Skip to main content
17. apríl 2014

Viltu taka þátt í að skrásetja sögu upplýsingatækni á Íslandi?

08Sögu upplýsingatækni á Íslandi hafa ekki verið gerð fullnægjandi skil og Öldungadeildi Ský telur mjög brýnt að skrásetja þróun og sögu upplýsingatækni á Íslandi frá upphafi til 2008-2010 enda hefur þessi tækni gjörbreytt mörgum atvinnugreinum (t.d. bankastarfsemi og fiskvinnslu) og skapað nýjar svo sem hugbúnaðarfyrirtæki og hátækni framleiðslufyrirtæki eins og Marel og Össur.

Upplýsingatækni er nú einn af helstu vaxtarbroddum íslensks atvinnulífs. Því er það mikill ávinningur fyrir samfélagið og þau fyrirtæki sem tekið hafa þátt í að skapa söguna að hún verði skrifuð.

Í haust verða liðin 50 ár frá því að fyrstu tölvurnar voru teknar í notkun á Íslandi, þ.e. IBM 1401 í október 1964, hjá Skýrsluvélum Ríkisins og Reykjvíkurborgar og IBM 1620 í desember 1964, hjá Reiknistofnun Háskólans.

Aðeins hafa komið út tvær bækur þar sem fjallað er um þetta efni. Þær eru Upplýsingaiðnaður í hálfa öld frá 2002 (Saga SKÝRR 1952 – 2002) og Í vist hjá IBM frá 2007 (Svipmyndir úr sögu IBM á Íslandi). Eins og titlarnir bera með sér fjalla þessi rit um sögu þessara fyrirtækja og sjónarhornið ræðst af því, en það vantar heildarmyndina og almenna umfjöllum um hvernig upplýsingatæknin þróaðist á Íslandi. Heimildir er einkum að finna í blöðum og tímaritum og hjá þeim sem störfuðu við upplýsingatækni á fyrstu árunum en mjög mikilvægt er að ná til frumkvöðlanna áður þeir hverfa á braut. Þannig verður hægt að gera skil öllum þeim fjölmörgu þáttum sem um ræðir, bæði einstökum atvinnugreinum og stærri fyrirtækjum sem hafa markað djúp spor undanfarin 50 ár. Þannig er ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtæki geti nýtt sér þessa heimildarsöfnun til að láta skrá sérstaklega sinn þátt.

Við teljum ráðlegast að fá fagmann, t.d. sagnfræðing eða blaðamann til að skrifa söguna. Áætlaður verktími til undirbúnings, gagna- og myndasöfnunar, og skrifa er áætlaður 2 ár og byggist það á óformlegu mati fagaðila sem leitað var til. Ský og Öldungadeild Ský munu skipa ritstjórn sem hefur yfirumsjón með undirbúningi, gagnasöfnum og skrifum. Við endanlega útgáfu er mjög æskilegt að eiga samstarf við reyndan útgefanda.

01

Ritið verður að einhverju leiti uppflettirit og talvert hefur verið rætt hvort útgáfan verði á hefðbundnu sniði bókar eða rafræn en m.t.t. eðli ritsins og þess að uppsetning ritsins er nánast sú sama fyrir vefútgáfu og prentað rit er gert ráð fyrir hvorutveggja. Það gerir að verkum að fyrirtæki sem styrkja útgáfuna geta fengið eintök af bókinni .

Áætlaður kostnaður við útgáfuna er 15 – 20 milljónir króna og ef það tekst að fjármagna skrif ritsins á fyrri hluta þessa árs gæti það komið út árið 2016.

Það er augljóst að hvorki Ský né Öldungadeild Ský hafa það fé sem til þarf til að kosta útgáfuna og leitum við hér með eftir stuðningi frá fyrirtæki/stofnun þinni til að skrásetja þróun og sögu upplýsingatækni á Íslandi frá upphafi til 2010.


Vertu endilega í sambandi fyrr en síðar ef þú hefur áhuga á að styrkja verkefnið.  Best er að senda tölvupóst á sky@sky.is

Myndi fengar af http://www.sky.is/index.php/faghopar-og-nefndir/oeldungadeild-sky/soeguvefur-oeldungadeildar/20-faghopar/oeldungadeild/134-myndasafn

Skoðað: 2824 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála