Skip to main content
30. maí 2009

Gagnaský

Í gegnum árin hafa menn byggt upp reikniafl með því að draga til sín örgjörva eftir þörfum úr „skýi“ tölva sem tengdar eru saman yfir Internetið, fyrirbærið kallast „cloud computing“ og byggir á því að þegar þörf er á miklu reikniafli er það dregið úr skýinu og að sama skapi ef ekki er þörf á öllu aflinu er því skilað til baka til annara nota.

Gagnaský er í raun ekki nýtt hugtak og hugmyndafræðin er sú sama og með reikniaflið, þ.e. að hægt sé að draga til sín gagnageymslu pláss byggt á raunverulegri þörf eða umbeðnu þjónustustigi og skila því aftur þegar ekki er þörf á því lengur. Þetta þýðir að ekki þarf að fjárfesta miðað við hugsanlega eða tímabundna þörf, heldur er einungis greitt fyrir raun notkun.

En hvernig nýtist gagnaský? Hægt er að horfa á gagnaský sem mismunandi þjónustu, hugsanlega sem aðkeypt þjónusta frá hýsingaraðila, eða sem ský innan fyrirtækis sem þjónustar margar deildir eða útibú. Ef við tökum einfalt dæmi og horfum t.d. á disk í fartölvu, notandi tölvunnar er á ferðinni um heiminn, eða innan fyrirtækisinns, þar sem hann stoppar tengist hann skýinu. Notandinn getur vistað gögnin sín í skýið. Tæknin inni í skýinu tryggir að notandinn hefur aðgengi að gagnasvæði sem getur stækkað og minnkað eftir þörfum og uppfyllir það þjónustustig sem farið er fram á við vistun gagnanna. Sama hugmyndafræði á við um netþjóna, gagnagrunna og aðrar þjónustur, byggt á óskum kerfanna um þjónustustig er gagnasvæðum úthlutað og kostnaður mældur miðað við notkun. Skýið sem slíkt byggir á mismunandi gagnakerfum, sem mynda þau þjónustustig sem boðið er upp á úr skýinu. Kerfið sem notar gögnin, hvort sem það er fartölva eða gagnagrunnsþjónn, veit í raun ekkert hvað liggur að baki, svo lengi sem umbeðið þjónustustig er uppfyllt.
Staðan

En hvar stöndum við með þessa tækni og hvenær getum við farið að nota þetta? Gagnaský eru í raun allt í kringum okkur nú þegar í sinni einföldustu mynd, þó langt sé í land ennþá. Einhverjir kannast t.d. við að greiða fjarskiptafyrirtækjunum fyrir að vista ljósmyndir eða afrita gögn, notandinn veit ekki hvar hann er að vista gögnin, þau eru bara á „Netinu“. Það eina sem notandinn veit er að hann hefur aðgengilegt pláss til að vista myndirnar sínar eða afrita gögnin sín, og þjónustuaðilinn tryggir skilgreint öryggi og aðgengi gagnanna.

En á meðan gagnaský tekur á sig mynd og þróast getur það verið erfitt að skilgreina tæknina á bakvið og hver  markhópurinn er. Þó eru tveir megin þættir sem sennilega munu drífa þessa þróun áfram, en það er annars vegar óskir um gagnavistun eftir þörfum eða gagnaský í sinni eiginlegu mynd og hins vegar afritun / endurheimt gagna. Þetta eru tvær mjög líkar þjónustur en þó mismunandi. Báðar krefjast þess að hægt sé að skala gagnageymslupláss upp og niður, að utanumhald og stjórnun sé einföld, aðgengi sé sveigjanlegt og skýið geti á einfaldan hátt tengst og tekið við af núverandi kerfum.

Með auknum áhuga á gagnaskýjum hefur mikið verið rætt um eiginleika og öryggi í þannig umhverfi. En hvert stefnir þessi tækni, er þetta ennþá bóla eða er þetta í raun eitthvað sem við erum að fara að sjá og upplifa sem valkost í gagnavistun? Margir notendur og stjórnendur tölvukerfa eru þegar farnir að horfa til þeirra möguleika sem gagnaský opna, svo sem að geta meðhöndlað og fært til gögn á mismunandi miðla og staðsetningar. Fyrirheit um meiri afköst, sveigjanleika og mun ódýrari gagnavistun teljast einnig kostir sem vert er að skoða og auka þar með tiltrú manna og drífa áfram hönnun og þróun.

Núverandi efnahagsástand hefur gert mörgum fyrirtækjum erfiðara fyrir að bæta við auknu gagnarými í gagnamiðjur, en á sama tíma hefur það gagnamagn sem við búum til stóraukist og þörfin fyrir tímabundna gagnavistun er meiri. Það að hafa aðgengi að gagnavistun sem aðlagast rauntíma þörf, bæði hvað varðar stærð og kostnað, mun því verða áhugaverður kostur fyrir mörg fyrirtæki.

Hver svo sem endanleg skilgreining á gagnaskýi verður er ljóst að hugmyndafræðin leysir mörg þeirra vandamála sem stjórnendur tölvukerfa standa frammi fyrir. Fyrirtæki munu ekki þurfa að velja sér eitt ákveðið þjónustustig fyrir gagnavistun eins og oft verður þegar fjárfest er í diskakerfi, heldur verður hægt að stilla þörfina í samræmi við eðli þeirra gagna sem þarf að geyma. Kostnaður við gagnavistun verður raunhæfur, þar sem einungis er greitt fyrir notað pláss hverju sinni. Tenging tækja við gagnaskýið verður einfaldari og fjölhæfari, gagnaaðgengi sveigjanlegra og meðhöndlun gagna í samræmi við eðli þeirra og innihald.
Gagnavistunarfélagið

Þróun og skilgreining á gagnaskýi er ein af megin stefnum Storage Networking Industry Association (SNIA) og mikið fjallað um það í miðlum þeirra. SNIA eru samtök framleiðenda, seljenda og notenda á sviði gagnavistunar. Hlutverk SNIA er að samræma virkni og þróun með því að búa til og kynna staðla, tækni og menntun á sviði vistunar og meðhöndlunar gagna. Þessu er náð fram með því að mynda faglega tæknihópa með þversniði framleiðenda, seljenda og notenda gagnavistunar ásamt rástefnuhaldi og kynningum. Helstu svið SNIA eru gagnavistun í sýndarumhverfi, gagnavistun í gagnaskýi og gagnanet til tengingar gagnavistunar.

SNIA rekur upplýsingaveitu á vef sínum með upplýsingum og fræðslu. Á vegum þess eru faghópar sem annast utanumhald og framkvæmd einstakra verkefna. SNIA hefur einnig á sínum snærum fyrirlesara sem tilbúnir eru til að halda kynningar og fyrirlestra um gagnavistun óháða framleiðendum eða seljendum. Þau fyrirtæki sem aðilar eru að SNIA geta tekið þátt í og nýtt sér þessa þjónustu. En aðild að SNIA veitir meðlimum innsýn í innsta hring framtíðarsýnar og þróunar á gagnavistun og meðhöndlun gagna.

SNIA hefur náð umtalsverðum árangri í viðleitni sinni til að gera gagnavistun og gagnameðhöndlun auðskiljanlegri og einfaldari í innleiðingu. Þeir staðlar sem SNIA hefur komið á hafa leitt til þess að samskipti gagnakerfa frá mismunandi framleiðendum eru auðveldari, stjórn og eftirlitskerfi samræmdari og aðgengi að gögnum skilvirkari. Meðal þeirra staðla sem SNIA hefur skilgreint á þessu sviði eru t.d. SMI-S, sem er staðall um samskipti á milli tækja á gagnaneti og stjórn eftirlitsbúnaðar og XAM, sem er staðall fyrir aðgengi að og geymslu gagna, aðallega notaður í langtímageymslu á gögnum og aðgengi að þeim eftir langan tíma.

Uppbygging og starf SNIA byggir á því að í hverju landi eða hópi landa er stjórn sem heyrir undir yfirstjórn hverrar heimsálfu, en SNIA á fulltrúa í flestum löndum heimsins. Ísland heyrir undir SNIA-Nordic sem aftur heyrir undir SNIA-Europe. Opin kerfi eiga aðild að SNIA og höfundur þessarar greinar á sæti í stjórn SNIA-Nordic. Nánari upplýsingar um SNIA má finna á vefsvæðinu www.snia.org

Höfundur: Bergur Kristinsson, sérfræðingur og ráðgjafi hjá Opnum kerfum
 

Skoðað: 7190 sinnum

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Útgefin Tölvumál á prentformi

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála