Skip to main content
21. febrúar 2013

Tæknivæðum skólakerfið!

tveirKennari frá 18. öld gæti gengið inn í kennslustofur nútímans og byrjað að kenna án fyrirhafnar. Kennsluaðferðir hafa lítið breyst í gegnum tíðina en með tilkomu fjarskiptatækninnar mun það vonandi breytast. Til eru fjölbreytileg opin fjarnámskeið (FOF) sem eru áfangar á netinu án endurgjalds. Áfangarnir eru úr hinum ýmsu fögum og eru kennd af prófessorum úr virtum háskólum.

 

 

Saga

Fjarnám kom fram langt á undan tölvunni en hugtakið kom fyrst fram í amerískum fjölmiðlum árið 1890. Þrjátíu árum seinna voru fjórar milljónir amerískra ríkisborgara skráðir í bréfaskóla sem kenndu hagnýt námskeið sem tengdust atvinnulífinu [1]. Þá má nefna að í seinni heimsstyrjöldinni var notast við kvikmyndir til þess að þjálfa tilvonandi hermenn. Fyrir tíma tölvunnar voru fjarnámskeið í gegnum útvarp og sjónvarp [2]. Árið 2008 kom síðan fram hugtakið FOF úr áfanganum “Connectivism and Connective Knowledge”. Áfanginn var kenndur af 25 stúdentum úr Háskólanum í Manitoba en 2300 manns sátu fyrirlestrana frítt. Námsefnið var hægt að nálgast í gegnum RSS fréttaveitu. Nemendur gátu tekið þátt í gegnum umræðuþræði á Moodle, blog og Second Life. Auk þess hittust nemendur á netinu og spjölluðu í gegnum vefmyndavélar [3]. Í kjölfarið voru önnur opin námskeið stofnuð og vegna vinsælda þeirra var síðan Coursera stofnuð sem er ein af stærstu FOF síðunum.

Námskeið

Á Coursera getur einstaklingur skráð sig í námskeið sem eru kennd yfir ákveðið tímabil. Fyrirlestrar eru á formi myndbands þar sem hæfir fyrirlesarar kenna nemendunum efni áfangans. Notast er við myndræn og gagnvirk sýnidæmi við kennslu efnisins. Í hverri viku eru í boði verkefni en nemendur sjá um að fara yfir verkefni annarra, alls þrjú, og gefa því einkunn. Þetta er gert vegna fjölda nemenda en nemendur læra mikið á því að útskýra fyrir öðrum. Í lok hverrar kennsluviku eru haldin próf sem oft eru í formi krossaspurninga. Umræðuþræðir eru opnir yfir kennslutímabilið þar sem nemendur hafa tækifæri til að spyrja spurninga eða hjálpa öðrum með vandamál sem koma upp. Kannanir eru í byrjun og lok námskeiðsins þar sem nemendur geta komið með ábendingar um hvað er gott og hverju er hægt að bæta. Þetta er leið til þess að halda námskeiðum lifandi og síbreytilegu.

Kostir

FOF opnar möguleika fyrir fólk sem ekki hefur tök á því að fara í háskóla t.d. sökum fjárskorts eða tíma. Námskeiðin eru án endurgjalds og þú getur farið í gegnum þau á þínum eigin hraða. Þar að auki verður fólk ekki jafneinangrað og í hinum hefðbundnu fjarnámskeiðum því í FOF eru öflugir umræðuþræðir þar sem nemendur hjálpa hvor öðrum. Námskeiðin bjóða ekki upp á akademíska gráðu en veita þér frekari skilning á efni sem þú hefur áhuga á og undirbúa þig fyrir háskóla. Nemendur FOF geta þó fengið viðurkenningu sem staðfestir skilning þeirra á efni námskeiðsins. Sumar FOF síður gefa nemendum sínum afreksmerki sem hvetur eflaust marga til þess að halda áfram.

 nr2
Mynd 1: Afreksmerki frá Codecademy (Mynd frá www.codecademy.com)

Nýting

Vinsælustu FOF síðurnar eru bandarískar en þrátt fyrir það geta þær nýst íslenskum skólum. Sérstakir fyrirlestrartímar verða óþarfir ef íslenskir háskólar notfæra sér FOF fyrirlestrana. Einungis yrði þörf fyrir dæmatíma eða umræðutíma.

Íslenskir háskólar gætu einnig farið að fordæmi bandarískra háskóla og stofnað sína eigin FOF síðu sem gæti verið sameiginleg öllum íslenskum háskólum. Mikill sparnaður myndi felast í því að taka upp myndband af fyrirlestrunum sem hægt væri að nota margsinnis. Þá væri hægt að velja góðan fyrirlesara og deila myndböndunum á milli íslenskra háskóla. Þar að auki gætu nemendur tekið áfanga sem væru ekki í boði í sínum eigin háskóla. Þetta fyrirkomulag er bráðnauðsynlegt fyrir vinnandi fólk þar sem það getur stundað námið á sínum eigin hraða. Þetta mundi stuðla að fjölgun á háskólamenntuðu fólki.

Höfundar: Ingibjörg Ósk Jónsdóttir og Jón Reginbald Ívarsson, nemendur í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík

Heimildir
[1] Joseph F. Kett, Pursuit of Knowledge Under Difficulties: From Self-Improvement to Adult Education in America (1996) pp 236-8
[2] Dwayne D. Cox and William J. Morison, The University of Louisville (1999) pp 115-17
[3] Masters, Ken (2011). "A brief guide to understanding MOOCs". The Internet Journal of Medical Education 1 (Num. 2).

Birt 21.02.2013

 

 

 

Skoðað: 5824 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála