Skip to main content
30. maí 2013

Tölvur opna gáttir skólanna

myndEkki hefur farið á milli mála umræða um stöðu skólanna í samfélaginu. Orð eins og skólaleiði, brottfall og önnur ámóta eru allt of tengd skólunum. Fyrir því eru margar ástæður. Ein þeirra er sú staðreynd að skólakerfið er í raun skipulagt í anda iðnbyltingar og verksmiðjureksturs (bjallan hringir) þrátt fyrir að upplýsingaöldin sé löngu hafin. Í daglegu lífi sínu lifir fólk í heimi netsins og tölvutækni meðan skólakerfið er enn skipulagt í grunninn eins og ekkert hafi í skorist (eða lítið a.m.k.). Nú er hins vegar að verða bylting – þökk sé tölvuvæðingunni.

 

Flippum!

Á síðustu árum hafa skapast alls kyns veitur sem almenningur hefur aðgang að. Má þar nefna Kahnacademy.com, TED.com, scooltube.com, vimeo.com, youtube.com o.fl. slík. Þar eru sem sagt opnar veitur með alþekkingu. Maður finnur þetta allt á netinu. Stöðugt fleiri kennarar hafa fundið á eigin skinni hvernig kerfið er að kæfa námsfólk. Skal engan furða þar sem menntakerfið er skipulagt sem kennslukerfi meðan notendur þess þurfa á lærdómskerfi að halda. Og þau eru að spretta upp. Eitt þeirra er spegluð kennsla (flipped classroom). Keilir fékk annan guðföður þess kerfis til að halda vinnustofu á Ásbrú s.l. apríl. Húsfyllir var eða um 500 áhugasamir kennarar. Hvað er spegluð kennsla.

Hlutverki snúið við.

Í grunninn gengur flippið út á að kennarinn tekur upp kynningar sínar, tal, myndir, glærur, myndbönd og hvað annað sem þarf. Vistar á netinu. Heimaverkefni nemenda er að hlýða á fyrirlesturinn þegar þeir vilja og eins oft og þeir vilja. En í skólanum stunda nemendur „gamla“ heimanámið – verkefnavinnuna. Þess vegna er þetta kölluð spegluð kennsla. Hlutum er snúið við. Í tímunum verða nemendur virkir 80-85% af tímanum meðan hlutfallið er öfugt í heðfbundnu skólanámi. Og hvernig gengur?
Virkir og lifandi.
Í BNA þar sem komin er nokkur reynsla á speglun hafa einkunnir hækkað, agavandamálum fækkað og ánægja nemenda og kennara almennt aukist. Skal engan furða. Virkari nemendur verða einfaldlega meira lifandi. Keilir hefur nú reynt þetta í eitt ár. Miðað við könnun meðal nemenda og kennara erum við ekki að hverfa aftur í gamla farið. Við teljum okkur einfaldlega geta þjónað nem,endum okkar betur með þessum hætti.
Mæta hverjum og einum.
Grunngildi skólastarfs er að veita hverjum einstaklingi kennslu við hæfi hvers og eins. Þetta er í raun verið að þverbrjóta á degi hverjum. Flippið mætir hins vegar þessum þörfum mun betur. Það felur jafnframt í sér meira jafnræði til náms en annað. Ekki eiga allir kost á aðstoð við heimanám, ekki grípa allir kynningar kennara í hinum stutta tíma sem er skammtaður í hefðbundnu námi. Þessu er svarað mun betur með speglaðri kennslu.

Í skýjunum.

Eðli málsins samkvæmt þá breytist hlutverk kennara með speglun. Þannig geta kennarar tekið upp, vistað í skýinu og allir hafa aðgang að kynningu. Smám saman myndast digur gagnabanki þar sem bestu fyrirlestrar verða þeir mest sóttu. Áhugasamir nemendur geta sökkt sér í námið á sínum hraða. Í tímunum verða kennarar aðstoðarfólk nemenda við verkefnavinnu. Kennarar geta smám saman skipulagt námið út frá tilvísun í fyrirlestra í skýinu og undirbúið lifandi verkefni fyrir lifandi nemendur sína.

Auk þess að gera námið loksins lifandi og færa nær raunheimi nemenda þá stuðlar markviss notkun tækninnar með þessum hætti að því að gera einstaklinga gagnrýna notendur netsins. Það hlýtur að vera eitt meginverkefni skóla á upplýsingaöld. Bylting í kennsluháttum er hafin. Þar eru ekki hamar og sigð sem vopn – heldur tölvur og netaðgangur. Ísland getur orðið fyrsta landið í veröldinni til að teljast flippa.

Hér eru nokkrar slóðir að opnum kynningum:
www.youtube.com 
www.schooltube.com 
www.vimeo.com 
docs.google.com 
www.Khanacademy.com 
• Keilir lét gera stutt myndbönd um speglaða kennslu: http://www.keilir.net/haskolabru/nam/um-haskolabru/speglud-kennsla


Höfundur: Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis.

Skoðað: 6148 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála