Skip to main content
3. október 2013

Kynjasjónarmið í tækni og vísindum

stelpumyndJafnrétti kynjanna í tækni og vísindum er mikilvægur hluti af ábyrgð vísindasamfélagsins. Háskólinn í Reykjavík hefur frá stofnun beitt sér fyrir uppbyggingu tæknimenntunar á Íslandi, meðal annars með aðkomu að sértækum viðburðum, samstarfi um kennslu og menntun og með þátttöku í innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum. Þá hefur háskólinn lagt áherslu á þátttöku í verkefnum þar sem kynjasjónarmið í tækni og vísindum eru í forgrunni. „Það er von okkar að með því að vinna þessi verkefni í nánu samstarfi við helstu hagsmunaaðila á Íslandi, bæði innan og utan menntakerfisins, munum við stuðla að aukinni meðvitund um kynjasjónarmið í menntun og rannsóknum á háskólastigi og þá sér í lagi í tækni og vísindagreinum,“ segir Kristine Helen Falgren, fulltrúi atvinnu- og iðnaðartengsla í HR.

Jafnrétti innan tækni og vísinda mun efla þær greinar sem þar falla undir og tryggja að þekking og reynsla beggja kynja njóti sín, til hagsældar fyrir samfélagið allt.

STELPUR Í TÖLVUNARFRÆÐI

Árið 2003 lét HR, í samvinnu við Nýsköpunarsjóð námsmanna, vinna úttekt þar sem rannsakað var hvers vegna svo fáar konur innrituðust í tölvunarfræði. Þá voru leiðir til að fá fleiri konur í fagið kortlagðar. „Helsta niðurstaða rannsóknarinnar var sú að kvenkyns nemendur voru með minna sjálfstraust varðandi getu sína í tölvunotkun. Einnig höfðu þær minni reynslu og eignuðust tölvur seinna en strákar í sama aldurshópi,“ segir Ásrún Matthíasdóttir, lektor við tækni- og verkfræðideild HR og ritstjóri tímaritsins Tölvumála. Hún bendir einnig á að þær skorti fyrirmyndir þar sem mun færri konur en karlar hefðu sótt í tölvunarfræði undanfarna áratugi.

Síðastliðin þrjú ár hefur HR verið samstarfsaðili UT-messunnar. Þá hefur HR frá upphafi verið samstarfsaðili Ský* um UT-konur, sem voru leiðandi á sínum tíma í málefnum sem tengjast eflingu kvenna í tölvunarfræði á Íslandi. Á vegum UT-kvenna var til dæmis öllum 12 ára stelpum á Íslandi sendur kynningarbæklingur um tölvunarfræði og gert var myndband um fagið þar sem konur voru í forgrunni en ein af ástæðum þess að færri stelpur en strákar velja sér menntun í tölvunarfræði eru ranghugmyndir um hvað felist í faginu.

Í ársbyrjun 2012 var ákveðið að sérstök áhersla skyldi lögð á að vekja athygli ungra kvenna á háskólanámi í tæknigreinum. „Þegar maður notar fólk í auglýsingar má segja að myndin sem maður birti sé af manngerðinni sem auglýst er eftir. Ef við birtum fleiri myndir af strákum en stelpum þegar við auglýsum háskólanám í tæknigreinum, þá höfða auglýsingarnar einfaldlega frekar til stráka en stelpna. Þannig að við tókum þá sjálfsögðu ákvörðun að hafa jafnan hlut kynjanna í öllu efni sem við sendum frá okkur, hvort sem það eru auglýsingar, kynningarbæklingar eða umfjöllun í fjölmiðlum. Ein ástæða þess að færri stelpur en strákar hafa hingað til farið í háskólanám í tæknigreinum er skortur á fyrirmyndum. Við höfum þess vegna lagt sérstaka áherslu á að fá stelpur sem eru í tölvunarfræði, verkfræði og tæknifræði til að segja frá sinni reynslu af náminu þegar framhaldsskólanemendur koma í hús að kynna sér háskólanám,” segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá HR.

MIÐSTÖÐ FYRIR KONUR Í TÆKNI OG VÍSINDUM

Miðstöð fyrir konur í tækni og vísindum, ECWT (European Centre for Women and Technology), verður stofnuð formlega í HR í nóvember á þessu ári. Markmið ECWT er að tryggja mælanlega aukningu í þátttöku kvenna í menntun, nýsköpun, atvinnuþátttöku og forystu í upplýsingatækniiðnaði og tengdum greinum. ECWT er byggt á samstarfi fjölda hagsmunaaðila (e. multi-stakeholder partnership) með þátttakendum úr atvinnulífinu, frá hinu opinbera, háskólasamfélaginu og hagsmunasamtökum. Miðstöð ECWT á Íslandi mun einblína á að fjölga konum í tæknigeiranum, sér í lagi í leiðtogastöðum og við frumkvöðlastörf, með því að:

  • Hafa áhrif á stefnumörkun stjórnvalda og aðgerðir þeirra til úrbóta • Standa fyrir rannsóknum og mælingum á framvindu
  • Miðla þekkingu og stuðla að auknum samskiptum
  • Hafa áhrif á hindrandi þætti sem tengjast umgjörð og menningu í tæknigeiranum

Verkefnið fékk styrk úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála, sem hluti af áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum, og mun HR vinna náið með mennta- og menningarmálaráðuneytinu við framkvæmd þess.

genderSTE

Tölfræði sýnir að konur hafa áhuga á starfsframa í rannsóknum og því að vinna sem vísindamenn á sínu fræðasviði. Á Íslandi, líkt og í öðrum löndum Evrópu, er staðan hins vegar sú að konur hafa ekki átt sömu velgengni að fagna og karlmenn þegar kemur að rannsóknastöðum, sérstaklega á þetta við um stjórnunarstöður í rannsóknum. Háskólinn í Reykjavík tekur á næstu árum þátt í Evrópuverkefninu genderSTE en það er styrkt af COST-áætlun Evrópusambandsins, sem styður samstarfsnet á sviði vísinda- og tæknirannsókna en COST stendur fyrir Cooperation in Science and Technology.
Samstarfsnetið vegna genderSTE samanstendur af stefnumótandi aðilum og sérfræðingum frá stjórnvöldum, háskólum, rannsóknastofnunum, hagsmunasamstökum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum frá meira en 30 löndum í Evrópu. Samstarfsnetinu er ætlað að vinna markvisst að því að samþætta kynjasjónarmið í rannsóknum og nýsköpun og auka þannig hlut kvenna. Sérstök áhersla verður lögð á að rannsaka kynjasjónarmið fræðasviða sem tengjast borgarskipulagi, samgöngum, orkumálum og loftslagsbreytingum.

Markmiðið er að bæta „The lack of implementation of previously-elucidated gender in science and technology roadmaps and best practice guidelines throughout many COST countries“.

STELPUR Í UPPLÝSINGATÆKNI 2014

Í apríl 2014 mun HR standa fyrir sérstökum degi tileinkuðum stelpum í upplýsingatækni. Dagurinn á að vekja athygli á mikilvægi þess að kynna upplýsingatækni fyrir stelpum og stuðla að því að störf við tæknigreinar séu aðgengileg og lifandi starfsvettvangur sem laðar til sín ungt fólk af báðum kynjum. Viðburðurinn er eitt af undirmarkmiðum í stefnumótun Evrópusambandsins um upplýsingaþjóðfélagið og verður haldinn um alla Evrópu ár hvert.

Grein úr Tímariti Háskólans í Reykjavík, birt með leyfi skólans

Skoðað: 6320 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála