Skip to main content
15. júní 2017

Hvernig nýtum við rauntímaupplýsingar í nútíma netkerfum til að auka framleiðni?

finnur og kristjánÞessi grein sýnir fram á hvernig hægt er að nota upplýsingar úr þráðlausa kerfinu til að sjá viðveru starfsfólks í rauntíma. Einnig sjáum við hvernig þjónustufyrirtæki geta nýtt upplýsingar úr kerfinu í rekstri. Til þess að ná þessu fram þarf ákveðinn grunnur að vera til staðar.

 

 

  • Hvernig getum við nýtt upplýsingar úr netkerfum til að auðvelda okkur störfin í nútíma tækniumhverfi?
  • Netkerfi í fyrirtækjum samanstanda af innri- og ytri netkerfum
  • Innranet veitir aðgang á skjótan, öruggan og skilvirkan máta. 
  • Upplýsingar úr kerfunum geta hjálpað til við dagleg verkefni.
  • Tökum dæmi um viðveru starfsfólks. Hvernig er hægt að afla upplýsinga um viðveru í rauntíma?

 

mynd1

Netkerfi 
Hægt er að skrifa aðra grein um netkerfi og hönnun þeirra. Hvert fyrirtæki er í raun einstakt, þarfagreining og hönnun á netkerfum endurspeglar það. Mikilvægast er að netkerfið sem undir liggur sé traust, afkastamikið og öruggt. Staðarnetkerfið er grunnurinn að öllu því sem á eftir kemur. Þráðlausir sendar tengjast staðarnetinu með vír og sjá notendum fyrir þráðlausu sambandi við innranetið og Internetið.
mynd2
Netkerfi eru grunnurinn í upplýsingatækni fyrirtækja og stofnana

Staðsetning búnaðar 
Til þess að fá upplýsingar um viðveru og staðsetningu notandans þarf að staðsetja þráðlausa búnaðinn miðað við slíkar þarfir. Í stærri fyrirtækjum eru þráðlaus netkerfi með mörgum þráðlausum sendum sem tryggja samband við innra netið hvar sem er í fyrirtækinu.


Helsti tilgangur með þráðlausu sambandi hefur hingað til verið að flytja gögn, tal og myndfundi. Upplýsingar um staðsetningu notenda gæti orðið hagnýt viðbót við þetta.
Mynd3
Til að fá staðsetninguna sem nákvæmasta er nauðsynlegt að staðsetja þráðlausa senda við jaðar þeirra svæða sem um ræðir. Með því næst þríhyrnings miðun (e. Triangulation) á þá notendur sem staðsetja skal.
Mynd4
Dæmigerð uppsetning gæti litið út eins og á myndinni hér fyrir ofan. Rauðu punktarnir tákna þráðlausa senda. Til að ná fram hagkvæmustu virkni fyrir staðsetningu þurfa þráðlausu sendarnir að vera í loftinu og snúa niður. Þetta tryggir einnig bestu nýtingu á hverjum sendi þegar kemur að drægni og gagnaflutningi.

Hvernig nálgumst við upplýsingarnar og birtum þær?
Til að veita aðgang að upplýsingum um staðsetningu þarf til viðbótar, kerfi sem safnar þeim saman. Þetta kerfi þarf kort af fyrirtækinu og upplýsingar um staðsetningu á þráðlausum sendum innan þess. Kerfið safnar upplýsingum um notendur sem tengjast netinu ásamt umferð um þráðlausu sendana. Helstu áskoranir við að mata kerfið með réttum upplýsingum eru hlutföll í teikningum og rétt staðsetning senda á korti.
Mynd5
Hér að ofan höfum við heildarmyndina. Sendarnir eru staðsettir í hornum og miðju svæðis. Meiri nákvæmni á staðsetningu fæst með því að fjölga sendum ásamt því að aukinn gagnaflutningur næst. Dæmigerð nákvæmni er á bilinu 5 til 9 metrar, sem dugar yfirleitt í stórum byggingum. Ef þörf er á meiri nákvæmni þá bjóða framleiðendur á borð við Cisco uppá sérstakt loftnet sem viðbót á sendana sem gefur nákvæmni upp á allt að 1 meter.

Til að einfalda utanumhald á þráðlausum sendum er notuð miðlæg stýring (e. Wireless controller). Sú stýring getur annaðhvort verið vistuð á staðarneti eða í skýinu (e. Cloud based) og fer eftir þarfagreinginu og öryggissjónarmiðum hvers fyrirtækis ásamt fleiru.

Síðasta púslið er kerfi sem notað er til að lesa gögnin og birta þau. Upplýsingar um notendur koma frá miðlægu stýringunni, hvar þeir tengjast og hverjir þeir eru, og er safnað saman í þetta kerfi. Þessar upplýsingar er hægt að nálgast á tiltölulega einfaldan hátt og birta í tilbúnum lausnum.

Viðverukerfi fyrirtækis sem notar staðsetningu til upplýsinga
Hér er tekið dæmi um fyrirtæki sem nýtir sér staðsetningu til aukinnar framleiðni starfsmanna

Mynd 6

Upplýsingar um viðveru starfsmanna eru að finna á ýmsum stöðum. Gallinn við margar þeirra er að þær eru statískar og oft settar inn handvirkt af starfsfólkinu sjálfu. Í þessu dæmi er tæknin nýtt til að birta sjálfkrafa, upplýsingar um viðveru fólks, t.d. hvort það er á svæðinu eða ekki. Þó er ekki verið að eltast við nákvæma staðsetningu á starfsmanni. Upplýsingar um tengimöguleika við starfsmann koma einnig fram, svo sem staða úr dagbók (e. Calendar) og hvort viðkomandi er laus í textaspjall eða símtal. Einnig getur starfsmaður sett handvirkt inn textastöðu til frekari upplýsinga. Útkoman er sú að allar upplýsingar um stöðu starfsmanna eru aðgengilegar á einum stað sem uppfærist sjálfkrafa. Þetta getur sparað starfsfólki mikinn tíma í dagsins önn.

Þjónustufyrirtæki sem býður fría nettengingu á staðnum
Hotspot eða frítt WiFi er algeng aukaþjónusta við viðskiptavini, t.d. á hótelum, í skólum og verslunarmiðstöðvum. Staðsetningartæknin getur veitt mikilvægar upplýsingar um stöðuna á slíkum kerfum, ásamt því að afla upplýsinga um staðsetningu viðskiptavina.

Hægt er að nýta samfélagsmiðla á borð við Facebook til að auðkenna notendur og fá þannig persónubundnar upplýsingar. Þannig gæti verslunarmiðstöð t.d. séð hvaða svæði eru vinsælust eftir aldurshópum.
Mynd7

Kerfið getur sýnt myndrænt, álagspunkta á þráðlausa netinu eftir tíma dags. Einnig er hægt að spila í gegnum daginn og sjá þannig flæði notenda, hvert þeir fara og hvar þeir hópast saman.

Hvað með persónuverndarsjónarmið?
Eins og dæmin sýna er hægt er að nýta þessa tækni í ýmsum tilgangi. Skoða þarf vel lagalegu hliðina áður en farið er í slíka uppsetningu. Notendur þurfa að vera upplýstir (e. Disclaimer) um hvers konar gagnaöflun sé í gangi og þeim gefinn kostur á að bregðast við.

Getum við staðsett ótengda notendur?
Gagnaöflun kerfisins er ekki takmörkuð við þá sem tengjast því. Dæmigerð snjalltæki eru alltaf að leita eftir tengimöguleikum (e. Probing) og sjást þannig í kerfinu. Kerfið sér „mac address“ á þessum tækjum og hefur því möguleika á að nýta þær upplýsingar til að telja heimsóknir (e. Returning visitors). Sumir framleiðendur á borð við Apple fela „mac address“ tækisins þannig að það birti tilviljanakenndar upplýsingar (e. random mac address). Þessi virkni ruglar slík kerfi og er oft hunsuð þar til að tækið tengist. Þá birtist hin raunverulega „mac address“ sem er brennimerkt í netkort tækisins og alltaf sú sama.

Hvað fleira er hægt að gera við upplýsingar um staðsetningu?

Dæmi um skemmtilega notkun:

  • Hægt væri að kveikja ljós sjálfkrafa þegar tengdur notandi kemur inn í ákveðið rými. 
  • Stórmarkaður gæti sent textaskilaboð á verslunarstjóra þegar langar biðraðir myndast við afgreiðslukassa.
  • Starfsmaður fær skilaboð um sendingu sem bíður hans í móttöku þegar hann mætir á staðinn ef hann var ekki við þegar sendingin barst.

Möguleikarnir eru endalausir og takmarkast eingöngu við hugmyndaflugið.

Höfundar: Kristján Ólafur Eðvarðsson og Finnur Eiríksson, netsérfræðingar hjá Sensa

Skoðað: 3466 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála