Skip to main content
3. July 2014

Blindratækni

rosa mariaBlindir og sjónskertir urðu snemma tölvuvæddir, enda kostir rafvæðingar augljósir þar sem með tölvum er auðveldlega hægt að stjórna leturstærð og birtuskilyrðum. Skjal sem er prentað út er algjörlega óaðgengilegt fyrir sjónskertan einstakling getur með einföldum aðgerðum orðið aðgengilegt í rafrænu formi. Með þróun talgervla og aukinni áherslu á aðgengi í forritun verður tölvutæknin aðgengileg blindum á eigin móðurmáli og báðir hópar standa jafnfætis sjáandi þegar kemur að t.d. ritvinnslu. Þetta aukna aðgengi tryggir blindum og sjónskertum atvinnu- og námstækifæri sem áður voru óhugsandi eða öllu falli mjög erfið. Blindir og sjónskertir ættu nú að geta sinnt til dæmis öllum skrifstofustörfum, án þess að lenda í vandræðum.

Aðgengi hjá öllum

Þrátt fyrir að flestar þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru séu frekar einfaldar í framkvæmd var aðgengi framan af ekki innbyggt í stýrikerfin Það voru einhverjar tilraunir til þess en ekkert sem var nothæft fyrir blinda og sjónskerta. Það var ekki fyrr en Steve Jobs og félagar ákváðu að aðgengi fatlaðra væri ófrávíkjanlega krafa í öllum Apple vörum að  þróunin fór á fullt.

Stækkun, tal og punktaletur

Rafrænt aðgengi blindra og sjónskertra felst í þessu þrennu; stækkun, tali og  punktaletri.  Stækkun getur verið ágætis lausn fyrir sjónskerta en þá oftast ekki nóg að stækka letrið í einstökum forritum eins og til dæmis innri stækkun í Outlook, heldur er nauðsynlegt að setja upp sérforrit sem stækkar allt. Það sem oft á til að gleymast er sú staðreynd að sá sjónskerti er alltaf sjónskertur, og þarf líka aðgengi að Windows Explorer til þess að geta notað vélina jafnfætis öðrum sjáandi. Þar að auki eru gæði leturs misjöfn og það krefst sértækrar tækni til að stækka lélega gert letur í allt að 36x stækkun. Vegna þessa eru á Windows stýrikerfum notuð sérstök stækkunarforrit, það eru Zoom Text forritið frá AiSquared og Supernova frá Dolphin.

Þessi forrit eru þung í keyrslu og hafa áhrif á hraða og líftíma vélarinnar, þau tryggja hinsvegar sjónskertum 100% aðgengi í öllu Windows viðmótinu.  Fyrir utan að stækka gefa þessi forrit notendum kost á því að breyta litasamsetningum og litavali. Sjónskerðingar eru mjög fjölbreytilegar og það sem hentar einum hentar alls ekki öðrum, en fyrir marga sjónskerta er birta erting þannig að svokölluð “öfug birtuskilyrði” (e. Inverted) henta þeim vel. Aðrir sjá bara ljósblátt eða alls enga liti og þá er lítið mál að aðlaga vélina eftir því. Fólk sem notar stækkun er mikið spurt út í skjái, hvort það sé ekki hentugast að nota eins stóran skjá og mögulegt sé hægt að fá. Það er vissulega þannig að sumir hafa not af stærri skjá og jafnvel tveimur, en þetta fer allt eftir því hvernig sjónsviðið er. Ef notandinn er til að mynda með mjög þrönga rörsjón þá er stærri skjár jafnvel bara til trafala. Þetta þarf því alltaf að meta út frá þörfum einstaklingsins.

Tal

Komin er tölvuverð reynsla af notkun talgervla á Íslandi, það ar tölvugerðum röddum sem með aðstoð sérstakra forrita geta lesið tölvutækan texta. Þróaðir hafa verið nokkrir talgervlar fyrir íslenska tungu; Sturla, Snorri, Ragga og nú síðast Karl og Dóra.

Með talgervli verður allur tölvutækur texti aðgengilegur blindum og þessi tækni nýtist einnig sjónskertum vel þar sem viðkomandi getur hvílt augun á meðan talgervillinn sér um að lesa lengri texta. Upplestur á tölvutækum texta gagnast í raun mun stærri hópi eða öllum þeim sem falla undir skilgreininguna “prentleturshömlun” og getur þá bæði komið alveg í stað lesturs eða sem stuðningur fyrir t.d. lesblinda. Talgervillinn í sjálfu sér er hinsvegar ekki nóg til þess að textinn sé lesinn upp, hann þarf stýriforrit sem finnur textann og ákveður hvernig hann er lesinn. Það eru margar lausnir til fyrir þetta á markaðinum. Bæði Zoom Text og Supernova bjóða upp á talstuðning, en fyrir alblinda er algengara að nota sérhönnuð forrit fyrir tal eins og JAWS frá Freedom Scientific og Nvda sem er ókeypis hugbúnaður  og aðgengileg á nvda-project.org. Þar fyrir utan er ótal smáforrita sem geta aðstoðað við að lesa fyrir fram tilgreindan texta, eins og t.d. vefþulur.

Í aðgengisforritum eins og JAWS og NVDA er músin gerð óvirk, þar sem bendilinn gagnast blindum lítið og fókus og aðgerðum stýrt með TAB-takka, örvum og Windows flýtileiðum. Með TAB er hægt að færa fókus frá innihaldi heimasíðu yfir í vefslóðareitinn og þar er hægt að eyða með ctrl+a+del og skrifa nýja slóð, velja Enter og færa svo fókus niður á innihald með TAB, talgervillinn les jafnóðum bæði til þess að tryggja að notandinn vita hvar hann sé staðsettur og til þess að upplýsa um innihald texta. Til þess að hægt sé að fara með TAB takka á milli réttra reita þurfa þeir að vera skrifaðir rétt af hálfu forritara. Þetta er lang oftast í lagi í dag og sú mikla og góða staðlavinna sem hefur verið unnin hefur svo sannarlega borið árangur. Enn koma þó stundum upp vandamál, þannig eiga mörg forrit erfitt með að finna texta í Chrome, á meðan það gengur mjög vel í Firefox og hefur batnað í Internet Explorer. Þetta breytist með uppfærslum, batnar og versnar á víxl.

Að heyra raddir

Talgervlar eru smíðaðir á mismunandi hátt og hafa þróast töluvert undanfarin ár, frá því að vera tölvuröddin sem við þekkjum úr framtíðarmyndum og hægt er að finna ókeypis á netinu (e. espeak) eru þeir orðnir þýðari og jafnvel hálf mannlegir eins og nýju IVONA raddirnar sem hlotið hafa mikið lof fyrir mannleg gæði. En það eru ekki öll forrit sem styðja allar raddir og mjög mismunandi hvað einstaklingum finnst þægilegt. Sumum finnst jafnvel betra að vera með ópersónulega “dósa” rödd á meðan aðrir eiga erfitt með að greina hvað hún segir og hér hefur samþætt heyrnar- og sjónskerðing og aðrar viðbótafatlanir  mikið að segja. Þau forrit og tæki sem notast við talgervil setja sín takmörk og styðja ekki endilega alla talgervla og þar að auk þarf alltaf fjármagn til að þýða notendaviðmótið yfir á íslensku til þess að það sé yfir höfuð nothæft.

Punktaletur

Punktaletursskjár er mjög góð lausn fyrir albindan tölvunotanda. Skjárinn gefur frelsi til að lesa og skrifa á tölvuna án þess að þurfa alltaf að hlusta og vera bundinn við talgervil. Þá er til að mynda hægt að hlusta á eitthvað annað á meðan unnið er við tölvuna, eða jafnvel notast við hvoru tveggja, t.d. yfirlestri eða öðru slíku.

Skjárinn er á stærð við lítið lyklaborð með punktaletursrönd yfir hann þveran, á henni er hægt að lesa það svæði sem virkt er á tölvunni. Þar að auki er einfalt lyklaborð og stýritakkar sem gera notanda kleift að fara um forritin. Þessi tækni er í mikilli þróun, hún er dýr í framleiðslu vegna þess hversu vandaðar punktaleturssellurnar þurfa að vera til þess að standast álag frá daglegri notkun en tæknin er það vönduð að fyrir vanan punktaleturs notanda gefur hún algjört aðgengi að vélinni og eykur ekki álagið á vélina á sama hátt og t.d. stækkunarforrit. Þessi tækni þarf líka umbúnað og þar eru notuð forrit eins og  SuperNova, JAWS og NVDA.  Mjög spennandi er að fylgjast með allri þróun varðandi snjallsíma og litla punktaleturskjái, sem gera notanda kleift að senda smáskilaboð og fara á netið í símanum án þess að hann sé síblaðrandi og er óháð tungumáli. Þar að auki er mikil þróun í Notetakers, sem eru í raun skjálausar fartölvur sem hafa punktaleturskjá í stað venjulegs skjás, þannig þarf blindur notandi ekki að burðast með tækni sem hann notar ekki og allt viðmótið er hugsað út frá punktaletursskjám.

Epli og Appelsínur

Eins og áður sagði tók aðgengismál blindra og sjónskertra stökkbreytingu eftir að félagarnir í Epli komu til. Ákvörðun þeirra um aðgengi sem innbyggðan hluta af öllum vörum frá Apple hefur haft ótrúleg áhrif á allan aðgengismarkaðinn og æ  fleiri almennir framleiðendur sjá nú sóma sinn í því að bjóða upp á aðgengi sem sjálfsagðan hluta af stýrikerfum. Bæði nýja Android kerfið og Windows 8 eru kynnt með loforðum um gott aðgengi. Sú loforð standast hinsvegar ekki við nánari athugun, eru bæði flókin og sein í notkun eins og Windows Narrator og hjá Android vantar enn möguleikann á að nota stækkun á heimaskjá, svo eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir virðingarverðar tilraunir virðast þessar lausnir enn flækjast fyrir fyrirtækjunum. Hins vegar eru íslenskir notendur ekki nógu vel settir með Apple sem hafa ekki ennþá sett íslenska rödd inn í talgervilinn sinn þrátt fyrir að státa af nánast öllum öðrum tungumálum í veröldinni. Einnig er óvíst með íslenskar viðmótsþýðingar og það er deginum ljósara að markaðurinn getur ekki sjálfur staðið undir því verkefni að tryggja framtíð íslenskrar tungu í rafrænum heimi. Það er því löngu tímabært að mennta- og menningarmálaráðuneytið komi að þessum málum með styrkjum, stöðlum og íð-orðavinnu. Þetta snýst bæði um aðgengi og verndun íslenskrar tungu, en bæði verkefnin eru á ábyrgð ráðuneytisins.

Sértæk eða almenn úrræði

Það er metnaður og draumur fatlaðra að aðgengislausnir verði eðlilegur hluti af almennu vöruúrvali. Það er miklu skemmtilegra að geta keypt sömu flottu græjur og allir aðrir og þurfa ekki endalaust að burðast með sérhannað dót sem oft er hannað eftir þeirri stefnu sem Wolfgang Baum kallar “FischerPrice-isme”.  Það er hinsvegar augljóst eins og þróunin er í dag að það er betra að hafa líka aðgengi að framleiðendum. Þegar upp koma samhæfingarvandamál og allt fer i klessu er nauðsynlegt að geta snúið sér að framleiðandanum, sérstaklega fyrir fatlaða sem hafa takmarkaða möguleika til þess að vinna án tölvu. Reynslan sýnir hinsvegar að stóru fyrirtækin, jafnvel þau sem eru þekkt fyrir gott notendaviðmót í vörum sínum, hafa lítil samskipti við notendur í veruleikanum. Það eru endalausar herferðir á netinu þar sem menn eru að reyna að fá Microsoft til að breyta þessu eða Apple til að breyta hinu. Svoleiðis herferðir eru upp á von og óvon, eins og sést með ítrekaðar tilraunir til þess að fá íslenska rödd í Apple vörurnar. Þegar kemur að sértækum lausnum eru framleiðendur allt öðruvísi í viðmóti og þar geta notendur fengið úrlausn og ábendingar sem geta skipt sköpum varðandi atvinnuþátttöku og lífsgæði almennt. Þetta er því ekki eins einfalt og það virðist og þó að það beri að  fagna almennum lausnum þá fylgir einnig kvíði fyrir þeirri framtíð þar sem  aðgengisþarfir einstaklingaeru jafn mikilvægar og óskir þeirra sem vilja fá gamla Solitare kapalinn inn í Windows 8, eða eitthvað álíka.

Ólíkindatól

Með tölvu við hönd geta blindri og sjónskertir leyst úr flestu sem snertir vinnu þeirra og tómstundalíf. Þeir geta náð sér í afþreyingu og jafnvel pantað mat, það er í raun bara buddan og ímyndunaraflið sem setja mörkin. Hins vegar er stærsti hluti þeirra sem missa sjón eldri en 67 og þau vandamál sem sá hópur stríðir við er almennt tölvulæsi. Það er  vandamál langt út fyrir raðir blindra og sjónskertra. Tæknin er orðin svo fáguð og væntingarnar svo miklar en á sama tíma er stór hluti fólksins í landinu sem á í erfiðleikum með einföldustu aðgerðir. Fólk upplifir að það verði erfiðara að lifa án tölvu en það á einnig erfitt með að kynna sér tæknina. Þannig verður það kunnátta einstaklingsins sem takmarkar aðgengi miklu frekar en tæknin sjálf.

Höfundur: Rósa María Hjörvar, fagstjóri tölvuráðgjafar, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga

Skoðað: 2709 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála