Skip to main content
17. ágúst 2005

Markaðssetning á Internetinu

Kristján Már Hauksson, deildarstjóri Internet markaðsdeild ecSoft

Með vaxandi  notkun Internetsins hefur mikilvægi vefleitarvéla orðið æ ljósara.  Þegar stjórnendur fyrirtækja upplifa að vaxandi hluti fyrirspurna, og jafnvel uppruni viðskiptatækifæra, á rætur sínar að rekja til Internetsins rennur yfirleitt upp sú staðreynd að fyrirtæki gætu gert mun betur á Netinu, enda yfirleitt um afar vannýtt tækifæri að ræða.
Samkvæmt nýlegum könnunum nota vel yfir 75% þeirra sem vafra um Netið leitarvélar til finna þá vöru og þjónustu sem þörf er á hverju sinni.  Í dag þykir ekkert sjálfsagðara en að eiga bankaviðskipti, telja fram til skatts, kaupa vörur, hlusta á útvarpið og bóka flug eða gistingu á Netinu. Því geta fyrirtæki sem ekki eru með vef átt á hættu að missa af lestinni.

Í upphafi skyldi endinn skoða
Í langflestum tilfellum hefst vefvæðing á því að hannað er útlit, efni sett inn á síður og í framhaldinu er hafist handa við að markaðssetja vefinn. Útfrá leitarvélunum er þetta ferli í langflestum tilfellum rangt og leiðir til mistaka og lélegs árangurs.  Þó að vissulega eigi ekki að hanna vefi einvörðungu með leitarvélar í huga verður öll hönnun að taka mið af þeim frá upphafi. Þar sem ljóst er að stærstur hluti umferðar inná nær alla vefir á sér upptök á leitarvélum er afar mikilvægt að horft sé til allra hönnunarþátta strax í upphafi og að ferlið sé í réttri röð.

Vefkerfi er ekki sama og vefkerfi
Oft kaupa fyrirtæki vefi og tengja við þá vefumsjónarkerfi (Content Managment System) af mismunandi toga. Gott vefumsjónarkerfi getur ráðið úrslitum um hvernig vefur spjarar sig á leitarvélum.  Fyrirtæki sem ætla sér að nýta Netið til framrásar verða að vanda valið til að fjárfestingin skili sér (ROI). Það er því afar mikilvægt að kaupendur vefumsjónarkerfa kynni sér hjá hugbúnaðarsalanum með hvaða hætti kerfin vinna með leitarvélum.

Markaðsetningin sjálf
Galdurinn á bak við góða stöðu á leitarvélum Internetsins er EKKI sá að búa til vef og skrá hann síðan í blindni inn á leitarvélar. Til að ná árangri er mikilvægt að fyrirtæki hafi unnið góða grunnvinnu og metið vel hvaða leiðir á að fara til að ná árangri til markaðssetningar og umfram allt árangurs. Fyrirtæki eiga að leggja áherslu á að hafa markmið sín á hreinu strax í upphafi. Við hönnun vefs er mikilvægt að fagaðili í Netmarkaðssetningu komi að hönnun hans, veiti ráð við val á vefumsjónarkerfi, skoði bakenda þess og þann HTML-kóða sem kerfið eða forritari vefsins smíðar. Einnig þarf að skoða og meta þær síður sem vefurinn byggir á. Jafnframt er mikilvægt að kanna hvaða upplýsingar síðurnar innihalda. Vondur HTML-kóði getur, þótt allt annað sé í lagi, drepið góð markaðstækifæri strax í fæðingu.

 

 Skoðað: 8354 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála