Skip to main content
14. mars 2013

Viðbættur raunveruleiki


BjarniB GudjonJ
Viðbættur raunveruleiki eða Augmented Reality (stytting AR) eins og það er kallað á ensku, er ný rauntímatækni sem breytir því hvernig við sjáum heiminn. Við getum hugsað okkur tæknina sem auðgun á raunveruleikanum og því sem við sjáum. Með því að nota tæknina er hægt að draga fram auka upplýsingar úr raunveruleikanum og öllu í kringum okkur. Eina sem þarf til er örgjörvi, myndavél og GPS staðsetningarbúnaður. Allir nýir snjallsímar eru búnir þessu í dag og má búast við aukningu á notkun tækninnar á komandi árum.

AR náði fyrst athygli í kringum 1992 þegar bandaríski herinn hóf að framleiða orrustuflugvélar sem nýttu sér tölvur til að festa inn skotmörk sem flugmaðurinn gat svo séð í gegnum sérhannað gler í flugklefanum þegar hann nálgaðist skotmarkið [1].

AR getur verið hugbúnaður knúinn gervigreind, sem notast við myndavélar og tæki sem eru með örgjörva, myndavél og GPS staðsetningarbúnaði. Með því að beina myndavélinni að hverju sem er má láta örgjörvann greina og bera kennsl á hvað verið er að horfa á. Í þessu felst töluverð gervigreind, þar sem tækin læra að þekkja ákveðna hluti út frá ákveðnum ummerkjum og mynstri. Allar þær upplýsingar varpast svo á skjáinn í rauntíma.

 

Í dag er hægt að ná í einfalt forrit í símann, sem gerir manni kleift að beina myndavél símans að frægum byggingum þar sem upp koma á skjáinn upplýsingar um viðkomandi byggingu, auk tengils á Wikipedia.
Með annarskonar AR tækni er hægt að varpa t.d lyklaborði á hvaða yfirborð sem er og eiga við það í raunveruleikanum, án þess þó í raun og veru að snerta neitt. Takmörk AR eru í raun óendanleg. Vegna þess hefur umræða um það færst yfir í kennslu og skólakerfið, því fólk sér möguleika tækninnar til að auðvelda og umbreyta hvernig við förum að því að læra og kenna.

Mynd1

Tæknin er ekki bara bundin við upplýsingar því Sony hefur nú þegar gefið út Playstation Vita sem er lófaleikjavél með AR möguleika. Í leikjavélinni er boðið upp á allskyns leiki sem hægt er að spila utan vélarinnar. Í gegnum skjá vélarinnar getur maður svo breytt hvaða yfirborði sem er, til dæmis fótboltavöll og spilað leikinn á því.

Project Glass

Ein frægasta varan í dag sem nýtir sér AR tæknina er Project Glass frá Google. Um er að ræða gleraugu sem nýta sér AR tæknina og tengingu við internetið til að veita notandanum rauntíma upplýsingar um umhverfi sitt. Project Glass eru gleraugu sem fólk notar eins og venjuleg gleraugu. Gleraugun eru knúin gervigreind til að skynja umhverfi notandans og tengist í leiðinni öllum þjónustum Google í gegnum internetið til að gera líf viðkomandi sem þægilegast. Þjónustur sem ber að nefna eru meðal annars: Google Now, Google Maps, Google Street View, Google+, Google Hangout, ofl.

Mynd2

Project Glass nýtir einnig raddstýringu. Sem dæmi má nefna ef viðkomandi sér eitthvað sniðugt getur viðkomandi sagt gleraugunum að taka mynd af því. Eftir að myndin hefur verið tekin getur viðkomandi sagt gleraugunum að deila myndinni á Facebook, Google+ eða hvort sem það sé í gegnum tölvupóst eða á einhvern annan hátt [2]

Skólakerfið og kennsla

Hægt er að nefna mörg dæmi um hvernig AR tæknin getur nýst í skólakerfinu, í kennslu á öllum skólastigum. Þetta gæti til að mynda leyst allar krítar- og tússtöflur af hólmi, þar sem möguleiki væri fyrir hendi að “skrifa í loftið” án allrar raunverulegrar snertingar. Tækið myndi þá þýða handabendingar (e. gestures) viðkomandi á ákveðinn hátt og varpa því á einhvern skjá sem nemendur geta horft á. Einnig væri hægt að nýta handabendingar eins og “pinch-to-zoom”, tvo putta til að skrolla, o.s.frv., líkt og í flest öllum snjalltækjum.
Einnig væri hægt að nýta tæknina til kennslu ungra barna. Í stað þess að þau læri að þekkja orð og hluti út frá myndum í bókum, væri hægt að leyfa barninu að horfa á hlutinn og bera kennsl á hann með hjálp AR tækninnar. Til dæmis fengi barnið upp nokkur orð sem það gæti valið á milli og út frá því giskað á hvað hluturinn héti.

Einnig ef barnið lendir í ákveðnum aðstæðum, þar sem það ætti að bregðast við á einhvern ákveðinn hátt, fengi barnið tækifæri til þess að læra hvernig það ætti að bregðast rétt við, án þess þó að eitthvað kæmi fyrir barnið eða að barnið væri í hættulegu umhverfi. Dæmi um forvörn má nefna ef barnið lendir í háska, hvernig það gæti brugðist rétt við.

Mynd3

Annað dæmi væri ef barnið væri að læra að labba yfir götu. Þá gæti barnið lært að bregðast rétt við, án þess þó að raunverulegir bílar kæmu við sögu og án þess að barnið kæmi nálægt umferðargötu.
Einnig væri hægt að útbúa spjöld með mynstrum sem tækið lærði að þekkja, og myndi út frá því með AR tækninni breyta spjaldinu í eitthvað ákveðið form eða mynd. Með þessum hætti væri hægt að varpa fram hvaða formi sem er fyrir börn til að leika og læra af.

Í dag er tæknin notuð til að kynnast umheiminum í kringum okkur. Til að mynda gáfu Google út app fyrir Android sem ber heitið Sky Map [3], þar sem maður beinir símanum í átt að himninum og appið nýtir GPS staðsetningu símans og í hvaða átt síminn snýr, til að kortleggja himinninn og ákvarðar út frá því hvar stjörnur eru staðsettar í sólkerfinu og hvað þær heita. Þannig getur maður séð stjörnurnar, rétta staðsetningu og nöfn þeirra líkt og maður sé að horfa upp í himinninn.

Einnig væri hægt að nýta tæknina í hernaðartilgangi. Hermenn myndu þá bera einhvers konar AR gleraugu þar sem upp kæmu ýmsar upplýsingar, til dæmis hólógrafísk yfirlitsmynd af stríðssvæðinu sem þeir væru að berjast á, GPS staðsetning bandamanna á kortinu, staða skotfæra, ofl.

Mynd4

Niðurlag

Það fer ekki á milli mála að AR tæknin geti verið nytsamleg, hvort sem það sé til gagns eða gamans – í leik eða starfi.

Eins og fram kemur hér að ofan er á margan hátt hægt að nýta tæknina í skólakerfinu til kennslu og eru möguleikarnir endalausir. Við sjáum fyrir okkur að AR tæknin muni í nánustu framtíð leysa krítar- og tússtöflur af hólmi, þar sem kennarar muni nota AR tæknina með handabendingum í stað töflu.

Einnig finnst okkur frábært að geta, með hjálp AR tækninnar, upplifað ákveðnar aðstæður, án þess þó að setja sig í einhverja hættu. Sem dæmi má nefna um börn sem eru að læra að labba yfir götu. Einnig hafa börn gaman að allskyns teiknimyndafígúrum eða böngsum og því auðvelt að hrífa þau með AR tækninni og fá þau til að læra nýja hluti.

Okkur finnst því forvitnilegt að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.

Höfundar: Bjarni Brynjólfsson og Guðjón Jónsson nemendur í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík

Heimildir

[1] http://www.pocket-lint.com/news/38803/the-history-of-augmented-reality

[2] http://www.youtube.com/watch?v=9c6W4CCU9M4

[3] https://play.google.com/store/apps/details?id=com.google.android.stardroid

Birt 14. mars 2013

Skoðað: 8884 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála