Skip to main content
19. apríl 2012

Samstarf háskólanna byggist á upplýsingatækni

Mynd04Opinberu háskólarnir fjórir hafa lengi unnið saman en samstarfið hefur verið fremur óformlegt og ekki byggst á miðlægri stefnumörkun. Á þessu varð breyting í ágúst 2010 þegar gefin var út sú stefna af hálfu mennta- og menningarmálaráðherra að opinberu háskólarnir skyldu skipuleggja formlegt samstarf sín á milli. Samstarfi þessu var hleypt af stokkunum sem tímabundnu tveggja ára átaksverkefni og var skipuð verkefnisstjórn þar sem meðal annarra sitja allir rektorarnir fjórir. 

Í stefnu ráðherra felst að stjórnvöld vilja standa vörð um starfsemi opinberu háskólanna með því að stofna samstarfsnet þeirra og efna til stóraukins samstarfs, með hugsanlega sameiningu í huga. Markmið samstarfsverkefnisins eru í fyrsta lagi efling íslenskra háskóla, kennslu og rannsókna, í öðru lagi aukin hagkvæmni í rekstri háskóla og í þriðja lagi að tryggja háskólastarfsemi víða á landinu. Verkefnið hefur einnig gengið undir heitinu "háskólanetið". 

Hvaða háskólar taka þátt?

Opinberu háskólarnir teljast þeir íslensku háskólar sem eiga það sameiginlegt að vera í fullri eigu ríkisins og vera reknir sem ríkisstofnanir. Þetta eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli-Háskólinn á Hólum. Samstarf opinberu háskólanna teygir anga sína til allra háskóla landsins í þeim verkefnum þar sem það á við, en þá bætast við Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Bifröst og Listaháskóli Íslands.

Uglu-verkefnið er það stærsta

Strax í upphafi stefnumótunarvinnunnar haustið 2010 var ljóst að upplýsingatækni myndi leika lykilhlutverk í samstarfi hinna fjögurra háskóla. Vinnuhópur sem fékk það hlutverk að skoða upplýsingatæknihlið samstarfsins kortlagði upplýsingakerfi skólanna og lagði til að skólarnir myndu sameinast um sameiginlegan hugbúnað á sviði innritunar,  nemendaskrár og rafræns kennsluumhverfis. Ákveðið var að ráðast í þá vinnu að aðlaga Ugluna, upplýsingakerfið sem HÍ og KHÍ höfðu þróað áratuginn á undan, að þörfum hinna skólanna, með það að markmiði að allir skólarnir gætu nýtt sér nýja og endurbætta Uglu frá og með sumrinu 2012.

Rektorarnir fjórir undirrita rammasamning um samstarf í stoðþjónustu í maí 2011Verkefnið fór af stað vorið 2011 og fékkst sérstök fjárveiting til þess úr sjóði sem stofnaður var með fjárlögum ársins 2011. Fjárveitingin hefur verið nýtt til að ráða tvo viðbótar forritara inn í hugbúnaðarþróun Reiknistofnunar, til að gera deildinni kleift að takast á við þetta risavaxna verkefni. Í maí 2011 var síðan undirritaður samningur milli háskólanna fjögurra þar sem fyrirkomulag samstarfsins á þessu sviði var skilgreint nánar. Í samningnum er fjallað um stjórnun samstarfsins, þjónustufyrirkomulag, ábyrgð, starfsmannamál, kostnaðarskiptingu og lykildagsetningar við innleiðingu hugbúnaðarins. Tryggt er að allir fjórir háskólarnir hafi í framtíðinni aðkomu að þróun Uglunnar, þótt Reiknistofnun HÍ annist framkvæmd vinnunnar og hinn daglega rekstur kerfisins.

Fleiri verkefni byggja á upplýsingatækni

Önnur sameiginleg verkefni í samstarfi opinberu háskólanna munu á einn eða annan hátt byggjast á hinum sameiginlega hugbúnaði. Sem dæmi má nefna að háskólarnir hafa samið um sameiginlega umsjón með akademísku mati, þ.e. því árlega mati sem akademískir starfsmenn undirgangast einu sinni á ári, auk þess mats sem fram fer við nýráðningar og framgang. Þar gegnir stóru hlutverki hugbúnaðarhluti í Uglunni sem starfsmenn nota til að skila árlegum rannsóknaog kennsluskýrslum.

Upplýsingatækni verður ekki síður lykilatriði í því að nýta betur námskeið og kennslu þvert á skóla, en í janúar 2012 tekur gildi nýtt samkomulag um gagnkvæman aðgang nemenda opinberu háskólanna að námskeiðum við aðra opinbera háskóla. Samkomulag þetta felur í sér að nemendur munu geta skráð sig í námskeið við annan opinberan háskóla án þess að greiða nein viðbótargjöld og án þess að móttökuskólinn setji almenn takmörk á fjölda eininga sem gestanemandi tekur með þessum hætti. Upplýsingatækni verður mikilvæg til að miðla réttum upplýsingum um  námsframboð við skólanna og mögulega verður stofnuð sameiginleg upplýsingagátt þar sem nemendur geta leitað í kennsluskrám allra skólanna samtímis. Þá mun hinn sameiginlegi Uglu-hugbúnaður gegna lykilhlutverki í samskiptum skólanna vegna þessara nemenda en kerfið mun gera skrifstofum skólanna kleift að opna fyrir aðgang móttökuskólans að námsferlum og öðrum lykilupplýsingum um gestanemendur. Af öðrum samstarfsverkefnum sem byggjast á upplýsingatækni má nefna að allir sjö háskólar landsins hafa nýlega sammælst um að kaupa sameiginlega inn hugbúnað til varnar ritstuldi (sjá grein um hugbúnaðinn á síðu 6). Verið er að skoða hvort unnt er að samþætta þann hugbúnað við rafrænt kennsluumhverfi skólanna en gert er ráð fyrir að innleiðingin eigi sér stað á árinu 2012.

Tæknilegir innviðir verða efldir

Þrír af hinum fjórum opinberu háskólum eru nú komnir með Eduroam þráðlausan netaðgang og á árinu 2012 bætist Hólaskóli við. Eduroam er alþjóðlegt samstarfsverkefni sem þróað var fyrir háskólastofnanir í þeim tilgangi að auðvelda nemendum og starfsmönnum að fara á milli háskóla. Nemandi eða starfsmaður sem hefur einu sinni sett upp tengingu við Eduroam þráðlaust net hjá sér getur tengst þráðlaus neti við alla háskóla sem bjóða upp á Eduroam tengingu, án frekari fyrirstöðu.

Á árinu 2011 var fjárfest myndarlega í fjarfundabúnaði sem gerir samstarfsháskólunum fjórum kleift að halda fundi án þess að starfsmenn þurfi að leggja á sig tímafrek og kostnaðarsöm ferðalög milli landshluta. Fjarfundabúnaðurinn hefur sannað sig rækilega í samstarfinu og er í raun forsenda fyrir þeim miklu og góðu samskiptum sem hafa komist á.

Haustið 2011 var auglýst eftir hugmyndum að samstarfsverkefnum á sviði kennslu og boðnir styrkir til að standa straum af þróun slíkra verkefna. Alls bárust sautján umsóknir um styrki og munu allmörg þessara verkefna fara af stað á vormánuðum. Mörg af þessum verkefnum fela í sér aukna samkennslu á milli skóla. Líklegt er að vegna þessa verði á næsta ári gengið enn lengra í innkaupum á tæknibúnaði til fjarsamskipta, þar sem fjarkennsla er gjarna forsenda þess að unnt sé að samkenna námskeið þvert á háskóla sem staðsettir eru í ólíkum landshlutum. Nánari upplýsingar um samstarf opinberu háskólanna má sjá á vefnum: www.hi.samstarf.is Ásta Bjarnadóttir, verkefnisstjóri samstarfs opinberu háskólann.

 
Höfundur: Ásta Bjarnadóttir, verkefnisstjóri samstarfs opinberu háskólanna - astabj@hi.is

Skoðað: 5830 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála