Skip to main content
21. júní 2012

Háskólinn og öld gagnvirkninnar

tolvumalmyndHáskólar eiga að vera virkt afl þekkingarsköpunar og með allri þeirri tækni og möguleikum í margmiðlun sem til staðar er í dag ætti að vera hægt að efla nemendur, kennara og rannsakendur í því ferli. En hvernig geta háskólar nýtt sér tækni við miðlun og sköpun þekkingar? Það eru tvö svið sem þarf að skoða vel þegar fjallað er um kennslu og tækni. Annað er svið tækniþróunar og hitt er svið kenninga um nám. Ef við lítum á svið tækniþróunar þá hafa leiðir til miðlunar námsefnis breyst á tiltölulega stuttum tíma. Lestur bóka er enn við lýði en í stuttu máli þá hefur þróunin verið sú að sjónvarpsmiðlun bættist við miðlun þekkingar í gegnum bækur, þaðan færðist náms- og kennsluumhverfi í tölvur og núna í þráðlausan búnað af ýmsum gerðum. Nýjar kenningar, byggðar á eldri grunni, skjóta upp kollinum varðandi það hvernig við lærum og horft er til meiri sjálfsstýringar í námi og gerð sú krafa að námsumhverfi ýti undir virkni í námi. Svokölluð upplýsingaöld er að líða undir lok og öld gagnvirkninnar er að taka við (Brill, Jennifer, M. og Park, Yeonjeong, 2008).  Háskólar eru nú þegar orðnir að stórum hluta sýndarstofnanir (e.virtual organizations) því um leið og háskóli bíður upp á fjarnám þá er hann að hluta starfandi í tvívíðum sýndarheimi. Samskipti innan og utan háskóla eru að stórum hluta rafræn og gögn eru geymd í skýjum netheima, þetta breytir því hvernig hægt er að hugsa um nám og kennslu í háskólum.

Kennslukerfi

Sýndarumhverfi í námi hafa verið til í töluverðan tíma. Við köllum þessi umhverfi kennslukerfi (e. course management systems) til dæmis WebCT, Moodle, Blackboard, MySchool og fleiri. Þessi sýndarumhverfi eru mikið notuð í háskólakennslu og þjóna margþættum tilgangi. Í gegnum þau má miðla efni, birta einkunnir, taka þátt í umræðum bæði í gegnum spjallrásir og umræðuþræði, senda tölvupósta, svara krossaprófum og skila verkefnum svo eitthvað sé nefnt. Þessi kerfi eru tvívíð eins og fésbókin og algengar bloggsíður en eru því miður ekki notaðar til fullnustu. Ef notkun kerfanna er skoðuð þá eru þau nánast eins og geymslusvæði fyrir glærur og textaskjöl ásamt yfirliti einkunna, sem þarf auðvitað að vera til staðar.

En nú eru til kennslukerfi sem byggja á alaóritmískum leiðum til að greina þarfir notandans með þeim hætti sem ekki er hægt í hefðbundinni kennslustofu. Slík kerfi byggja á svipuðum aðferðum og notaðar eru til að greina neytendahegðun einstaklinga á netinu. Þessi nýju kennslukerfi draga ályktun um hvernig nemandi lærir út frá því hvernig hann vinnur með og nýtir námsefni. Í framhaldi getur kerfið stungið upp á hverskonar efni og miðlun gæti hjálpað nemanda og hvernig aðferðir kennari gæti nýtt sér í kennslunni. Nemandi sem á auðvelt með að læra með því að horfa á myndbandsupptöku gæti því fengið fleiri slíkar í stað texta til að lesa (Christensen, Clayton, M. og Eyring, Henry J. 2011).  Kennslukerfi kemur ekki í stað kennara en hugsanlega er hægt að nýta þau betur en nú er gert.

Staðan í dag er sú að ef nemandi skilur ekki kennarann sinn í hefðbundnum fyrirlestri þá getur hann í flestum tilfellum farið á netið og flett upp fyrirlestri um sama efni með skýringarmyndum og stuðningsefni og notað það til að hjálpa sér sjálfur. Margir háskólar um allan heim hafa sett myndbönd með góðum fyrirlesurum á netið til almennra nota og ekkert nema gott um það að segja. Aðgengi að upplýsingum og samskiptaleiðir á netinu eru það þróaðar að háskólar geta ekki litið fram hjá þessari leið í þekkingarsköpun. Nemendur geta sett upp heimasíður þar sem búið er að svara helstu spurningum úr námskeiði og hægt að nálgast svörin þangað á hvaða tíma sem er. Það er kominn tími til að endurhugsa hvernig tæknin er notuð í kennslu og mikilvægt er að komast út úr þeirri hugsun að hægt sé að taka hefðbunda kennslu og yfirfæra hana á rafræna kennslu. Það ætti frekar að skoða hvernig tæknin getur eflt virkni og þátttöku nemenda í eigin þekkingarsköpun óháð því hvort nemandi er í staðnámi, fjarnámi eða blönduðu námi. Nemendur gætu t.d. nýtt rafrænar dagbækur með myndböndum til að ígrunda nám sitt og stunda virka upprifjun í náminu.  

Nemandinn og stafrænir miðlar

Oblinger (2006) bendir á nauðsyn þess að háskólanemum standi til boða að nýta sér stafræna miðlun sem ýtir undir virka reynslu og þátttöku þeirra bæði í staðnámi (e. face to face) og fjarnámi. Farsímar, starfrænar myndavélar, MP3 spilarar og fleiri tæki gera nemendum kleift að hlaða niður efni hvar og hvenær sem er. Þeir geta skráð sig inn í kennslukerfi og inn á gagnvirk svæði hvort sem þeir eru að sinna námi sínu eða taka þátt í athöfnum daglegs lífs. Hún segir að nemandinn geti haft áhrif á námsumhverfi sitt fái hann tækifæri til að vera þátttakandi í því umhverfi.

Þróunin í háskólum er á þann veg að nemendur sem eru í staðnámi vilja í ríkara mæli nýta sér tæknilausnir sem áður virtust bara nýtast þeim sem stunduðu fjarnám. Nú geta nemendur hvort sem þeir eru í staðnámi eða fjarnámi nýtt sér tæknilausnir eins og myndfundahugbúnað til að vinna saman í hópum á milli skóla og landa. Eins geta þeir skráð sig inn í sýndarvinnustofur og stýrt sýndarfyrirtækjum á netinu (Christensen, Clayton, M. og Eyring Henry J., 2011).

Það má halda því fram að nemandi í fjarnámi stundi nám sem er samþætt daglegu lífi hans og athöfnum. Háskólinn birtist nemandanum mest sem sýndarumhverfi þar sem kennsla og samskipti fara fram og segja má að háskólinn renni því saman við daglegt rafrænt umhverfi einstaklinga í námi. Ekki er víst að háskólar sem stofnanir geri sér grein fyrir þeim möguleikum sem þessi samruni rafræna hluta háskólans við rafræna hluta daglegs lífs  bíður upp á í þróun og skipulagi náms og kennslu.

Sýndarheimar

Þrívíðir sýndarheimar virðast fá meiri athygli frá háskólum síðustu árin. Sýndarheimur er tölvuforrit sem er gagnvirkt að því leyti að fólk getur átt samskipti í rauntíma við annað fólk.

Hægt er að nota texta eða hljóð til að skiptast á upplýsingum og leysa verkefni í samvinnu við aðra sem gætu verið staðsettir hvar sem er í heiminum (Tüzün, Yilmaz-Soylu, Karakus, Inal og Kizilkaya, 2009). Sýndarheimar (e. virtual worlds) geta verið tvívíðir á netinu eins og „facebook“ eða þrívíðir með þeim eiginleikum að margir einstaklingar geta verið á sama tíma þátttakendur í leik eða félagslegri samkomu af ýmsu tagi í gegnum myndræna persónu sína eða avatar. Þrívíðir sýndarheimar hafa verið notaðir í háskólakennslu í mörg ár en notkun þeirra hefur verið mjög tilraunakennd og oft gagnrýnd. Enn sem komið er má segja að um grasrótarstarfsemi sé að ræða. En það er þess virði að fylgjast með þróuninni í þeim möguleikum sem þrívíddar sýndarheimar geta boðið upp á í samskiptum og rannsóknum.

Til að viðhalda fjarnámskennslu og þróa aðferðir þarf tæknilega sérþekkingu, rétta stjórnsýslulega uppbyggingu, matsaðferðir og skilvirkni, getu til að koma til móts við breytingar innan stofnunar, félagslega gagnvirkni, þjónustu við nemendur, tæknilegt öryggi, aðgengi að tækninni, umbun deilda ásamt tíma og getu til að takast á við hugsanlega lagalega þætti (Thompson, Chris og Berge, Zane, L., 2007). Hægt er að leigja þrívíð sýndarrými fyrir kennslu, fundi og ráðstefnur.  Háskólar gætu átt sér þrívíð sýndarrými og boðið nemendum þannig upp á sameiginlegan stað og stund til að ræða við og hitta kennara og samnemendur.

Tæknin er stór þáttur í lífi nemenda og getur leitt nýsköpun og þróun í menntun og námsumhverfi en aðgangur að tækni er ekki nóg. Bæði nemendur og kennarar þurfa að búa yfir færni til að nýta sér þá tækni sem er til staðar eigi hún að leiða til nýsköpunar. Ef nemendur og kennarar sjá ekki ávinning af notkun tækni í kennslu og námi þá munu þeir ekki nýta sér hana. Það er því ekki lausn að nota tækni tækninnar vegna.

Lokaorð

Hvaða leið sem háskólar velja að fara til þess að nýta tækni í kennslu og rannsóknum þá er mikilvægt að það starfsfólk sem kemur til með að nota tæknina fái til þess rétta þjálfun. Háskóli sem vill standa framarlega í notkun tækni þarf að skilgreina hvaða tækni þjónar best þeirri kennslustefnu og þeim markmiðum sem sett eru fyrir nám og rannsóknir. Kennarar sem sinna fjarkennslu, og aðrir kennarar sem vilja nýta sér tæknina í hefðbundinni kennslu, þurfa að geta beitt tækninni og geta tengt hana þeim kennsluháttum sem henta í fjarnámi, staðnámi og blönduðu námi. Þeir þurfa að búa yfir hæfni til að geta blandað aðferðum og notað mismunandi miðla í kennslu ásamt því að hafa þekkingu á kenningum um nám.

Eitt er víst, kennslustofur og fyrirlestrarsalir háskóla eru ekki bundnir byggingum heldur leiðir tæknin til þess að háskóli getur verið allsstaðar þar sem nemendur geta „loggað“ sig inn.

Höfundur: Signý Óskarsdóttir. Gæðastjóri og kennsluráðgjafiHáskólans á Bifröst

Signý Óskarsdóttir

Heimildir

Brill, Jennifer, M. og Park, Yeonjeong. (2008). Facilitating Engaged Learning in the  Interaction Age Taking a Pedagogically Disiplined Approach to Innovation with  Emergent Technologies. International Journal of Teaching and Learning in Higher Education 20(1); 70-78.

Castronova, Edward. (2001, desember). Virtual Worlds: A First –Hand Account of
Market and Society on the Cyberian Frontier. (Vinnugrein númer 618). Munchen: Center for Economic Studies & Ifo Institute for Economic Research.

Christensen, Clayton, M. og Eyring Henry J. (2011). The innovative university:
Changing the DNA og higher education from the inside out. San Francisco: Jossey Brass.

Oblinger, Oblinger, D. G. (2006). Learning spaces. Sótt 8. mars 2012 af http://www.educause.edu/ir/library/pdf/PUB7102a.pdf

Pintrich, P. R., & De Groot, E. V. Thompson, Chris og Berge, Zane, L. (2007). Developing Staff Training in Virtual High
Schools. International Journal of Information and Communication Technology Education 3(2); 32-40.

Tüzün, H., Yilmaz-Soylu, M., Karakus, T., Inal, Y. og Kizilkaya, G. (2009). The effects of computer games on primary school students´achivement and motivation in geography learning. Computers & Education 52, 68-77

Skoðað: 6338 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála