Skip to main content
19. febrúar 2015

Snjallsíma Öldin

Margrét Rós EinarsdóttirEru snjalltækin að taka yfir heiminn? Það er ekki að furða að þessari spurningu sé velt upp, þar sem 45% aukning var á notkun snjallsímtækja árð 2014. Fjöldi nettengjanlegar tækja hefur nú þegar vaxið fram úr  heildafjölda jarðarbúa. Samkvæmt skýrslu Cisco Visual Networking Index er heildar fjöldi nettengjanlegra tækja í heiminum rúmlega 7,4 milljarðar og er áætlað að þau verið um 11,5 milljarðar fyrir árið 2019 (1). Fyrir um tíu árum síðan gat almenningur varla gert sér í hugarlund þá tækni sem til er í dag. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því fyrsti sjallsíminn með snertitækni kom á markaðinn árið 2007. Hvað þá frá því þegar Motorola var í fararbroddi að þróa fyrstu farsímatæknina í kring um 1970.

En það má með sanni segja að þegar Martin Cooper hjá Motorola, (kallaður faðir farsímans) hafði þann draum fyrir um 42 árum síðan að fólk gæti ferðast með símana sína hvert sem er, þá hefði hann vart geta ímyndað sér þær framfarir sem átt hafa sér stað í dag. Notkunarmöguleikar snjallsíma nútímans hefðu virðst vera töfrum líkast. Á innan við einungis tíu árum höfum við séð stórkostlegar framfarir. Það má því segja að bylting hafi orðið í þróun á hinum ýmsu farsíma- og fjarskiptatækjum sem tengst geta Internetinu (2).

Með tilkomu þráðlausra tækja á borð við snjallsíma og spjaldtölva hafa möguleikar notenda í fjarskiptatækni gjörbreyst. Umrædd tæki eru í raun alhliða samskiptatæki sem bjóða upp á ótal möguleika og nýtast allt í senn sem sími, tölva, myndavél, myndbandstæki, staðsetningartæki, tónlistarspilari o.fl. Tækin gera notendum kleift að gera nánast hvað sem er óháð staðsetningu (3).  Snjallsímar hafa þróast í það að vera tæki sem gerir okkur kleift að sinna allskonar verkefnum og hlutverkum sem hefði virtist ómögulegt fyrir nokkrum árum síðan. Snjallsíminn þjónar sífellt vaxandi hlutverki í daglegu lífi fólks. Spurning er hins vegar hvort þessar framfarir munu halda áfram á sama hraða?

Í hverjum einasta mánuði kemur nýr snjallsími á markað sem er hraðari, öflugri og betri í alla staði miðað við eldri útgáfur á markaði. Snjallsímar nútimans hafa nánast allir sömu ákveðnu eiginleikana, og sem dæmi má nefna hágæða myndavélar, fingarfaraskynjarar, háskerpu skjáir (HD), að geta streymt rauntíma myndbönd, radd auðkenni og 4G háhraða netbúnað. Í stuttu máli er snjallsími nútímans eins og öflug tölva sem passar í rassavasann og hægt er að nota til að fá aðgang að nánast öllum þeim upplýsingum sem þú þarft, á hvaða tíma sem er. En hvert stefnir þróunin og hvað munu snjallsímar í framtíðinni gera okkur kleift að gera (4).

Þróun snjallsímans viðrist hreint ekki vera á undanhaldi, heldur þvert á móti er talið að þróunin muni verða hraðari en nokkru sinni fyrr á þessu ári. Sérfræðingar segja að þróun snjallsímans á næstunni mun aðallega snúa að því að notendur hafi greiðari aðgang að hugbúnaði og efni í snjallsímann sinn. Stafræn fjölmiðlun og gerð ýmissa smáforrita er og hefur verið í mikill þróun undanfarin ár, en sú þróun er auðvita knúin áfram af þeirri miklu útbreiðslu á snjalltækjum og notkunarmöguleikum þeirra (5). Þannig er neytendahegðun fólks á Netinu búin að taka mjög hröðum breytingum. Fólk er ekki lengur háð því að tengjast Netinu í gegnum gömlu góðu borðtölvuna. Með tækjum eins og snjallsímum og spjaldtölvum er fólki nú til dags kleift að sækja sér stafrænt efni og upplýsingar eða sinna helstu erindum nánast hvar sem er og hvenær sem er (6).

Ef við snúum okkur aftur að tækjunum sjálfum hvað varðar eiginleika og tækni þeirra þá virðist framfarirnar samt sem áður taka litlum skrefum með hverri útgáfur sem kemur á markað, og ef miða á við þann fjölda snjallsíma sem kemur á markað á hverju ári. Spurningin er því hvort einhverjar nýjungar séu á leið á markað sem munu breyta þróun símanna, eða verða einungis núverandi eiginleikar betri?

Snjallsímatækni framtíðarinnar

Samkvæmt vefsíðunni Mobile Industry review þá eru nokkrar nýjungar sem gætu litið dagsins ljós á næstu fimm til tíu árum.

Raunveruleikavafri

Eitt þessara nýjunga er eins konar gagnvirkur raunveruleikavafri (augmented reality eða AR). Það er, samblanda að skreyttum veruleika og raunverulegu útsýni notandans. Tæknina má nota í hugbúnað fyrir snjallsíma þar sem hún samnýtir myndavél, stafrænan áttavita og GPS-staðsetningarhnit. Þetta gefur notandanum möguleika á að sjá ýmsar upplýsingar um heiminn í kringum sig í gegnum myndavél símans, t.d um umhverfið eða hluti í formi margmiðlunar í rauntíma.  Forritið sækir þessar upplýsingar í GPS-hnit í nánasta umhverfi símans (7).

gr1

Með hjálp AR verða upplýsingar um nánasta umhverfi notandans gagnvirkt og nýtanlegt á starfrænan máta. Þannig leggjast starfrænar upplýsingar yfir hin raunverulega heim, þ.e. útsýni notandans í gegnum myndavélina. Þessar upplýsingar birtast t.d. í formi hljóða, vídeó, grafískra teikninga eða GPS-gagna. Á örfáum árum hefur þessi tækni farið nánast úr því að vera vísindaskáldskapur yfir í raunverulega nýtanlega tækni. Þessa tækni má finna í stökum forritum og tækjum, en þeim mun fara fjölgandi á næstu misserum (8).

Sveigjanlegur símaskjár

Nú þegar er hægt að finna síma með sveigða skjái á markaðinum. Líklega er þetta ein leið fyrir fyrirtæki til að aðgreina síma sína á markaði, þ.e. að koma með eitthvað nýtt. Það er nokkuð ljóst að ef hægt væri að beygja og aðlaga lögun síma að aðstæðum þá væru þeir mun handhægari og notkunarvænni við ákveðnar aðstæður. Ýmsar tilrauni hafa þó verið gerðar með símaskjái sem hægt er að beygja eða sveigja. Nokia gerði t.d. tilraun árið 2008 til að þróa snjallsíma með flötum skjá sem hægt var að beygja umbreyta í armbandssíma.

gr2

Það er samt ljóst að með nýrri skjátækni eins og OLED og nýjungum í ýmsum efnivið í umgjörð síma, þá gætu nánast pappírsþunnir skjáir litið dagsins ljós innan fárra ára. það er hins vegar spuning hvort það verði á kostnað annarra þátta í notkunarmöguleikum símanna. Það eru þó ýmsir þættir sem þarf að þróa betur áður en hinn upprúllanlegi sími lítur dagsins ljós (9).

Snjallsímamyndvarpi

Margar tilraunir hafa verið gerða til að þróa innbyggða myndavarpa í snjallsímum og sem dæmi má nefna Samsung Galaxy Beam sem kom á markað fyrir nokkrum árum. Það væri ekki slæmt að geta varpað myndum, slæðum, tölvuleik eða myndabandsupptökum á næsta vegg með símanum án þess að þurfa sjónvarp eða sér myndvarpa. Vandinn við Samsung Galaxy Beam er að myndin sem síminn varpar er frekar lítil miðað við stærð mynda í hefðbundnum myndvörpum.

gr3

Þessi tækni er kannski ekki orðin að staðalbúnaði í dag og má líklega rekja það til þeirar tækni sem vatnar upp á, eins og til dæmis aukið birtustigi skjásinns og líftíma rafhlöðunnar sem þarf til að keyra almennilegan myndvarpa. Einnig tekur myndvarpinn töluvert pláss og gerir því síman mun þykkari og stærri í umgjörð en gengur og gerist í hönnun snjallsíma nútímans. Þangað til að hægt verður að sigrast á þessum vandamálum þá er ólíklegt að við getum séð þessa tækni í snjallsímum á næstunni (10).

Þrívíddar skjár og grafísk heilmynd

Það eru þó nokkur fyrirtæki byrjuð að þróa skjái með þrívíddar (3D) eiginleikum, eins og t.d.  Amazon Fire Phone. Þá hreyfast tákn og hlutir á skjánum eftir stöðu höfuðs áhorfandans. Það virðist samt fjarlægur draumur að slík tækni verði að staðalbúnaði í snjallsímum á næstunni. En ef svo verður, þá má spyrja sig hvað kemur þá næst? Er næsta skref grafísk heilmynd (holographic display)? Það er tækni sem við höfum einungis séð í bíómyndum hingað til. Gæti þetta í raun verið næsta bylting í snjallsímatækninni?

gr4

Með því að samnýta 3D skjátækni og innbyggðan myndvarpa er möguleiki að hægt verði að framkalla grafíska heilmynd út úr símanum. Það verður þó líklega ekki í bráð, en skemmtileg tilhugsun að geta átt samskipti við aðra snjallsímanotendur með hjálp heilmyndatækni í snjallsímum, og hvað þá að spila tölvuleiki eða eiga myndsímtöl við aðra. Einhvern tímann í framtíðinni verður þetta hugsanlega möguleiki, vonandi (11).

Framtíð snjallsímans

Það sem hér er upptalið að ofan er tækni sem mun hugsanlega getað litið dagsins ljós á næstum fimm til tíu árum, Hins vegar er það líka möguleiki að eitthvað af þessari tækni  muni alls ekki verða að veruleika. Það mun tíminn einn leiða í ljós.

Það sem er líklega mest þörf á í þróun snjallsímanna er öflugri rafhlaða og nýjar leiðir til að hlaða símana til að mæta orkuþörf í daglegu amstri. Miðað við alla þá notkunarmöguleika og hversu mikið fólk notar þessi tæki daglega við hinar ýmsu athafnir og verkefni þá er skammur líftími raflöðunnar líklega stærsta vandamálið. Það lítur samt út fyrir að það sé töluvert langt í land með þróun á rafhlöðu sem endist lengur en sólarhring, eða svo sem eins og eina viku til tvær (12) .

Eins og fram hefur komið þá hafa snjallsímar nútímans nánast allir sömu eiginleikana, en hins vegar munu forritin og þjónustan sem við nýtum í gengum símana og hvernig við nýtum þjónustuna verða mun mikilvægara mál á næstu misserum. Aðalmálið núna er því að þróa lausnir fyrir notendur sem snúa að notkunn tækjanna við margvíslegar aðstæður og tilefni í stað þess að einblína á tækin sjálf (13).

Höfundur Margrét Rós Einarsdóttir, Alþjóðaviðskiptafræðingur

Heimildir

[1] Cisco, 2015

[2] Mobile Industry Review, 2015

[3]Helgi Pjetur Jóhannsson og Stefán Baxter, 2012

[4] Mobile Industry Review, 2015

[5] comScore, 2015

[6] Cisco, 2015

[7] The Economist, 2009

[8] Mobile Industry Review, 2015

[9] Mobile Industry Review, 2015

[10] Mobile Industry Review, 2015

[11] Mobile Industry Review, 2015

[12] Mobile Industry Review, 2015

[13] Cisco, 3 febrúar 2015

 

 

Skoðað: 4126 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála