Skip to main content
7. desember 2017

Hvað verður um okkur á samfélagsmiðlum þegar við deyjum?

media 998990 1280Samfélagsmiðlar skipa orðið stóran sess í lífi margra og mikið er rætt um ýmsa þætti sem varða notkun þeirra. Aftur á móti hefur ekki mikið farið fyrir umræðum um það sem kallað er stafræn arfleifð (e. digital legacy). Stafræn arfleifð er hugtak yfir allt það sem við skiljum eftir okkur á netinu. Það fylgir notkun samfélagsmiðla að notendur hlaða inn ýmis konar gögnum, s.s. myndum, myndböndum, textum o.s.frv. Fáir virðast hins vegar velta því fyrir sér hvað verður um öll þessi gögn þegar við deyjum.

Það er kannski ekki mikilvægt hvað verður um alla brandarana sem við birtum eða fréttir um málefni líðandi stundar sem við deildum en samfélagsmiðlar geyma aðrar og verðmætari upplýsingar. Í sumum tilfellum er jafnvel um að ræða nokkurs konar stafræna ævisögu sem ættingjar og vinir vilja e.t.v. eiga möguleika á að varðveita. Því er óhætt að segja að tímabært sé orðið fyrir notendur að huga að framtíð allra þeirra gagna sem samfélagsmiðlar geyma.

Af hverju er mikilvægt að hugsa um þetta núna?

Segja má að áður hafi arfleifð einstaklinga einkum verið fólgin í veraldlegum hlutum, auk orðstírs þeirra og minninga samferðafólks. Það að arfleifð fólks sé varðveitt á tölvutæku formi samfélagsmiðla er nýtt af nálinni og því fylgir óhjákvæmilega að gera þarf ráðstafanir um afdrif þeirrar arfleifðar eftir andlát. Hjá fyrirtækjum sem hýsa þetta efni gilda jafnan strangar reglur um meðferð persónuupplýsinga. Engum er heimilt að skrá sig inn á reikning annarra. Ef ítrekaðar tilraunir eru gerðar til að skrá sig inn á reikning annars getur það m.a. orðið til þess að reikningnum verði lokað í varúðarskyni.
Til þess að varpa ljósi á afdrif stafrænnar arfleifðar er áhugavert að skoða hvers konar úrræði stærstu samfélagsmiðlarnir bjóða notendum sínum og hvað það er sem notendur og/eða nánustu fjölskyldumeðlimir geta gert til að stjórna því hvað verður um upplýsingar sem standa eftir við andlát.

Facebook 

Facebook notendur eiga möguleika á að velja hvað verður um aðgang þeirra eftir andlát. Valið stendur á milli þess að Facebook-síðu (e. profile) þeirra verði breytt í svokallaða minningarsíðu eða honum verði endanlega eytt ásamt öllu innihaldi um leið og Facebook fær tilkynningu eða ábendingu að viðkomandi sé látinn (væntanlega þarf að staðfesta?).

Velji notandi minningarsíðu, mun Facebook-síðan þeirra standa óbreytt en fyrir ofan nafn viðkomandi bætist í minningu (e. remembering). Vinir og ættingjar eiga þá möguleika á að skrifa á vegg viðkomandi auk þess sem allar myndir og stöðuuppfærslur verða áfram aðgengilegar. Nöfn látinna birtast ekki á listum yfir tillögur um vinabeiðnir og Facebook minnir ekki á afmælisdaga þeirra sem eru látnir. Eftir að Facebook-síðunni hefur verið breytt í minningarsíðu getur enginn skráð sig inn og stjórnað aðganginum nema sá látni hafi tilnefnt sérstakan tengilið arfleifðar (e. legacy contact). Með því að velja tengilið veitir notandi honum leyfi til að halda utan um Facebook-síðuna sína eftir að henni hefur verið breytt í minningarsíðu. Sá einstaklingur getur meðal annars skipt um forsíðumynd, skrifað stöðuuppfærslur og svarað vinabeiðnum. Tengiliðir geta þó aldrei lesið einkaspjall hins látna og heldur ekki eytt út efni af síðunni. E.t.v. er mikilvægasti þátturinn sá að tengiliður getur hlaðið niður afriti af öllu því efni sem hinn látni hefur deilt á Facebook í gegnum tíðina.

Instagram

Ef loka á Instagram reikning látins ættingja eða vinar er hægt að senda beiðni til Instagram þar sem farið er fram á að reikningurinn verði gerður að svokölluðu minnisvarða (e. memorialized). Til þess að gera Instagram reikning að minnisvarða þarf að senda afrit af dánarvottorði eða tengil á fréttatilkynningu eða minningargrein. Einungis nánir fjölskyldumeðlimir geta farið fram á að reikningum verði lokað.
Twitter

Enn sem komið er hafa engar sérstakar ráðstafanir verið gerðar varðandi Twitter reikninga. Ef ekki berst beiðni frá fjölskyldumeðlimum um að reikningi hins látna verði lokað mun reikningurinn standa eins og skilið var við hann. Öðrum er ekki veittur aðgangur að reikningnum undir neinum kringumstæðum. Til þess að beiðni um lokun reiknings sé samþykkt þarf að senda inn staðfestingu á fjölskyldutengslum, upplýsingar um hinn látna og afrit af dánarvottorði.

Google

Google hefur þróað mjög sniðuga lausn til að takast á við öll gögn sem þeir hafa undir höndum eftir andlát. Notendum stendur til boða að virkja svokallaða stjórnanda óvirks reiknings (e. inactive account manager). Hann virkar þannig að fylgist er með virkni á Google reikningi viðkomandi. Sé reikningurinn óvirkur í þrjá mánuði, stendur valið á milli þess að öllum gögnum verði eytt eða allt að tíu einstaklingar, sem eigandi reikningsins treystir og hefur tilnefnt, fá heimild til að hlaða niður gögnum af reikningum í gegnum sérstakan hlekk sem þeir fá sendan. Eigandi reikningsins hefur jafnframt val um hvaða gögn það eru sem viðkomandi fá leyfi til að hlaða niður. Ef notandi fellur frá án þess að hafa gert neinar ráðstafanir geta nánustu ættingjar haft samband við Google og farið fram á að reikningnum verði lokað. Aftur á móti er þá óvíst hvort heimild fáist til að fá afhent gögn af reikningi viðkomandi þar sem slíkt samræmist ekki persónuverndarstefnu Google.

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið Gera má ráð fyrir að notendur samfélagsmiðla vilji hafa áhrif á það hvað verður um stafræna arfleifð þeirra en ekki ert víst að allir geri sér gein fyrir því að það er undir þeim sjálfum komið. Í dag þykir sjálfsagt að fólk útbúi erfðaskrá og ráðstafi eigum sínum á einhvern hátt en nauðsynlegt er að fólk hafi einnig í huga að gott getur verið að gera ráðstafanir varðandi reikninga sína á samfélagsmiðlum. Það er undir notendum sjálfum komið hvort minning þeirra lifi áfram á samfélagsmiðlum og hvort nánustu ættingjar fái aðgang að og tækifæri til að bjarga dýrmætum minningum.

Höfurndur: Sveinn Guðmundsson nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir:
Facebook, Inc. What is a legacy contact on Facebook? Sótt af https://www.facebook.com/help/1568013990080948 Facebook, Inc.
What will happen to my Facebook account if I pass away? Sótt af https://www.facebook.com/help/103897939701143 5
Instagram. How do I report a deceased person's account on Instagram? Sótt af: https://help.instagram.com/264154560391256
Instagram. What happens when a deceased person's account is memorialized? Sótt af https://help.instagram.com/231764660354188 Twitter Inc. Contacting Twitter about a deceased or incapacitated user. Sótt af https://support.twitter.com/articles/87894
Google. About Inactive Account Manager Sótt af https://support.google.com/accounts/answer/3036546 Google. Submit a request regarding a deceased user's account Sótt af https://support.google.com/accounts/troubleshooter/6357590 Annotations

Mynd fengin hér: https://pixabay.com/en/media-social-media-apps-998990/

Skoðað: 1925 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála