Skip to main content
2. febrúar 2017

Hugleiðingar um lestur, skilning og upplýsingatækni

haukur.prent 

Ný tækni þróast oft samhliða eldri tækni, stundum gengur hún alveg frá eldri tækni og stundum að hluta til. Mjög háleitar vonir hafa verið bundnar við upplýsingatæknina, hún getur augljóslega leyst fjölmörg verkefni betur en áður var hægt og fellt múra og gerbreytt tæknilausnum í flestum atvinnugreinum. Og vonirnar um lýðræðishlutverk hennar hafa ekki síst verið miklar. En hún rekur sig líka á veggi á sífellt fleiri sviðum.

Lestur af miðlum
Hér verður minnst á lestur af ólíkum miðlum. Rafbókin hefur rutt sér til rúms og flestir nemendur á hærri skólastigum nota einkum heimildir af netinu. Ekkert virðist stöðva aukinn lestur og skrift á skjám af einhverju tagi og eru samskipti að færast á það form. En leysir upplýsingatæknin eldri yfirfærslu þekkingar milli manna af hólmi? Bókaútgáfa í Evrópu hefur staðið í stað síðustu ár eða jafnvel aukist. Það er varnarsigur bókarinnar. Þá virðast rafbækur hafa rekið sig upp undir, hlutdeild þeirra vex ekki lengur. Einnig hafa fræðimenn á mörgum sviðum komið fram með efasemdir um rafrænan lestur.

E-read
Í COST verkefninu e-read sem er á vegum EU leita fræðimenn svara við spurningum sem varða rafrænan lestur, sjá http://ereadcost.eu/. Meðal annars bera þeir saman lestur á línulegu formi og lestur af skjám. Hafa verður í huga að lestri má skipta í þrennt: (samfelldur) lestur af hlutgerðum miðli, (samfelldur) lestur af skjá og lestur á tenglaskiptu efni.

Tenglaskipt efni eða samfelld frásögn
Lestur á tenglaskiptu efni var álitin ein mesta frelsisbylting samtímans, með henni gat hver valið sér efni að vild og engir tveir öfluðu sér sömu þekkingarinnar. Ef sjö tenglar eru á hverri síðu sem farið er inn á hefur lesandi haft val um 75 leiðir eftir 5 smelli eða 16.807 leiðir um síðurnar. Er nokkuð lýðræðislegra en að lesendur velji sér hvað þeir lesa (hér verður ekki fjallað um þau bergmálsherbergisáhrif sem þetta hefur)? Þetta átti jafnvel við um skáldsögur, en hugmyndin var að ólíkir lesendur gætu lesið þá útgáfu þeirra sem hugnaðist þeim best og meðal annars ólíkan endi.

Gagnagrunnsgögn verða ekki auðveldlega sett fram í samfelldri frásögn og sennilega leita engir tveir að því sama. Þá er laga- og reglutengt efni kjörið til uppbrots af sömu ástæðu. Meiri spurningar geta vaknað um annað efni, sérstaklega það sem sett er fram í tilteknu samhengi, sem getur annars glatast. Ætla má að tiltekinn skilningur á þekkingu og sjónarmiðum komist ekki til skila í tenglaskiptu efni og er þá meðal annars átt við gildismat – með þeirri hættu sem það skapar (hér verður ekki rætt nánar um hætturnar sem skapast af því að ritstýrðar frásagnir fjölmiðla hverfa fyrir tenglaskiptum fréttalestri). Skýrslur og úttektir mættu gjarnan vera samfelldar og sama gegnir um fræðilegt efni og góðbókmenntir.

Lestrarkunnátta
Þegar lestur er skoðaður og fjallað um lestrarkunnáttu, djúplestur, skilning á hinu lesna og yfirfærslu þekkingar milli manna er komið að aðferðafræðilegum málum. PISA-rannsóknin hefur einkum rannsakað lestur af hlutgerðum miðlum, en örlítið af stafrænum, en ekki borið þessi form saman. Í rannsókn á lestri hlutgerðra miðla hafa Íslendingar ekki staðið sig eins vel og nágrannaþjóðirnar. Það má ef til vill tengja mikilli tölvunotkun hér á landi, en við höfum leitt á heimsvísu í því efni um langt árabil. Eru drengirnir okkar því á undan öðrum og hafa þeir betra vald á lestri á skjá en aðrir?

Mælingar
Hægt er að mæla lestrarárangur samfelldrar frásagnar milli miðla. Erfiðara er að mæla árangur af tenglaskiptu efni gagnvart samfelldri frásögn. Að svo miklu leyti sem þekking liggur fyrir skilur lestur hlutgerðra miðla meira eftir sig en af skjá og auðveldara er að snúa til baka og rifja upp aðalatriði á þeim. Sennilega vegna þess að bókin eða blaðið hefur upphaf og endi, það er auðvelt að muna að eitthvað sé efst á síðu og hvernig síðumyndin er þar sem einhver tilgreind (aðal)atriði er að finna. Þegar kemur að því að greina frá því hvaða þekkingar var aflað við lesturinn.

Almennt er það svo að þeir sem ná bestum árangri í lestri hefðbundinna miðla gera það líka á stafrænum miðlum og má reikna má með að það eigi við hér á landi. En á því eru margar undantekningar. Einkum hjá þeim sem eru lesblindir. Þeir geta valið sér framsetningu á skjá sem hentar þeim best og er þá til dæmis átt við línulengd (sem getur haft truflandi áhrif), stafagerð og leturstærð.

Þátttaka í samfélaginu
Þegar upplýsingaöflun og samskipti byggja í auknum mæli á lestri má spyrja sig hvort nýir minnihlutahópar myndist í samfélaginu. Þeir sem eiga erfitt með lestur og skrift geta staðið verr en fyrr, þeir hafa hingað til getað tjáð sig munnlega til dæmis í samtölum, á fundum og í síma. Sérstaklega er þetta aðkallandi í opinberu lífi, allir þurfa að eiga rödd í lýðræðinu og geta varið hagsmuni sína og komið hugmyndum sínum á framfæri. Og notfært sér opinbera þjónustu. Samkvæmt alþjóðlegum mælingum hafa vel menntaðir yfirburðastöðu í þessu efni. Sú breyta sem kemur næst eru tekjur. Þessar tvær breytur valda mestu um aðstöðu íbúa samkvæmt alþjóðlegum mælingum og mælingum hér á landi.

Námsefni í skólum
Ein af þeim tilgátum sem fyrir liggur er að námsefni í grunnskólum og jafnvel öllum skólum ætti frekar að vera í samfelldri frásögn á hlutgerðum miðlum en á skjá. Það byggir á því að lestur og yfirfærsla þekkingar sé árangursmeiri á þeim miðlum. Og að samhengi og ákveðinn skilningur þurfi að komast til skila milli kynslóða. Og kannski þarf ekki mikið valfrelsi til þess að læra reglu Pýþagórasar. En hér takast sjónarmið á - sú hugsun gengur þvert á kenningar upplýsingatæknisinna sem halda því fram að allir geti skilið allt, aðeins sé mikilvægt að búa til fjölbreytt miserfitt námsefni.

Þá má ekki gleyma hagkvæmni, sem er kjarni málsins, námsefni er óhjákvæmilega að flytjast á stafræna miðla vegna hagkvæmni og ekki fyrirsjáanlegt að sú þróun gangi til baka. Hvort sem það auðveldar skólabörnum fyrir eða ekki. Rannsóknir á áhrifum þess eru á byrjunarstigi, en meðal annars stundaðar á vegum e-read verkefnisins.

Höfundur: Dr. Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur

Skoðað: 2114 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála