Skip to main content
17. janúar 2013

Menntun í takt við tækniþróun- Eru menntayfirvöld enn í torfkofanum?

Rakel SolcadottirSkortur á tæknimenntuðu fólki [1] er farinn að hafa áhrif á íslenskt atvinnulíf og grípa þarf strax til aðgerða. Það þarf að efla vitundarvakningu í þjóðfélaginu og auka áhuga á tæknimenntun með samvinnu menntastofnana og atvinnulífs. Þær leiðir sem farnar hafa verið undanfarin ár hafa ekki skilað árangri. Það þarf að byrja nógu snemma á að vekja áhuga á tækni, kenna forritun á nútímalegan máta og gera tækninám aðgengilegra.

Hagkerfi framtíðarinnar byggir á tækni, tæknilæsi og þekkingu. Mikil eftirspurn er eftir tölvu- og tæknimenntuðu fólki og fjölbreytt tækifæri í boði. Má þar nefna mikla aukningu á tölvuleikjafyrirtækjum síðastliðinn ár. Það þarf að byrja strax í dag að þjálfa upp næstu kynslóð og efla tölvufærni í þágu þverfaglegrar hæfni. Börn þurfa að læra að vinna með tölvuna en ekki bara vinna á hana, líkt og þau þurfa að læra að skrifa jafnt sem lesa. Þá þarf að gera umbætur á kennslu í takt við tækni- og þjóðfélagslegar breytingar og góð lausn væri að koma kennslu í forritun inn í grunn- og framhaldsskóla landsins.

 

Í dag eru ekki margir kostir í boði hvað varðar nám í forritun fyrir börn og unglinga. Nánast enga kennslu er að finna í grunnskólum landsins og val á áföngum í forritun fer fækkandi í framhaldsskólum. Í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti var reynt að setja upp hugbúnaðarlínu en hún stóð ekki undir sér og var lögð niður. Aðrir skólar hafa sviðaða reynslu. Það vantar kennar á sviðinu, það vantar þekkingu nemenda á tæknigreinum og útkoman verður sú að kennsla í t.d. forritun legst af. Það eru einhver fjarnámskeið í boði en þau eru illa nýtt. Erlendis er það sama er upp á teningnum og fer vandamálið einungis vaxandi þar sem börn, unglingar og kennarar velja sig frá áföngum í stærðfræði- og tæknigreinum [2].

Til hvaða aðgerða ætla menntayfirvöld að grípa?

Mynd 1 sýnir hvernig verja á tíma nemenda í hinar ýmsu námsgreinar. Aðgerðirnar eru "skýrar" – grunnskólanemendur fá 2,68% eyrnamerkt í upplýsinga- og tæknimennt. Það þýðir að nemandi í 8.-10. bekk fær 80 mínútur á viku sem samsvarar einni tvöfaldri kennslustund á viku. Það telja menntayfirvöld nóg fyrir upplýsinga- og tæknimennt.

adalnamskra 2011
Mynd 1 Upplýsingar úr nýrri Aðalnámskrá grunnskólanna

Þetta sýnir meira en margt annað að þó að Aðalnámskráin sé ný, er ekki tekið tillit til nútímaþjóðfélags og þarfa atvinnulífsins sem byggja að miklu leyti á tækniþekkingu og tæknilæsi. Hún vísar reyndar til þess að upplýsinga- og tæknimenntun skuli dreifast þverfaglega yfir námsgreinar/námssvið. En er það nóg? Dugar þetta til að byggja upp tæknimenntun í landinu? Þarf ekki meira til?

Þróunin er alls ekki í samræmi við breytta tíma. Það er sorglegt til þess að vita að með upplýsinga- og tæknimennt er meira átt við lífsleikni og ritvinnslu en nýtingu á tækninni sjálfri. Það er enn verið að ala upp kynslóðir sem eru einungis neytendur tækninnar í staðin fyrir að vera virkir þátttakendur. Miðað við fjárhagsstöðu sveitafélaganna þá gefur þetta sveitafélögunum tækifæri á að fresta uppfærslu á tækjabúnaði. Skólinn þarf einungis að uppfylla 2,68% til að uppfylla nýja aðalnámskrá grunnskólanna. Það er mikilvægt að menntayfirvöld kippi hausnum upp úr sandinum og byggi upp menntakerfi og menntun sem er tengd lífi barna og ungmenna utan skólans og atvinnulífið kalla eftir. Tækni er ekki einhver bóla sem kemur til með að hverfa - hún er komin til að vera og börn, unglingar og fullorðnir þurfa að kunna að nýta hana hvort sem er við nám, vinnu eða leik.

Ef haldið væri rétt á spöðunum

Með því að efla tæknimenntun á grunn- og framhaldsskólastigi munum við styrkja stoðir íslensks atvinnulífs og draga úr líkum á því að íslensk fyrirtæki þurfi að flytjast úr landi sökum skorts á tæknimenntuðu starfsfólki. Í dag skiptast þjóðartekjur milli fjögurra þátta; sjávarútvegs, stóriðju, ferðaiðnaðar og annað. Undir þetta “annað” fellur hugverkið sem er ekki bundið við auðlindir og getur stækkað svo lengi sem mannafli og þekkingin er til staðar. Það er akkúrat þarna sem við getum komið Íslandi á kortið sem frumkvöðli í tækni, tæknimenntun og rannsóknum. Í skýrslu Porter, Delgado-Garcia, Ketels og Stern (2008) um samkeppnisstuðul er fjallað um mikilvægi þekkingar og að þekking sé einn stærsti lykilþátturinn í framleiðini og þar að leiðandi hagvexti þjóða. Endalaus niðurskurður í menntakerfinu er ekki lausnin. Það væri mun gáfulegra að byggja upp menntakerfið og auka þannig hagvöxt í þjóðfélaginu til framtíðar.

Framlag Skema

Skema ehf. er eins árs sprotafyrirtæki sem stofnað var í framhaldinu af því að hugmyndin "Börnin í Undralandi Tölvuleikjanna" hlaut nýsköpunarverðlaunin Fræ ársins 2011. Skema vinnur að því að byggja upp menntun í takt við tækniþróun og hefur fyrirtækið verið að móta aðferðafræði byggða á rannsóknum í sálfræði, kennslufræði og tæknifræði til að kenna ungu fólki frá sex ára aldri að forrita. Til að ná fram vitundarvakningu og að koma til móts við þarfir nútímabarna þá stendur Skema fyrir námskeiðum fyrir yngri kynslóðina í leikjaforritun. Á námskeiðunum frá þátttakendur kennslu og innsýn inn í möguleika tækninnar á skemmtilegan og áhugaverðan máta. Kennslan byggir á leikjaforritun auk þess sem fléttað er inn í kennsluna hugarkortum og flæðiritum. Unnið er að því að innleiða kennslu í forritun í grunnskóla landsins auk þess sem fyrirtækið stendur fyrir rannsóknum á þeim áhrifum sem kennsla í forritun hefur á hugrænan þroska, líðan, sjálfsmat og getu í öðrum námsgreinum. Eftir frumrannsókn í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og Vífilsskóla Hjallastefnunnar fengust vísbendingar þess efnis að kennsla í forritun með aðferðafræði Skema hefði jákvæð áhrif á getu níu ára drengja í stærðfræði og jákvæð áhrif á getu beggja kynja í íslensku. Auk þessa hefur athugun starfsfólks Skema og eftirfarandi ummæli foreldra gefið vísbendingar um uppbyggingu sjálfsmats og líðan og þá sérstaklega hjá börnum með greiningar líkt og ADHD, asperger, einhverfu og lesblindu.


„Victor er búinn að vera í skýjunum með þetta námskeið, þvílík ánægja hjá honum. Hann fann í gær drauma starfið, sagði með bros á vör á leiðinni heim „þegar ég verð stór ætla ég að vinna hjá CCP“. Takk fyrir að halda svona skemmtilegt og fróðlegt námskeið. Kveðja, Kristín“

„Sonur minn, sem er 10 ára hress einhverfur strákur, tók því fagnandi þegar ég bauð honum að fara á tölvunámskeið í sumar. Ég hafði lengi leitað að tölvunámskeiðum fyrir börn því tölvur eru aðaláhugamál sonar míns og hans helsti styrkleiki. Sonur minn hafði verið á alls konar íþrótta-og leikjarnámskeiðum á sumrin en fannst þau bæði löng og leiðinleg. Þegar ég náði í hann eftir fyrsta tímann á tölvunámskeiðinu þá sagði hann við mig "þetta var bara eins og einn klukkutími, ég hefði sko viljað vera lengur". Honum fannst námskeiðið virkilega skemmtilegt og áhugavert. Það frábærasta við námskeiðið var að hann hafði frumkvæði að því sjálfur að æfa sig á kvöldin og síðan tók hann það upp hjá sjálfum sér að bjóða öfum sínum og ömmum í kaffiboð til þess að sýna hvað hann hefði gert á námskeiðinu. Það er mjög sjaldgæft að börn á einhverfurófinu sýni frumkvæði þannig að það jók enn frekar á gleði okkar foreldrana með námskeiðið. Nú bíðum við bara eftir framhaldsnámskeiði svo sköpunargleði sonar okkar geti haldið áfram að njóta sín. Kveðja – Helga”

Mynd1

Mynd 2

Til að mæta þörfum atvinnulífsins eins fljótt og vel, er nauðsynlegt að vinna með framhalds- og háskólum samhliða grunnskólunum. Til að svara sem fyrst þessari miklu eftirspurn á markaði eftir tölvu- og tæknimenntuðu fólki var sett af stað samstarfsverkefnið "Forskot til Framtíðar". "Forskot til Framtíðar" er samstarfsverkefni Skema, Háskólans í Reykjavík og Fjölbrautarskólans í Breiðholti (FB) og stutt af Tækniþróunarsjóð Rannís. Fyrsta skrefið er að breyta aðferðafræði við undirbúning í forritun fyrir nýja nemendur sem eru að hefja nám í tæknigreinum við HR samhliða því að hefja kennslu í forritun í FB.

Rannsóknir hafa sýnt að þegar nemendur byrja í tölvunarfræði finnst þeim oft erfitt að ná tökum á forritun. Af því leiðir að mikið er um að nemendur gefist upp á fyrsta ári í námi í tölvunarfræðum (Ásrún Matthiasdóttir og Hrafn J. Geirsson, 2011, Dunican, 2002; Jenkins, 2002; McCracken o.fl., 2001; Proulx, 2000). Jenkins (2002) telur vera nokkrar ástæður fyrir þessu brottfalli og þessum erfiðleikum sem nemendur lenda í. Í fyrsta lagi þá telur hann að ekki sé hægt að læra forritun aðeins af bókum heldur verða nemendur að forrita, en margir nemendur nýkomnir í háskóla halda annað af reynslu úr öðrum fögum. Í öðru lagi er forritun yfirleitt alveg nýtt viðfangsefni fyrir nemendur. Þeir þurfa því að aðlaga sig námslega að því að læra forritun. Að lokum þá loðir sá orðrómur við forritun að aðeins „nördar“ kunni að forrita og að það sé mjög erfitt að læra hana. Ef nemendur hafa það viðhorf þegar þeir koma í skólann getur það haft áhrif á hversu móttækilegir þeir eru (Jenkins, 2002).

Með ómeðvituðum lærdóm í gegnum leik náum við að sýna nemendunum að forritun sé bæði áhugaverð og skemmtileg. Carnegie Mellon University í Pittsburgh hefur þróað Alice – þrívítt forritunarumhverfi – sem notað hefur verið með góðum árangri sem fyrsti áfangi í forritun í háskólaumhverfinu. Við viljum nýta þessa þekkingu, bæta við tengingu við atvinnulífið og setja upp umhverfi í kringum Skema. Nota aðferðafræðina til að gera kennurum kleift að setja upp slíkan áfanga í sínu umhverfi?. Það eru ekki bara nemendur sem hræðast tækninám heldur kennarar líka. Með því að láta kennurum í hendur tól og tæki til að nýta og kennslu í aðferðafræðinni náum við að vinna á þessum ótta og fá kennarana í lið með okkur. Hluti af aðferðafræðinni er að nýta sér jafningjakennslu en slík aðferð hefur reynst mjög vel. Jafningjakennslan veitir kennara stuðning, gefur nemendum tækifæri til að fá nálgun jafningja og eykur færni og áhuga jafningjakennara.

Þar sem að Menntavísindasvið virðist ekki vera vinna í takt við þarfir samfélagsins hvað tækmimenntun kennara varðar þá er nauðsynlegt að gefa kennurum tækifæri til að kynnast hinum skemmtilega heim sem tæknin hefur upp á að bjóða. Í sumar fór Skema af stað með námskeið í grunn-forritun fyrir kennara í samstarfi við 3F - Félag um upplýsingatækni og menntun. Það var ótrúlega gaman að sjá áhugasama kennara taka sér frí frá sumarfríinu og forrita eins og vindurinn með stuðning frá ungum aðstoðarkennurum. Það sem skiptir verulega miklu máli hér er að kennarar læri að skilja "egó-ið" eftir fyrir utan kennslustofuna og njóta þess að læra með og af nemendunum sínum. Það verður nefnilega að viðurkennast að við gamlingjarnir náum aldrei að vera öflugri en krakkarnir í að meðtaka og læra nýja tækni.

Mynd2
Mynd 3 Samvinna - mynd tekin á kennaranámskeiði Skema sumarið 2012

Árangur og markmið

Nú þegar hafa nokkrir grunn- og framhaldsskólar tekið skrefið með Skema í þágu uppfærslu á menntun í takt við tækniþróun og má þar nefna Vífilsskóla Hjallastefnunnar, Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla, Lágafellsskóla, Klébergsskóla, Fjölbrautarskólann í Breiðholti og Háskólann í Reykjavík. Skema hefur einnig fengið stuðning frá atvinnulífinu og má þar nefna samstarfssamning við CCP sem felur í sér stuðning við innleiðingu á forritunarkennslu í grunnskóla landsins auk þátttöku starfsmanna í kennslu. Við vonumst til þess að fleiri skólar bætist í hópinn og stuðningur frá atvinnulífinu haldi áfram að eflast, en eitt af markmiðum Skema er að sjá forritunarkennslu í boði í að minnsta kosti 70% af grunnskólum landsins fyrir árið 2015.

Árangurinn aðferðafræðinnar leynir sér ekki en fyrsti nemandinn, Ólína Helga Sverrisdóttir (11 ára), sem lærði forritun með Skema aðferðafræðinni sigraði í vor forritunarkeppni á vegum bandarísku alríkislögreglunnar, FBI. Keppnin er haldin í samstarfi við Carnegie Mellon University til að stuðla að öruggri netnotkun barna og unglinga.

Mynd3
Mynd 3 Luis E. Arreaga sendiherra Bandaríkjanna afhenti Ólínu Helgu viðurkenninguna frá FBI og Carnegie Mellon University. Með þeim á myndinni er fjölskylda Ólínu Helgu.

Forskot til Framtíðar - Samfélagslegur ávinningur

Menntun í takt við tækniþróun mun styrkja stoðir íslensks atvinnulífs með því að auka tækniþekkingu og draga úr líkum á því að íslensk fyrirtæki þurfi að flytjast úr landi sökum skorts á tæknimenntuðu starfsfólki. Hagvöxtur munu aukast með eflingu á hugverkinu en hagvöxtur er háður þekkingu og þekking er einn stærsti lykilþættátturinn í framleiðni – við verðum því að hefjast handa við að efla menntakerfið í takt við tækniþróunina og gefa Íslandi nýtt “Forskot til Framtíðar”.

Rakel Sölvadóttir, framkvæmdastjóri Skema ehf.

Heimildir: 

[1] Sjá umfjöllun í fjölmiðlum, m.a. http://www.visir.is/skortur-a-folki-med-taeknimenntun-hamlar-hagvexti/article/2011110539751, http://www.visir.is/mikill-voxtur-kallar-a-folk/article/2011110539885 og http://www.ruv.is/frett/skortur-a-taeknimenntudu-folki

[2] Sjá umfjöllun um ástandið í Bretlandi http://www.youtube.com/watch?v=MkSEUb2LWX0&feature=player_embedded

 

Skoðað: 6989 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála