Skip to main content
20. október 2016

Þróun íslensku samhliða tækninni

anna kÍslenska er ótrúlega mikilvægt verkfæri sem við búum að. Það er mikilvægt að tungumálið deyi ekki út, hins vegar eru skiptar skoðanir um hversu mikið og hvernig hún eigi að þróast. Sumir vilja þýða öll orð og búa til séríslensk nýyrði yfir allt, sum þeirra eru vel heppnuð en önnur ekki. Til að nýyrði komist í almenna notkun þarf það að vera þjálla en aðlagað tökuorð gæti orðið, eða gagnsætt samsett orð væri.

Margir eru viðkvæmir fyrir því að bæta tökuorðum við tungumálið, en virðist gleyma að með tímanum verður tökuorðið hluti af íslensku. Einhvers staðar verða öll orð að verða til og eru tökuorð ekki endilega af verri endanum, heldur endurspegla þau sögu okkar. Fáir setja sig upp á móti orðinu „bíll” nú til dags, en hörðustu íslenskuunnendur ættu sennilega frekar að nota orðið „sjálfrennireið” ef þeir vilja forðast tökuorð. Okkur þykir flestum hinsvegar vænt um dönsku tökuorðin okkar nú til dags, omvendt við skoðanir margra á nýlegri enskum tökuorðum.

Sem námsmaður á háskólastigi hef ég æfst í því að skipta á milli íslensku og ensku þegar kemur að námsefninu. Bækurnar sem við notum eru nánast undantekningarlaust á ensku. Fyrirlestrar og glósur frá kennurum eru hins vegar oftast á íslensku og þurfa kennarar þá alltaf að láta ensk heiti fylgja með. Það er nauðsynlegt svo við sem nemendur getum tengt saman efni úr fyrirlestri við efni námsbókanna. Stundum er enskan jafnvel notuð einhliða í stað þess að berjast við að þýða allt yfir á íslensk orð sem eru lítið eða ekkert notuð. Próf og verkefni eru oft skrifuð bæði á íslensku og ensku, eða fræðileg heiti á ensku látin fylgja með. Að sjálfsögðu er leiðinlegt að það þurfi að fara þessa leið, það væri gaman ef alltaf væri hægt að nota íslensku, en að nota ensku samhliða eykur skýrleika og minnkar líkur á misskilningi. Auk þess er oft auðveldara að leita að frekari upplýsingum um efnið á netinu ef maður veit enska heitið, þar sem upplýsingar á íslensku eru í mörgum tilfellum af skornum skammti.
Ef allt námsefni væri einungis á íslensku væri erfiðara að sækja áframhaldandi nám eða vinnu erlendis. Það að kunna námsefnið á ensku auðveldar okkur það mjög, sérstaklega ef farið er á enskumælandi markað. Í tækniiðnaðinum er enska sérstaklega mikið notuð og því skiptir miklu máli að kunna fagmál á ensku.

Öðru hverju brjótast fram áhyggjuraddir um að tæknin sé að skemma íslensku og tungumálið sé að deyja út. Merki um að tungumál sé í útrýmingarhættu er til dæmis þegar fólksfækkun á sér stað meðal þeirra sem tala tungumálið eða fólk hættir að kenna börnum sínum tungumálið [1]. Miðað við það er íslenska í góðum farvegi. Íslenskumælendum er að fjölga með fólksfjölgun á Íslandi og við erum með mikið af rituðu máli á íslensku. Tæknin á einnig sinn þátt. Facebook veitan manns er stöðugt full af fréttum á íslensku, það er framleitt mikið og öflugt sjónvarpsefni og kvikmyndir á íslensku og mikið magn bóka eru skrifaðar eða þýddar yfir á íslensku. Þar að auki kennum við börnum íslensku, og ólíklegt að það breytist í náinni framtíð.

Hins vegar er mjög takmarkað magn til af tölvuleikjum á íslensku. Það er oft velkomin hjálp fyrir foreldra í dag að geta haft ofan af fyrir börnum með spjaldtölvum og snjallsímum. Þetta getur verið mjög hjálplegt í bílnum, í flugi eða einfaldlega þegar verið er að elda. Frá unga aldri er krökkum rétt spjaldtölvan eða snjallsíminn með leikjum og myndböndum. Einstaklega auðvelt er að fara á YouTube og finna Latabæjar myndband og setja af stað, eða opna þroskandi snjallsímaleik fyrir viðeigandi aldur. Nema hvað margir foreldrar stimpla inn „Lazy Town” í leitargluggan í stað „Latibær” því það er meira úrval af myndböndum á ensku af þessari alíslensku framleiðslu og þroskaleikirnir eru ekki endilega af hinu góða þegar kemur að málþroska ef barnið skilur ekki eitt einasta orð í leiknum. Hvað varðar afþreyingu er hvað brýnast að búa til meira af íslenskum leikjum.

Landsbankinn sýndi gott fordæmi með nýju Sprota appi sem er ókeypis og vert fyrir foreldra að skoða. Í því er hægt að hlusta á glás af sögum um sprotana, lita, og læra stafina og tölustafina, auk margra þrauta svosem samstæðuspil og púsl. Einnig er hægt að spila leikinn á vefsíðu sprotanna sprotarnir.is.

Það er mitt mat að óþarfi sé að þýða og vera með fullkomin íslensk heiti fyrir allt, oft er í lagi að leyfa íslenskri þýðingu að liggja milli hluta þegar komið er upp í fræðileg heiti sem eru lítið notuð og af þröngum hópi. Þar að auki þarf ekki að hafa áhyggjur af því að tökuorð bætist við tungumálið, þó það sé gaman þegar vel tekst að búa til gott nýyrði. Hins vegar þarf að setja meiri kraft í að búa til þroskaleiki og afþreyingarefni á íslensku fyrir yngstu kynslóðina. Til eru allskonar styrkir fyrir íslenska sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu og rithöfunda til að gefa út efni á íslensku. Kannski er kominn tími til að einbeita okkur að þróun smáforrita og leikja á íslensku, sérstaklega fyrir yngstu kynslóðina sem er ennþá að læra íslensku, því á meðan ekki er til úrval af leikjum og smáforritum á íslensku, spila börnin á öðru tungumáli, og er þar tækifæri til að auka málþroska þeirra að fara til spillis.

Höfundur Anna Kristín Halldórsdóttir, nemandi við Háskólann við Reykjavík

Heimildir
[1] Endangered Languages Project FAQ. (e.d.). The Endangered Languages Project. Sótt 27.september 2016 af http://www.endangeredlanguages.com/faq/#q23

Skoðað: 2538 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála