Skip to main content
20. júní 2013

Nýjungar í kennslu- ratleikir í snjallsíma


steinunn2Ratleikir hafa löngum verið stundaðir þar sem þátttakendur leysa úr þrautum og keppa að því að vera fyrstir að ná settu marki. Með tilkomu snjallsíma er hægt að búa til ratleiki útfrá staðsetningarhnitum og nota skjá símans sem verkefnaborð en fyrirtækið Locatify hefur búið til ratleikjaforritið TurfHunt og vefsíðu þar sem ratleikir eru hannaðir.

Ratleikirnir eru einstakir, þeir eru fjölspilaleikir sem leiknir eru utandyra til skemmtunar, fræðslu og hópeflis. Í þeim er verið að kanna svæði, kynnast staðháttum og menningu út á landi eða í borgum, um er að ræða nýja leið til fræðast og leika sér á sama tíma.

 

Hugmynd um hefðbundna fjársjóðsleiki er útfærð með nýrri tækni þar sem samskipti spilara, ögrandi þrautir og sýndargull spila stóran þátt. Nýjungin er meðal annars fólgin í því að keppendur geta séð staðsetningu sína og hinna liðanna á skjá símans. Um leið er hægt að fylgjast með liðunum af vefsíðu þannig að þeir sem ekki taka beinan þátt geta verið áhorfendur. Einnig er hægt að skrá eitt lið til keppni.

Nemendur og kennarar geta hannað sína eigin leiki útfrá námsefninu

Með ratleikjum í síma er skapað nýtt form sem kennarar og nemendur, undir handleiðslu kennara, geta útbúið leiki í hinum ýmsu fögum sem taka mið af umhverfinu. Hægt er að nota það til sögukennslu, kennslu í umhverfisvísindum, líffræði, landafræði, stærðfræði, fornleifafræði, listum, íþróttum og fleiri fögum.  Leikirnir geta verið búnir til á ýmsum tungumálum.

Um leið og unnið er með þessi ákveðnu fög er verið að ýta undir sköpunargáfu og þróa ýmsa hæfileika sem eru mikilvægir í hópavinnu eins og t.d. samskiptahæfni, leiðtogahæfileika og fjölhæfni við lausn vandamála. Um leið er verið að stuðla að sterkari sjálfsmynd, eins og t.d. hjá þeirra sem eiga við lestrarerfiðleika að stríða en geta nýtt hæfileika sína á annan hátt utan skólastofunnar.  

Gamla máltækið, það er leikur að læra á hér vel við en með því að upplifa og breyta aðstæðum eiga nemendur oft auðveldara með að muna námsefnið en þegar hefðbundari lærdómsaðferðum er beitt. Þetta á bæði við nemendur í skólum og þátttakendur í fullorðinsfræðslu.

Almennt um ratleikjakerfið

Leikirnir er spilaðir í fjölspilakerfi og símarnir eru nettengdir.  Þetta eru keppnisleikir út á örkinni þar sem leikendur fá ábendingar, þrautir til að leysa og spurningar til að svara. Staðsetning hrindir af stað viðeigandi verkefnum á réttum stöðum.

Á á vefsíðu Locatify er hægt að búa til ratleiki á einfaldan og skilvirkan hátt. Þar er hægt að setja saman leik með kortum, hljóðskrám, myndum, myndböndum, staðsetningarhnitum, spurningum og sýndargulli. Leikirnir eru búnir til af kennurum og nemendum sem setja sig í spor leikjahönnuða. Nemendur hafa aðgang að eigin gagnabanka en kennarar geta deilt sínum gögnum og jafnframt séð stöðu nemenda í leik.

Stuðningur

Þróun ratleikjakerfisins hófst með stuðningi frá Nordic Game og í Nordplus verkefni var unnið að frekari þróun leikja í samvinnu við kennara og forsvarsmenn jarðvanga á Íslandi, Noregi og Svíþjóð.  Nú eru ratleikirnir notaðir í kennslu víða á Norðurlöndunum. Einnig hafa söfn og jarðvangar sett upp ratleiki til skemmtunar og fróðleiks fyrir viðskiptavini sína.

norskirkrakkariratleik 1

Norskir krakkar í ratleik

Snjallbúnaður í skólum

Í nokkrum skólum á Íslandi er verið að prófa sig áfram með að nota spjaldtölvur í kennslu en enn sem komið er lítið til af kennsluefni fyrir þessan miðil, það sem til er er yfirleitt á ensku. Mikilvægt er að búa einnig til efni á íslensku. Þessi vettvangur á eftir að eflast og í framtíðinni verður hægt að velja á milli ýmissa kennsluforrita sem eru skraddarasaumuð fyrir spjaldtölvur þar sem leikur er samtvinnaður námi. Með nýjum forritum er verið að útvíkka kennsluaðferðir og með því að nýta þau snjalltæki sem nemendur nota dags daglega er hægt að stuðla að frekari áhuga þeirra á námi.

Höfundur: Steinunn Anna Gunnlaugsdottir, verkefnastjóri

Birt 20. júní 2013

Skoðað: 6729 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála