tilraun var gerð í samstarfi nokkurra lækna og Hugtaks hf. á árunum 1985–1990 um að aðlaga bandarískt hugbúnaðarkerfi íslenskum aðstæðum.

Nýtt hugbúnaðarfyrirtæki, Hugbúnaðarfélag Íslands hf., hefur verið stofnað í Reykjavík og hyggst félagið leggja sérstaka áherslu á tölvuvæðingu íslenska heilbrigðiskerfisins og ráðgjafarstarfsemi á því sviði. Stofnun félagsins er ávöxtur af fimm ára samstarfsverkefni hugbúnaðarfyrirtækisins Hugtaks hf. og heilsugæslunnar Álftamýri, einkum læknanna Ólafs Mixa og Sigurðar Arnar Hektorssonar, við að aðlaga og þróa bandaríska hugbúnaðarkerfið Costar frá Harvard Community Health Care Plan og Massachusetts General Hospital.

Hugbúnaðarkerfið, sem hlotið hefur nafnið Starri á íslensku, hefur verið í fullri notkun í Heilsugæslunni Álftamýri frá 1. júlí 1989. Kerfið skráir samskipti allra lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna á heilsugæslustöðvum auk annarrar heilsufarslegrar skráningar. Kerfið verður einnig unnt að nota á öllum sjúkrahúsum landsins […]

Í kerfinu er einnig gert ráð fyrir skráningu ýmissa félagslegra atriða er varða heilbrigði, sjúkdóma og örorku, bæði einstaklinga og fjölskyldna. Með hjálp tölvuforritsins er unnt að koma á skipulögðu heilsufarseftirliti einstaklinga og áhættuhópa með reglubundinni innköllun fólks til læknisskoðunar og mats á áhættuþáttum.[15]

Þremur árum síðar voru þrjú sjúkraskrárkerfi sameinuð í fyrirtækinu Gagnalind hf. en þau höfðu átt ýmislegt sameiginlegt og jafnvel var hugað að útflutningi þessa hugbúnaðar til annarra landa ef vel tækist til.

AÐSTANDENDUR þriggja sjúkraskrárkerfa stofnuðu um sl. áramót fyrirtækið Gagnalind hf. og er þar með samankomin á einum stað öll þekking hér á landi á gerð tölvuvæddra sjúkraskrárkerfa fyrir heilbrigðisþjónustuna. Þetta eru sjúkraskrárkerfin Hippocrates, Medicus og Starri en þau hafa verið notuð á heilsugæslustöðvum, göngudeildum og öðrum heilbrigðisstofnunum hérlendis um árabil. Hlutafé hins nýja fyrirtækis er 15 milljónir.

Þróun á hugbúnaði fyrir heilbrigðisþjónustuna hér á landi hófst árið 1985. Á síðustu árum hefur Medis verið með Medicus hugbúnaðinn, Hugbúnaðarfélag Íslands var með Starra og Radíóbúðin stóð að gerð Hippokrates. Samkvæmt upplýsingum Guðmundar Ingva Sverrissonar, læknis, sem unnið hefur að þróun hugbúnaðarins, komust aðstandendur fyrirtækjanna að þeirri niðurstöðu að ekki væri grundvöllur fyrir fleiri en eitt fyrirtæki á þessu sviði og samvinna myndi leiða til vandaðri þróunar og auka útflutningsmöguleika. […] Gert er ráð fyrir að þróun og hönnun á næstu útgáfu geti tekið allt að 2 ár. […]
Í desember sl. afhenti Gagnalind sjúkraskrárkerfi á fjórar heilsugæslustöðvar og er tölvuvædd sjúkraskrá nú í notkun hjá 16 stöðvum. […] Stærstu hluthafar Gagnalindar eru Þróunarfélagið, Myndmál, Radíóbúðin og Tæknival.[16]

Saga
Gagnalind einbeitti sér þó aðallega að því að þróa nýtt kerfi sem hlaut nafnið Saga. Starfið var fjármagnað með tekjum af sölu og þjónustu gömlu kerfanna, hlutafé og styrkjum frá Rannís auk áhættufjár og framlögum frá opinberum aðilum til þróunarstarfs. Um Sögu segir í viðtali í Morgunblaðinu 1993:

Saga er alhliða sjúkraskrár- og upplýsingakerfi sem nota má á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, stofum sérfræðinga, hjá sjúkraþjálfurum og fleiri hópum innan heilbrigðiskerfisins. Kerfið hefur verið þróað til að auðvelda skráningu, yfirlit og umsjón með samskiptum heilbrigðiskerfisins og sjúklings og skráningu sjúkrasögu hans [svo]. Kerfið má annars vegar nota í daglegu starfi lækna, hjúkrunarfræðinga og fleiri stétta og hins vegar til að vinna í rannsóknarskyni með upplýsingar um árangur meðferðar, samanburð á lyfjum, kostnað og fleira. Saga heldur utan um aðsókn, sjúkdómsgreiningar, aðgerðir, hjúkrun, lyfjanotkun, legudaga og fleira.[17]

Saga hefur náð talsverðri útbreiðslu og verið notað á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum, einkareknum stöðvum og á hjúkrunarheimilum. Um samtengingu kerfisins við önnur kerfi er nánar fjallað í kaflanum um samtengingu rafrænna sjúkraskráa.

eMR
Sex árum eftir sameiningu þriggja fyrirtækja í Gagnalind hf. urðu ákveðin umskipti í starfsemi fyrirtækisins. Landssíminn og Íslensk erfðagreining keyptu 20% hlut hvort í fyrirtækinu í byrjun árs 1999 og undir lok sama árs var fyrirtækið eMR stofnað. Yfirtók fyrirtækið þá 75% hlutafjár í Gagnalind. Tækifærin sem menn sáu fyrir sér voru margvísleg og fyrirtækið hafði margt fleira en sjúkraskrár á sínum snærum.

FYRIRTÆKIÐ eMR hefur verið stofnað til að vinna að þróun upplýsingakerfa fyrir heilbrigðisstofnanir. Að stofnun eMR standa Tölvumiðlun hf sem á 26% hlut, Íslensk erfðagreining sem á 20% hlut, Landssími Íslands sem á 20% hlut, Hugvit sem á 14% hlut, FBA sem á 15% og Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn sem á 5% hlut. Nafnverð hlutafjár hins nýja fyrirtækis verður 100 milljónir króna. Talið er að ráða þurfi tugi starfsmanna til hins nýja fyrirtækis.

Sá hluti Hugvits og Tölvumiðlunar, sem unnið hefur að þróun upplýsingakerfa fyrir heilbrigðisstofnanir, flyst yfir í nýja fyrirtækið. Auk þess yfirtekur eMR 75% af hlutabréfum í Gagnalind hf. sem áður voru í eigu Íslenskrar erfðagreiningar og Landssímans. eMR og Gagnalind munu vinna náið saman og er stefnt að því að fyrirtækin sameinist sem fyrst til að efla þróunarstarfið enn frekar.[18]

Tölvumiðlun átti hlut í Tölvuþekkingu og sá Tölvuþekking um þróun röntgenkerfisins:

Tölvumiðlun og Gagnalind hafa verið með stærstu fyrirtækjum, hvort á sínu sviði, innan upplýsingatækni fyrir heilbrigðisgeirann. Tölvumiðlun hefur þróað röntgendeildakerfi og legudeildakerfi en Gagnalind sjúkraskrárkerfi og nýta 82 heilsugæslustofnanir hugbúnað Gagnalindar.

Ágúst Guðmundsson er framkvæmdastjóri eMR. Hann segir að þau fyrirtæki sem hér snúi bökum saman hafi hvert um sig verið í fremstu röð á sviði hugbúnaðargerðar fyrir heilbrigðisstofnanir.[19]

eMR rann síðan inn í TM Software og þannig fór Saga þangað inn líka.

Umslag með rútu á bensínstöð öruggara en rafræn sending?

Ágúst Guðmundsson, sem virkan þátt tók í þessum tilraunum á heilbrigðissviði, segir að þrátt fyrir vilja fólks til að byggja upp og samræma upplýsingakerfi hafi tregðu og tortryggni gætt. Í Danmörku var sett það markmið að vera komin með starfhæft heilbrigðisnet fyrir árið 2000 en hér á landi hafi verið talað um það, en minna orðið úr framkvæmdum. Ágúst hafði fylgst með tölvuvæðingu í heilbrigðiskerfinu frá árinu 1986 þegar Tölvumiðlun var að vinna fyrir Borgarspítalann. Almennt finnst honum að ríkt hafi forneskja í því að fá fólk til að tengja saman og samræma kerfin og lítill vilji til að leggja fé í slík kerfi. Íslenskir ráðamenn hafi ekki verið tilbúnir að greiða nema brot af því sem sambærileg kerfi kostuðu erlendis. Ýmislegt, svo sem rafræn sending lyfseðla, hafi ekki komist á rekspöl fyrr en áratug of seint. Á meðan ekki þótti öruggt að senda lyfseðla rafrænt var hins vegar verið að senda þá með faxi! Annað dæmi sem Ágúst nefnir um tortryggni fólks í garð tækninnar varðar starfsemi sjúkrastofnunar sem var með útstöð á frekar fáförnum slóðum úti á landi. Sjúkrastofnunin var með sjúkraskráningarkerfið Sögu. En í stað þess að nota kerfið til að flytja upplýsingar um sjúklinga rafrænt milli landshluta (og nota ISDN-tengingu til þess) þá hafi verið hafður sá háttur á að setja upplýsingarnar í umslag, umslagið í rútu sem skildi það eftir á bensínstöð í næsta þéttbýliskjarna og þangað var það sótt.[20] Allt fyrir öryggið.

Stiki – lausnir vantar fyrir eldra fólk

Fyrirtækið Stiki, sem stofnað var árið 1992, hefur nokkra sérstöðu í gerð hugbúnaðar á heilbrigðissviði. Fyrirtækið hefur unnið mikið á sviði heilbrigðismála og þróað hugbúnað til að meta heilsufar fólks og gæði heilbrigðisþjónustu, en annars er fyrirtækið alhliða ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í gagnavernd, tölvuöryggi og öryggismálum upplýsingakerfa.

293
Stjórn Ský árið 2003-2004 hélt vinnufund hjá Stika í Síðumúla 34 veturinn áður en Svana Helen Björnsdóttir tók við formennsku í Ský 2004. Myndin var tekin við það tækifæri.

Bæði fyrirtækið og margir viðskiptavina þess hafa lagt upp úr því að vera með vottun frá faggildum vottunarstofum. Stiki hefur unnið heilsumatshugbúnað til að hjálpa viðskiptavinum við ákvarðanatöku. Í heilbrigðisgeiranum skortir víða fjármuni og umönnun fólks og lækningatæki eru dýr, þannig að þar mætti ætla að mikil þörf væri fyrir það að þróa hagkvæmar lausnir. Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Stika, segir þó að það vanti nýsköpunarhvata í umhverfi heilbrigðiskerfisins. Að sumu leyti er þetta ekki freistandi geiri fyrir fjárfesta, því ekki er alltaf hægt að sýna fram á skjótan fjárhagslegan gróða eða mikla arðsemi. Stiki hefur því verið drifinn áfram af áhuga fremur en ábatavon. Samhljóm hefur vantað hjá stjórnmálamönnum um afstöðuna til einkavæddrar heilbrigðisþjónustu, að hennar mati. Margir hafa þó lagt út í einkarekstur, svo sem meltingarlæknar, augnlæknar, bæklunarlæknar og fyrirtækið Art Medica.

Svana Helen ritaði á árinu 2015 átta greinar með Pálma V. Jónssyni öldrunarlækni til að vekja athygli á stöðu eldra fólks í heilbrigðiskerfinu. Henni finnst það skjóta skökku við hvernig þjónustu við þennan hóp er háttað, Landspítalinn geti ekki tekið við öllum, hjúkrunarheimilin, sem séu dýrasti kosturinn, séu staður sem margt fólk vilji í raun síst fara á. Því sé mikilvægt að líta á þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti og breyta heilbrigðisþjónustu við það. Þegar fólk eldist verði alls konar breytingar á högum þess, það hættir að vinna og sumir missa maka. Breyttum aðstæðum geta fylgt kvíði og einmanaleiki auk þess sem líkamlegir kvillar svo sem rýrnun beina og vöðva koma fram. Þetta veldur færnitapi sem eykur enn meira á kvíða og depurð. Henni finnst skorta mikið á að unnið sé heildrænt að lausnum á úrræðum fyrir þennan aldurshóp. Í því skyni er hugbúnaður Stiku þróaður, að geta lagt vísindalegt mat á aðstæður og úrræði.

Tilgangi hugbúnaðarins er best lýst í grein Svönu og Pálma V. Jónsson öldrunarlæknis: „Fyrirtækið Stiki ehf hefur tölvuvætt notkun matstækjanna en með því móti má fá heildarsýn á viðfangsefni og forgangsraða þeim á augabragði.“[22] Ýmiss konar tæknilausnir hafi verið þróaðar til að mæta færnitapi og mikilvægt sé að stjórnvöld skapi hvata til nýsköpunar á hagnýtum heilsutengdum lausnum. Slíkar tæknilausnir sem settar séu inn á heimili fólks geti aukið lífsgæði eldri borgara verulega. Unnt sé að koma boðum til aðstandenda ef eitthvað bjátar á eða kalla eftir aðstoð. Heilsumatshugbúnaður Stika og hin heildræna nálgun við mat á þjónustuþörf er byggð á alþjóðlegri aðferðafræði. Við meðhöndlun og úrvinnslu heilsufarsupplýsinga er þó mikilvægt að gæta í alla staði persónuverndarsjónarmiða, og á það leggur Svana Helen mikla áherslu.[23]

Samtenging rafrænna sjúkraskráa loks að verða að veruleika

Í tímaritinu Tölvumálum 2013 var enn rætt um rafrænar sjúkraskrár.

Framþróun á rafrænni tækni og þjónustu fleygir ört fram. Ýmsum daglegum erindum sem áður var sinnt í gegnum persónuleg samskipti eru í dag leyst með gagnvirkum rafrænum hætti. … Með rafrænni tækni er þjónustan færð til viðskiptavinarins sjálfs.

Neytendur nútímans geta nýtt sé margvíslega þjónustu með símann einan að vopni; þeir geta til að mynda pantað sér miða í leikhús, bókað ferð til útlanda og sinnt helstu bankaviðskiptum og erindum innan stjórnsýslunnar. Þrátt fyrir þessa gríðarlegu umbyltingu hefur hún enn ekki náð að festa sig í sessi innan heilbrigðisþjónustunnar.[24]

Síðan er sjónum beint að þeim viðhorfum sem séu til rafrænnar sjúkraskrár á Íslandi og hvort hún sé gagnlegt tæki fyrir neytendur og þjónustuaðila. Ennfremur hvort slík skrá gæti leitt til þess að sjúklingar verði sjálfstæðari og þjónustan persónulegri og frekar sniðin að þörfum sjúklingsins en stofnananna. Könnun var gerð vorið 2013 og var rannsóknin hluti af lokaverkefni í MPM-námi við Háskólann í Reykjavík kannaði viðhorf heimilislækna:

Helstu niðurstöður sýndu að áhyggjur læknanna sneru að öryggi persónuupplýsinga og því að tæknin myndi ekki draga úr vinnuálagi heldur fremur auka það.

Í svörum læknanna um siðferðileg málefni skein í gegn áhyggjur þeirra af gagnaöryggi. Höfðu þeir meðal annars áhyggjur af því að starfsmenn í heilbrigðisstétt myndu hnýsast í sjúkraskrár einstaklinga sem ekki væru í meðferð hjá viðkomandi. Fullyrt var í könnuninni að með notkun á gagnvirkum samskiptum með tvíhliða heilsugátt myndi gæði þjónustu heilsugæslunnar batna og með rafrænum samskiptum myndi álag á starfsfólk minnka. Svarendur tóku ekki alfarið undir þá staðhæfingu. Í beinum svörum ræddu nokkrir þessa staðhæfingu og höfðu af því áhyggjur að álag við rafræn samskipti myndi bætast ofan á vinnu lækna í dag. Flestir nefndu tölvupósta í því samhengi en hugsunin með tvíhliða heilsugátt er sú að nota ekki tölvupóst því sá samskiptamáti er ekki öruggur. Með tvíhliða heilsugátt yrði innskráning með rafrænum auðkennum, til dæmis með Íslykli. [25]

Heilsugáttin var reyndar orðin að veruleika tæknilega séð árið 2014, og þá notuð með rafrænum skilríkjum. Verkefnið var unnið á vegum Landlæknis og er ætlað heilsugæslustöðvum um allt land. Prófanir á notkun rafrænna skilríkja sýna að unnt á að vera fyrir einstakling að nota þau til að skoða margvíslegar upplýsingar um sjálfan sig, skrá tíma hjá lækni, skrá sig sem líffæragjafa og skoða lyfjasögu sína auk ýmissa atriða sem nýtast heilbrigðisstarfsfólki í að veita sjúklingum sem besta þjónustu.[26]

WENR hjúkrunarþing maí 2000 Ingi Steinar Ingason og Heiða Dögg Jónsdóttir starfsmenn eMR hugbúnaðar ehf3
Heiða Dögg Jónsdóttir og Ingi Steinar Ingason verkefnisstjóri rafrænnar sjúkraskrár á hjúkrunarþingi í maí 2000

Ingi Steinar Ingason, verkefnisstjóri rafrænnar sjúkraskrár á vegum embættis landlæknis (EL) tók saman efni um gang verkefnisins í september 2014. Þá var samtenging rafrænna sjúkraskráa heilsugæslustöðva (Hekla) orðin umtalsverð og verkefnið komið í prófunarfasa.

Fimm til fimmtíu prufunotendur voru að kerfinu á hverjum stað um allt land. Boðið var upp á aðgang að upplýsingum um ofnæmi sjúklinga, lyfjakort, sjúkdómsgreiningar, samskipti, komu á göngudeildir og innlagnir og fleira var í bígerð, svo sem aðgangur að mælingum, háð nýrri reglugerð um sjúkraskrár. Sérfræðistöðvar og öldrunarstofnanir sem nota Sögu voru næstar á dagskrá á eftir heilsugæslustofnunum og eftir það var gert ráð fyrir að tengja fleiri kerfi inn. Aðgangur lækna að lyfjagagnagrunni var einnig komin í prófunarfasa haustið 2014 og voru tvö hundruð læknar að nota vefsíðuna á mánuði og yfir hundrað að prófa beina tengingu í Sögu og Heilsugátt.

Sjúklingaaðgangurinn er í gegnum vef fyrir almenning: heilsuvera.is. Við aðgang að honum eru sem fyrr segir notuð rafræn skilríki. Samstarfsaðilar við það verkefni hafa verið TM Software auk embættis landlæknis og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Vefurinn Heilsuvera býður sjúklingum upp á aðgang að eigin heilsufarsupplýsingum. Innleiðingunni er skipt í þrjá áfanga með sívaxandi aðgangi að eigin upplýsingum.[27]

samtenging.rafraenna.sjukraskraa
Innleiðing sjúkraskrárkerfa, staðan 2014. Ingi Steinar Ingason. [28]

Morgunblaðið fjallað um þetta framtak í mótun í árslok 2013 og þar var meðal annars vikið að hugmyndafræðinni á bak við verkefnið:

Þegar sjúkraskrárkerfi verða orðin samtengd mun umönnunaraðili sjúklingsins geta séð sjúkrasögu hans.

Ef einstaklingur sem búsettur er í Reykjavík veikist á Akureyri getur læknir flett honum upp í rafrænni sjúkraskrá, séð sjúkrasögu hans og veitt honum þjónustu byggða á þeim upplýsingum.

[…] „Öll samskiptin eru dulkóðuð. Þessi miðlunaraðferð er eins örugg og hægt er,“ segir Ingi Steinar Ingason, verkefnisstjóri rafrænnar sjúkraskrár hjá Landlæknisembættinu.

Víðtækt eftirlit er með uppflettingum í rafrænar sjúkraskrár, t.d eru sérstakar eftirlitsnefndir starfandi innan heilbrigðisstofnana sem fylgjast með hverjir skoða sjúkragögn um einstaklinginn. „Í þessu samtengda kerfi verður hægt að rekja hverjir skoða sjúkraskrána. Þegar fram líða stundir getur einstaklingurinn sjálfur séð hver flettir honum upp.“ [29]

 

[1] Minningarbrot Helga Sigvaldasonar hafa birst á nokkrum stöðum en nákvæmastu útgáfuna er að finna í 1. tbl. Læknablaðsins 101. árg. 2015. http://www.laeknabladid.is/tolublod/2015/01/nr/5389. Sótt 5.11. 2015.

[2] Gunnar Ingimundarsson, sem lengst af starfaði hjá Ríkisspítölunum vann með Elíasi hjá IBM og fylgdist vel með hugbúnaðargerð sjúkrahúsanna.

[3] Tölvumál, 1. tbl. 4. árg. bls. 11-13.

[4] Sama heimild.

[5] http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=115831&pageId=1451524&lang=is&q=s%ED%F0an%201966%20%FEar%20af%20fr%E1%201968%20vi%F0%20r%F6ntgendeild%20s%ED%F0an%201966%20vi%F0%20s%ED%F0an%201966.  Sótt 24.2.2018.

[6] Gunnar Ingimundarsson, Ríkisspítölunum. Viðtal tekið 22.10. 2015.

[7] Sama heimild.

[8] Sama heimild.

[9] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 23.10.2015.

[10] http://www.tolvumidlun.is/UmT%C3%B6lvumi%C3%B0lun/SagaT%C3%B6lvumi%C3%B0lunar.aspx. Sótt 20.12.2015. Tengill vísar ekki lengur á réttan texta, upplýsingar í febrúar 2018.

[11] Arnheiður Guðmundsdóttir. Viðtal tekið 15.10. 2015.

[12] Björgvin Gunnlaugsson: Krabbameinskerfið. Tölvumál, 17. árg. 2. tbl. (01.04.1992), bls. 24.

[13] Gunnar Ingimundarson, Ríkisspítölunum. Viðtal tekið 22.10.2015.

[14] Björgvin Gunnlaugsson. Tölvupóstur 6.1.2016.

[15] Hugbúnaðarfélag Íslands hf. stofnað um tölvuvæðingu heilbrigðiskerfisins. Morgunblaðið, 13. september 1990. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/56029/?item_num=1&searchid=3e3e9c7fa0b34fcd329fc89ae1118b32aaafab2c. Sótt 18.12.2015.

[16] Þrjú sjúkraskrárkerfi sameinuðu í Gagnalind hf. Morgunblaðið, 28. janúar 1993.  http://www.mbl.is/greinasafn/leit/?qs=%22hugb%C3%BAna%C3%B0arf%C3%A9lag+%C3%ADslands%22&sort_by_date=1&date_from=&date_to=. Sótt 18.12.2015.

[17] Þróað með mögulegan útflutning í huga. Morgunblaðið 87. tbl. (18.04.1998), bls. 36-37.

[18] http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=132394&pageId=1953723&lang=is&q=að Að stofnun eMR standa Tölvumiðlun.

[19] http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=132394&pageId=1953723&lang=is&q=að Að stofnun eMR standa Tölvumiðlun

[20] Ágúst Guðmundsson. Viðtal tekið 25.11.2015.

[21] Svana Helen Björnsdóttir. Viðtal tekið 20.10.2015.

[22] Pálmi V. Jónsson og Svana Helen Björnsdóttir: Nýsköpun og tækni í þjónustu við eldra fólk. http://stiki.is/index.php/is/284-nyskoepun-og-taekni-i-thjonustu-vidh-eldra-folk. Sótt 1.1.2016.

[23] Svana Helen Björnsdóttir. Viðtal tekið 20.10.2015.

[24] Ásta Hrafnildur Garðarsdóttir: Er gagn af rafrænum sjúkraskrá? Tölvumál, 1. tbl. 38. árg., október 2013, bls. 8-9. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/Tolvumal_2013.pdf . Sótt 15.11.2015.

[25] Ásta Hrafnildur Garðarsdóttir: Er gagn af rafrænum sjúkraskrá? Tölvumál, 1. tbl. 38. árg., október 2013, bls. 8-9. http://www.sky.is/images/stories/Tolvumal/Tolvumal_2013.pdf . Sótt 15.11.2015.

[26] Haraldur Bjarnason. Viðtal tekið 23.11.2015.

[27] https://www.velferdarraduneyti.is/media/betri-heilbrigdisthjonusta/VEL---Stadan-i-samtengdri-rafraenni-sjukraskra-20140923.pdf

[28] Sama heimild.

[29] Samtengja sjúkraskrár landsmanna. Morgunblaðið, 11. desember 2013. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1490656/?item_num=1&searchid=40b63a8bdde8bad3a85a5844d871ce52ed19c25f&t=474280010&_t=1450483858.55. Sótt 18.12.2015.