Skip to main content
3. desember 2015

GPS ÖRYGGISTÆKI FYRIR ÞÍNA NÁNUSTU

annaÍ þessari grein munum við fjalla um GPS öryggistæki sem hægt er að nota til að fylgjast með og vakta staðsetningu þeirra sem standa þér næst. Það eru til margar mismunandi gerðir af þessum tækjum og úr mörgu að velja hvort sem þú vilt vakta barnið, unglinginn, gæludýrið eða aldraðan ættingja. Við munum skoða almenna virkni tækjanna, notagildi þeirra, framboð og verð ásamt kostnaði af rekstri og notkun. Við veltum því fyrir okkur hver sé þörf foreldra fyrir notkun þessara tækja, í hvaða aðstæðum þau nýtast og hvenær þörfin sé hætt að vera nauðsyn og orðin að kvöð.

Hvernig nýtast GPS öryggistækin þér?
Það eru til margar gerðir af GPS öryggistækjum, þau eru eins misjöfn eins og þau eru mörg í útliti, virkni og hönnun. Öll tækin eiga það þó sameiginlegt að vera fyrst og fremst eftirlits og öryggistæki. Hér verður farið yfir helstu eiginleika tækjanna sem í boði eru á markaðnum í dag, hvað þau gera og hvernig þau virka sem öryggistæki. Þó getur verið að einstök tæki bjóði ekki upp á alla þessa möguleika í einu.

Að notast við raunverulegt umhverfi til að finna þann sem þú leitar að.

Sé óskað eftirnákvæmri staðsetningu barns kemur á skjáinn ör sem sýnir í hvaða átt barnið er staðsett. Snjallsíminn er látinn vísa í þá átt með kveikt á myndavél símans og birtist þá tvískiptur skjár sem sýnir annars vegar kort af staðsetningunni og hins vegar umhverfið sem aðstandandinn er í. Myndin sýnir dæmi um það hvernig þessi virkni birtist tvískipt á skjá símans.

realsurround

Afmarkað svæði sem viðkomandi má vera á
Hægt er að búa til svokallaðar girðingar (e. safe zone) sem afmarkar það svæði sem t.d. barn eða gæludýr mega vera á. Það eru engin takmörk fyrir því hversu stór afmörkunin getur verið. Einnig er hægt að tímasetja afmörkunina og stilla hana á ákveðna daga vikunnar. Sem dæmi má nefna að ef barn er í skólanum, þá er hægt að takmarka svæðið við skóla barnsins og umhverfi hans. Sé þessi afmörkun rofin á þeim tíma sem hún er stillt á, fær sá sem fylgist með barninu tilkynningu um leið.

Hraðatakmarkanir
Sum GPS tæki bjóða upp á þann möguleika að fá tilkynningar um ferðahraða á viðkomandi sem fylgst er með. Tilgangurinn með þessum valkost er tvenns konar, annars vegar til þess að fylgjast með ökuhraða einstaklings með bílpróf og hins vegar fyrir þá sem eiga ekki að ferðast um hraðar en á gönguhraða. Fyrir þann sem er ekki með bílpróf, eins og t.d skólabarn, þá væri til að mynda óeðlilegt ef það væri allt í einu komið á ökuhraða. Þá fær viðkomandi sem fylgist með barninu strax tilkynningu í símann sinn og getur brugðist við á viðeigandi hátt. Hins vegar eru hraðatakmarkanirnar oftast hugsaðar fyrir unglinga sem eru nýbúnir að fá bílpróf. Þá geta foreldrar fylgst með að þau keyri á eðlilegum og leyfilegum hraða.

Aðrir notkunarmöguleikar GPS tækisins
Sum tækin bjóða upp á að skoða staðsetningu GPS hnita ásamt tímasetningu þeirra aftur í tímann. Þessi eiginleiki gæti einnig nýst fyrir eftirlit gæludýra sem ganga laus, eins og t.d ketti. Þá geta eigendur fylgst með hvað kettirnir gera á nóttunni og hvar þeir haldi sig, séu þeir ekki heima hjá sér. Hjá einum framleiðanda tækisins var boðið upp á þá þjónustu að fá viðvaranir ef GPS tækið væri í nágrenni við heimili hjá þekktum barnaníðing. Það var einnig í boði hjá öðrum framleiðanda að geta fylgst með staðsetningu síma hjá allri fjölskyldunni. Flestir framleiðendur bjóða upp á að GPS tækið virkaði einnig sem öryggishnappur, þar að segja að ef ýtt væri á hnapp á tækinu þá sendir það boð til neyðarlínunnar umsvifalaust.

gps navigation smartphone 27730860
Tækin geta einnig haft þann möguleika á að framkalla hávært hljóð sem auðveldar foreldrum og fólki í nágrenni barnsins að staðsetja barnið með því að ganga á hljóðið.

Af hverju ættu foreldrar að nýta sér þessa tækni fyrir börnin sín?
Foreldrahlutverkið getur verið erfitt og krefjandi, sérstaklega í þessum hraða nettengda heimi sem við lifum í. Foreldrar grípa í þá aðstoð sem tæknin bíður upp á en það að rekja för barnsins þíns með notkun GPS tækni er mjög umdeilt. Fyrir suma foreldra er þetta ákveðin öryggistilfinning að vita hvar barnið þeirra er staðsett, hvort að það hafi skilað sér á réttan áfangastað eða jafnvel til þess að fullvissa sig um að barnið sitt sé þar sem það segist ætla að vera. Ákvörðun um hvort að nýta eigi sér þessa tækni fyrir börnin sín liggur hjá hverri fjölskyldu fyrir sig. Valið getur verið mjög persónubundið en utanaðkomandi aðstæður spila einnig stórt hlutverk ásamt aldri og þroska barnsins. Það geta verið mismunandi aðstæður sem liggja að baki eftirspurna eftir GPS tækjunum eins og t.d. fötluð börn eða börn með sérþarfir eins og t.d. einhverfu.Mörkin fyrir því hvenær það fer að vera óviðunandi að nýta sér þessa tækni til þess að fylgja eftir barninu sínu eru óljós. En kjósi foreldrar að nýta sér þessa tækni þá eru nú þegar á markaðnum mörg tæki og öpp til að velja úr. Má þar nefna allt frá einnota plastböndum um úlnlið barnsins upp í endurhlaðanleg úr, en einnig eru til tæki sem eru fest í fatnað eða skólatösku barns.

Flestum þykir þörfin minnka eftir því sem barnið fer að eldast og þroskast og miða við það að þegar barninu er treyst fyrir því að fara lengri ferðir en til og frá heimili sínu og skóla þá sé óþarfi að nota GPS tækið. Það gæti þó nýst fyrir eldri börnum í nýju umhverfi og aðstæðum sem þau þekkja ekki inn á, þó ber að hafa í huga að eldri börn gætu upplifað vantraust í sinn garð með notkun tækisins.

Sem dæmi má nefna að árið 2013 var tilkynnt um 20.124 týnd börn í Bandaríkjunum og 8.003 þeirra voru innan fylkis New York. Meirihluti þessara tilkynninga voru börn afnumin af öðru hvoru foreldri sínu vegna forræðisdeilna á milli þeirra eða börn sem struku að heiman af sjálfsdáðum.

child lost in crowd

Að missa sjónar á barninu sínu, hvort sem það er í verslunarhúsnæði, á öruggri leikskólalóð, skólalóð eða á ferðalagi er eitt það allra versta augnablik sem foreldri getur upplifað. Jafnvel þó að þú sért fyrirtaks foreldri og hafir þriðja augað á hnakkanum, þá eru börn ævintýragjörn og geta horfið úr augnsýn í mjög hættulegum kringumstæðum þar sem þau geta auðveldlega farið sér að voða, t.d. nálægt höfnum, á bílastæðum, á sólarströnd o.fl.. Við þannig aðstæður gæti komið sér mjög vel og jafnvel bjargað lífi barnsins að geta t.d. ýtt á hnapp sem framkallar hátt hljóð sem hjálpar þér að staðsetja barnið og um leið að senda þér staðsetningu þess í farsímann þinn. Ef aðstæður þínar eru ekki aðkallandi fyrir notkun þessarar tækni þá er stóra spurningin hvort að tækið sé að fara að valda þér meiri skaða og byggja upp frekari ótta og hræðslu við að týna barninu, heldur en að veita þér það öryggi sem tækið bíður upp á og barnið þarfnast.

Hvaða tæknilegu erfiðleikar gætu komið uppá?
GPS enabled mapGPS tæknin er byggð á upplýsingum sem berast frá gervihnöttum, þá eru nokkur atriði sem geta truflað nákvæmnina og flutninginn frá gervihnettinum og yfir í GPS tækið. Öll gervihnattarleiðarkerfi treysta á gervihnattamerki sem berast utan dyra. Nákvæmnin felst meðal annars í því hversu margir gervihnettir eru sýnilegir. Þar er átt við að í umhverfi þar sem háhýsi eru, eða þétt vaxinn skógur, þá á gervihnattarmerkið það til að flökta sem veldur lengri tíma fyrir gervihnöttinn að átta sig á réttri staðsetningu og skila henni í viðkomandi tæki. Séu byggingar í nágrenni við GPS tækið litlar eða lágar þá eru meiri líkur á réttum GPS niðurstöðum. Sökum þessa á aldrei að treysta alfarið á GPS tækið.

Framboð, verð og kostnaður á rekstri tækjanna
Framboð á GPS tækjunum er mjög gott og úr mörgu hægt að velja. Það eru til margar týpur sem uppfylla mismunandi skilyrði og það fer eftir tilgangi og notkun hvers og eins hvaða tæki hentar hverjum. Kostnaður tækjanna er breytilegur og ofan á kostnaðinn bætist yfirleitt rekstrarkostnaður. Sum tækjanna bjóða upp á fastan rekstarkostnað en önnur þurfa að kaupa sér áskrift við sitt símafyrirtæki. Við förum yfir þrjú tæki sem eru í boði á markaðnum í dag sem okkur finnst standa uppúr þegar yngri börn eiga í hlut, við nefnum eiginleika þeirra, verð og rekstrarkostnað.

Amber Alert GPS $ 220 fyrir tækið og eins árs þjónustu
Amber Alert GPS tækið er hannað sérstaklega með börn í huga, tækið er lítið og það er fest með bandi sem hangir um háls barnsins. Tækið gerir þér kleift að fylgjast með staðsetningu barnsins og sendir þér tölvupóst og textaskilaboð ef barnið fer út fyrir öruggt svæði. Tækið lætur þig einnig vita ef barnið kemur í innan við 150 metra fjarlægð frá skráðri búsetu kynferðisbrotamanns og gefur barninu möguleika á að nota SOS neyðarhnapp ef hætta steðjar að.

FiLIP 2 $ 199.99 + $10 á mánuði
FilipTækið FiLIP 2 er ekki bara GPS tæki heldur einnig armbandsúr og farsími sem virkar samhliða iOS og Android stýrikerfum. Það er lítið og nett, vatnshelt og þægilegt á litlar sem stórar hendur þar sem það er mjög sveigjanlegt. Það er eina tækið á markaðnum í dag sem býður upp á það að senda textaskilaboð á milli sín og farsíma þess sem vaktar tækið. Það er einungis hægt að geyma fimm símanúmer í tækinu og það bíður eingöngu upp á einn hringitón.

 

PocketFinder $ 129.95 + $29.95 fyrir alþjóðlega þjónusta á mánuði
LBT Pocket Finder Family GPS Locator 052648Þetta tæki notar bæði GSM og GPS tækni til að staðsetja sig, það er bæði hægt að festa það við úlnlið barnsins með plastbandi eða að setja það í vasa þess og jafnvel bakpoka. PocketFinder hentar því einstaklega vel fyrir börn sem vilja ekki hafa neina aukahluti á sér og eru gjörn á að rífa eða losa þá af sér. Tækið er búið til úr einstaklega sterku efni sem er vatnshelt og á að þola bæði þvottavél og þurrkara. Tækið býður upp á einstakan viðbúnað ef barnið lendir í bráðri hættu, með því að slá tækinu sjálfu þrisvar sinnum á hart yfirborð þá sendir tækið frá sér SOS skilaboð í farsíma foreldris. Fyrirtækið sem framleiðir tækið býður upp á alþjóðlega þjónustu sem er mjög hentugt fyrir þá sem ferðast mikið og vilja hafa barnið öruggt á ferðalaginu.

Niðurlag
Hver og ein fjölskylda þarf að meta útfrá sínum eigin persónulegu aðstæðum hver þörfin fyrir notkun GPS tækjanna sé. Af öllu því sem hér hefur verið fjallað um er ljóst að GPS tækin geta verið mjög sniðug lausn fyrir það hraða samfélag sem við lifum í . Við búum í upplýsingasamfélagi og GPS tæknin er það sem koma skal í enn frekari mæli. GPS öryggistæki auka öryggi barna um leið og það veitir foreldrum þeirra ákveðna öryggistilfinningu. Varast skal þó að treysta alfarið á GPS tækin vegna tæknilegra örðugleika sem geta komið upp á í notkun þeirra.

Höfundar: Anna Katrín Snorradóttir og Hafrún Sigurðardóttir nemendur við Háskólann í Reykjavík

Heimildir:

https://mashable.com/2013/07/15/child-tracking-apps/

https://traxfamily.zendesk.com/hc/en-gb

https://www.safewise.com/resources/wearable-gps-tracking-devices-for-kids-guide/

https://observer.com/2015/03/can-we-microchip-our-kids-to-prevent-kidnapping/

Myndir:

https://theloquacionist.files.wordpress.com/2013/08/childlostincrowd.jpg

https://www.amberalertgps.com/wpcontent/uploads/2014/06/bannerconnect1.jpg

https://www.amberalertgps.com/wpcontent/uploads/2014/01/productcartgirl.png

http://www.m2.com.lb/Library/Products/Gallery/LBTPocketFinderFamilyGPSLocator052648.jpg

http://blog.omnipress.com/wpcontent/uploads/2014/01/GPSenabledmap.jpg

http://thumbs.dreamstime.com/z/gpsnavigationsmartphone27730860.jpg

http://media.gadgetsin.com/2015/09/the_buddy_smart_dog_collar_with_activity_tracker_gps_locator_and_more_4.jpg

Skoðað: 6882 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála