Skip to main content
2. ágúst 2012

Tölvumál komin úr sumarfríi

kids-free-computer-games-2Nú eru Tölvumál komin úr sumarfríi og frágangur á prentaðir útgáfu hafinn. Þemað verður tölvuleikir eins og fram hefur komið og hafa margar spennandi greinar borist. Það væri gaman að fá fleiri greinar um tölvuleiki og hvað annað tengt upplýsingatækni til að birta hér á netinu.

Oft gýs upp umræða um skaðleg áhrif tölvuleikja og er þá gjarnan talað um leikjafíkn og hvernig leikir geti alið á ofbeldishneigð, sérstaklega hjá ungu fólki. Ekki er hægt að gera lítið úr fíkn einstaklinga, en rannsóknum ber ekki saman á þessu sviði hvað varðar umfang, orsök og afleiðingar. Það eru tvær hliðar á peningnum, tölvuleikir geta líka haft jákvæð og uppbyggjandi áhrif.

Ég fann á netinu stutta en áhugaverða umfjöllum um tölvuleiki eftir  Kristínu Eyjólfsdóttur og ekki minnkaði áhuginn þegar ég sá að vefsíðan er frá 2001, sem sýnir að áhrif tölvuleikja er ekki nýtt umræðuefni. Mig langar að birta hér lista yfir kosti og skaðleg áhrif tölvuleikja af síðu Kristínar (sjá http://www.ismennt.is/not/kristineyjolfs/khi/marghug/tolvuleikir.html)

Skoðum fyrst listann yfir kosti tölvuleikja

  • örva leik
  • auka hæfni til samvinnu
  • örva einbeitingu og samhæfingu augna og handa
  • styrkja fínhreyfingar
  • ýta undir metnað og samkeppni
  • styrkja sjálfsímynd (sérstaklega í samhenginu að vera góður í og hafa stjórn á)
  • leysa streitu og spennu úr læðingi
  • læri að bregðast skjótt við áreiti
  • öflugt tæki fyrir vanvirka og áhugalausa nemendur

Ekki er hægt að mótmæla því að hér eru á ferðinni mörg atriði sem flesti ef ekki allir vilja auka færni sína í og held ég að flestir foreldrar vilji, t.d. örva leik sinna barna, styrkja fínhreyfingar þeirra, styrkja sjálfsímynd þeirra og auka hæfni til samvinnu. Ef tölvuleikir geta stuðlað að ofantöldu þá held ég að ekki sé annað hægt en mæla með þeim.

Lítum þá á lista Kristínar um skaðleg áhrif tölvuleikja

  • líkamleg áhrif s.s. framköllun á flogum, verkir í olnbogum, úlnliðum, hálsi, léleg stjórn á þvaglátum og hækkuðum blóðþrýstingi
  • tilfinninga- og félagsleg einangrun
  • minnkaður áhugi/einbeiting á öðrum verkefnum (heltekni)
  • almennt hugsunarleysi/doði fyrir umhverfinu
  • hæfni til samskipta minnkar
  • takmarkaðar samræður byggðar á veruleik tölvuleiksins
  • minnisleysi og gleymni
  • hegðunarerfiðleikar/raskanir sem eiga rætur að rekja til ofbeldisfullra leikja

Ekki er þetta glæsilegur listi og held ég að fæstir vilji verða fyrir þessum áhrifum og þaðan af síður að börn þeirra verði fyrir þessu skaðlegu áhrifum, s.s. tilfinninga- og félagslegri einangrun, minnisleysi og gleymni.

En hvernig er hægt að tryggja að áhrifin verði bara jákvæð en ekki neikvæð? Eflaust eru margar leiðir til þess en mér dettu helst í hug að foreldrar þurfi að kanna vel hvaða töluleiki börn og ungmenni eru að leika, hjálpa þeim að velja leiki við hæfi, sem hafa jákvæð áhrif, fylgjast með leikjatímanum og grípa inn í áður en stefnir í ógöngur. Eflaust er þetta ekki alltaf létt verk og tölvufærni foreldra kannski ekki alltaf nægjanleg til að geta vegið og metið allt sem er í boði. Félagaþrýstingur hefur einnig mikil áhrif á skoðun og val barna og unglinga og þegar unglingurinn verður sjálfráða þá getur verið erfitt að grípa inn í. Ef við reynum eftir bestu getu að stuðla að æskilegri notkun á tölvuleikjum þá held ég að það sé hægt að auka jákvæð áhrif þeirra.

Gaman væri að heyra frá lesendum sem hafa kynnt sér rannsóknir á þessu sviði eða hafa áhugaverðar reynslusögur. Í lokin vil ég benda á síðu námsgagnastofnunar (http://www.nams.is/) þar sem finna má mikið magn af skemmtilegu efni og leikjum.

Ásrún Matthíasdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík og ritstjóri Tölvumála

Skoðað: 6349 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála