Skip to main content
4. júní 2015

Íslenskir vísindamenn eru ekki að nýta sér reglur tímarita um birtingar greina í opnum aðgangi

Sigurbjorg JohannesdottirÍslenskir vísindamenn eru ekki að nýta sér þá möguleika sem þeir hafa varðandi að birta vísindagreinar í opnum aðgangi. Niðurstöðurnar eru byggðar á greiningu á birtingarlista vísindagreina starfandi fræðimanna við Háskólann í Reykjavík árið 2013.

Á sama tíma og áskriftargjöld vísindatímarita hafa farið hækkandi þá hefur ný hugmyndafræði orðið til varðandi útgáfu og dreifingu á vísindagreinum. Með tilkomu tölvunnar, öflugs hugbúnaðar og Internetsins hefur reynst unnt að búa til fullkomin afrit af útgefnum ritrýndum greinum og dreifa þeim til fólks út um allan heim. Þetta hefur gert það að verkum að auðveldara er að dreifa niðurstöðum rannsókna og áhrif rannsóknanna geta því orðið meiri þar sem þær ná til stærri lesendahóps.
Mynd 1 Merki opins aðgangs

Skilgreining á opnum aðgangi

Opinn aðgangur er þýðing á enska heitinu Open Access sem er skammstafað OA. Á árunum 2002 til 2003 voru gefnar út þrjár opinberar yfirlýsingar þar sem opinn aðgangur er skilgreindur. Um er að ræða Búdapest yfirlýsinguna sem skilgreinir hvað OA er, Bethesda yfirlýsinguna sem fjallar um útgáfu í OA og Berlínar yfirlýsinguna sem fjallar um hvernig OA getur leitt til aukinnar þekkingar. Allar yfirlýsingarnar eru sammála um að OA þýðir að um er að ræða ókeypis efni sem er aðgengilegt í rafrænu formi og laust við mikið af þeim leyfishömlum sem felast í höfundarétti. Myndin sýnir merki opins aðgangs.

Í daglegu tali er oft talað um að greinar séu í OA af því þær eru rafrMynd 2 Merki afnotaleyfisins CC BYænar og aðgengilegar í ókeypis aðgangi á Internetinu. Það er þó ekki raunin því það þarf að koma meira til. Slíkar greinar eru í ókeypis aðgangi en þær eru með hefðbundinn höfundarétt og þess vegna með takmarkaðan dreifingar- og notkunarrétt. OA þýðir að greinarnar eru með opin afnotaleyfi, til dæmis afnotaleyfi Creative Commons. Algengast er að vísindagreinar í OA séu með afnotaleyfi CC-BY sem þýðir að lesendum er frjálst að dreifa þeim, endurnýta, textagreina, endurblanda og byggja ofan á þær. Það eru þó ákveðin skilyrði samfara þessu leyfi en endurskoðun þeirra þarf að vera gerð innan ramma höfundaréttarlaga. Höfundar halda höfundarétti sínum á sama tíma og þeir leyfa öðrum að afrita, dreifa og nota verk þeirra á skapandi hátt. Þeir leyfa að þau séu nýtt til frekari vinnslu eða á annan hátt sem eykur þekkingarlegt verðmæti þeirra. Myndin sýnir merki afnotaleyfis CC-BY.

Birting vísindagreina í tímaritum og varðveislusöfnum
Frá aldamótum hefur verið mikill þrýstingur frá vísindamönnum og almenningi um að niðurstöður rannsókna sem er greitt fyrir af opinberu fé séu birtar í OA. Þessar raddir hafa sífellt orðið hærri og orðið til þess að ný viðskiptamódel hafa fæðst.

Vísindamenn í dag hafa val um að birta ritrýndar niðurstöður rannsókna sinna í áskriftartímaritum, blönduðum tímaritum, opnum tímaritum og varðveislusöfnum. Framgangur þeirra í starfi, sérstaklega í akademíska háskólaumhverfinu, byggir á að þeir birti greinar sínar í ritrýndum og virtum ISI tímaritum. ISI Web of Knowledge heldur úti gagnagrunni fyrir þúsundir fræðitímarita þar sem fræðimenn geta skoðað hvaða greinar hafa fengið flestar tilvísanir og hverjir hafa vísað í þær. Hann eykur áhrif tímaritanna með því að auka sýnileika þeirra og veita þeim ISI gæðastimpil.

Meirihluta ISI tímarita eru seld í áskrift en þó eru mörg opin tímarit sem hafa fengið ISI gæðastimpilinn, og þeim fjölgar á hverju ári. Áskriftartímarit og blönduð tímarit eru seld í áskrift til lesenda og er notkun þeirra háð útgáfuskilmálum útgefenda. Opin tímarit eru aðgengileg í ókeypis aðgangi og eru greinarnar í þeim með opnum afnotaleyfum.

Vegna þess þrýstings sem hefur myndast frá samfélaginu um opna útgáfu hafa mörg áskriftartímarit orðið blönduð og boðið höfundum upp á að gefa greinar þeirra út í OA í rafrænni útgáfu tímaritanna. Þessi leið kallast gullna leiðin og felst í að höfundar greiða birtingarkostnaðinn sem getur verið hár. Sum opnu tímaritanna krefjast einnig greiðslu af höfundum en gjald þeirra er oftast miklu lægra og flest þeirra fara ekki fram á að höfundar greiði birtingarkostnaðinn.

Flest tímarit hafa reglur þar sem þeir leyfa höfundum að birta sjálfir útgefnar greinar í OA. Þessi birtingarleið hefur verið kölluð græna leiðin eða varðveisluleiðin. Höfundarnir geta sjálfir birt greinarnar í opnu varðveislusafni samhliða útgáfu greinarinnar í tímariti eða með birtingartöf sem getur verið frá þremur mánuðum og upp í nokkur ár. Reglur útgefenda kveða á um að höfundar megi birta greinarnar í almennum varðveislusöfnum, stofnanavarðveislusöfnum eða/og nafngreindum varðveislusöfnum sem þeir tiltaka.

Mynd 3 Frædimaður

Fræðimaður sendir grein til útgáfu í tímariti og birtir hana einnig í OA í varðveislusafni.

Birting íslenskra vísindagreina í OA
Um 1/3 af útgefnum vísindagreinum, sem íslenskir fræðimenn eru höfundar að, voru birtar í OA árið 2013 [1]. Þetta er í samræmi við það hlutfall sem starfandi fræðimenn við Háskóla Reykjavíkur (HR) sögðust hafa birt í OA árið 2013 [2] í könnun, sem var framkvæmd við skólann, vorið 2014. Það reyndust vera 22 fræðimenn sem höfðu svarað hversu mikið þeir hefðu birt í OA. Náð var í birtingarlista þessara fræðimanna, fyrir árið 2013, á vefsíðu HR.  Hann reyndist innihalda 58 greinar. Tegund tímaritanna og reglur þeirra varðandi birtingu í OA voru skoðaðar. Þannig var fundið út hvað hefði verið hægt að birta margar af greinunum í OA strax eða með nokkurra mánaða birtingartöf.

Niðurstöðurnar voru að 10% greinanna voru gefnar út í ISI tímaritum sem eru á alþjóðlega listanum DOAJ yfir opin tímarit. Í blönduðum tímaritum birtust 81% af greinunum en ekki var skoðað hvort að höfundar greiddu birtingarkostnað til að fá greinarnar birtar í OA. Fræðimennirnir sögðu að  þessi kostnaður væri stærsta hindrunin fyrir því að þeir birtu greinar í OA.  Útgefendur sem birtu 9% af greinunum gáfu ekki möguleika á að birta þær í OA í sjálfum áskriftartímaritunum.

Þegar skoðað var hvað höfundar hefðu getað birt margar greinar í opnum varðveislusöfnum kom í ljós að það hefði mátt birta allar greinarnar í OA í varðveislusöfnum.

Mynd 4 Birtingarmöguleikar

Birtingarmöguleikar greina í OA

Tímaritin eru með reglur um hvaða útgáfu af greinum höfundar mega birta. Þegar það var skoðað var ljóst að höfundar hefðu mátt birta 98% af ritrýndum greinum sem innihaldi það sama og þær greinar sem birtast í tímaritunum en í uppsetningu höfundar. Það hefði mátt birta 88% af óritrýndum handritum að greinum sem búið var að samþykkja til útgáfu. Þá hefðu höfundar mátt birta 26% af greinum í pdf formi með sama útliti og er á þeim í tímaritunum.

Óritrýndu handritin og pdf af útgefnu greinunum hefðu höfundar mátt setja strax á útgáfudegi þeirra í varðveislusöfn. Það hefði mátt birta 88% af ritrýndu greinunum strax á útgáfudegi þeirra í varðveislusöfnum, 2% eftir 9 mánuði, 4% eftir 12 mánuði, 5% eftir 12 eða 24 mánuði eftir fræðasviði og 2% eftir 18 mánuði.

Mynd 5 Birtingarmöguleikar 2

Birtingarmöguleikar greina í OA í varðveislusöfnum.

Niðurstöður
Miðað við þessar niðurstöður er ljóst að vísindamennirnir eru ekki að nýta sér nema að litlu leyti að geta birt útgefnar greinar sínar í OA. Flestir sögðu að stærsta hindrunin væri hár birtingarkostnaður eins og hefur komið fram áður. Margir sögðu að þeir sæju engan persónulegan ávinning af því þar sem þeim væri ekki umbunað fyrir það í hvatakerfi skólans. Margir nefndu að þeir þekktu ekki nægilega vel útgáfu í OA og þætti erfitt að átta sig á reglum útgefenda varðandi OA. Aðrar hindranir sem voru nefndar voru að góð tímarit leyfa ekki OA og að vísindasamfélagið notar lokuð tímarit. Mikið af þeim hindrunum sem vísindamennirnir halda að þeir standa frammi fyrir varðandi birtingu greina í OA byggjast á misskilningi. Það virðist því vera að ein stærsta hindrunin sem þeir standa frammi fyrir sé þekkingarleysi þeirra á OA.  

Til viðbótar þessu standa vísindamennirnir frammi fyrir mjög stórri hindrun sem flestir þeirra vita ekki af. Vinnustaðurinn þarf að vera með skilgreint eigið varðveislusafn sem stenst alþjóðlega staðla, er með góða leit og fullnægir kröfum Evrópusambandsins um opin varðveislusöfn. HR er ekki með slíkt varðveislusafn og það þýðir að starfsmenn skólans geta ekki nýtt sér reglur tímaritanna varðandi birtingar á 45% greinanna í OA. Mörg tímaritanna leyfa eingöngu birtingar í OA í skilgreindu varðveislusafni stofnunarinnar sem vísindamaðurinn vinnur hjá. Það þýðir að skóli sem setur sér stefnu um OA þarf að geta boðið vísindamönnum sínum upp á að birta greinarnar í opnu, leitarbæru og alþjóðlegu varðveislusafni skólans.

Höfundur: Sigurbjörg Jóhannesdóttir myndlistarmaður og nemandi við Háskóla Íslands

Heimildir:
[1] Sólveig Þorsteinsdóttir. (2014). Open Access to research articles published in Iceland in 2013. ScieCom Info, 10(1).
[2] Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Kristján Kristjánsson og Guðrún Tryggvadóttir. (2014). Opinn aðgangur í Háskólanum í Reykjavík. Niðurstöður rannsóknar sem var gerð vorið 2014. Reykjavík: HR.

Mynd 6

 eða [CC-BY]

Þessi grein er gefin út með afnotaleyfi Creative Commons. Það þýðir að hver sem er má endurnýta hana að hluta til eða alveg, breyta, dreifa, textagreina og búa til afleidd verk í hvaða miðli sem er. Skilyrðin eru að upprunalegs höfundar sé getið og að um sé að ræða skapandi vinnu sem eykur þekkingarlegt verðmæti greinarinnar.

 

Skoðað: 3102 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála