Skip to main content
5. desember 2013

Heilsuefling og tækni

biggiVið búum í heimi þar sem sífellt fleiri eiga við einhverskonar lífstílsjúkdóma að stríða. Rekja má 86% dauðsfalla í Evrópu til langvinna lífstílssjúkdóma (Hannes Hrafnkelsson, 2013). Aukin kyrrseta og aukinn aðgangur að skyndibita hefur m.a. stuðlað að því að offita eykst á Íslandi eins og annarsstaðar í heiminum. Í þjóðfélagi þar sem allt þarf að gerast hratt hefur neysla á skyndibita aukist gífurlega. Það lítur hins vegar út fyrir að næringarvitund jarðarbúa hafi ekki fylgt aukinni neyslu eftir. Óhætt er að segja að allflestir geri sér grein fyrir að pitsur og hamborgarar séu ekki heilsufæði en hins vegar er hugsanlegt að fólk geri sér ekki fyllilega grein fyrir hversu óhollur slíkur matur er. Kyrrseta jarðarbúa er einnig vandamál, vandamál sem hefur aukist samhliða aukinni tækni. Jarðarbúar eyða miklum tíma fyrir framan sjónvarpið, spjaldtölvuna, símann og tölvuna. Í staðinn fyrir að spila fótbolta úti á velli er gripið í FIFA leik. Þótt aukin tækni hafi leitt af sér aukin vandamál er hugsanlegt að hún bjóði einnig upp á ákveðna lausn.

Íslendingar eru einstaklega nýjungagjarnir og hér á landi eiga tveir af hverjum þremur snjallsíma ( MMR / Markaðs og miðlarannsóknir ehf. 2013). Með snjallsímum er hægt að nálgast ógrynni af smáforritum sem að geta stuðlað að bættu líferni. Hér verður stiklað á stóru og farið yfir helstu forrit sem að eru ókeypis og höfundur hefur nýtt sér í átt að betra lífi en listinn er langt í frá tæmandi.

Fyrst ber að nefna smáforritið Myfitnesspal. Notandi stofnar reikning og setur inn helstu upplýsingar um sig þ.e. hæð, þyngd, kyn og svo framvegis. Síðan velur notandi hvert markmið hans er. Að léttast, þyngjast eða að halda sér í núverandi þyngd. Forritið reiknar út hversu margar hitaeiningar notandi á að innbyrða til að ná markmiði sínu. Þegar reikningurinn hefur verið stofnaður og helstu upplýsingar skráðar hefst gamanið. Allan mat sem notandi setur inn fyrir sínar varir velur hann úr gagnagrunni og skráir í dagbókina. Það kom höfundi á óvart hversu breiður gagnagrunnurinn er og hversu margar íslenskar vörur er hægt að nálgast. Einnig er hægt að setja inn sína eigin uppskrift og sína eigin fæðutegund en það auðveldar skráninguna. Annað sem auðveldar skráningu til muna er að hægt er að skanna strikamerki á vöru og þá finnur forritið vöruna. Hægt er að skoða allar næringarupplýsingar í hverri matartegund og einnig hlutföll kolvetnis, fitu og próteins. Þetta er hægt að skoða bæði fyrir einn dag eða heila viku. Þetta kann að hljóma sem flókið og tímafrekt en er það alls ekki. Það að skrá verður alltaf auðveldara og auðveldara og segja má að það verið ávanabindandi, á góðan hátt.

Næsta ómissandi smáforrit að höfundar mati er Endomondo. Það forrit heldur utan um skráningar sem tengjast líkamsrækt og hreyfingu. Líkt og í Myfitnesspal útbýr notandi sinn eigin aðgang og skráir sig inn á hann. Í fríu útgáfunni er hægt að halda utan um æfingar, hlaupaleiðir, hvetja vini, taka þolpróf og margt fleira. Þegar að notandi ætlar að æfa stillir hann á workout. Þar getur hann valið úr hinum ýmsu íþróttum allt frá hlaupum yfir í skylmingar. Þegar notandi hefur æfinguna tekur forritið tímann á æfingunni og reiknar út hversu mikil brennslan er, það er að segja hversu mörgum hitaeiningum notandinn hefur brennt. Þegar valin er íþrótt þar sem hægt er að mæla vegalengd gerir forritið það með gps. Þar er hægt að sjá hækkanir og lækkanir á landi sem ferðast er yfir, hraða og svo framvegis. Það sem kórónar þetta allt saman er að hægt er að tengja Endomondo við Myfitnesspal og þar með eru hitaeiningarnar sem notandi brenndi komnar inn í áætlaðar hitaeiningar fyrir daginn.  

Oft heyrir maður fólk kvarta yfir því að það hafi ekki tíma til að fara í ræktina. Tímastjórnun og sá tími sem fer í að horfa á sjónvarp verður ekki tekinn fyrir hér en fyrir fólk sem að er tímabundið er smáforritið Sworkit fullkomið. Sworkit er einfalt í notkun. Þar velur notandi einfaldlega hvort hann vilji taka styrktaræfingu, brennslu eða jóga. Þegar notandi hefur gert upp við sig hvað hann hefur áhuga á velur hann nánari æfingu. Þegar valin er t.d. styrktaræfing er hægt að velja allan líkamann, efri líkamann, neðri líkamann, allan líkamann eða miðjusvæðið vinsæla. Að lokum velur notandi hversu miklum tíma hann vil eyða í æfinguna. Allt frá fimm mínútum og upp í 60 mínútur. Á skjánum sést hvaða æfingu notandinn á að gera og skeiðklukka sýnir hvenær á að skipta. Kosturinn við þetta smáforrit er að engin æfingatæki og tól eru nauðsynleg. Það eina sem þú þarft er smá tími og auðvitað snjallsími eða spjaldtölva. Eins og í Endomondo er hægt að tengja Sworkit við Myfitnesspal.

Síðasta smáforritið sem að höfundur notar mikið í heilsueflingu og á leið sinni að betra líferni er hugsanlega eitthvað sem að lesendur búast ekki við en það er Instagram. Instagram er, fyrir þá sem ekki þekkja, forrit þar sem notendur geta stofnað reikning og hlaðið inn myndum. Höfundur hreinlega sá ljósið þegar að hann áttaði sig á að heilsumelir þessa lands og margra annarra hafa unað að því að ,,hashtagga“ eða merkja myndir sínar með ákveðnum merkjum. Í forritinu er hægt að leita að ákveðnum merkjum sem tengjast myndum. Ef slegið er inn @ís er hægt að skoða 1579 myndir sem tengjast ísneyslu. Þetta er hægt að nýta sér þegar hugarflug í hollu matarræði þrýtur. Með því að leita að merkinu healthyeating (borðahollt) má sjá rúmlega milljón myndir sem að tengjast hollum mat. Með þessu myndum fylgja oftar en ekki uppskriftir sem hægt er að nýta sér. Með því eingöngu að leita að healthy má nálgast ógrynni af upplýsingum um hollan mat, hreyfingu og jákvætt hugarfar.

Með þessar upplýsingar í farteskinu ættu allir að geta tekið upp heilbrigðara líferni. Þessi smáforrit geta nýst öllum, hvort sem notandinn er að taka sín fyrstu skref í átt til heilsueflingar eða hokinn af reynslu í öllu því sem tengist heilbrigðu líferni . Notum tæknina til þess að bæta líf okkar. Spilum fótbolta í staðinn fyrir FIFA.

Höfundur: Birgir Þór Svavarsson nemandi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík

 
Skoðað: 3127 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála