Skip to main content
11. janúar 2018

Getum við gert okkur sjálf greindari?

arnarTæknin er stór partur af lífi okkar í dag og mun vera það í framtíðinni. Tækninni fer sífellt fram og ný tækni lítur dagsins ljós á hverjum degi. Það er kostir og gallar við alla þessa tækni en hún er óumflýjanleg. Fólk hefur verið að þróa aðferðir sem gera tölvum kleift að skynja og skilja umhverfið sitt og taka rökréttar ákvarðanir í sambandi við það. Gervigreind í dag er kannski ekki komið eins langt og sumar kvikmyndir láta í veðri vaka, en hún er út um allt í kringum okkur þótt við tökum kannski ekki eftir því.

Í gervigreind er gjarnan notast við tauganet (e. neural network) þar sem vélin kennir sér sjálf og lærir af mistökum og er það helst notaða gervigreindar reikniritið í dag. Þekkingarkerfi (e. rule based systems) eru einnig notuð í gervigreind og er þá forritað frá grunni þar sem forritari skráir sjálfur inn þær reglur sem vélin á að nota og þekkja. 

Watson er nafn á tölvu sem var þróuð af fyrirtækinu IBM. Tölvan notar tauganet til að læra en er einnig með ákveðið þekkingarkerfi sem hún notar við reikninga og staðreyndir. Þekkingarkerfi Watson er því sífellt að stækka og verður greindari með hverjum deginum. Í fyrstu var Watson bara tölva sem vann bestu taflspilara í tafli en var síðan þróuð í að vinna allra bestu spilara í Jeopardy! Watson sigraði fyrir um sex árum og hefur síðan verið að þróa sjálfan sig.

Við manneskjurnar erum svipuð og Watson, lærum grunnupplýsingar á okkar fyrstu 18 árum og eftir það sérhæfum við okkur í einhverju sviði. Watson er einmitt að sérhæfa sig á ákveðnu sviði, hann er að hjálpa heilbrigðisþjónustunni við að greina sjúklinga og fara yfir ýmsar læknisritgerðir til að finna lausn á flóknum vandamálum.

En hvað ef Watson hefði annan tilgang? Hvað ef hann gæti búið til aðra tölvu greindari en sig? Hvað ef sú tölva myndi síðan gera aðra tölvu snjallari en sig og hún myndi gera það sama þar til við myndum enda á hafa tæknisprengju (e. Intelligence explosion). Sérstöðupunktur (e. technological singularity) er hugtak yfir þróun tækninnar og þann tímapunkt í sögunni þegar gervigreind (e. artificial intelligence) endar með að vera greindari en maðurinn. Þá myndu greind vélmenni taka yfir heiminum. Í gamla daga var þetta einungis kenning sem John Von Neumann birti árið 1950. Nú eru menn farnir að halda að þetta gæti gerst og sumir vilja reyna að koma í veg fyrir þetta. Elon Musk, forstjóri Tesla og SpaceX, er virkilega að spá í spilin og hefur fjárfest í mörgum fyrirtækjum sem eru að vinna að þróun gervigreindar, til að fylgjast vel með þróuninni sjálfur.

Margir rithöfundar hafa skrifað bækur um hvernig lífið væri ef „Singularity“ myndi gerast en meðal þeirra frægustu eru „The Singularity is Near“ eftir Ray Kurzweil og „Singularity Sky“, skáldsaga eftir Charles Stross. Sú fyrri fjallar um hverju Kurzweil spáir um fyrir framtíðina og hvernig tölvur munu hafa tekið yfir heiminn um árið 2045. „Singularity Sky“ fjallar um lífið eftir að vélar hafa tekið yfir heiminn (e. post-singularity) og fékk Charles Stross Hugo award fyrir bókina.

En hvað ef í stað þess að gera vélmenni sem eru snjallari en við þá gerum við okkur sjálf greindari? Maður að nafni Bryan Johnson stofnaði fyrirtækið Braintree árið 2007 og seldi það sex árum seinna til eBay fyrir 800 milljón dollara. Bryan notaði 100 miljónir af þeim peningum til að byrja nýtt fyrirtæki að nafni Kernel. Kernel er að skoða möguleikann á því að tengja ígræðanleg tæki (e. implantable device) við heila mannsins. Slík tæki myndu vera geymsla á minni sem hægt væri að nota sem vitneskja manneskjunnar. Einnig á tækið að tengjast við gervigreind sem gæti gert einstaklingnum lífið létt. Gervigreindin myndi sjá um alla stærðfræði útreikninga og vinnslu á meðan heilinn þyrfti bara að sjá um tilfinningar og list. Rannsóknir á taugakerfinu (e. neuroscience) eru samt ekki komnar nógu langt að við getum almennilega vitað hvað er að gerast í heilanum.

Ýmis fyrirtæki eru að vinna á þessu sviði þar á meðal Neuralink þar sem Elon Musk er forstjóri. Ef þessi verkefni takast þá værum við ekki bara að þróa gervigreindina heldur væri um að ræða þróun mannkynsgreindar (e. human intelligence). 

Höfundur: Arnar Jóhannsson nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir:

https://en.wikipedia.org/wiki/Bryan_Johnson_(entrepreneur) https://www.inverse.com/article/13630-what-has-ibm-watson-been-up-to-since-winning-jeopardy-5-years-ago https://en.wikipedia.org/wiki/Watson_(computer) https://en.wikipedia.org/wiki/Technological_singularity
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=264

Skoðað: 1973 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála