Skip to main content
14. ágúst 2014

Hvað gerist ef þú lækar allt á Facebook?

thorfinnur svarthvittÁ síðustu árum hafa félagsmiðlar orðið stærri hluti af daglegu lífi okkar en margir vilja horfast í augu við. Rannsóknir á áhrifum þess og á samspili okkar við miðlana eru tiltölulega nýtt viðfangsefni og því lítið kannað. Í vikunni rakst ég á skemmtilega grein sem nú fer ljósum logum um netið. Höfundur hennar er Mat Honan pistlahöfundur á vefmiðlinum Wired en greinin fjallar um tilraun sem hann gerði á Facebook-aðgangi sínum. Tilraunin var einföld: Mat ákvað að læka allt á Facebook sem yrði á vegi hans, þegar hann færi þar inn í tvo sólahringa, og sjá hvaða afleiðingar það hefði. Tilraunin reyndist breyta miðlinum meira og hraðar en hann grunaði.

Erfitt að vera jákvæður gagnvart öllu

Læk-hnappurinn á Facebook virkar ekki aðeins sem vítamín fyrir notendur sem setja þar inn efni, heldur er hnappurinn einnig mælikvarði fyrir árangur auglýsenda á miðlinum. Þetta samspil vakti áhuga Mat og hann langaði sérstaklega til  að kanna hvaða áhrif óheft notkun á hnappnum hefði á það algrím (algorithma) sem Facebook notar til þess að stýra flæði efnis inn á fréttavegginn.

Það að hrósa öllu efni sem fyrir augu bar reyndist erfiðara verkefni en ætla má í fyrstu. Mat fannst erfitt að hrósa einhverju sem honum í raun mislíkaði en einstaka undantekningar varð hann líka að gera. Þegar vinur hans einn sagði frá dauðsfalli í fjölskyldunni fannst honum ekki við hæfi að nota læk-hnappinn en hann lét sig hafa það þegar annar vinur birti mynd af barni sínu sem hafði slasast.

Málið vandaðist einnig þegar hann hafði hrósað fyrstu auglýsingunni. Í kjölfarið bauð Facebook honum þá að læka við fjórar greinar í viðbót um líkt efni og svo aftur og aftur, út í hið óendanlega. Mat sá fljótt að þetta gengi ekki upp og varð því að setja sér þær leikreglur að læka aðeins við fjórar fyrstu færslurnar sem Facebook stingi uppá þegar hann hefði hrósað einni grein og láta þar staðar numið.

Undir húddinu

Tilraunin afhjúpaði þá virkni sem við leiðum hugann ekki svo mikið að á Facebook, það hvernig fréttaveggurinn er mótaður í takt við það sem við viljum sjá. Þegar vélin sem sér um að fylla vegginn hefur verið hvött áfram þá tekur hún að senda meira og meira af því efni sem henni var hrósað fyrir og þannig sökkvum við dýpra og dýpra ofan í sams konar efni á kostnað annars efnis.

Að kvöldi fyrsta dags tilraunarinnar setti Mat læk á grein sem var skrifuð út frá sjónarmiði Ísraelsmanna á Gaza og að morgni var veggurinn orðinn fullur af efni frá öflum hægra megin á rófi stjórnmálanna, greinar sem mótmæltu innflytjendum og greinar sem hvöttu almenning til að vopnbúast, svo eitthvað sé nefnt. Það sama átti við um efni vinstra megin í pólitíkinni. Þannig varð veggurinn á endanum undarleg blanda af öfgaskoðunum frá vinstri til hægri. Nær allar færslur frá einstaklingum voru horfnar og veggurinn varð fullur af kostuðu efni og auglýsingum.

Mat fór líka að taka eftir sérstöku mynstri. Fyrst sá hann grein þar sem sett var fram almenn yfirlýsing um tiltekið málefni og ef sú grein fékk læk fylgdi önnur í kjölfarið sem útskýrði af hverju málefnið væri gott, eftir læk á þá grein kom sú síðasta sem hvatti notandann til að taka afstöðu til málefnisins, til dæmis með spurningu um málefnið sem borin var á borð fyrir notandann.

Að sökkva ofan í hjólförin

Eftir að hafa lækað allt efni sem barst í tvo sólahringa var Facebook orðið að stað sem Mat líkaði alls ekki við. Athafnir hans höfðu svo ekki einungis áhrif á hann sjálfan heldur fylltist veggur vina hans einnig af öllu þessu efni sem endaði með því að hann fékk hringingar frá félögum sem vildu fá að vita hvort Facebook-aðgangur hans hefði verið hakkaður. Tilraunin vakti upp fjölmargar spurningar um notkun okkar á félagsmiðlum og um þá hliðarheima sem við höfum tilhneigingu til þess að dragast ofan í. Með læk-hnappnum höfum við áhrif á sýn okkar á heiminn og nauðsynlegt er að vera meðvitaður um að rífa sig upp úr þeim hjólförum sem stöðugt myndast og auðvelt er að festast í.
 
Höfundur: Þorfinnur Skúlason, Senior Global Webmaster Alvogen, tók saman byggt á grein Mat Honan sem má lesa í heild sinni á Wired
(http://www.wired.com/2014/08/i-liked-everything-i-saw-on-facebook-for-two-days-heres-what-it-did-to-me/

Skoðað: 2542 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála