Skip to main content
27. október 2005

Með VPN í farteskinu

Halldóra Matthíasdóttir, markaðstjóri hjá Opnum Kerfum

Undirrituð fór í frí til Flórída í sumar, sem er ekki í frásögur færandi nema sökum þess að samferðarmenn fengu oft á tilfinningunni að þeir væru enn á Íslandi. Við bjuggum í heimahúsi sem hafði ADSL tengingu og gátum þar með tengst Internetinu. Í farteskinu var fartölva og heyrnartól með hljóðnema sem var hægt að tengja beint við tölvuna.

Bloggið
Þegar út var komið ákváðu ferðalangarnir að halda dagbók á netinu. Farið var á síðuna www.folk.is og opnuð ný síða en ferðalangarnir gengu undir nafninu heilaga þrenningin (The Holy Trinity). Við höfðum aldrei „bloggað” áður svo þetta var í raun skemmtileg reynsla og fjölskyldan heima á Íslandi fylgdist með okkur og leyfði okkur að fylgjast með sér, í gegnum gestabókina okkar. Þannig eigum við ennþá dagbókina okkar eftir ferðina á Internetinu.

 
Fréttir og Eurovision
Við höfðum ekki aðeins nóg að gera við skriftir fyrir dagbókina okkar, heldur fylgdumst við líka vel með fréttunum á Íslandi, það fór fátt fram hjá okkur. Auk þess horfðum við í Bandaríkjunum á Eurovision söngvakeppnina ekki á neinni af þeim fjölmörgu Amerísku sjónvarpsstöðvum sem við höfðum aðgang að, heldur í gegnum Netið en henni var sjónvarpað beint á vef Ríkisútvarpsins, www.ruv.is.

Síminn
Einnig gat ég haldið tengslum við samstarfsfólk mitt í fríinu og tekið mesta kúfinn af tölvupóstinum mínum, þar sem ég er með svokallaða VPN (Virtual Private Network) tengingu. VPN býr til sýndartengingu við fyrirtækið sem gerir það að verkum að tölvan er eins og hún sé staðsett á skrifborðinu mínu í vinnunni, sem gefur mér aðgang að öllum gögnum, tölvupósti o.s.frv.  Það sem kannski nýttist okkur best tæknilega og fjárhagslega í þessu skemmtilega fríi, var það að geta hringt í gegnum VPN-ið. Það virkaði með sérstökum hugbúnaði sem hafði verið settur upp á fartölvunni minni áður en ég fór út. Því var hægt að hringja í okkur og við gátum hringt í gegnum skiptiborð Opinna kerfa þar sem ég starfa og aðeins var greitt innanlandsgjald fyrir símtölin. Því var slökkt á gsm-símanum alla ferðina, þökk sé nýrri tæknibyltingu.

 

Skoðað: 5011 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála